23.01.1959
Neðri deild: 61. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal játa það, að mér lék mikill hugur á því að sjá, hvernig blöð stjórnarstuðningsflokkanna, íhaldsins og Alþfl., legðu hið boðaða frv. hæstv. ríkisstj. um efnahagsmálin fyrir þjóðina og í fyrradag sást, hvernig annað aðalmálgagn Sjálfstfl. dagblaðið Vísir, birti þetta mál fyrir sínum lesendum. Hann tók sem sé fram tréletrið stóra og þar var honum mest í mun að boða, að kaupgjaldsvísitala yrði 175 stig. Það var gleðiboðskapurinn: 175 stig, hærra skyldi það ekki vera. Svo var auðvitað með smærra letri það, sem var ekki eins geðfellt, að allt vöruverð skal lækka í samræmi við vísitölulækkunina, — það var auðvitað sett með mjög smáu letri, ekki eins mikill áhugi fyrir því.

Þarna var að dómi þessa blaðs bersýnilega um mikið ágætismál að ræða, sem nærri má geta, mikil kauplækkun á ferðinni, að vísu ekki mikið samræmi þó við orðagjálfur íhaldsblaðanna að undanförnu, en samt mikill fögnuður yfir stórfelldustu kauplækkun og kjaraskerðingu allra launþega í landinu síðan um 1950 — sællar minningar, — þegar gengislækkunin var framkvæmd. Velþóknun Vísis var óblandin og fögnuðurinn var mikill. Það sást af fyrirsögnunum og lesmálinu. Um það var ekkert að villast.

Og svo komu blöðin í gær. Og hvernig var yfirbragð Morgunblaðsins t.d.? Jú, það var með meiri hófsemdarbrag og hófsemdarblæ. Aðalfyrirsögn blaðsins var nærri því hlutlaus. Þar stóð: „Frumvarp um stöðvun verðbólgunnar lagt fram á Alþingi.“ Það fór ekki milli mála, að hér var ætlunin hjá aðalmálgagni Sjálfstfl. að kalla ekki yfir sig allt of mikla ábyrgð á frv., svona til að byrja með a.m.k., hvað sem handauppréttingar síðar kunna að leiða í ljós. Það var meiningin sýnilega hjá Morgunblaðinu að halda sér dálítið í skugganum, láta höggin heldur lenda á Alþfl., hann væri þess aldrei nema maklegur og aðalritstjórinn taldi það bersýnilega of snögg umskipti fyrir lesendur Morgunblaðsins, að það væri nú kannske ekki hollt, að strax eftir kauphækkunaráróður undanfarinna mánaða væri í blaðinu á áberandi hátt fagnað stórfelldum niðurskurði á kaupi verkafólks og annarra launamanna. Sennilega er þetta allt saman rétt metið hjá aðalritstjóranum, að taka ekki á sig ábyrgð að sinni, miklu betra að láta ábyrgðina skella á Alþfl. Vísir hafði þar bara hlaupið á sig eins og fyrri daginn.

En hvað sagði svo blað forsrh., blað verkalýðsins, blað alþýðunnar? Var það ekki hógvært og af hjarta lítillátt, bað afsökunar beint eða óbeint á því að hafa af illri nauðsyn orðið að krefjast fórna af verkalýðnum og öllum launamönnum? Það hefði nú kannske getað hvarflað að einhverjum, að þetta yrði tónninn í því blaði. Nei, þar örlaði ekkert á lítillæti, þar kom sannarlega engin afsökunarbeiðni fram. Það mátti helzt hugsa sér af yfirbragði forsíðunnar á Alþýðublaðinu, að nú væri Alþfl. ekki aðeins að bjarga landi og þjóð, heldur helzt að frelsa mannkynið og heiminn. Þannig leit forsíðan út í gær, eins og menn muna. Stórkostlegasta fyrirsagnaletur, stærra en þegar friður var saminn eftir 4 ára heimsstyrjöld og miklu meiri fögnuður á ferðinni. Hér gat að líta túlkun á frv. ríkisstj. undir þessum risastóru fyrirsögnum: „Niðurfærsla verðbólgunnar“, það er í efri stórleturslínunni, „Eftirgjöf 10 stiga“, — og í beinu framhaldi af því: „Kaupmáttur hækkar“. Mér finnst ekki ólíklegt, að ýmsir lesendur Alþýðublaðsins hafi lesið niðurlag þessarar risafyrirsagnar svo sem eins og tvisvar, kannske oftar. En það var ekkert um að villast, þarna stóð: „Eftirgjöf 10 stiga“ — og á eftir í beinu áframhaldi: „Kaupmáttur hækkar“ — ekki lækkar við eftirgjöf 10 stiga, nei, hann hækkaði bara við það. Það var eins og rófan í Fróðárundrum, að eftir því sem var meira á henni hamazt, eftir því gekk hún síður niður, þegar togað var í hana. Við að fella niður 10 stig, þá hækkar kaupmáttur launa samkvæmt þessu málgagni.

Síðan var haldið áfram í sama dúr til útleggingar þessum boðskap til verkamanna. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Frumvarpið gerir ráð fyrir niðurfærslu dýrtíðarinnar um 27 stig. Þar af munu 17 stig koma fram í verðlækkunum“, — það er spádómur, — „en allir landsmenn“ — sennilega væri nú nákvæmara að segja: allir launamenn — „eiga að gefa eftir af tekjum sínum 10 stig eða 5.4%.“ Síðan segir: „Afleiðing þessarar niðurfærslu verður m.a., að kaupmáttur launa hækkar frá því, sem hann var s.l. haust. Ef kaupmáttur tímakaups verkamanna 1. febr. í fyrra er reiknaður sem 100, þá var hann 103.9 í júníbyrjun, 102.3 stig í októberbyrjun, en verður, ef frv. stjórnarinnar nær fram að ganga, 103.9 stig hinn 1. marz n. k.“

Þetta er boðskapurinn. Þetta er bara betra, það eykur kaupmátt launa að skera niður 10 vísitölustig. En hvernig það má verða, að ef þau væru nú skorin um 20 eða 30 stig niður, að þá leiði það ekki til meiri kauphækkunar, það fæ ég nú ekki skilið, hvaða sérnáttúru hafa þessi einu 10 stig, og hví þá ekki að skera meira niður til þess að fá meiri kaupmátt launa? Þetta er svo mikil hógværð, að ég skil þetta ekki, úr því að það fæst út hækkun á kaupmætti launa við að skera burt 10 stig, að láta sig þá muna um að hafa þau 20 eða 30 til þess að fá meiri kaupmátt launanna, af því að Alþýðuflokkur átti nú í hlut. En það er líka dálítið einkennilegt að velja ákveðna mánuði á árinu 1958 til þess að miða við kaupmáttinn og svo aftur við 1. marz 1959.

Ég tel rétt, til þess að mönnum verði ljóst, hversu villandi þessi viðmiðun er, að gefa hv. þm. yfirlit yfir það, hvernig kaupmátturinn er talinn hafa mælzt við hver mánaðamót allt árið 1958 samkv. þeim hagfræðitöflum, sem þetta er plokkað út úr svona til þess að ljúga með tölum, en það er á þessa leið:

Í jan. 1958, í ársbyrjun fyrra árs, var kaupmáttur launanna talinn 100,1 stig, miðað við það, að febr. var þá settur sem 100, eða mælirinn þar settur á 0. Í marz var kaupmátturinn talinn 99.7, í apríl 99.6, og í maí sama ár 99.4, en í júní verður kaupbreyting og verður kaupmátturinn samkv. þessu talinn 103.9, í júlí 100.7, í ágúst 99.0, í sept. 101.3, í okt. 102.3, 1. nóv. 101.3, og 1. des s.l. 109.9. Og í desembermánuði er það, sem núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og það, sem hún tók þá við, það var þetta, kaupmáttur launa var 109.9.

