12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (1864)

36. mál, niðursuðuverksmiðja á Akureyri

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Allt frá þeim tíma, að síldveiðar hófust hér við land, hefur verið vitað, að síld, einkum smásild, berst árlega inn Eyjafjörð allt inn á Akureyrarpoll. Kunna elztu menn við Eyjafjörð sagnir af því, er síldargöngur björguðu Eyfirðingum í vorharðindum og bændur fjölmenntu víðs vegar að til þess að afla heimilum sínum þessarar ágætu matbjargar.

Síldin var þá eingöngu veidd í landnætur og lagnet. Síðar komu herpinætur til sögunnar og þar með hin svokölluðu nótabrúk. Þau hafa síðan og allt til þessa dags verið fastur þáttur í atvinnulífi Akureyrarkaupstaðar. Hafa þau aflað nær allrar þeirrar beitu, sem verstöðvar við Eyjafjörð hafa þarfnazt til línuveiða, og einnig að nokkru fyrir fjarlægari staði. Hefur svo verið um tugi ára. Vitneskja manna um árvissar síldargöngur í Eyjafirði er því engan veginn ný. En það er ekki fyr,r en á síðustu árum, að nokkuð örugg vitneskja fæst um það, að þar er, oftast að minnsta kosti, um mjög mikið síldarmagn að ræða og að því er margir telja nær óbrigðult mikinn tíma árs eða jafnvel allt árið.

Eins og alkunnugt er, hafa einkum 2–3 síðustu árin orðið mjög miklar framfarir tæknilegar við síldveiðar, og koma þar einkum til nætur úr hentugri efnum, en áður þekktust og nýtízku leitartæki. Gagnsemi þessara tækja getur þó hvergi orðið viðlíka mikil eins og innfjarðar, þar sem dýpi er ekki mjög mikið og unnt er að kasta nótunum til botns eða því sem næst. Virðist hugsanlegt við slíkar aðstæður að ná mjög mikilli hlutfallslegri veiði, miðað við það magn, sem af er að taka, ekki sízt þegar við bætist, að veður hamla sjaldan veiðum.

Veiðimöguleikar á ungsíld þeirri, sem árlega gengur í Eyjafjörð, eru því áreiðanlega orðnir mjög miklir, ef til veiðanna er beitt hinum beztu tækjum, sem nú er völ á. Þessir möguleikar til stórfelldrar veiði hafa lítið verið notaðir til þessa. Hvort tveggja er, að lengst af hefur markaður verið bundinn að mestu við beituþörf verstöðvanna við Eyjafjörð og þar í grennd og nú síðari ár einnig lítillega að auki við hráefnisöflun fyrir litla niðursuðuverksmiðju, sem framleitt hefur síldarsardínur fyrir innanlandsmarkað, og að fullnægjandi veiðarfæri hafa ekki verið fyrir hendi fyrr, en á allra síðustu árum.

Í nóvember á fyrra ári varð sú breyting á, að nokkrir hringnótabátar hófu smásíldarveiðar á innanverðum Eyjafirði og stunduðu þær þar til í febrúarmánuði, en nótabrúk héldu veiðunum áfram þar til í ágústmánuði s.l. með nokkrum hléum. Mestöll veiðin var lögð upp til bræðslu í síldarverksmiðjunni í Krossanesi. Tók verksmiðjan að samanlögðu alls á móti 40 þús. málum, og mun útflutningsverðmæti þess magns að meðtöldum útflutningsuppbótum hafa numið 5–6 millj. kr. Þessi nýting á smásíldinni verður þó að teljast algerlega ófullnægjandi, þar sem hér er um að ræða mjög verðmæta vöru til manneldis. Samkvæmt verðtilboðum erlendis frá, sem flm. er kunnugt um að liggja fyrir í niðursoðnar síldarsardínur, unnar úr Eyjafjarðarsíld, mundi útflutningsverðmæti þess magns, sem fór til bræðslu mánuðina nóvember til ágúst s.l., hafa numið um 58 millj. kr., ef það hefði allt verið unnið í niðursuðuverksmiðjum, eða rúmlega ellefufalt meira, en raun varð á.

