04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (1885)

41. mál, ábúðarlög

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þáltill. á þskj. 69 og einnig sent hana til umsagnar þeirra aðila, sem álit eru birt frá með nál., sem er á þskj. 186. Nefndin er á einu máli um það, að nauðsynlegt sé að endurskoða ábúðarlögin, ekki sízt með tilliti til breyttra tíma nú s.l. 20 ár, og læt ég nægja um ábúðarlögin að vísa til þeirrar grg., sem fylgdi till., og þá ekki síður til framsöguræðu hv. 1. þm. Árn. (ÁÞ) frá því í vetur, þegar þessi mál voru þá til umræðu, því að þar komu fram öll aðalatriði málsins og því óþarft að endurtaka það nú.

En eftir að nefndin fór að íhuga ábúðarlögin, komst hún að raun um, að fleiri lög, sem varða ábúð jarða, eru svo nátengd ábúðarlögunum, að óhjákvæmilegt er að gera þar ekki upp á milli og taka þau einnig til endurskoðunar, en það eru lögin um ættaróðul og erfðaábúð. Þau eru frá árinu 1943 og hafa smám saman komið til framkvæmda og því nú fyrst síðustu árin nokkur reynsla fengin fyrir því, hvernig þau hafa verkað. Megintilgangur þeirrar löggjafar var að gera þeim aðilum fjárhagslega auðveldara fyrir, sem vildu feta í feðranna fótspor og búa á jörðum þeirra áfram. Af þeim ástæðum var það lögleitt, að mjög takmarkað söluverð skyldi á jörðum þessum, auk þess sem ýmsar kvaðir fylgdu kaupum þeirra jafnframt. Að óðalsjörð er hægt að gera hverja jörð, sem i einstaklingseigu er, með þar til gerðum gerningi eða samningi, ef hlutaðeigandi hefur áhuga fyrir því, en ættarjarðir verða jarðir af sjálfu sér, eftir því sem árin líða, og þurfa þær að vera í eign eða ábúð sömu ættar samfleytt minnst 75 ár. Með hverju árinu, sem líður, koma fleiri og fleiri jarðir undir þessi ákvæði laganna, og eru fyrst nú að koma í ljós kostir og gallar þessarar löggjafar. Þá er einn kafli þessara laga um erfðaábúð á jarðeignum hins opinbera, og fer sú ábúð að miklu leyti eftir ábúðarlögunum, nema hvað ábúðin þarna, skv. þessum lögum, er miklu öruggari og það ekki síður fyrir þá afkomendur ábúendanna, sem síðar vilja yrkja jörðina, því að þeim er tryggður fyrsti réttur til ábúðar. Við sölu þessara jarða er skylda að gera þær að ættaróðulum.

Ég hef drepið hér nokkuð á meginkjarna þessara laga og læt það nægja nú. En öllum má ljóst vera, að lög þessi þarf að endurskoða með tilliti til breyttra tíma og þá ekki sízt út frá því misræmi, sem hefur skapazt á milli fasteignamats jarða annars vegar og söluverðs jarða hins vegar. Þessu misræmi hefur löggjafinn varla reiknað með fyrir 16 árum. En hafa verður hugfast, að megintilgangur og kjarni allrar löggjafar varðandi eign og ábúð jarða er sá, að þar megi jafnan ganga þannig frá ábúð, að þar ríki athafnafrelsi, svo að reka megi þar hagfelldan búskap. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það, hversu margar óðalsjarðir séu til á landinu, og enn fremur, hvað margar jarðir teljast ættarjarðir, en því miður hef ég rekið mig á það, að þær skýrslur, sem til eru, bera þess vott, að þær gefa ekki rétta mynd af því, hversu margar jarðir þessar eru. En úr þessu er nauðsynlegt að bæta, vegna þess að réttur óðals- og ættarjarða er það mikill, að hægt er að ógilda sölu þeirra, ef hún fer fram án þess, að hlutaðeigendur hafi haft hugmynd um.

Að lokum vil ég geta þess, að nefndin féllst á brtt. hv. þm. A-Húnv., og vænti ég þess, að hv. þingmenn fallist á þá brtt., sem liggur fyrir á þskj. 186, og sé ég ekki ástæðu til að ræða meira um þessi mál, því að nokkrar umræður fóru fram um þau í vetur, og um það, sem á vantar nú, vísa ég til þeirra umræðna, sem þá fóru fram.