19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (1883)

41. mál, ábúðarlög

Flm. ( Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Á þskj. 69 hef ég ásamt hv. þm. Mýr. og hv. þm. Dal. leyft mér að bera fram till. til þál. um endurskoðun ábúðarlaganna. Í grg. þeirri, er till. fylgir, eru dregin fram þau rök, er liggja til grundvallar fyrir flutningi málsins, og mun ég því verða stuttorður. Till. og grg. hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta endurskoða ábúðarlögin og leggja síðan fram á Alþ. frv. til nýrra ábúðarlaga.“

Í grg. segir svo: „Í landinu er mikið af jörðum í leiguábúð og ábúendaskipti alltíð á mörgum þeirra. Oft skapast vandamál milli jarðeiganda og leiguliða, einkum þegar ábúendaskipti verða. Dæmi eru til þess og þau ekki svo fá, að eigendur jarða halda þeim í eyði, þó að hægt sé að fá á þær ábúendur. Veldur slíkt viðkomandi sveitarfélögum ýmsum erfiðleikum.

Nokkrir forustumenn sveitarfélaga og allmargir jarðeigendur og leiguliðar hafa komið að máli við okkur flm. þessarar till. og óskað eftir, að við beittum okkur fyrir því, að ábúðarlögin yrðu endurskoðuð og þeim breytt. Við töldum ekki rétt að flytja frv. til breyt. á l., enda hæpið að gera breyt. á svo umfangsmiklum l. sem ábúðarlögin eru, án þess að rannsókn á málinu í heild eigi sér stað. Okkur finnst hins vegar eðlilegast, að ríkisstj. skipi n. manna til að endurskoða l. og síðan að þeirri endurskoðun lokinni yrði frv. til nýrra ábúðarlaga lagt fram hér á Alþ.“

Ég þekki það af nokkurri reynslu, þar sem ég hef verið úttektarmaður á jörðum í þeim hreppi, þar sem ég bý, hversu mikil vandræði skapast oft við burtför leiguliða af jörð, þegar leiguliðinn hefur framkvæmt mikið á jörðinni og vill eðlilega fá greitt fyrir umbæturnar, þegar hann fer. Oft er jarðeiganda ómögulegt að snara út fjárupphæðum, sem leiguliði hefur eignazt á jörðinni í mannvirkjum, því að ekki er endilega víst, þó að maður eigi jörð eða jarðarpart, að hann sé þannig fjáður, að hann eigi gott með að borga út tugi þúsunda til leiguliðans, þegar hann fer.

Á mörgum leigujörðum veldur þetta ástand því, að jarðirnar dragast aftur úr í umbótum. Jarðeigandinn vill ekki eða getur ekki lagt fé í umbætur og leiguliði vill ekki heldur gera slíkt af ótta við að fá féð ekki aftur, þegar hann fer frá jörðinni.

Ég þekki nokkur dæmi þess, að jarðir eru í eyði af þessum sökum, og er illt til þess að vita með góðar jarðir og jafnvel höfuðból. Veldur slíkt viðkomandi sveitarfélagi ekki litlum vandræðum, þar sem við það þynnist fylking þeirra, er undir byrðum sveitarfélagsins eiga að standa. Frá þessum dæmum eru vissulega margar undantekningar, en þó er þetta mál mikið vandamál, sem nauðsyn er á að athuga, hvort ekki er hægt að finna ráð við því til úrbóta. Fyrir því hafa margir sveitamenn áhuga, og fyrir tilmæli frá mörgum mönnum er málið borið fram hér á þann hátt, sem það er gert. Væri mikil þörf á, að vitrir menn og góðgjarnir fengju þetta mál til ýtarlegrar rannsóknar.

Ég sé, að ákveðnar hafa verið tvær umr. um málið, og ég vildi þess vegna leyfa mér að gera uppástungu um, að málinu yrði vísað til 2. umr. að þessari lokinni og til hv. allshn.