05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (1943)

166. mál, landhelgismál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. Alþingi telji þetta mál, sem hér liggur fyrir, svo stórt og mikið, að það telji það enginn eftir sér, þó að hér fari fram nokkrar umræður, og vænti þess, að það megi afgreiða þetta mál hér í dag, þar sem full samstaða er ábyggilega um þetta mál, þó að hér fari fram nokkrar umræður.

Ég fagna því fyrir mitt leyti, að tekizt hefur hér samkomulag með öllum flokkum þingsins um að flytja þá till., sem hér liggur fyrir. Ég tel það samkomulag mjög mikilvægt, eins og ástatt er í deilu okkar Íslendinga nú við Breta. Ég tel kjarna þeirrar till., sem hér liggur fyrir, þann, að hér er því lýst yfir mjög afdráttarlaust, að Íslendingar muni halda fast við þá 12 mílna fiskveiðilandhelgi, sem þeir hafa lýst yfir, og að raunverulega sé ekki um það að ræða frá þeirra hálfu að taka upp við Breta eða neina aðra sérstaka þjóð neina sérsamninga, sem gætu breytt þar neinu um.

Það er kunnugt, að Bretar hafa leitað mjög stíft eftir því, bæði við okkur Íslendinga og einnig við aðra, að reyna að fá þá út af þeirri grundvallarreglu, sem við var miðað, þegar við ákváðum stækkun á okkar fiskveiðilandhelgi síðast, fá okkur til þess að gefa eftir á 12 mílna reglunni. Þar hafa þeir hvað eftir annað látið að því orð liggja, að þeir vildu gera bráðabirgðasamkomulag, samkomulag um bráðabirgðalausn, og jafnvel látið undir það hilla, að ef við vildum falla frá 12 mílna reglunni, þá gætu þeir jafnvel hugsað sér að veita okkur nokkur aukafríðindi þar fyrir utan í stöku tilfellum, ef við vildum þá heimila þeim veiðar innan 12 mílna svæðisins, a.m.k. á vissum svæðum við landið. Það er einmitt þetta, sem þeir reyndu með samningum sínum við Dani gagnvart landhelgismálum Færeyinga. Það var þannig, sem þeir brutust í gegn þar. Og það er enginn vafi á því, að það var meining Breta og hefur verið meining Breta fram til þessa að reyna hið sama hér við land. En með því samkomulagi, sem hér hefur tekizt, lýsa allir flokkar á Alþingi og Alþingi væntanlega samhljóða því yfir, að það verður ekki frá Íslands hálfu hvikað frá því að halda sér fast við 12 mílna fiskveiðilandhelgi umhverfis landið allt út frá mörkuðum grunnlínum. Þetta tel ég vera kjarna þeirrar till., sem hér liggur fyrir, og það var mjög þýðingarmikið, að sjálft Alþingi tæki hér af allan vafa, svo að Bretar þyrftu ekki að vera í neinum vafa um það, að við værum ekki til samninga um neitt slíkt undanhald.

Á því leikur enginn vafi, að Íslendingar almennt standa saman sem einn maður um það að fá viðurkenningu annarra þjóða á því, sem gert hefur verið í landhelgismálinu. Landsmenn munu því almennt fagna því samkomulagi, sem hér hefur verið gert, og þeirri samþykkt, sem væntanlega verður hér gerð á Alþingi.

Í þessari till. eru síðan, auk þessa, sem er aðalatriði málsins, hörð mótmæli gegn yfirtroðslu Breta hér við land og lögbrotum þeirra hér. Það er aðeins eðlilegur hlutur, að það komi fram í sambandi við afgreiðslu málsins hörð mótmæli frá Alþingi sjálfu. En það er okkur öllum ljóst, að slík mótmæli ein hafa ekki hingað til verið virt ýkja mikils af Bretum og þau ná vitanlega skammt, enda eigum við enn eftir að gera þá hluti í þessu máli, sem Bretar taka alvarlegar, en almennar mótmælaorðsendingar frá okkur. Í sambandi við þann lið þessarar till. vil ég aðeins minna á það, að hér liggur fyrir hæstv. Alþ. önnur tillaga, sem gerir ráð fyrir enn þá róttækari mótmælum frá Íslands hálfu í sambandi við lögbrot þeirra hér við land. Og þó að þessi till. sé samþykkt og hún sé mikilvæg, þá eigum við enn eftir að gera þær ráðstafanir frá okkar hálfu gegn yfirtroðslum Breta hér við land, sem betur gagna heldur en aðeins almenn munnleg mótmæli. Þau höfum við reynt, svo hvað eftir annað nú, að þau virðast bera heldur lítinn árangur.

Í þessari till. er síðan einnig það undirstrikað, að þó að Íslendingar muni halda sér fast við 12 mílna regluna og víkja þar hvergi, þá halda þeir enn fast við það, sem þeir hafa jafnan áður lýst yfir, þar sem þessi mál hafa verið til umræðu á erlendum vettvangi, að þeir telja sig eiga að hafa yfirráðarétt yfir öllu landgrunninu, öllum þeim fiskimiðum, sem eru á okkar landgrunni hér í kringum Ísland. Og það er augljóst mál, að Íslendingar hljóta að gera kröfu til þess að fá meira og meira af þessu landgrunni viðurkennt hjá öðrum þjóðum, þannig að slíkt skuli einnig flokkast undir íslenzka lögsögu og við ráða þeim reglum, sem þar skuli gilda hverju sinni varðandi fiskveiðar. Sá hluti till. er því í fullu samræmi við það, sem áður hefur verið haldið fram af okkar hálfu, og einnig mikilvægur. En ég legg höfuðáherzlu á það, sem felst í þessari till. að því leyti til, að nú lýsa hér allir flokkar á Alþingi því yfir og Alþingi allt, að frá 12 mílna reglunni muni Íslendingar ekki víkja. Og það er með öllu þýðingarlaust fyrir Breta eða aðra að gera sér nokkrar vonir um það, að við verðum til samninga við þá um að víkja frá þeirri meginreglu.