11.03.1959
Sameinað þing: 32. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (1935)

64. mál, þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. þessi miðar að því að tryggja, að safnað sé saman á einn stað upplýsingum um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk, í þeim tilgangi að nota þær upplýsingar og reyna að beina námsfólki inn í þær greinar, þar sem þörfin virðist mest.

Ég hygg, að ekki geti verið ágreiningur um, að vegna stóraukinnar þarfar þjóðarinnar fyrir sérmenntað fólk með allri þeirri nútímatækni, sem þjóðin tekur í sína þjónustu á hverju ári, sé nauðsynlegt að tryggja, að okkar unga námsfólk leggi fyrir sig þær greinar, sem þjóðin — og þá sérstaklega atvinnuvegirnir þarf mest á að halda. Ég hygg, að mönnum sé einnig ljóst, að það hefur lítið sem ekkert verið gert til þess að reyna að beina ungu fólki inn á þessar brautir. Árangurinn er sá, að við heyrum gagnrýnt, að það skuli vera veittir miklir opinberir styrkir til að hjálpa ungu fólki til að stunda ýmsar greinar, sem virðast hafa mjög lítið gildi, á meðan ýmsir aðrir námsmenn eiga tiltölulega erfitt uppdráttar með langt og dýrt nám, sem mikil þörf er fyrir.

Allshn. hefur rætt þessa till. og leitað um hana álits frá þremur aðilum, Fiskifélagi Íslands, Búnaðarfélagi Íslands og Iðnaðarmálastofnun Íslands, og mæla þessar stofnanir allar með samþykkt tillögunnar. Nefndin vill mæla með því, að þessi till. verði samþykkt, en tekur fram í áliti sínu, að hún samþykki till. með þeim skilningi, að ekki þurfi að setja upp neinar nýjar stofnanir til að framkvæma hana, heldur eigi að vera kleift að framkvæma þessa till. án þess. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hygg ég, að svo muni vera, það muni vera hægt að vinna þetta starf, án þess að nýjar stofnanir séu settar upp til þess. Allshn. mælir því með því, að þessi till. verði samþykkt.