12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (1859)

20. mál, fiskileitartækjanámskeið

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir með flm. þessarar till. um nauðsyn þess, að haldin séu námskeið í meðferð fiskileitartækja. Reynsla sú, sem við höfum fengið í þessu efni, bendir örugglega til þess, að notkun þessara tækja sé okkur ákaflega mikilsverð hjálp í því að efla aðstöðu okkar til fiskveiðanna. Og á þetta ekki sízt við um síldveiðarnar, eins og hv. 1. flm, þessarar till. gerði hér ljósa grein fyrir.

En ég vil í sambandi við þessa till. veita hér nokkrar upplýsingar, sem snerta verulega þetta mál. Og þær eru í því fólgnar, að Fiskifélag Íslands hefur þegar hafið leiðbeiningastarfsemi í þessu efni. Fiskifélag Íslands hefur um langt skeið haft á hendi og haldið uppi námskeiðum um margs konar fræðslu, er snertir fiskveiðarnar o.fl. Það hélt lengi uppi námskeiðum víðs vegar um land um fræðslu í stýrimannafræði, sérstaklega að því er snertir stýrimannafræði þeirra manna, sem stjórna minni fiskiskipum. Þetta hlutverk hefur nú sjómannaskólinn tekið að sér til fullnustu. Það hefur um 4 áratuga skeið haldið uppi námskeiðum í mótorfræði, einnig víðs vegar um land. Eitt slíkt mótornámskeið stendur einmitt yfir á vegum Fiskifélagsins hér í Reykjavík nú. Það hefur einnig haldið uppi námskeiðum í sjóvinnu og kennt ýmsar sjóvinnuaðferðir. Þessi námskeið hafa verið haldin á nokkrum stöðum.

Á s.l. vetri, í desember ætla ég það hafi verið, var einmitt haldið námskeið hér í Reykjavík til þess að kenna meðferð fiskileitartækja. Þetta námskeið sóttu 54 menn víðs vegar að af landinu, úr öllum landsfjórðungum. Og þar var kennd sú fræðilega meðferð þessara tækja, og fyrir þeirri fræðslu stóð Kristján Júlíusson loftskeytamaður, sem mjög hefur kynnt sér víðs vegar úti í löndum einmitt fræðilega meðferð þessara tækja. Þá var einnig leigður mótorbátur, þar sem farið var með þessi tæki hér út í flóann, og komust námskeiðsmenn þannig í kynni við þá praktísku notkun þessara tækja á hafi úti. Nú hefur verið ákveðið að halda á þessum vetri 4 námskeið til kennslu í meðferð fiskileitartækja, sitt í hverjum landsfjórðungi: eitt á Vestfjörðum, annað á Norðurlandi, þriðja á Austurlandi og fjórða námskeiðið er gert ráð fyrir að halda í Vestmannaeyjum. Þessi ákvörðun hefur þegar verið tekin af hálfu stjórnar Fiskifélags Íslands um fræðslu í þessu efni.

Þetta taldi ég mér skylt að gefa upplýsingar um einmitt í sambandi við meðferð þessarar till. hér á Alþ., og ég vil þess vegna leggja það til, að fjvn., sem að sjálfsögðu fær þessa till. til meðferðar, kynni sér þetta mál enn nánar, fyrirætlanir og framkvæmdir Fiskifélags Íslands í þessu efni, með því að ræða við fiskimálastjóra um málið.