23.01.1959
Neðri deild: 61. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Umræður þær, sem hér urðu í gær um tekjuáætlun fjárlagafrv., voru að mínum dómi mjög lágkúrulegar. Ein vandasamasta ákvörðunin, sem fjmrh. verður að taka, er sú, hvaða tekjuáætlun hann telur óhætt að búa við. Á því veltur meira, en nokkurri annarri einstakri ákvörðun í sambandi við afgreiðslu fjármála. Á þessu getur enginn borið ábyrgð nema hann, enda verður hann að taka afleiðingum þess, sem hann ákveður í þessu. Aldrei hef ég heyrt nokkurn ráðherra reyna að velta þessari ábyrgð af sér yfir á embættismenn. Mig rak því í rogastanz í gær, þegar ég heyrði hæstv. forsrh. taka svo til orða, að ekki varð um villzt, að hann vildi láta skilja það svo, að sérfræðingar eða embættismenn í fjmrn. álitu óhætt að hækka tekjuáætlun fjárlaganna um 83 millj. kr. Ég er alveg viss um, að þetta er ekki rétt. Enginn sérfræðingur í stjórnarráðinu hefur látið það álit í ljós, að óhætt væri að hækka tekjuáætlun fjárlagafrv. um 83 millj. kr. Hér er því um mikinn misskilning að ræða. Áætlun mun hafa verið gerð um það, að með verulegri notkun erlends lánsfjár og að öðru leyti svipuðum skilyrðum og í fyrra, kynnu heildartekjur ríkissjóðs að geta farið upp í 980 millj. eða svo á þessu ári. En engum reyndum manni mundi detta í hug að láta í ljós það álit, að óhætt væri að áætla tekjurnar þannig á fjárlagafrv. Allir þeir, sem hér um fjalla, vita vel, að óhugsandi er annað, en að hafa talsvert borð fyrir umframgreiðslum og óhöppum. Það gengur aldrei allt að óskum. Sömu embættismenn og sérfræðingar sem hér er sennilega átt við unnu með mér að tekjuáætlun fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, en aldrei mundi mér detta í hug eða hefur dottið í hug að skjóta mér á bak við þá varðandi ákvörðun um tekjuáætlun. Ég ber ábyrgð á þeirri tekjuáætlun, sem er í fjárlagafrv., en ekki þeir. Sú tekjuáætlun er gerð í september og er ekki miðuð við 6 millj. dollara lántöku í Bandaríkjunum, enda var ekki hægt á þeim tíma að reikna með slíku, þar sem þá var verið aðeins að byrja að ræða um þá hugmynd í ríkisstj. að leitast fyrir um slíkt lán. Í allt haust hefur verið gert ráð fyrir því, að mætti reikna með slíku láni, væri óhætt að hækka tekjuáætlun fjárlaga um 30 millj. kr. eða svo og tekjuáætlun útflutningssjóðs um 40 millj. kr. eða svo.

Ég hef því alltaf ráðgert og auðvitað ekki farið dult með, að mætti reikna með láninu, væri óhætt að hækka tekjuáætlunina nokkuð, kannske um 40 millj. kr. eða svo, en allt sæist auðvitað betur, þegar heildartekjur ársins 1958 væru vitaðar.

Nú skilst mér sem nýjustu niðurstöður styðji eindregið þessa áætlun mína, þegar tillit er tekið til þess, að gera verður ráð fyrir einhverjum umframgreiðslum.

Spurningin verður hins vegar: Er óhætt að reikna með 6 millj. dollara lántöku í Bandaríkjunum? En skörin þykir mér færast upp í bekkinn, ef grípa á til þess að afgreiða greiðsluhallafjárlög með glæfralegum tekjuáætlunum og lýsa ábyrgðinni á embættismenn í stjórnarráðinu, þeir eigi að bera ábyrgð á þýðingarmestu ákvörðun í sambandi við fjárl., sem aðrir raunverulega hljóta að taka.

Einn þátturinn í þessum leikþætti um fjárlögin voru viðbrögð hv. 1. þm. Reykv. (BBen). „Sérfræðingar höfðu upplýst,“ sagði hv. þm., „að Eysteinn Jónsson hefði falsað tekjuáætlun fjárl. um 83 millj. kr.“ Svona óhæfutal dæmir sig sjálft, þegar málavextir liggja fyrir. Sá maður er ekki vandur að virðingu sinni, sem annað eins lætur frá sér fara. Hann getur ekki haft það sér til afsökunar, svo að gilt verði talið, að hann virðist rati í því að fara með tölur og botnar auðsjáanlega ekkert í höfuðþáttum fjármálanna, losnar augljóslega strax frá botni, þegar farið er að ræða þau efni. Honum bar skylda til að taka sér frest og tala við þá, sem eitthvað vissu um þessi mál, áður en hann hleypti sér út í þá óhæfu að fullyrða slíka hluti. Hann má ekki, hv. þm., gleyma skyldum sínum sem talsmaður fyrir fjölmennum flokki, því fylgir ábyrgð.