Í janúar 1959, þeim mánuði, sem við erum nú stödd í, er talið samkv. þessum sömu hagfræðikenningum, að kaupmátturinn sé 112.8, miðað við febrúar 1958 sem 100. Ja, það er í raun og veru réttast að miða við þessa tölu, þegar menn glöggva sig á því, hver kaupmáttur launa hafi verið, þegar ríkisstj. Alþfl. settist í sína stóla. Þetta er 1. jan., það var á messu heilags Þorláks í desemberlokin, sem ríkisstj. tók við og það var við þessum kaupmætti launa, sem hún tók.

En í marzmánuði n.k. segist hún vera komin með þetta niður í 103.9 stig, og það má segja, að það hafi miðað vel, ekki til hækkunar, heldur einmitt til lækkunar samkvæmt þessum hagfræðilegu töflum, þegar þær eru teknar í heild og miðað er við það, sem næst liggur að miða við.

Það var annað blað en Alþbl., sem fagnaði mjög þessa dagana bjargráðafrv. hæstv. ríkisstj. Það blað heitir Verkamannablaðið og er gefið út af samherjunum íhaldsverkamönnum og Alþýðuflokksverkamönnum í Dagsbrún, það var að koma út núna 23. jan., þ.e.a.s. í dag, og er nýtt af nálinni. Það er nærri því eins mikið um dýrðir hjá því og sjálfu Alþbl. Þar stendur: „Niðurfærsla dýrtíðarinnar bjargar þjóðinni.“ Það var mikið, að það var ekki björgun fyrir mannkynið frá öngþveiti, kjararýrnun og atvinnuleysi. Okkur er sem sé borgið, það er engu að kvíða, við erum hólpin, bjargráðið er komið fram. Niðurfærsla dýrtíðarinnar bjargar þjóðinni frá öngþveiti, kjararýrnun og atvinnuleysi, frá þessu gífurlega atvinnuleysi, sem hefur nú herjað á fólkið. Kaupmáttur tímakaupsverkamanna verður 1.6% meiri, en hann var í október. Mig minnir nú, að Alþbl. segi, að þetta sé enn þá dýrðlegra. Já, það stendur í því, að eftirgjöfin verði aðeins 10 stig. Það má nú heyra það á milli línanna þarna, að það hefði átt að vera meira, eftirgjöfin verður aðeins 10 stig. En svo segir þar, með leyfi forseta: „Það er forsenda allra þessara ráðstafana, að framfærsluvísitalan verði 1. marz komin niður í 202 stig, sem svarar til kaupgjaldsvísitölunnar 185. Þetta mun fást með almennum verðlækkunum samkvæmt ákvæðum frv. En hrökkvi þær ekki til, mun ríkisstj. auka niðurgreiðslur bara eins og þörf krefur. Að það þurfi nokkurn eyri til þess, það er ekki á það minnzt, sennilega ekki látið hvarfla að sér. En Alþbl. segir, að þetta þýði hækkun um 3.9% fyrir verkamenn, sem er sagt hérna í Verkamannablaðinu í dag að gefi þeim ekki nema 1.6% kjarabætur og iðnaðarmenn fái 1.6% í kjarabót út úr þessu. En mig minnir, að hins vegar í grg. frv. standi, að hjá iðnaðarmönnum sé ágóðinn af þessu öllu saman ekki nema 0.6%, svo að engum af tölunum ber saman, í grg. frv., Alþbl. eða Verkamannablaðinu, þetta er allt saman á reiki, frá 0.6% í 1.6% og í Alþýðublaðinu allt upp í 3.9%. Ég held, að verkamenn eigi nú að hafa það, sem dýrlegast er og mest þeim í hag. Það er það, sem stendur svart á hvítu í Alþýðublaðinu, málgagni forsrh., að launabótin, kaupmáttaraukningin, sem þeir fái við þetta allt saman, sé 3.6%, þangað til buddan segir annað, þegar 1. marz er runninn upp, — hafa þetta fyrir satt þangað til. Hitt er allt svo lítið.

Rétt undir risafyrirsögn Alþbl. í gær, einmitt undir orðinu „hækkað“, er rammagrein svolítil, sem á að vera mjög áberandi þannig, þó að hún verði að vera með smærra letri, en hitt allt saman. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ein undantekning, aðeins ein undantekning er í frv. ríkisstj. gerð frá þeirri reglu, að allir landsmenn gefi eftir af tekjum sínum 10 vísitölustig eða 5.4%. Eru það bótaþegar almannatrygginganna, öryrkjar, mæður og barnafjölskyldur? Samkvæmt 1. gr. frv. skal greiða örorkulífeyri, mæðralaun, fæðingarstyrki og fjölskyldubætur með vísitölunni 185, en ekki 175. Er hér í rauninni um að ræða kjarabætur fyrir þetta fólk, ef borið er saman við alla aðra landsmenn.“

Eftir venjulegum skilningi er það einmitt lofsvert, að þetta skuli vera í frv. hæstv. ríkisstj., að gamalmenni og öryrkjar, mæður og barnafjölskyldur skuli fá sínar bætur frá almannatryggingunum óskertar með vísitölunni 185. En þá er það nú þannig, að þá er þessu fólki ekki leyft að njóta þeirra 3.6% kjarabóta, sem samkvæmt öðrum frásögnum Alþbl. leiðir af því fyrir allan verkalýð landsins, að öðru leyti, að vísitalan sé færð niður úr 185 í 175. Og hvers vegna í ósköpunum átti gamla fólkið ekki að fá líka kjarabæturnar 3.6%, sem allir aðrir fá að njóta við það að fá vísitöluna 175 í staðinn fyrir 185? Mér virðist nú eins og skína gegnum þetta svolítil játning á því, að menn, jafnvel Alþýðublaðsmenn, trúi betur á, að það sé hagsbót fyrir gamla fólkið að fá bætur sínar greiddar miðað við vísitöluna 185 heldur en 175, þrátt fyrir allt stóra letrið þarna fyrir ofan um kjarabæturnar, sem felist í hinu. En um það er ekkert að villast, að á máli Alþbl. er hvort tveggja kjarabót, að fá kaup sitt greitt með 185 stiga álagi og eins hitt, að launagreiðslur séu færðar niður í 175, og það er vel af sér vikið að koma þessu saman. En eftir skilningi venjulegra manna æpa mótsagnirnar þarna hver á aðra, eða með orðum skáldsins sr. Jóns Þorlákssonar á Bægisá: „Eitt rekur sig á annars horn, eins og graðpening hendir vorn.“

Það er vissulega rétt, sem hæstv. forsrh. játaði í framsöguræðu sinni, það er meginefni þessa frv., að launafólk á að gefa eftir 10 vísitölustig, — það er meginefni frv., ef það verður þá ekki talsvert meira en 10 stig, þegar til kastanna kemur og það virðist þó geta orðið og þetta án þess að bætur komi fyrir, eins og forsrh. orðaði það einnig sjálfur. Hann tók það fram, að þessi 10 stig féllu út, án þess að bætur kæmu fyrir. Og þetta áréttaði hann enn með að segja: þetta er kjarni málsins. — Og þar fór hann með rétt mál. Mér finnst, að betur eða eftirminnilegar hafi naumast verið hægt að reka blekkingar og ósannindi Alþbl. ofan í það samdægurs heldur en forsrh. einmitt gerði með þessari játningu sinni.

