11.03.1959
Sameinað þing: 32. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (1937)

64. mál, þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins með nokkrum orðum þakka hv. allshn. góða afgreiðslu á þessu máli og vil láta þess getið, að ég er algerlega sammála því, sem kemur fram í áliti n., að hér verði ekki sett beinlínis upp ný stofnun til þess að framkvæma það, sem um er rætt í þessari till., heldur geti stofnanir, sem nú eru þegar fyrir, annazt þetta verkefni.

Með framkvæmd þessarar tillögu verður ekki um bindingu að ræða á neinn hátt fyrir námsfólk eða fólk, sem er að leggja út á langa námsbraut, heldur yrði þetta aðeins leiðbeining, sem er mjög nauðsynleg, bæði fyrir það fólk, sem er að leggja út í sérnám, og svo fyrir þjóð okkar, sem fólkið ætlar sér að vinna fyrir. Svona rannsókn, eins og hér er farið fram á að gerð verði, hefur mikla þýðingu einnig varðandi samstarf þjóða í milli, eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan. Þar er bæði um að ræða upplýsingar til Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, einnig er mér kunnugt um, að Sameinuðu þjóðirnar vilja fá upplýsingar um þessi mál hjá hverju meðlimsríki. En mesta þýðingu hefur þó, að til séu síendurnýjaðar upplýsingar til notkunar og leiðbeiningar innanlands, sérstaklega fyrir það fólk, sem stendur andspænis þeirri þýðingarmiklu ákvörðun að velja sér verkefni í lífinu, þannig að það verði því sjálfu og þjóð þess til sem mestra heilla. Ég endurtek því þakkir mínar fyrir stuðning við þetta mál og vona, að hv. þm. vilji allir ljá því lið sitt.