Hv. 2. þm. S-M. (LJós) þóttist verða alveg hissa á þessu, sem nú kæmi fram um hugsanlegar tekjur næsta árs. Er það þó allt í samræmi við það, sem margupplýst var í fyrrv. ríkisstj., eins og ég hef frá greint.

Þá var talsvert í gær rætt um greiðsluafgang s. l. árs, og kom þar margt undarlegt fram. Sumum virtist finnast það fullkomin óhæfa, að það skyldi geta komið fyrir annað eins ógnarslys og það, að einhver greiðsluafgangur yrði, það væri nærri því refsivert, fannst manni. En hvernig er um þennan greiðsluafgang? Það veit nú enginn í dag, hversu mikill hann er, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki búið að gera upp, sem ekki er von til. En einhver er hann. Verulegur hluti af honum fer til þess að greiða greiðsluhallann frá í fyrra, en eitthvað talsvert umfram það. Á s. l. ári var óvenjulega mikið lánsfé flutt inn í landið og innflutningur óvenjulega mikill þá fyrir lánsfé og því óvenjulega miklar tolltekjur. Á s. l. ári gekk framleiðslan mjög vel og því óvenjulega mikil viðskipti við útlönd, einnig fyrir sjálfar þjóðartekjurnar. Og á s. l. ári urðu alveg óvenjulega miklar tekjur á einkasölum ríkisins, sennilega m. a. vegna bættrar tollgæzlu. Ef ekki hefði orðið einhver greiðsluafgangur við þessi skilyrði og í svona ári, þá sýndi það, að fjárlögin hefðu verið undirbúin á alveg óverjandi hátt, því að þá hefði í hverju meðalári orðið greiðsluhalli. Þessi greiðsluafgangur sýnir ekkert annað en það, að áætlanir voru þannig, að í sæmilegu ári mátti gera sér von um greiðsluhallalausan búskap og ekkert umfram það.

Svo kemur spurningin um það, hvað eigi að gera við þennan greiðsluafgang. Við framsóknarmenn viljum, að eitthvað af honum sé tekið til þess að greiða fyrir lánveitingum úr íbúðarlánasjóðum landsmanna, sem svo mjög eru fjárþurfi. En stjórnarflokkarnir virðast vera að búa sig undir að kasta þessum greiðsluafgangi í verðbólguhítina og telja honum þannig betur varið. En eftir er að gera þau mál upp hér á hv. Alþ.

Þá kom hér einnig fram í umr. í gær af sumra hendi, að þeir væru alveg undrandi á því, að fyrrv. ríkisstj. hefði ráðstafað 63 millj. kr. til fjögurra fjárfestingarframkvæmda eða í fjórar greinar: Til fiskveiðasjóðs, til ræktunarsjóðs, til raforkuáætlunarinnar og til sementsverksmiðjunnar. Og hv. 1. þm. Reykv. gekk svo langt að halda því fram, að hér mundi vera um einhvern leynisjóð að ræða, sem hefði verið falinn fyrir þjóðinni. Og hv. 2. þm. S-M. (LJós) var að láta liggja að því, að hér hefði verið framið mjög vafasamt verk a. m. k. gegn mótmælum þeirra ráðh. Alþýðubandalagsmanna í ríkisstj., að ráðstafa þessum 63 millj. í þessar fjárfestingarframkvæmdir.