1. gr. frv. segir frá því með miklum málalengingum, að frá 1. febr. n.k. skuli greiða verðlagsuppbót á laun og allar aðrar greiðslur, sem fylgja kaupgreiðsluvísitölu, eftir vísitölu 175. Einasta undantekningin frá þessum niðurskurði er greiðsla samkvæmt 2. kafla laganna um almannatryggingar, eins og ég hef þegar drepið á. Á þessar bótagreiðslur skal sem sé greiða verðlagsuppbótina 185. Það er tekið fram, að niðurskurðurinn nái til hvers konar ákvæðisvinnu, aksturstaxta vörubifreiða og fólksbifreiða, að því er snertir laun bifreiðastjórans, svo og til allra taxta og gjalda, sem fylgt hafi breytingum á launum hinna ýmsu starfsstétta. Einnig skal niðurskurðurinn ná til heildarlauna, þó að grunnlaun séu ekki sérstaklega tilgreind. Þetta er allt saman úr 1. gr. frv.

Hvað þýðir nú þessi 10 stiga niðurskurður í reyndinni? Það er bezt að vera svo sanngjarn að halda sér við þessa óumdeildu lágmarkstölu, 10 stig, þegar frv. Alþýðuflokksstjórnarinnar er orðið að lögum, því að það fullyrða þeir, að þetta verði undir engum kringumstæðum meira en 10 stig, og líta svo á, hvaða áhrif þetta hefur eftir fyrstu útborgun, eftir að kjarabætur niðurskurðarins hafa farið fram. Ég get ekki á mér setið að skýra það með nokkrum orðum og alveg sérstökum dæmum.

Tímakaup verkamanna er nú kr. 23,86 samkvæmt lágmarkstaxta í almennri verkamannavinnu. En þegar vísitalan er komin niður í 175 með stífingu og niðurgreiðslum, þá lækkar tímakaup hins almenna verkamanns í kr. 20,67. Skerðingin á útborguðu tímakaupi hans nemur þannig kr. 3,19 eða 13.4% af kaupinu hans. Sé nú reiknað með 8 dagvinnutímum og einum eftirvinnutíma, þá lækkar dagkaupið um kr. 30,31, ég sagði dagkaupið. Það jafngildir svo, ef litið er á mánuðinn, kr. 757,75, en í þessu dæmi er reiknað með 25 virkum vinnudögum. Og sé litið á árskaup eða árstekjur verkamanns, sem hefur stöðuga vinnu, en vinnur samkvæmt lágmarkstaxta almennrar verkamannavinnu, þá nemur kjarabótin 9.093 kr. í lækkuðu kaupi, — kjarabót, sem nemur rúmum 9 þús. kr. í lækkuðu kaupi.

En svo skal ekki gleymt hinu, sem á móti kemur, og það er sparnaður í útgjöldum vegna lækkunar á nokkrum vörutegundum, sem ríkisstj. hefur nú þegar ákveðið að greiða niður. Í þeim útreikningum, sem koma nú hér á eftir, viðvíkjandi því, hvað miklum sparnaði þessi niðurgreiðsla nemi, þá verður hér miðað við það vörumagn, sem gert er ráð fyrir í nýja vísitölugrundvellinum, sem einmitt er gert ráð fyrir í þessu frv. að nú verði tekinn upp. Og þá er það hjá meðalfjölskyldu 115,36 kg af kindakjöti, sem samkvæmt niðurgreiðslunni um 13 stig eiga að nema kr. 770,57. Í þessum vísitölugrundvelli er einnig reiknað með, að meðalfjölskyldan neyti 39,55 kg af saltfiski og þau lækka um kr. 65,26. Það er gert ráð fyrir því í grundvellinum, að meðalfjölskylda noti 1.022 lítra á ári af nýmjólk og nemur lækkunin þar kr. 901,98. Og svo er enn fremur gert ráð fyrir því, að meðalfjölskylda noti á ári 235,65 kg af kartöflum, og lækka þær um kr. 141.39. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að meðalfjölskylda noti 16,96 — nærri 17 kg — af skömmtuðu smjöri og lækkar það smjörmagn um kr. 164,51. Þá er í vísitölugrundvellinum reiknað með, að meðalfjölskylda noti 42.4 kg af skömmtuðu smjörlíki, og á það samkvæmt niðurgreiðslunni að lækka um kr. 72,08. En þar með held ég líka, að allt sé tíundað, sem léttir á buddunni við niðurgreiðslur hæstv. ríkisstj. Ég held, að þar vanti ekkert á.

Samkvæmt þessu verður þá árssparnaður meðalfjölskyldu vegna hinna nýju niðurgreiðslna ríkisstj. kr. 2.115,79. Það eru líka peningar; en það er til frádráttar af rúmlega 7 þús. kr., sem niðurfærsla launanna nam við 10 vísitölustig.

Eins og áður er sagt, lækkar útborgað mánaðarkaup Dagsbrúnarverkamanns um kr. 757,75. Þegar búið er að draga sparnaðinn frá, nemur lækkunin kr. 527,18 á mánuði og sýnir sú upphæð lækkunina á raunverulegu mánaðarkaupi verkamannsins. Kaupskerðingin, sem hér er um að ræða, nemur því nákvæmlega 9.3% af kaupinu hans og hún jafngildir, eins og verkamenn þekkja, nákvæmlega einum eftirvinnutíma á dag. Þannig má því segja, að ríkisstj. með aðgerðum sínum, sem hún kallar kjarabætur, fyrirskipi verkamönnum að vinna einn eftirvinnutíma á hverjum virkum degi aukalega, ef þeir vilja halda óskertu kaupi. Það er ekki ólíklegt, að verkamenn finni út úr því að kalla þetta vinnustund ríkisstj.

Þetta er, eftir því sem ég get komizt næst, niðurstaðan, þegar teknar eru með tekjur vegna niðurgreiðslnanna, sem renna til meðalverkamannafjölskyldu, og kaupskerðingin um 10 vísitölustig.

Ef til vill hafa fleiri, en verkamenn, áhuga á því að heyra, hvernig umhorfs verður í buddunni þeirra eftir 1. marz, og skal ég nefna hér nokkur dæmi.

Það er bezt að byrja á múrurunum. Þeir vinna nú að vísu ekki mikið eftir tímavinnutaxtanum, en ef þeir gera það, þá er tímakaup múrara nú kr. 28,28, en það fer niður í kr. 24,50, og lækkar þannig um kr. 3,78. Mér er ekki alveg ljóst, hvort uppmælingartaxtar múraranna lækka, því að mér virðist, að í 10. gr. séu múrarar ekki taldir með málurum og saumakonum og þess konar fólki, sem þar á að koma undir lækkanir. En það getur vel verið, að þetta sé misskilningur, því að það er svo margt óljóst í þessu frv. Það hefur þá a.m.k. farið fram hjá mér, ef ákvæðisvinna múrara er þar skert. Það væri náttúrlega til bóta, ef eitthvað hefði sloppið við niðurskurð á kaupgjaldi.

Tímakaup trésmiða er í dagvinnu nú kr. 27,49. Það á að fara niður í kr. 23,82, eða lækka um kr. 3,67.

