14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (1874)

60. mál, læknishjálp sjómanna á fjarlægum miðum

Frsm. ( Benedikt Gröndal ):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir, er þess efnis, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að athuga, á hvern hátt er hægt að tryggja togarasjómönnum nauðsynlega læknishjálp, þegar skipin eru að veiðum á fjarlægum miðum. N. hefur fjallað um þessa till. og er einróma sammála um að mæla með samþykkt hennar.

Á íslenzka togaraflotanum eru milli 12 og 13 hundruð manns. Hefur komið fyrir á s.l. ári, að nálega allur flotinn stundaði samtímis veiðar á mjög fjarlægum miðum. Hefur þá komið fyrir, að sjómenn hafa ýmist veikzt eða slasazt, og ég geri ráð fyrir, að þau atvik hafi orðið til þess að beina athygli manna að þessu vandamáli.

Þegar allur flotinn stundar veiðar á sömu eða svipuðum fjarlægum miðum, eins og var við Nýfundnaland í haust og hefur verið fram til þessa dags, þá má reikna með, þar sem sigling til miðanna og frá þeim tekur 5–6 daga og veiðar taka 3–5 daga, að til jafnaðar sé 1/4 hluti flotans við veiðarnar, um helmingur flotans á siglingu fram og aftur og þá 1/4 í heimahöfn. Þess vegna eru að jafnaði á slíkum tímum 3–4 hundruð menn við veiðarnar sjálfar og 6–7 hundruð menn á siglingu fram og til baka. Hætturnar á því, að þessi stóri hópur manna við svo erfið störf verði fyrir veikindum eða slysum, eru því verulegar. Þess vegna hljóta allir að vera sammála um, að það megi einskis láta ófreistað til þess að gera það, sem hægt er, til þess að tryggja þessum togarasjómönnum nauðsynlega læknishjálp. Hins vegar kemur það fljótlega í ljós við íhugun á þessu máli, að það er engan veginn auðleyst. Eftir því sem ég hef komizt næst í samtölum, bæði við togaraútgerðarmenn og togarasjómenn, þá hafa komið fram nokkrar hugmyndir, sem eru mjög misjafnlega framkvæmanlegar af ýmsum ástæðum.

Það, sem fullkomið væri í þessum efnum, er auðvitað að hafa eftirlitsskip á miðunum með lækni um borð, eins og stærri þjóðir gera víða. Ég hygg, að það þurfi ekki um það að tala, að Íslendingar hafa ekki, eins og nú standa sakir, ráð á því að leggja í slíkan kostnað.

Þá hefur komið fram hugmynd um það að hafa lækni um borð í togurunum, en selflytja hann á milli togaranna, þannig að jafnóðum og einn togarinn fer heim, þá skilar hann lækninum til annars. Mér segja bæði útgerðarmenn og togarasjómenn, að þessi hugmynd sé ákaflega óraunhæf. Slíkir flutningar á lækni með þeim tækjum, sem hann þyrfti að hafa með sér, eru mjög hættulegir, og það mundi reynast ákaflega erfitt að koma slíku skipulagi á, þannig að nokkurt gagn væri að. Þar að auki benda læknar á, að aðstaða fyrir þá sé ákaflega slæm um borð í skipunum, þannig að þeirra aðstaða væri ekki mjög góð til þess að gera mikið um borð.

Í þriðja lagi er talað um þann möguleika, að skipin verði að sækja til næstu byggða, ef slíkt sem þetta kæmi fyrir, og ég geri ráð fyrir, að það mundi verða gert, ef tilfelli væru það alvarleg. En á Nýfundnalandsmiðum, þar sem togararnir hafa verið, er hvorki meira né minna en 15–20 klst. sigling til þeirrar byggðar, þar sem finna mætti lækna, svo að þar er um verulegar fjarlægðir að ræða.

Í fjórða lagi hefur verið talað um eina tegund af læknisþjónustu fyrir sjómenn á hafi úti, sem auðvitað er hvergi nærri fullnægjandi, en gæti orðið til verulegrar hjálpar, en það er að veita þeim læknisráð gegnum útvarp eða loftskeyti. Þetta hefur færzt mjög í vöxt á síðari árum, og suður í Rómaborg er til stofnun, sem starfar fyrir sjómenn um allan heim og hefur að jafnaði lækna, sem sitja við útvarpstæki og svara fyrirspurnum á ákveðnum bylgjulengdum eins fljótt eða jafnóðum og þeir geta. Svipaða hluti hafa læknar gert hér á Íslandi í allstórum stíl. Það er algengt, að læknar séu kallaðir til loftskeytatækjanna og þeir tali við yfirmenn skipanna, gefi þeim þannig leiðbeiningar, sem ég er viss um að hafa oft komið að mjög góðum notum og jafnvel bjargað sjúklingum. Í sambandi við þetta skapast erfiðleikar af því, að loftskeytasamband togaranna, sérstaklega þeirra eldri, við heimahafnir sínar er mjög mismunandi gott eftir því, hvar þeir eru, og því verra, sem þeir eru lengra í burtu. Og mér hafa tjáð menn, sem eru kunnugir þessum málum, að eitt mundi örugglega vera hægt að gera í þessum efnum, en það er að bæta loftskeytaþjónustuna svo, að íslenzki togaraflotinn sé öruggur um það að geta haft gott samband hingað heim, hvar sem hann er á þeim miðum, sem hann hefur hingað til stundað eða er líklegur til að stunda. Hefur verið á það bent, þó að ég kunni ekki nánari skil á því, að loftskeytastöðin hér í Reykjavík muni þurfa töluverðrar endurnýjunar við, og kann að vera, að eitthvað af eldri togurunum þurfi líka að fá betri tæki, því að mér er sagt, að það sé mikill munur á því, hvað nýjustu skipin nái betur heim, þegar þau eru fjarri landinu, heldur en hin eldri.

Ég hef hér nefnt lauslega nokkrar þær helztu hugmyndir, sem ég hef komizt á snoðir um í sambandi við þetta mál, og ég vænti þess, að þessar upplýsingar verði til þess að sýna hv. þm. fram á það enn betur en till. sjálf gerir, að það er nauðsynlegt að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn og freista þess að tryggja togarasjómönnum eins góðan aðbúnað að þessu leyti og framast er unnt.

Herra forseti. Allshn. leggur til, að till. verði samþykkt óbreytt.