Tal hv. 1. þm. Reykv. um þessi efni sýnir, hversu báglega hann fylgist með í þessum efnum, því að í fjárlagaræðunni síðustu gerði ég ýtarlega grein fyrir því, að lánsfé það, sem frá Bandaríkjunum var tekið síðast á árinu 1957, mundi í meðförunum vaxa um 63 millj. íslenzkra kr. hér innanlands vegna 55% yfirfærslugjaldsins, þá mundi þetta lán verða 63 millj. kr. hærra til ráðstöfunar innanlands, en gert hafði verið ráð fyrir. Og ég upplýsti einnig í þeirri sömu ræðu, að gert væri ráð fyrir því, að þetta fjármagn rynni til þess að standa undir lánveitingum ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs og framkvæmdum í raforkuáætluninni og til þess að reyna að ljúka sementsverksmiðjunni. Þetta var hverjum manni ljóst, sem nokkurn skapaðan hlut fylgdist með í þessum málum hér á hv. Alþ. og það, sem ríkisstj. var að gera, fyrrv. ríkisstj., var ekkert annað, en ráðstafa ameríska láninu á þann hátt, sem gert var ráð fyrir frá öndverðu. Á hinn bóginn höfðu ráðh. Alþb. till. um aðra skiptingu á þessum 63 millj. en samþykkt var. En ég varð aldrei var við það, að þeir teldu annað koma til mála, en þetta fjármagn rynni til þessara framkvæmda, sem það í öndverðu var til ætlað, þó að þeir legðu til um aðra skiptingu. Svo kemur hv. 1. þm. Reykv. hér, eins og álfur út úr hól og þykist ekkert um þetta vita, þarna sé eitthvert ólag á reikningsfærslunni, skilst manni helzt, það hafi orðið einhver skekkja í bókhaldinu. Það er nú gott, þegar skekkjurnar eru þá svona. Það væri verra, ef það færi að verða á hinn bóginn. Það hlyti að hafa orðið einhver skekkja í reikningshaldinu og einhverju haldíð leyndu, eitthvað verið í ólagi, að þarna skyldu allt í einu vera 63 millj., sem ríkisstj, gat ráðstafað svona bara út í bláinn, upp úr þurru. En þetta sýnir bara, að þessi hv. þm. fylgist ekki nokkurn skapaðan hlut með í höfuðmálum, sem hæstv. Alþ. hefur til meðferðar og skýrslur eru gefnar um hér á löggjafarsamkomunni.

Hv. 2. þm. S-M. hélt hér nokkuð langa ræðu í gær og ræddi um það, sem honum fannst vera meginlínur í efnahagsmálum, og það, sem skipti skoðunum í þeim efnum eða stefnum. Hann sagði, að í sambandi við þróun verðbólgunnar hefði vísitöluskrúfan sáralitla þýðingu, væri algert aukaatriði í því sambandi og þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af henni. Ja, öðruvísi mér áður brá. Það eru nú ekki nema nokkrir mánuðir síðan fyrrv. ríkisstj. gaf út skoðun sína um áhrif vísitölunnar á framvindu verðbólgunnar og sú skoðun var byggð á mikilli rannsókn og áliti margra, sem það höfðu skoðað. Þessi skoðun var, að það væri gersamlega vonlaust að stöðva verðbólguhjólið, ef vísitalan yrði notuð áfram á sama hátt og verið hefur til þess að mæla kaupgjald og verðlag og aðra viðskiptaþætti í landinu, það væri algerlega vonlaust verk. Og ríkisstj. lýsti því yfir í grg. fyrir efnahagsmálafrv., að allt ylti á því um það, hvort hægt yrði að stöðva dýrtíðarhjólið á þessu hausti, hvort hægt væri að fá breytt um stefnu í þessu tilliti eða ekki. En nú segir þessi hv. þm., sem var einn af ráðh., sem að þessu stóðu, allt annað. Hann er alveg búinn að skipta um skoðun og segir, að þetta hafi allt verið á misskilningi byggt, vísitöluskrúfan skipti engu máli og stjórnin hafi þá byggt stefnu sína, að því er mér skilst, á algerlega röngum forsendum. Það er ekki furða, þó að þessi hv. þm. reyndist lélegur liðsmaður við það að halda fyrrverandi stjórnarsamstarfi áfram, fyrst hann hefur nú komizt á þessa skoðun, því að hann hefur í þessu tilliti gersamlega horfið frá þeirri stefnu, sem fyrrv. stjórn lýsti yfir og áleit nauðsynlegt að framkvæma. Má hér um segja, að á skammri stund skipast veður í lofti. En eftir að hafa heyrt hljóðið í hv. 3. þm. Reykv. (EOl), sem mun vera eins konar húsbóndi í hans flokki, þá þurfa menn náttúrlega ekki að vera svo mjög hissa á þessu nýstárlega sjónarmiði, sem nú kemur fram hjá hv. þm.

En hv. þm. sagði annað. Hann sagði, að aðalatriðið í þessum málum væri hinn gífurlegi vöxtur ríkisútgjaldanna og útgjalda bæjarfélaganna, það væri undirrót verðbólgunnar og óhugsandi væri að ráða við hana á nokkurn hátt nema söðla hér alveg um.

Vel má vera, að hinn mikli vöxtur ríkisútgjalda og útgjalda sveitar- og bæjarfélaga eigi verulegan þátt í aukningu dýrtíðarinnar og erfiðleikum í sambandi við verðbólguna, enda hef ég oft bent á þá hættu, sem stafar af því að auka ríkisútgjöldin jafnmikið og gert hefur verið á undanförnum árum. Og enginn einn maður á Íslandi hefur lagt meiri vinnu í það en ég að reyna að stemma stigu fyrir því, að sú þróun yrði eins ör og hún hefur orðið, hvað þá heldur jafnör og fjöldinn allur hefur viljað.