Vikukaup bifvélavirkja, blikksmiða, járnsmiða og rafvirkja, en allar þessar iðnstéttir hafa jafnhátt kaup, lækkar úr kr. 1.343,30 vikukaupið þeirra — í kr. 1.163,75. Þannig lækkar vikukaup þeirra um kr. 179,55. Menn geta svo sjálfir reiknað út, hvað mánaðarkaupið þeirra kemur þar til með að lækka og svo árskaup þeirra, ef þeir vilja það viðhafa.

Tímakaup verkakvenna, — ég hef áður minnzt á, hvað tímakaup verkamanna lækkar, — tímakaup verkakvenna í almennri dagvinnu lækkar úr kr. 18,62 í kr. 16,13, eða um kr. 2,49, og tímakaup verkakvenna við hreingerningar lækkar úr kr. 19,72 í kr. 17,08, eða um kr. 2,64 á klst.

4 þús. kr. mánaðarkaup lækkar um 535 kr., 5 þús. kr. mánaðarkaup lækkar um 668 kr., 6 þús. kr. mánaðarkaup lækkar um 802 kr., og 7 þús. kr. mánaðarkaup lækkar um 936 kr.

Teknamegin fá svo þessar stéttir allar þá kjarabót, sem felst í niðurgreiðslunni, en fyrir henni gerði ég grein áðan, miðað við meðalfjölskyldu eða vísitölufjölskylduna, sem er milli fjögurra og fimm manna fjölskylda.

2. og 3. gr. þessa frv. fela í sér óljós ákvæði um lækkun á húsaleigu. Mér fyndist mjög æskilegt að heyra nánar um það, hvað húsaleigan muni raunverulega lækka hjá almennum leigjendum, því að það er tilfinnanlegur og hár útgjaldaliður hjá mörgum, ekki sízt efnaminnsta fólkinu, sem hefur ekki getað eignazt þak yfir höfuðið. Ég vænti þess að fá einhverjar nánari upplýsingar um það, hvað húsaleiga muni lækka mikið í raunveruleikanum við samþykkt þessa frv. Ég hygg þó, að það sé sannast mála, að hæstv. ríkisstj. viti vel, að þetta verður að mestu dauður bókstafur almenningi til lítils eða einskis hagnaðar, ef til vill ríkissjóði til einhverrar niðurfærslu á leiguhúsnæði, en almenningi sennilega ekki. Og mundi þess vegna þetta ákvæði vera aðallega komið þarna inn til þess að hafa áhrif á vísitöluna til lækkunar og þar með til lækkunar kaupgjalds, en þó að mestu leyti til þess að sýnast, til þess að láta líta svo út sem húsaleiga eigi að lækka og vekja vonir um það.

Það er að mínu áliti heldur til bóta að taka upp nýjan vísitölugrundvöll, sem meira sé í samræmi við neyzluvenjur fólks með meðaltekjur, heldur en sá vísitölugrundvöllur, sem verið hefur í gildi allt síðan 1939. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að þetta mundi sennilega hafa verið gert fljótlega, þó að þessi lagasetning hefði ekki komið til.

Þá virðist heldur ekkert vera á móti því, að vísitölumælirinn sé stilltur á 0 þann 1. marz 1959, eins og ráð er fyrir gert í 5 gr. frv., en þá skulu grunnlaun og verðlagsuppbót lögð saman og höfð til viðmiðunar upp frá því sem grunntalan 100.

Hins vegar verður ekki annað séð en ákvæði 6. gr. séu öll við það miðuð að setja ríkisstj. það algerlega í sjálfvald að hafa allt kaupgjald og allar greiðslur, sem vísitölu fylgja, miðaðar við 175 stig. Má því segja, að það felist í þessu frv. ríkisstj., að allt kaupgjald skuli bundið við vísitöluna 175 stig frá og með 1. febr. og til 1. sept. í haust, eða í fulla 7 mánuði. Ef þetta er misskilningur, þá leiðréttist það áreiðanlega hér síðar í umr., en þetta virðist mér ótvírætt vera svo. Mér sýnist allar leiðir vera til þess að halda öllu kaupgjaldi bundnu við 175 stig fram til 1. sept. í haust.

7. og 8. gr. frv. fjalla um lækkun á verði landbúnaðarafurða vegna lækkunar á launum bónda og verkafólks hans úr 185 stigum í 175 stig. Það er tekið fram, að þessi lækkun eigi einnig að ná til verðs á eggjum. Mér fyndist mjög æskilegt, ef hæstv. forsrh. eða einhver úr hans liði gæti í umr. síðar gefið einhverjar upplýsingar um, hversu miklar þessar verðlækkanir verða á helztu framleiðsluvörum landbúnaðarins.

Sú breyting vekur athygli, sem felst í 8. gr., en það er, að framleiðsluráði landbúnaðarins er þar heimilað að hækka afurðaverð til bænda fjórum sinnum á ári í samræmi við hækkanir kaupgjaldsvísitölu. Hingað til hefur þetta aðeins gerzt einu sinni á ári. Þessar hækkanir eru þó bundnar því skilyrði, að hækkun hafi numið a.m.k. 5 stigum á þrem mánuðum. Sams konar ákvæði gilda, ef lækkun verður á kaupgjaldsvísitölu.

Þá er á sama hátt farið þannig að, þ.e.a.s. farið inn á þessa sömu braut að vísitölubinda fiskverð og bótagreiðslur allar til útvegsmanna, og er ég hjartanlega sammála hv. 2. þm. S-M., sem sýndi fram á, að á þessu mundu verða stórgallar í framkvæmd að því er snertir sjávarútveginn. En ég er sannfærður um, að þessi sífelldi breytileiki verðlags, sem vísitöluáhrifin valda, muni ekki þykja auka stöðugleik eða öryggi landbúnaðarins, a.m.k. ekki, ef vísitöluþróunin væri í áttina niður á við, en með því er ef til vill alls ekki reiknað. Ég held, að þetta sé vanhugsað, bæði að því er snertir landbúnað og sjávarútveg og að ráðlegast væri að hverfa frá því sem bráðast, ef það þykir þá enn þá vera tiltækilegt.

Þó að meginefni þessa frv. sé fram sett á þann hátt að gera það einmitt í einstökum atriðum sem torskildast, þá hefur upphaf 9. gr. frv. þann mikla kost, að þar er vafningalaust játað, að frá og með 1. febr. n.k. skuli skiptaverð á fiski til bátasjómanna lækka í sama hlutfalli og nemur lækkun kaupgreiðsluvísitölu úr 185 stigum í 175 stig. Hin sama lækkun skal gilda um fiskverð það, sem aflaverðlaun togarasjómanna miðast við. Hins vegar skal samkv. sömu gr. umsamin kauptrygging bátasjómanna miðast við vísitöluna 185 og sýnist mér í fljótu bragði, að svo geti farið, að þessi mismunandi ákvæði geti valdið óánægju, a.m.k. hjá togarasjómönnum, sem eiga eingöngu að vera háðir vísitölu með sitt hlutskipti, en hlutatryggingin hjá bátasjómönnum að standa föst og óbreytileg, þó að vísitalan fari niður á við.

