05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (1945)

166. mál, landhelgismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Um þessa till. hefur orðið alger eining í utanrmn., og ég hygg, að það sé einhuga vilji n., að till. nái hér samþykki allra alþm. og verði þannig til þess að styrkja málstað þjóðarinnar í þessu mikilsverða máli.

Ég hafði litið svo á eins og síðasti ræðumaður, að það væri æskilegast, að þessi till. yrði afgreidd án annarra umræðna, en framsögu n., en engu að síður sé ég ekki, að það sé undir neinum kringumstæðum neitt við því að segja, þó að einstakir þingmenn vilji bæta þar einhverju við.

Þessi till. felur í sér mótmæli gegn því, sem gerzt hefur, gegn hinu mikla, svívirðilega ofbeldi Breta umhverfis Ísland. Við gerum okkur ljóst, að það mun þurfa meira, en mótmæli til að vinna þetta mál, en við skulum líka gera okkur ljóst, að mótmælin verðum við að bera fram við hvert tækifæri. Þau eru m.a. liður í því diplómatíska stríði, og ef mótmælin hætta að berast, þá má einnig líta á það sem veikleikavott.

Þessi mótmæli, þessi yfirlýsing um afdráttarlausan vilja þjóðarinnar, að því er við teljum vera, er þáttur í baráttu okkar, og það er von okkar allra í utanrmn., að till. megi verða ekki aðeins yfirlýsing gagnvart umheiminum um okkar afstöðu og vilja, heldur hvatning innanlands til þjóðarinnar, vegna þess að það er langt frá því, að þessari baráttu sé lokið. Við eigum eftir að heyja langa baráttu á mörgum vígstöðvum, og það mun reyna á þolrif Íslendinga, áður en málinu lýkur á þann eina hátt, sem við getum sætt okkur við, sem er fullnaðarsigur Íslendinga í þessu máli.