En sannleikurinn um þessi mál er bara sá, að sá flokkur, sem hv. 2. þm. S-M. talar fyrir, sósíalistarnir eða kommúnistarnir, þeir hafa átt manna mestan þátt í því, með öllu hugsanlegu móti, að hækka ríkisútgjöldin og útgjöld sveitar- og bæjarfélaga og hafa viljað ganga miklu lengra í því efnum en þeir hafa getað komið fram og sennilega engir, nema það væri þá Sjálfstfl., átt jafnríkan þátt í þessari þróun og þeir. Ég hefði gaman af að sjá þá útgjaldalöggjöf, sem þeir hafa ekki léð fylgi sitt hér á Alþ. og heimtað sífellt meira, í hvert skipti sem ráðstafanir hafa verið gerðar, sem ríkisútgjöldin hafa aukið. Svo koma þessir menn og tala um, hvað það hafi verið háskaleg þróun, að ríkisútgjöldin hafi vaxið. Fyrr má nú vera hræsnin.

Þá benti þessi hv. þm. á, að það þurfi að lækka ríkisútgjöldin, og byggir nú sinn málflutning eiginlega mest á því, eins og við raunar heyrðum hér einnig í ræðu Einars Olgeirssonar, hv. þm. Reykv., áðan. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um 50–90 millj. kr. niðurskurð á fjárlögum, og hv. 2. þm. S-M. talaði um, að hann þyrfti að vera stórfelldur. En hvað vilja þessir hv. þm. skera niður? Vilja þeir ekki segja frá því, til þess að það sé hægt að finna einhverja glóru í þessu tali. Við, sem höfum setið með þessum mönnum í ríkisstj. og verið með þeim á Alþ. hér áratugum saman, vitum svona hér um bil, hvað þeir meina með þessu tali um þennan stórfellda niðurskurð. Við vitum, að þessir menn eiga ekki ráð á neinum úrræðum til þess að sýna meiri ráðdeild í ríkisbúskapnum, en svona yfir höfuð hefur verið viðhöfð, nema síður sé. Við vitum, að þeir búa ekki yfir neinum töframeðulum til þess að lækka bein rekstrarútgjöld ríkissjóðs, enda þekkjum við þeirra niðurskurðartill. Þær hafa legið fyrir á undanförnum árum bæði frá þeim og öðrum, sem tala í þessa stefnu. Það eru till. eins og um að lækka jarðræktarframlagið, það eru till. um að skera niður löggæzluútgjöld í landinu, því að ekkert er þeim eins illa við og löggæzlu. Þá er uppástunga um að leggja niður sendiráðið hjá NATO og sendiráðin á Norðurlöndum, sem utanrrh. hefur alls ekki getað fallizt á. Það mundi náttúrlega spara nokkuð. En það hefur strandað algerlega á mótstöðu utanrrh., úr hvaða flokki sem þeir hafa verið undanfarið. En skammt hrekkur þetta upp í 50–90 millj. kr. En þær till., sem þeir hafa borið fram og verulegu máli skipta í þessu sambandi, hafa verið till. þeirra um að skera niður öll framlög til verklegra framkvæmda í landinu. Það eru þær till., sem þeir hafa flutt, sem nokkru verulegu máli skipta. Þeir hafa flutt þær hvað eftir annað í ríkisstj. og annars staðar, þar sem þeir hafa getað komið því við. Jafnframt tala þeir svo auðvitað meira um það, en nokkrir aðrir menn, hvað þurfi að auka stórlega framlögin til verklegra framkvæmda. Alls staðar þar sem þeir koma eiga þeir ekki nógu sterk orð yfir það, hvað margt vanti nú hérna og það þurfi nú að taka heldur betur til hendinni að veita fé á þessar slóðir, það hafi verið stórkostlega vanrækt af Framsókn að veita nægilegt fjármagn. Og hvað ætli hv. 2. þm. S-M, sé búinn að halda margar ræður í sínu kjördæmi um það, hversu gífurlega Framsókn hafi vanrækt alla skapaða hluti, það hafi bara ekkert verið gert, ekki nokkur skapaður hlutur, það sé sama, hvert litið er. Og svo jafnhliða er gortað af því, sem gert er, hann hefði átt ríkastan þátt í þessu og hinu o. s. frv. Og þannig væri hægt að fara kringum landið. Alls staðar sama sagan. Vilja ekki þessir herrar gera svo vel og segja það út, hvað það er, sem þeir vilja lækka, enda er nú svo komið, að þeir komast ekki hjá því? Þeir komast ekki hjá því að gera það. Það verður spurt eftir því, þangað til þeir koma út úr holunum. Og í sambandi við þá fjárlagaafgreiðslu, sem fram undan er, þá verður gengið eftir því og þjóðin mun taka eftir því, hverjar þessar lækkunartillögur eru, í hverju þær eru fólgnar, þessar lækkanir á fjárl., sem kommúnistar sífellt tala um og núv. ríkisstj. hefur sagt að hún ætli að beita sér fyrir, því að þeir, sem fyrir henni standa, eru hér í nákvæmlega sama númerinu.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt hér langa ræðu í dag og endaði rétt áðan. Hann talaði um, hversu óskynsamlega væri farið með fjármuni hér á Íslandi og hann hamaðist út af óarðbærri fjárfestingu, sem látin væri eiga sér stað, og fjárveitingum til atvinnuvega, sem engan rétt ættu á sér. Við skiljum nú allt, hvað hv. þm. er að fara. En svo sagði hann eina mjög eftirtektarverða setningu, sem ég get ekki stillt mig um að minna menn á, því að hann sagði: „Má vera, að það lagist eitthvað, ef kjördæmunum verður breytt.“ — Ja, má vera, að það lagist eitthvað, ef kjördæmunum verður breytt. Jú, við þekkjum það, hvað til stendur í því efni. Ég ætla ekki að fara að ræða það hér, því að það væri að brjóta þingsköpin að fara langt út í það. En ég vil bara benda mönnum á þessi orð hv. þm. Reykv., sem hann sagði í sambandi við hugleiðingar sínar um fjármálastefnuna og um það, hvernig fjármunum þjóðarinnar væri varið til fjárfestingarframkvæmda og annarra framkvæmda. Niðurlagsorð þessa hv. þm. voru þessi, og þeim mun ekki verða gleymt:

„Má vera, að það lagist eitthvað, ef kjördæmunum verður breytt.“ Þannig munu fleiri hugsa, en ekki allir vera jafnhreinskilnir og hv. þm. Reykv. og það er út af fyrir sig óhætt að þakka honum fyrir þessi orð, svo langt sem það nær, því að þetta er þó hreinskilni, ekki jafnmikil flærð og hjá þeim mönnum, sem á hinn bóginn standa á strætum og gatnamótum og prédika ást sína á þessum fjárfestingarframkvæmdum og hvað þeir hafi mikinn áhuga fyrir því, að þær geti gengið enn hraða, en þær gera, en eru samt með undirbúning um að gera allsherjar breyt. á stjórnskipun landsins til þess að geta komið í veg fyrir, að þær haldi áfram. Það er flærð. En þetta er hreinskilni, eins og hv. 3. þm. Reykv. hafði það.

Síðan hélt hv. þm. (EOl) langa ræðu um það, hve skakkt hér hefði verið farið að að öllu leyti og vildi kenna framsóknarmönnum ekki minnst um það. Það heitir nú venjulega í Þjóðviljanum Eysteinska og raunar í Mbl. líka, þá heitir allt það, sem hér hefur gerzt á undanförnum áratugum, Eysteinska. Ég er nú að verða svo upp með mér af þessu, að ég má fara að vara mig, því að sannleikurinn er sá, að síðustu áratugir hafa verið langglæsilegasta framfaratímabilið í sögu landsins. (Gripið fram í.) Eyðimörkin? Ég kannast ekki við neina eyðimörk, allra sízt síðustu áratugina. En ég má fara að vara mig. Síðan þegar þm. Reykv. (EOl) var búinn að lýsa þessu, hve skakkt hefði verið farið að, sagði hann, að hér hafi verið viðhaldið þjóðfélagi án atvinnuleysis. Jæja, það var nú ekki svo lítið: hér hafi verið viðhaldið þjóðfélagi án atvinnuleysis. Ætli það séu margar þjóðir, sem geta stært sig af því, að það hafi tekizt að viðhalda þjóðfélagi án atvinnuleysis? Ætli það sé ekki nokkuð góð Eysteinska, ef það hefur tekizt, eins og hv. þm. Reykv. gaf hér vitnisburð um? Og það er alveg áreiðanlegt, að hann mundi ekki hafa fundið neina hvöt hjá sér til þess að fara að lýsa því yfir, að hér hafi verið viðhaldið þjóðfélagi án atvinnuleysis, ef það hefði verið atvinnuleysi. Ég held, að þetta sé merkilegur vitnisburður um, að eitthvað hafi verið bogið við einhvern part af þessari löngu ræðu, sem þessi hv. þm. flutti hér, þó að hann kæmi svona laglega niður að lokum. Þetta var í sjálfu sér góð lending. Mér fannst hann fljúga víða og villur vegar, en það má kannske segja, að það skipti ekki svo miklu máli, þegar lendingin tekst vel. En lendingin var sem sé þessi og höfuðniðurstaðan, að hér hafi verið viðhaldið þjóðfélagi án atvinnuleysis. Það var þó nokkuð, hreint ekki svo lítið. Og það þrátt fyrir alla Eysteinskuna og kannske einmitt vegna hennar.