Í sambandi við þetta, verður ekki komizt hjá að rifja upp, hversu óhöndulega tókst til af hendi hæstv. ríkisstj. í samningunum við sjómenn, um fiskverðið, að þessu sinni. Þann 3. jan. s.l. var svo komið, að samningur var undirritaður með fyrirvara af öllum aðilum. Ég er hér með þann samning, eins og hann þá leit út og var þá gert ráð fyrir, að fiskverð hækkaði úr kr. 1,55, miðað við þorsk slægðan með haus, í kr. 1,75 kg., þ.e.a.s. um 20 aura. Samningamenn sjómanna höfðu frá upphafi tekið það fram í samningaviðræðunum, að þeir teldu ekki ómaksins vert að standa upp frá þessu samningaborði, ef það væri yfirvofandi, að þessi umsamda verðhækkun á fiskinum yrði svo gerð að litlu eða engu, kannske eftir örfáa daga, með hinum boðuðu efnahagsmálaaðgerðum ríkisstj. Þegar kom að því að undirrita samninga, var því svo hljóðandi yfirlýsing látin fylgja samningunum og undirrituð af báðum aðilum, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir hönd sjómannasamtakanna innan Alþýðusambands Íslands að áskildu samþykki félagsfunda og að eftirfarandi yfirlýsing fáist frá ríkisstj. Íslands: Ef samningar takast á milli Landssambands íslenzkra útvegsmanna og sjómannasamtakanna um fiskverð og kauptryggingu á þessu ári, þá er ríkisstj. því samþykk, að ef vísitalan breytist frá 185 stigum, skuli fiskverð hækka eða lækka í hlutfalli við þá breytingu. Enn fremur samþykki ríkisstj., að í fyrirhugaðri lagasetningu um efnahagsmálin muni hún leggja til, að kjör sjómanna skv. samningi þessum skuli ekki skert.

Jón Sigurðsson, Snorri Jónsson, Tryggvi Helgason, Elnar Jónsson, Sigurður Stefánsson, Ólafur Björnsson.

Samþykkir ofanritaðri yfirlýsingu að áskildu samþykki ríkisstj.

Gunnlaugur E. Briem, Pétur Pétursson, Haraldur Jóhannsson.

Fyrir hönd Landssambands íslenzkra útvegsmanna, að áskildu samþykki aðalfundar L.Í.Ú.

Sverrir Júlíusson, Jóhann Sigfússon, Sigurður H. Egilsson, Valtýr Þorsteinsson, Hafsteinn Baldvinsson og Baldur Guðmundsson.“

Þarna töldu samningamenn sjómanna, að þeir hefðu fengið með niðurlagi þessarar yfirlýsingar, — sem ég hef fyrir satt að hafi verið af Gunnlaugi Briem ráðuneytisstjóra borin undir forsrh. um nóttina og hafi umboðsmenn ríkisstj. þá fyrst skrifað undir yfirlýsinguna með þeim ummælum, að þeir teldu alveg öruggt, að við þessa yfirlýsingu yrði staðið, þar sem forsrh. væri orðalag hennar kunnugt, hann hefði ekkert við hana að athuga og þetta væri ríkisstj. eins flokks, þetta gæti því ekki breytzt, — þar með töldu sjómannasamningamennirnir sig hafa tryggt, að þessi kjör yrðu ekki rýrð með neinum ákvæðum í boðaðri löggjöf um efnahagsmálin og þannig stóðu þeir upp frá samningaborðinu.

En blekið var naumast þornað á þessari yfirlýsingu, þegar ríkisstj. ómerkti undirskrift sinna eigin samningamanna, lýsti því yfir, að hún væri ekki skuldbindingunni samþykk. Nokkru síðar breytti hún þó afstöðu sinni á þann veg, að hún vildi standa við skuldbindingu samningamanna sinna með þeim skilningi, að fiskverðið færi upp og niður með vísitölu, en tryggingarupphæð væri fastákveðin miðuð við vísitöluna 185. Samkvæmt þessum skilningi ríkisstj. hefur fiskverð nú í janúar farið upp í kr. 1.91 fyrir slægðan þorsk með haus, var umsamið þarna kr. 1.75 á kg, en fer a.m.k. niður í kr. 1.66 úr kr. 1.91, þar sem það á að lækka um 9 aura við 10 stiga niðurfærslu. Þannig verða þeir 20 aurar, sem menn töldu og búið var að boða í málgagni forsrh., Alþýðublaðinu, að fiskverð hækkaði um, með nærri því eins stóru letri og fagnaðarboðskapurinn, sem birtur var í gær, það verður nú með þessu 9 aurar.

Þegar ríkisstj. hafði tilkynnt samningamönnum sjómanna, með hvaða skilningi hún vildi standa við yfirlýsingu þá, sem fulltrúar ríkisstj. höfðu undirritað, rituðu 3 af fulltrúum sjómannasamtakanna úr samninganefndinni sjútvmrh. bréf, þar sem skýrt er frá málavöxtum og þeirra afstöðu og þar sem bréfið skýrir einmitt, hvernig málsatvik þá stóðu, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þetta bréf upp:

„Móttókum í gærdag heiðrað bréf yðar, dags. 5. þ.m. Á fundi samninganefndar sjómannasamtakanna, sem haldinn var einni klst. eftir að bréfið barst, kom það fram, að 3 af 5 nefndarmönnum, sem mættir voru, teldu sig ekki geta samþykkt þann skilning, sem ríkisstj. lætur í ljós í bréfi sínu á yfirlýsingu þeirri, er fulltrúar sjómanna gerðu að skilyrði fyrir því, að þeir undirrituðu samkomulag við Landssamband íslenzkra útvegsmanna um fiskverð o.fl., og teldu sig því óbundna af nefndu samkomulagi við útgerðarmenn. Einn nefndarmannanna, Jón Sigurðsson, taldi skilning ríkisstj. fullnægjandi fyrir sig. Í þessu sambandi viljum vér taka það skýrt fram, að meiri hluti samninganefndar sjómannasamtakanna tilkynnti þeim fulltrúum ríkisstj., sem voru við samningana, strax í byrjun samningsumleitana og endurtók það margsinnis síðar, að vegna nýgefinna yfirlýsinga stjórnmálaflokka og síðar stjórnarvalda varðandi fyrirhugaða löggjöf um efnahagsmál gæti hún ekki gengið frá þessum samningum, nema fyrir lægi trygging um það, að ríkisstj. mundi ekki leggja til, að kjör samkvæmt samningunum yrðu skert með hinni boðuðu löggjöf um efnahagsmálin. Á nefndum fundi samninganefndar sjómanna í gær kom fram sú málamiðlunartill. frá okkur undirrituðum, er vér báðum Jón Sigurðsson að koma á framfæri við forsrh., að leitað væri samninga um að fella niður ákvæðið um vísitöluuppbót á fiskverð og það ákveðið fast kr. 1.75, miðað við slægðan þorsk með haus, og annað verð hlutfallslega, gegn því, að ríkisstj. tryggði, að það yrði ekki lækkað með lögum.

Reykjavík, 7. jan. 1959.

