17.12.1958
Sameinað þing: 16. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (1933)

64. mál, þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 113 um upplýsingar um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að koma á fót starfsemi, sem miði að því, að jafnan séu tiltækar sem gleggstar og nýjastar upplýsingar um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk.“

Eins og kunnugt er, fer fjölbreytni í störfum þessa þjóðfélags stöðugt vaxandi. Tæknin léttir störfin, en gerir samt meiri kröfur til sérmenntunar fólksins, sem við þau fæst.

Þegar ungt fólk velur sér og býr sig undir verkefni í lífinu, veitir einhvers konar sérnám því aðstöðu til að taka að sér tiltekin störf, sem sérkunnáttu krefjast. Veigamikill þáttur í þessu vali er að sjálfsögðu vitneskja um það, hver þörf er fyrir sérkunnáttu í hverri starfsgrein, og koma þá til greina áhugi hvers og eins og hæfni, atvinnusjónarmið og þjóðhollusta.

Árið 1946 safnaði stjórnskipuð nefnd upplýsingum um þessi efni og gerði á því athuganir. Á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa miklar breyt. orðið á atvinnuháttum og nýjar vísindauppgötvanir verið teknar í þjónustu atvinnuveganna.

Það er nauðsynlegt á okkar landi, þar sem mikillar uppbyggingar er þörf í atvinnulífinu, að fylgjast vel með í þessum efnum og hagnýta nýja þekkingu og vísindi til framleiðslu verðmæta. Þess vegna væri mjög hagkvæmt að hafa tiltækar nýjar upplýsingar um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk frá ári til árs. Slíkri söfnun upplýsinga yrði sennilega einfaldast fyrir komið með samvinnu milli fulltrúa hinna ýmsu atvinnuvega. Hér mætti hugsa sér, að stofnanir, sem fá að staðaldri skýrslur og vitneskju um hag landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar og verzlunar, fengju gögn um þetta, um leið og aðrar skýrslur væru til þeirra gefnar.

Þetta ætti ekki að vera mikil fyrirhöfn, ef skilningur er fyrir hendi hjá þeim, sem upplýsingarnar gefa, þannig að söfnun þeirra gangi greiðlega. Slíkt ætti að takast, þar sem hér er um beggja hag að ræða, þeirra, sem atvinnunareka, og hinna, sem hana stunda án þess beinlínis að reka hana. Síðan væri unnið úr þessum skýrslum á einum stað, sem aðstöðu hefði til slíkra starfa. Í grg. er bent á Iðnaðarmálastofnun Íslands sem hugsanlegan aðila, en það má vel vera, að n. sú, sem málið fær til athugunar, telji þessa starfsemi betur komna einhvers staðar annars staðar. En það er ekkert aðalatriði, heldur hitt, að þessum upplýsingum sé safnað, úr þeim unnið og unnt sé að ganga að þeim á einum stað fyrir ungt fólk eða aðra, sem áhuga kunna að hafa.

Ég ræddi þetta mál við framkvæmdastjóra Iðnaðarmálastofnunar Íslands, Svein Björnsson verkfræðing, og spurði m.a. um álit hans á því, hvort slíkt verk yrði með góðu móti unnið þar, og um kostnaðarhlið málsins. Hann sýndi málinu áhuga og skilning og taldi þetta vel framkvæmanlegt án mikils tilkostnaðar. Væri sjálfsagt rétt annars, að n., sem fær þetta mál til athugunar, fái um starfsemi þessa umsögn þeirra aðila, sem nú vinna að upplýsingasöfnun fyrir atvinnuvegina.

Er það álit mitt, að hér megi án mikils tilkostnaðar safna upplýsingum, sem geti orðið til hvors tveggja í senn að létta ungu fólki örlagaríkt og oft erfitt val, er það þarf að kjósa sér starfssvið, og til að tryggja, að jafnan sé völ hæfra manna til þjóðhollra starfa. Hér er ekki um stjórnmálalegt ágreiningsmál að ræða, og það er því von mín, að það fái góða og skjóta fyrirgreiðslu hv. Alþ.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti fresti málinu og vísi því til hv. allshn.