Þá var hv. þm. (EOl) einnig í þessari ræðu að státa af því, að hann hefði sprengt stjórnarsamstarfið um fyrrv. stjórn. Hann sagði, að hann hefði varað Framsfl. við því að beita sér fyrir efnahagslöggjöfinni s. l. vor, varað Framsfl. við því að knýja þessa löggjöf fram, afleiðingarnar hlytu að verða alvarlegar og síðan sagði hann, að þessi stefna, sem hefði átt að framfylgja í framhaldi af löggjöfinni, þar sem inn í kom þessi þýðingarmikli þáttur um vísitöluna m. a., að þessi stefna hefði sprengt ríkisstj. Og hann hrósaði sér af því í raun og veru að hafa komið í veg fyrir framkvæmd þessarar stefnu, m. ö. o.: hann lýsti á hendur sér vígi stjórnarinnar. En í hverju var fólgin sú lausn, sem menn höfðu fyrirhugað í þeirri stjórn, t. d: Framsfl.? Hún var í aðalatriðum fólgin í því að reyna að ná jafnvægi í efnahagsmálunum og tryggja jafnháan kaupmátt launa og kaupgjalds og var í okt. s. l.

Er nú hv. þm. Reykv. (EOl) alveg viss um, að allt launafólk eða allt verkafólk þessa lands sé honum þakklátt fyrir að hafa sprengt þá ríkisstj., sem hefði getað gert þetta í samráði við þetta fólk áfram, ef hann hefði ekki sprengt hana? Er hann alveg viss um, að hann hljóti fyrir þetta óskorað þakklæti? Er hann alveg viss um, að það verði talin góð skipti að fá það ástand, sem nú er fram undan og það, sem nú er verið að gera og á að fara að gera, í staðinn fyrir það, sem hefði orðið, ef fyrrv. ríkisstj. hefði haldið áfram og fylgt þeirri stefnu, sem hv. þm. (EOl) var að fordæma hér áðan og hrósaði sér af að hafa stöðvað? Ég er ekki viss um það. Og ég er ekki viss um, að hv. þm. Reykv. (EOl) sé viss um það, þó að hann talaði svona hér áðan. Ég gæti alveg eins búizt við því, að inn á sér sé hann í miklum vafa um þetta, þó að hann hafi gert það af einhverjum ástæðum, sem hann sjálfur þá bezt veit hverjar eru.

En það er staðreynd, að þessu fékk hann og hans menn ráðið. Afleiðingarnar eiga svo eftir að sýna sig og hvort hér hefur verið skipt um til góðs fyrir verkalýðinn og fyrir það fólk, sem þessi hv. þm. þykist tala fyrir. Þó að hann hafi nú auðvitað ekkert sérstakt umboð til þess umfram fjöldamarga hér í þessum sölum að tala fyrir það, þá talar hann alltaf eins og það sé enginn hér kosinn af verkafólki nema hann. Auðvitað er það byggt á miklum misskilningi.

Hv. 2. þm. S-M. minntist ofur lítið hér á sjávarútvegsmálin og þá samninga, sem þegar hafa verið gerðir um þau efni og greint hefur verið frá. Ég ætla nú ekki að fara langt út í það. Þessi hv. þm. sagði, að það væri óhæfilega mikið, sem ætti að falla í hlut útgerðarinnar og hafði um það sterk orð í þessu sambandi. Það væri nú náttúrlega út af fyrir sig fróðlegt að heyra frá honum, hvað hefði verið mátulegt að útgerðin hefði fengið. Það hefði verið fróðlegt að heyra, hvað hefði verið mátulegt og hvað væri um of, t. d., hvort það væri um of, sem fiskimenn hafa fengið út úr þessum samningum, eða hvað væri yfir höfuð um of í þessu svona gífurlegt, því að hann lagði á það feikna áherzlu, að það hefði hreinlega verið bætt aðstaða útgerðarinnar, þar undir eru fiskimennirnir, um 60–70 millj. kr. frá því, sem útgerðin sjálf samdi um í fyrra, og svo sagði hann og undirstrikaði það með látbragði sínu, að þetta ætti svo að taka með kauplækkun, útgerðin hefði fengið 60–70 millj. kr. of mikið. Það væri fróðlegt að heyra frá þessum hv. þm., hvað hann hefði talið mátulegt.