Sigurður Stefánsson, Snorri Jónsson, Tryggvi Helgason.“

Svo fór, að þar sem sjómannafélögin fengu vitneskju um, hvernig málin stæðu, vildu þau yfirleitt ekki samþ. fiskverðssamningana, nema tryggt væri, að fiskverðið yrði ekki lækkað úr kr. 1.75. Var samningurinn miðaður við skilning ríkisstj. ræddur og borinn undir atkv. á sjómannafélagsfundum eða sjómannafundum og felldur í Reykjavík, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og víðar við mikinn atkvæðamun. Í Vestmannaeyjum kom síðan til verkfalls, sem lauk eftir einn dag á þann veg, að sjómönnum þar var tryggð kjarabót, sem jafngildir 8–10 aurum í fiskverði miðað við meðalafla báts. Hafa sjómenn í Vestmannaeyjum þannig fyrir fram ónýtt þá kjaraskerðingu, sem til þeirra átti að ná eins og annarra bátasjómanna samkv. þessu frv. ríkisstj. Alþýðuflokksins og er það vel farið. Eftir er svo að vita, hversu ánægðir bátasjómenn verða annars staðar á landinu með að búa við fiskverðið kr. 1.66, samanborið við þau kjör, sem Vestmannaeyjasjómenn hafa nú tryggt sér. Gæti ég hugsað mér, að það hefði verið allt eins affarasælt fyrir hæstv. ríkisstj. að binda fiskverðið fast út þessa vertíð við kr. 1.75 og losna við þann úlfaþyt, sem af þessu hefur þegar sprottið og vafalaust þá óánægjuöldu, sem af þessu á eftir að rísa. Það var óumdeilanlegt, að það var full ástæða til þess, eins og sakir stóðu, að bæta kjör sjómanna meira en annarra, láta þá verða síður fyrir skerðingarákvæðum þessarar efnahagsmálalöggjafar heldur en aðra, þar sem okkur skortir sjómenn og þurftum að örva það, að íslenzkir sjómenn fengjust á flotann, svo að við kæmumst hjá því vandræðaúrræði að þurfa að flytja inn erlent verkafólk, ef það verður þá fáanlegt.

Ég sem sé geng út frá því, að brúnin kunni að síga á ýmsum hlutarsjómönnum, þegar fiskverðshækkunin úr kr. 1.91 og niður í kr. 1.66 er komin til framkvæmda og þeir horfast í augu við hana sem staðreynd. Hvað ætli þeir segi þá um stóra letrið um kjarabótina, sem þessi löggjöf sé að tryggja verkalýð landsins?

Ákvæði 10. gr. frv. um verðlækkanir á hvers konar vörum og þjónustu sýnast mér vera heldur lausleg og haldlítil og hef litla trú á, að þau verði ekki sniðgengin, svo að minna verði úr verðlækkunum, en nú er látið í veðri vaka. Ég sé ekki, að þarna séu nein ákvæði um það, að álagning skuli prósentvís lækka, hvorki hjá heildsölum né smásölum og yfirleitt mjög lauslega tekið á þessari hlið málsins, og mundi það ekki sízt falla vel í geð stuðningsflokki stjórnarinnar, Sjálfstfl.

Ég og sjálfsagt margir fleiri, utan þings og innan, mundu vafalaust vera þakklátir aðstandendum frv., íhaldsmönnum og Alþýðuflokksmönnum, ef þeir gætu gefið öruggar upplýsingar um verðlækkanir á einhverjum ákveðnum vörum eða þjónustu, sem núna sé vitað um að lækki og þá hve mikið, en ef til vill er engra svara von við þessu. En það staðfestir þá aðeins þetta, að kauplækkanirnar skv. frv. eru óyggjandi staðreyndir, en verðlækkanirnar eru vonarpeningur.

Byrjunin er ekki góð. Það sló t.d. ýmsa ónotalega í gær, sama daginn og verðlækkunarfrv. kom fram, að þá var auglýst áberandi, að þjónusta ríkisútvarpsins skyldi hækka í verði, ekki lækka, hækka í verði um 50%. Mér dettur í hug, að það mun þó vera öruggt, að vinnulaunakostnaður bankanna lækki eins og hjá öðrum fyrirtækjum við þessa lagasetningu, og væri því fróðlegt að fá svar við þeirri spurningu, hvort því sé slegið föstu, að bankavextir skuli vegna þessa sparnaðar í rekstri bankanna lækka, ef þetta frv. verður að lögum. Ef svo væri ekki, þá kemur það í ljós. Það eru kannske til einhverjar undantekningar frá því, að allt eigi að lækka vegna þess, að ráðstafanir eru gerðar til að draga úr vinnulaunakostnaði í landinu.

Af öðrum ræðumönnum í þessum umr. hefur rækilega verið sýnt fram á það, að fjárhagsgrundvöllur þessa frv. er allur í lausu lofti. Og þannig þykir mér líklegast, að einnig verði um framkvæmdina alla. Að frv. stendur, eins og kunnugt er, aðeins 8 manna þingflokkur. Líklegt er að vísu, að sá þingflokkur njóti stuðnings Sjálfstfl., sem lengstum hefur a.m.k. samkvæmt eðli sínu haft afstöðu sem atvinnurekendaflokkur og hamazt gegn öllum kaup- og kjarabótum verkalýðsins. Við vitum það ósköp vel, sem starfað höfum í verkalýðshreyfingunni, að það hefur jafnan verið við hann að eiga í kaupgjaldsbaráttunni, og skyldi enginn undrast það. Hann er að verja hagsmuni sinna umbjóðenda. Málgögn flokksins hafa verið málgögn atvinnurekenda í öllum þeim átökum fyrr og síðar nema kannske síðustu mánuði, þegar það þótti tilvinnandi að hafa uppi orðaskak um, að flokkurinn væri verkalýðsflokkur og kauphækkunarflokkur. Enginn getur því efazt um það, að þessi stuðningsflokkur ríkisstj., Sjálfstfl., muni standa fast með frv. til fyllstu kauplækkana, sem í því felast. En hitt er öllu óvissara, hversu heils hugar hann muni beita flokksafli sem flokkur kaupmanna og heildsala, því að það er hann líka, til þess að tryggja þær almennu verðlækkanir, sem látið er í veðri vaka að eigi að koma seinna. Launastéttirnar í landinu eru því svo sannarlega að kaupa köttinn í sekknum að því er snertir lækkun verðlags til móts við lækkað kaupgjald í landinu og sá köttur getur orðið dýr.

Verðlækkunarleiðin sem úrræði í efnahagsmálum hefur oft verið nefnd áður. En hennar veika hlið hefur alltaf þótt þetta, að óvíst væri, hvort hægt væri að koma verðlaginu niður á við í réttu hlutfalli við lækkun launa, sem verður alltaf byrjunaraðgerð, þegar henni er beitt. Ég hefði verið þeirrar skoðunar, að helzt kynni þetta að mega takast, ef að framkvæmdinni stæðu öll verkalýðssamtökin, öll launþegasamtökin í landinu og hagsmunasamtök bændastéttarinnar og pólitísk samtök bæði verkamanna og bænda. Ef þannig væri staðið að niðurfærsluleið sem aðgerð í efnahagsmálum, þá vil ég segja, að það væru nokkrar vonir um, að framkvæmdin kynni að takast svikalaust og vonbrigðalaust fyrir launastéttir landsins. En ég hef litla trú á því, eins og nú er stofnað til málsins.

Þessari ríkisstj., sem naumast hefur nokkra fótfestu á fastri jörð, heldur stendur á svörtu ský, og þetta svarta ský er Sjálfstfl., henni treysti ég a.m.k. ekki til þess að færa niður allt verðlag í landinu, svo að launastéttirnar verði skaðlausar af. Segjum, að ríkisstj. kynni kannske ekki að vanta viljann til að gera þetta, en ég sé ekki annað, en það sé augljóst mál, að hana vanti til þess getuna, og það er ekki minna um vert, því að „góð meining enga gerir stoð“.