Það er vitað, að meginið — 1954 voru það 72.3% — af heildarútflutningi niðursoðinna sjávarafurða í Noregi er sardínur svokallaðar úr bristlingi eða smásíld. Þessar tvær tegundir af sardínum hafa löngum verið aðalgrundvöllurinn undir vaxandi niðursuðuiðnaði Norðmanna, og hefur tilvera þeirra leitt til þess, að ýmsar aðrar tegundir hafa einnig verið framleiddar. Varla leikur vafi á, að ungsíldin, sem hér veiðist, er miklum mun betra hráefni til vinnslu en það, sem Norðmenn eiga kost á. Kemur þar sérstaklega til greina hærra fitumagn íslenzku ungsíldarinnar, sem mun vera hér 7–13% meiri hluta ársins, en í Noregi aðeins 4–6%, þegar bezt lætur.

Eins og ég áður gat um, starfar á Akureyri litil niðursuðuverksmiðja, sem getur unnið úr um það bil 30 tunnum síldar á dag. Þrátt fyrir ófullnægjandi vélakost, lítið framleiðslumagn og ýmsa aðstöðu mjög ófullkomna hefur þessi verksmiðja framleitt nú upp á síðkastið til útflutnings, í smáum stíl að vísu, og virðist ekki skorta mikið á, að sá útflutningur geti verið arðvænlegur. Lítill vafi er á, að framleiðsla í stórum stíl með nýtízku vélakosti mundi jafna metin að fullu.

Þá vaknar sú spurning, hvort um sé að ræða nægilegt hráefni til stórframleiðslu og hvort markaðshorfur séu fullnægjandi. Að fyrra atriðinu hef ég áður vikið nokkuð. Þó vil ég þar við bæta, að reynslan hefur sýnt, að veiðitími smásíldarinnar er ætíð miklum mun lengri, en nokkurrar annarrar síldar hér við land. Telja þeir, sem sérstaklega eru kunnugir innfjarðaveiði í Eyjafirði, að yfirleitt megi reikna með 6 mánaða veiðitíma, sem gefi gott hráefni til niðursuðu, en nokkurn tíma árs lækkar fitumagn síldarinnar svo, að hún verður tæpast nýtt til þeirra hluta. Þá má og benda á, að enda þótt ungsíldargöngurnar séu einna bezt þekktar á Eyjafirði, er vitað, að hún gengur víðar inn í firði norðanlands, t.d. Skagafjörð, og virðist því engan veginn útilokað, að hugsanlegur aflabrestur í Eyjafirði yrði að einhverju bættur með veiði á nálægum slóðum.

Enn þarfnast það athugunar, hvort hagkvæmt væri, að slík niðursuðuverksmiðja fengist við framleiðslu annarra útflutningsvara úr sjófangi þann tíma árs, er hún gæti ekki framleitt síldarsardínur, og þá hverra. Um markaðshorfur fyrir framleiðslu slíkrar niðursuðuverksmiðju verður ekki fullyrt að svo komnu. Hitt er vitað, að Norðmönnum tekst að selja sína framleiðslu, enda þótt þar sé um lakari vöru að ræða. Einnig er vitað, að tilboð um mjög veruleg kaup og stöðug liggja nú þegar fyrir og að kaupsýslumenn, sem forgöngu hafa haft um að afla þeirra tilboða, eru mjög bjartsýnir á sölumöguleika slíkrar vöru víða um heim.

Hér er ekki um að ræða lúxusvöru á borð við sumar vörur, sem vinna má úr norðurlandssíld, heldur tiltölulega ódýra framleiðslu, sem getur orðið almenn neyzluvara í markaðslöndum okkar og því seljanleg í miklu magni. Flm. þessarar till. virðist allt benda til þess, að með því að koma upp fullkominni og stórvirkri niðursuðuverksmiðju á Akureyri, sem einkum væri ætlað að hagnýta smásíldina í Eyjafirði, mætti skapa nýja útflutningsgrein, sem gæfi milljónatugi í gjaldeyri og veitti jafnframt mikla atvinnu. Þessi útflutningsaukning fengist úr hráefni, sem til þessa hefur verið lítið notað eða þá á mjög ófullnægjandi hátt, en er auðveldara að afla, en ef til vill nokkurs annars hráefnis, sem fiskiðnaður okkar byggist á. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að undirbyggja slíka framkvæmd svo vel sem nokkur kostur er á, og því er þessi till. fram borin, að svo geti orðið, enda eru sumir þættir þeirrar athugunar, sem nauðsynleg verður að teljast, naumast á annarra færi, en opinberra aðila.