Ég veit, að í fyrrv. ríkisstj. sagði hann og gerði grein fyrir því sundurliðað, að það væri hæfilegt að gera ráð fyrir því, að útflutningsframleiðslan þyrfti samtals 39 millj. kr. til þess að mæta þeim atburðum, sem orðnir væru. En samningarnir eru nú um 159 millj. kr. Það munar náttúrlega miklu, þannig að það er kannske ekkert einkennilegt, þótt þessum hv. þm. vaxi þetta nokkuð í augum. Ég geri nú ráð fyrir því, að þessar 39 millj. kr. hafi hann nefnt, á meðan hann var að reyna að túlka það fyrir framsóknarmönnum, hversu aðgengilegt væri að halda áfram út í það díki, sem hann vildi búa stjórninni, fyrrv. stjórn. En hvað sem hann meinti, þá hélt hann því fram þá, að 39 millj. kr. væri það, sem væri mátulegt handa útgerðinni.

Það væri fróðlegt að heyra frá þessum hv. þm., hvað hann teldi nú mátulegt og hvað hann teldi um of í þessu. Mér væri mikill fróðleikur í því, og ég veit, að svo væri um fleiri.

Þá vil ég víkja nokkuð að því, sem hv. 1. þm. Reykv. hélt hér fram í gær. Ég vék lauslega að einu eða tveim atriðum áðan. En það var ýmislegt fleira, sem þessi hv. þm. bar hér á borð. Það er ekki ástæða til að vera að eltast við það allt saman, en fáeinar athugasemdir vildi ég leyfa mér að gera.

Þessi hv. þingmaður lét móðan mása, fyllti mál sitt með slúðursögum og úr þessu öllu varð heldur samhengislítil skammarþula, mikið um persónulegar skammir, sem bágt er eiginlega að sjá, hvaða þýðingu ættu að hafa fyrir málið, en virðast eingöngu ætlaðar til þess að fróa á einhvern hátt hv. þm. Hann um það.

Þessi hv. þm. fjargviðraðist mjög um það, hversu viðskilnaður fyrrv. ríkisstj. væri bágborinn, vanskilavíxlar, sagði hann, að væru á ferðinni, stórkostlegir, gífurlegir, sem nú væri framvísað á fólk og sukk, óskaplegt sukk og allt á bólakafi. En ekki hafði þessi hv. þm. talað lengi, þegar allt snýr orðið öfugt, ræðumaðurinn stendur allt í einu á höfði; það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Maður skyldi halda, að eitt höfuðeinkennið á sukkinu og vanskilunum væri leyndar vanskilakröfur, sem væru í öllum áttum, eins og þegar íhaldið skilaði af sér hérna á árunum fjármálunum eftir nokkurra ára forustu. Og svo væru önnur óráðsíumerki, svo sem eins og falsaðar tekjuáætlanir og þá allt of háar til þess að leyna því, hvað þetta stæði allt illa. Til þess að leyna bæði sukki og óráðsíu væru falsaðar tekjuáætlanir allt of háar.

Nei, nei. Maðurinn stendur allt í einu hreinlega á höfði. Hann er farinn að tala um leyndan greiðsluafgang. Leyndan greiðsluafgang, heyrðu menn rétt? Um leyndan greiðsluafgang? Falsaða tekjuáætlun, ekki of háa, heldur of lága, falsaða tekjuáætlun of lága. Og í öllum áttum sá hann leynisjóði, 63 millj. kr. hér, 83 millj. kr. þar, 70–80 millj. kr. enn í einu laginu o. s. frv. Allt er fullt af leynisjóðum og tugir, jafnvel hundruð millj. kr. liggja þarna á tvist og bast, sem stjórnarflokkarnir geti byggt á allt, sem þeir hafa í huga. Allt sitt sukk og ráðleysi geti þeir byggt á þessum sjóðum, sem Eysteinn hafi falið hér og þar í krókum og kimum og séu að smáfinnast, því að hann talaði svo mikið um þetta vonda reikningshald. Það væri víst ekki einu sinni hægt að finna þessa sjóði eftir bókunum, heldur yrðu menn bara að koma auga á þá af sjónhendingu hér og þar um herbergin í stjórnarráðinu. Það er ekki amalegt að taka þátt í svoleiðis leit. Það hefur verið gaman að vera þarna undanfarna daga.

En þetta eru heldur nýstárleg einkenni á illum viðskilnaði, það verð ég að segja, mjög furðuleg. Og hvað á svona málflutningur yfir höfuð að þýða? Er hv. þm. að skopast að sjálfum sér með því að halda fram svona fjarstæðum, því að það er engin heil brú í neinu og rekur sig hvað á annars horn. (Gripið fram í.) Það er nú kapítuli út af fyrir sig. Já, ég kem nú aðeins að því seinna.

En broslegast af öllu finnst mér þó, þegar hv. stjórnarflokkar, — já, það var nú eitt, ég kem að því síðar, að það var tekið illa upp, að ég talaði um stjórnarflokka, — skoplegast af öllu var að heyra, þegar stjórnarflokkamenn voru að tala um þennan greiðsluafgang, sem hafi orðið á s. l. ári og manni skilst að allt sé hægt að gera með.