Það er vitanlega hin mesta fjarstæða að fullyrða, eins og gert hefur verið í blöðum stjórnarstuðningsflokkanna, Sjálfstfl. og Alþfl., að allir þeir, sem ekki vilji styðja að samþykkt þessa frv. og ekki treysta framkvæmdinni á því í höndum þeirra aðila, sem með það fara, vilji láta verðbólguna halda áfram óhefta og þjóta upp úr öllu valdi. Slíkar fullyrðingar stangast algerlega við allar staðreyndir. Ég get í því efni bæði vitnað til samþykkta Alþb., sem hv. 2. þm. S-M. gerði hér grein fyrir í sinni ágætu ræðu í gærkvöld, og til samþykkta seinasta Alþýðusambandsþings í lok nóv. s.l., en að þeirri samþykkt stóðu fulltrúar bæði Alþfl. og Alþb., framsóknarmenn og,að ég hygg, einnig nokkrir sjálfstæðismenn. Í þeirri samþykkt var lögð rík áherzla á það, að verkalýðshreyfingin legði áherzlu á, að vandi efnahagsmálanna yrði bezt leystur með sem nánustu samstarfi verkalýðssamtaka og ríkisvalds.

Næst var yfirlýsing um það, að verkalýðssamtökin viðurkenndu, að stöðvun vísitölunnar í 185 stigum væri nauðsyn. Mig minnir, að á þingi Alþfl. nokkrum dögum síðar væri einnig lýst yfir, að Alþfl. gæti sætt sig við niðurfærslu vísitölu í 185 stig, „að höfðu samráði við verkalýðssamtökin“, stóð þar.

Alþýðusambandsþingið lýsti yfir, að höfuðáherzlu yrði, að þess dómi, að leggja á tryggingu fullrar atvinnu og aukningu útflutningsframleiðslunnar. Var í þeirri samþykkt krafizt sparnaðar í ríkisrekstrinum og að dregið yrði úr fjárfestingu og greiðsluafgangi ríkissjóðs yrði síðan að nokkru leyti varið til niðurgreiðslna. Þessa stefnu markaði Alþýðusambandsþing. Og á þessum grundvelli værum við, sem fylgjum Alþb., reiðubúnir til að standa að lausn þessa máls, enda væri öll framkvæmdin miðuð við samstarf launþegasamtakanna í landinu, bændasamtakanna í landinu og pólitískra samtaka verkalýðs og bænda. Án þess höfum við enga trú á framkvæmd málsins svikalausri.

Alþýðusambandsþingið lagði áherzlu á það, að fjár til niðurgreiðslnanna yrði að afla þannig, að ekki hlytist af rýrnun á kaupmætti launa og benti á í því sambandi, að fjár til niðurgreiðslnanna mætti ekki afla með nýjum sköttum, sem verkalýðsstéttunum væri síðan ætlað að bera að meira eða minna leyti. Og hvernig taldi þingið að þetta væri hægt? Það benti á, að þetta væri hægt með niðurskurði á fjárl. Hér hefur Alþfl. lýst yfir, að hann vilji niðurskurð á fjárl. Það fékkst hins vegar ekki yfirlýsing um það frá talsmanni Sjálfstfl. hér í gærkvöld, að búið væri að tryggja það, að Sjálfstfl. fylgdi 40 millj. kr. niðurskurði á fjárl. Ef það samþykki fæst ekki, þá er sú von búin hjá Alþfl, með þá leiðina til þess að leysa fjárhagshlið málsins.

Alþýðusambandsþingið mælti með frestun á ýmsum framkvæmdum, sem hefðu minni þýðingu í rekstri þjóðarbúsins, draga úr fjárfestingarútgjöldum í bili og láta þann samdrátt koma niður á minna þýðingarmiklum fjárfestingarframkvæmdum: Það lýsti sig samþykkt því, að tekinn væri hluti af greiðsluafgangi ríkissjóðs, sem þá var vitað um að yrði nokkur, til þess að standa undir þessum aðgerðum og enn fremur, að auknar væru tekjur af einkasölum, áfengiseinkasölu og tóbakseinkasölu og sérstaklega bent á, að ástæða væri til að taka upp einkasölu á olíum sem tekjustofn. E.t.v. eru einhverjir möguleikar til þess.

Nú er þannig að málinu farið, að Alþfl. ætlar sér að skera niður vísitöluna, ekki í 185 stig, eins og samþykkt var á Alþýðuflokksþingi og Alþýðusambandsþingi, heldur niður í 175 stig og mismunurinn liggur í því, að Alþfl. færist það í fang að skera í burt bótalaust fyrir launastéttir landsins 10 vísitölustig. Það var sannarlega ekki með, hvorki í flokkssamþykkt Alþfl. né Alþýðusambandsins. Og þetta er ákveðið og allt frv. samið án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna. Þess hefði ég sízt vænzt frá ríkisstj. Alþfl.

Eftir því sem ég bezt veit, bar málið þannig að, að þegar frv. var búið að fá á sig nokkurn veginn endanlegt form, þá var það borið undir nefnd í Sjálfstfl., og á föstudag í fyrri viku mun það hafa verið komið til Sjálfstfl. til umsagnar og athugunar. Á laugardag fyrir hádegi var það borið undir fulltrúa bændasamtakanna. Á laugardag kl. hálffimm var það síðan borið undir fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandinu; Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Iðnnemasambandinu, Sambandi bankamanna og Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna. Og fyrst á sunnudag fékk Alþýðusambandsstjórnin frv. sjálft til athugunar, en þá var gerður samningur við Landssamband íslenzkra útvegsmanna, einmitt á þeim sama sólarhring, um það, hvaða bætur skyldu greiddar sjávarútveginum og að öllu leyti sleginn botninn í frv. og ákveðið, hvernig það endanlega skyldi verða, áður en svar hafði borizt frá þeim samtökum, sem rætt hafði verið við á laugardaginn síðdegis. Þannig er það augljóst mál, að við verkalýðshreyfinguna, við launþegasamtökin í landinu var ekkert samráð haft í sambandi við þær leiðir, sem farnar skyldu til lausnar efnahagsmálunum af ríkisstj. Alþfl. Þar voru aðrir kvaddir til, sem meira þykir nú á velta, heldur en á verkalýðshreyfingunni.

Ég undirstrika það alveg sérstaklega, að kauplækkanirnar í þessu frv. eru ekki það versta að dómi verkalýðssamtakanna og launþegastéttanna í landinu. Kauplækkanirnar sjálfar eru ekki það versta við þetta frv. Það er annað, sem er verra. Í þessu frv. felst árás á samningafrelsi verkalýðsstéttarinnar, alþýðusamtakanna, og það kemur úr hörðustu átt, finnst okkur, að til þess að ráðast á þann helga rétt skyldi verða ríkisstj. Alþfl. Þegar málið var borið undir miðstjórn Alþýðusambandsins, þá er það þess vegna fyrst og fremst þetta atriði, að samningafrelsi verkalýðsfélaganna er nú skert í fyrsta sinn og það færzt í fang af verkalýðsflokki að lögfesta kauplækkun, ákveða kauplækkun með lögum og gera þetta allt saman án samráðs við verkalýðssamtökin.

Enn fremur lítur miðstjórn Alþýðusambandsins svo á, að það sé mjög misskipt gæðunum, þegar í senn á að skerða samningafrelsi samtakanna og lækka kaupgjaldið með lögum, að þá séu tugir milljóna samtímis teknir af almannafé og látnir renna til nokkurra atvinnurekenda eða nokkurra tuga atvinnurekenda í sjávarútvegi umfram þann hagnað, sem þessum sömu aðilum er tryggður við framkvæmd sjálfrar kauplækkunarinnar. Nú er upplýst af hæstv. forsrh., að þessi upphæð, sem rétt er atvinnurekendunum í útgerðarmannastétt, sé 77 millj. kr. umfram það, sem þeim hafði áður verið veitt og virtist benda til þess, að þeir hefðu þá fengið góðan hlut.