Það er kunnugt, að niðursuðuiðnaður okkar hefur fram til þessa átt erfitt uppdráttar. Þar veldur áreiðanlega miklu um, að fyrirtækin, sem þann iðnað hafa rekið, hafa flest verið smá í sniðum og byggð af vanefnum, bæði fjárhagslega og þekkingarlega. Vegna smæðar fyrirtækjanna og þar af leiðandi hás framleiðslukostnaðar hafa þau flest hlotið að byggja á innanlandssölu, en lítið sinnt útflutningsframleiðslu. Þó liggur fyrir, að nokkur fyrirtæki hafi framleitt einstakar vörutegundir til útflutnings á samkeppnisfæru verði. En allt eru þetta þó smáverksmiðjur, sem eiga fátt sameiginlegt með þeim miklu vélvæddu fyrirtækjum, sem víða eru í nágrannalöndunum og hafa með höndum þvílíka framleiðslu og taka yrði til fyrirmyndar, ef gera á niðursuðuiðnaðinn að atvinnugrein, sem verulega þýðingu hefði í útflutningsverzluninni.

Á því er ekki vafi, að allar nágrannaþjóðir okkar, sem aðgang eiga að síldarmiðum, stefna í sífellt stærri mæli að því að auka og efla niðursuðu á þessu hráefni. Kemur þar m.a. til, að kröfur neytenda eru að breytast og stefna meira, en áður, að því að vilja fá vel frágengnar og þrifalegar vörur í smekklegum umbúðum, sem gefa traust geymsluþol.

Íslendingar þurfa að fylgjast með í þessari þróun og framkvæma nauðsynlegar breytingar smám saman, hliðstæðar þeim, sem gerzt hafa með hraðfrystingu þorsksins og karfans. Slíkar breytingar munu ekki gerast í einu vetfangi, heldur stig af stigi. Og ekki er óeðlilegt, að áhugi beinist um sinn alveg sérstaklega að niðursuðu þeirrar síldar, sem ekki verður nýtt viðunanlega á annan hátt, en veiðist jafnframt lengri tíma og með minni tilkostnaði, en nokkur önnur síldartegund hér við land.

Enn er sú ástæða ónefnd, sem ekki sízt knýr á um aðgerðir í þá átt, sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Eins og ég hef áður greint frá, er nú hafin með veiðunum s.l. vetur vinnsla smásíldar í bræðslu, og miklar líkur eru til, að sú vinnsla fari mjög vaxandi á næstu tímum, ef ekki verða möguleikar á öðrum og hagstæðari vinnsluaðferðum. Kynni svo að fara, að vaxandi bátafjölda, búnum stórtækum veiðarfærum, yrði beitt til veiðanna og að mjög miklu magni, e.t.v. hundruðum þúsunda mála árlega, yrði ausið upp. Að þróunin yrði slík, er næsta líklegt, þar sem veiðar í bræðslu hljóta alltaf að byggjast á miklu magni, ef þær eiga að geta borið sig fjárhagslega. En þegar þess er gætt, að hér er aðallega um að ræða eins og tveggja ára síld, sem vegur að meðaltali aðeins um tíunda hluta fullvaxinnar síldar, sést fljótt, að orðið gæti um að ræða veiðimagn, sem skemmt gæti allverulega hinar eiginlegu síldveiðar síðar meir. Er þar auðvitað bæði um að ræða skerðingu á þeim árgöngum, sem veiddir eru hverju sinni, og svo skerðingu á vaxtarmöguleikum síldarstofnsins, sem síðar kæmi fram.

Líkur hafa verið leiddar að því, að við Íslendingar nýtum um 5% af síldarstofnum þeim, sem hér veiðast. Með vaxandi tækni við veiðarnar, t.d. ef okkur tækist að veiða síld í flotvörpu, mundi þessi hundraðstala geta hækkað mjög, e.t.v. á allra næstu tímum. En eftir því sem sú nýting vex, verður æ hæpnara að veiða mikið magn ungsíldar, a.m.k. ef ekki er unnin úr henni verðmætari vara, en úr fullvaxinni síld.

Við flm. teljum, að sú hætta, sem orðið gæti af ofveiði ungsíldarinnar, verði bezt fyrirbyggð og á skynsamlegastan hátt með því að koma á fullri nýtingu hennar í góða manneldisvöru og margfalda þannig verðmæti hennar, enda er fullvíst, að það veiðimagn, sem nægja mundi til slíkrar framleiðslu, felur ekki í sér neinar hættur fyrir síldarstofninn. Væri þá einnig frambærilegt, ef slíkri framleiðslu væri komið á fót, að takmarka veiðarnar við það magn, sem skaðlaust yrði talið af fiskifræðingum.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.