Miðstjórn Alþýðusambandsins bendir líka á það í sinni yfirlýsingu, að það skipti nokkru máli, hvaðan það fé verði tekið, hvort það verði t.d. tekið af launastéttunum að meira eða minna leyti, sem aflað verði til þess að standa straum af niðurgreiðslum og öðrum útgjöldum í sambandi við aðgerðir þessa lagafrv. Um það liggur ekkert fyrir enn að öðru leyti en því, sem vitnað hefur verið til greiðsluafgangs ríkissjóðs á s.l. ári og að það mætti glenna dálítið tekjuhlið fjárlaganna, ja, ekki neitt smávegis, heldur upp á 83 millj. kr., og þannig eigi að bjarga þessu öllu saman. Það er raunar lítið trúlegt, að þetta verði hægt, og þá er vitað, að það verður að koma til einhver fjáröflun og þykir okkur illt að vita ekki, þegar við eigum að taka afstöðu til málsins, hvaðan þess fjár skuli aflað.

Þá víkjum við aftur að því í okkar ályktun, að þetta frv. brjóti í bága við samþykktir Alþýðusambandsþings og stefni að stórfelldri kjaraskerðingu.

Hæstv. forsrh. las hér í gær samþykkt þá, sem Alþýðusambandið gerði á fundi sínum 18. þ.m. og sendi hæstv. forsrh. þá þegar. Með því að góð vísa er aldrei of oft kveði, og viðhorf alþýðusamtakanna til þessa máls er ekki þýðingarlaus hlutur, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa yfirlýsingu aftur. Hún er svo hljóðandi:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fékk í gær, sunnudag 18. jan., til umsagnar frv. ríkisstj. í efnahagsmálum og vill út af því taka eftirfarandi fram:

1) Þessar ráðstafanir hafa verið ákveðnar af ríkisstj. án nokkurs samráðs við verkalýðssamtökin, sem m.a. sést af því, að nú þegar hefur verið lokið endanlegu samkomulagi við Landssamband íslenzkra útvegsmanna um aukna aðstoð við útgerðina á þeim grundvelli, að frv. verði lögfest.

2) Með frv., ef að lögum yrði, er gert ráð fyrir því að breyta löglega gerðum kjarasamningum stéttarfélaganna stórlega til lækkunar og ákveða þannig kauplækkun með lögum. Getur verkalýðshreyfingin ekki látið það undir höfuð leggjast að mótmæla slíku harðlega.

3) Samið hefur verið við atvinnurekendur í sjávarútvegi um tugmilljóna auknar bætur af opinberu fé umfram það, sem felst þeim til hagsbóta í kauplækkuninni.

4) Engin trygging er fyrir því, að fjár til þessara ráðstafana og niðurgreiðslna verði ekki aflað með nýjum álögum á almenning síðar á árinu.

5) Miðstjórnin telur, að aðgerðir þessar brjóti í meginatriðum í bága við stefnu þá, sem nýlokið Alþýðusambandsþing markaði í efnahagsmálum, þar sem með henni er í senn gengið á samningsrétt verkalýðsfélaganna og stefnt að stórfelldri kjaraskerðingu.

Með vísun til framanritaðs varar miðstjórn Alþýðusambands Íslands alvarlega við samþykkt frv. og bendir sérstaklega á þá hættu, sem í því felst að ætla að afgreiða aðgerðir í efnahagsmálunum án eðlilegs samráðs og samstarfs við launþegasamtökin í landinu.

Jafnframt lýsir miðstjórnin yfir því, að hún er reiðubúin til viðræðna við ríkisstj. um aðgerðir verðbólgunni til stöðvunar á grundvelli þeirrar samþykktar, sem þing Alþýðusambandsins í lok nóv. s.l. gerði í þeim efnum.“

Á þennan hátt er túlkuð í stuttu máli afstaða Alþýðusambandsins, sem þegar er farin að fá undirtektir hjá verkalýðssamtökum úti um land, á þann veg, að þau eru á þeirri skoðun, að gjalda beri varhuga við að lögfesta þetta frv.

Það er rétt, sem hæstv. forsrh. tók fram, að þessi samþykkt er gerð af meiri hl. miðstjórnar Alþýðusambandsins, en sérstaka till. báru fram fjórir miðstjórnarmenn, Alþýðuflokksmennirnir í miðstjórninni og kom sú till., sem þeir báru fram, ekki til atkvæða, en þetta er ályktun Alþýðusambands-miðstjórnarinnar, sem gerði þessa ályktun á fundi sínum þann 18. jan.

Mig minnir, að það væri hv. 1. þm. S-M., sem vék að því í gær í umr., að það væri stundum þannig, að menn skiptu um skoðun á skömmum tíma og það verð ég að segja, því miður, að þeir menn, sem á Alþýðusambandsþingi stóðu að þeirri efnahagsmálasamþykkt, sem þar var gerð, hafa verið fljótir að skipta um skoðun, þegar þeir geta mælt með kjaraskerðingu og skerðingu á samningafrelsi verkalýðsfélaga, eins og óneitanlega felst í þessu frv. Ég tók hér með mér einn vitnisburð enn um einmitt þetta atriði, en það er bréf frá Múrarafélagi Reykjavíkur, sem lesið var upp á fyrsta þingfundi síðasta Alþýðusambandsþings, enda var bréfið stílað til forseta 26. þings Alþýðusambands Íslands. Bréfið er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi Múrarafélags Reykjavíkur 25. nóv. 1958 var samþykkt eftirfarandi tillaga:

Fundur í Múrarafélagi Reykjavíkur 25. nóv. 1958 felur fulltrúum sínum á Alþýðusambandsþingi að beita sér gegn vísitöluskerðingu og öðrum þeim kjaraskerðingum, sem kunna að felast í efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstjórnarinnar, ef lagðar verða fyrir Alþýðusambandsþing það, er nú situr.

Jafnframt treystir fundurinn því, að Alþýðusambandsþing afgreiði engin þau mál, sem skerða samninga sambandsfélaganna, án samþykkis félagsfunda.

F. h. Múrarafélags Reykjavíkur.

Ásmundur J. Jóhannsson, ritari félagsins.“ En einn af fulltrúum þessa virðulega félags, sem var bundinn af þessari samþykkt á Alþýðusambandsþingi í lok nóv., var hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ), sem nú á einnig sæti í miðstjórn Alþýðusambandsins og mælti þar bæði með skerðingu á samningafrelsi verkalýðsfélaga og kaupskerðingu með niðurskurði vísitölu, ekki aðeins niður í 185 stig, eins og hafði verið fallizt á, á þingi Alþýðuflokksins, heldur niður í 175 stig og þar með í viðbót 10 stiga niðurfellingu bótalaust. Svona er afstaðan fljót að breytast stundum. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. S-M. sagði um það.

Ég vil að lokum segja þetta, að ég tel það harmsögu, átakanlega harmsögu, að sá einstæði atburður skuli hafa gerzt, að verkalýðsflokkur skuli hafa tekið að sér það hlutverk með stuðningi pólitískra samtaka atvinnurekenda í landinu að bera fram á Alþingi Íslendinga frv. til laga, sem brýtur niður samningafrelsi stéttarfélaganna og miðar að lögbindingu á kauplækkun, stórfelldri kauplækkun. Í þessum harmleik og löngu eftir að hann verður af sviðinu mun íslenzk alþýða ekki gleyma, hver þar fór með hlutverk Ketils, og því síður mun alþýðan gleyma þeim, sem fór með hlutverk Skugga-Sveins að baki Katli í þeirri aðför, sem nú er gerð að launþegastéttum Íslands.