Mér datt í hug í því sambandi eitt dægurlagaljóð, sem oft er sungið í útvarpið. Það er um litla telpu, sem eignaðist fimmeyring. Pabbi hennar gaf henni víst fimmeyring og telpan syngur um það, hvað hún ætli að gera við þennan fimmeyring. Síðasta vísan er svona:

„Hjólhest og járnbraut ég ætla að gefa Geira, — gríðarstóra flugvél ég kaupi fyrir Finn, — svo kaupi ég mér döðlur og súkkulaði og fleira, — og síðan mun ég gefa pabba allan afganginn.“

Þetta tal hv. stjórnarflokka um greiðsluafganginn minnir mig helzt á þessa dægurlagavísu.

En ég gat um það hér áðan, að hv. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, var að fjargviðrast mikið um þessar vanskilaskuldir, sem væru í öllum áttum, en allt reyndust vera sjóðir. Ég er nú búinn að minnast aðeins á þetta. En hann sagði í því sambandi, að með þessu frv. væri verið að framvísa þessum vanskilaskuldum, nú ættu menn að fara að borga þær. Nei, það er ekki það, sem er að gerast með þessu frv. Það er allt annað. Með þessu frv. er Sjálfstfl. að senda þjóðinni reikninginn. Sjálfstfl. er að senda þjóðinni reikninginn og innheimta aftur það, sem hann blekkti menn til þess að taka umfram í sumar. Það er það, sem er að gerast. Það er ekki verið með þessu frv. að innheimta neina vanskilavíxla eða vanskilakröfur, sem fyrrv. ríkisstj. hafði skilið eftir, því að hún skildi ekkert slíkt eftir sig, eins og hv. andstæðingar hafa nógsamlega lýst sjálfir. En það er verið að framvísa þessum reikningi. Og það var auðheyrt á því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um þetta atriði, að honum var þetta ljóst, honum var þetta allt of ljóst, þ. e. a. s. fyrir hann sjálfan, — allt of ljóst.

Það er auðheyrt og auðséð, að hv. 1. þm. Reykv. og sjálfstæðismenn yfir höfuð hafa mikinn beyg af þessu. Það er ekkert einkennilegt. Maður skyldi ekki lá það. Og hv. þm. setti sig í þá stöðu nánast að halda því fram, að þetta væri allt saman rangt. Þeir hefðu aldrei átt neinn þátt í því að reisa neina kauphækkunaröldu, sjálfstæðismenn, það væru allt aðrir, sem hefðu gert það. Það væri Eysteinn Jónsson. Hann hefði staðið fyrir þessu öllu saman og byrjunina væri mjög auðvelt að sjá, sagði hv. þm. Það var, þegar þeir í Sambandinu hækkuðu laun starfsfólksins um 8% hér um árið og reistu með því nýja kauphækkunaröldu, sagði hv. þm., alveg blygðunarlaust sagði hann þetta. Hv. þm. veit vel, að það er algerlega ósatt og tilhæfulaust, að með þessu hafi verið reist nokkur ný kauphækkunaralda. Með þessu var aðeins verið að veita starfsfólki Sambandsins launabætur til móts við það, sem samþ. hafði verið í launalögum ríkisins mörgum mánuðum áður og hafði dregizt sjá Sambandinu að ákveða þær. Þetta veit hv. þm. manna bezt. Samt sem áður hefur hann endurtekið þessi ósannindi í blaði sínu í mörg ár. Kannske er hann farinn að trúa þessu sjálfur. Ég held ekki. Ég held, að hann sé bara alveg eins og hann var, þegar hann byrjaði að segja þetta og vissi, að þetta var ósatt, hann heldur því bara áfram samt. Þetta er ein af þeim slúðursögum, sem hv. þm. temur sér svo mjög í blaði sínu og kemur með hér inn í þingið.

Þá sagði hv. þm., að það væri einnig til marks um það, hvílíkur kauphækkunarberserkur Eysteinn Jónsson væri, að hann hefði sent út mann í bæjarstjórn Reykjavíkur, þegar honum fannst stirðlega ganga með kauphækkanirnar yfir höfuð, til þess að láta flytja þar till. um að heimta tafarlaust samninga við Dagsbrúnarmenn um allt það, sem þeir vildu. En hvert er samhengið í þessu? Samhengið í þessu er það, að ætlun sjálfstæðismanna var að skilja Dagsbrún eftir, vegna þess að Dagsbrún hafði staðið lengst á þeirri stefnu að hækka ekki grunnkaupið og unnið þannig lagað lengi bezt með stjórninni að því að reyna að halda kyrrð í þessum málum. Það átti að hefna sín á þeim með því að hækka ekki grunnkaupið við þá. Og till. sú, sem hv. þm. var að tala svona um í þessum tón, var um, að Dagsbrúnarmenn sætu við sama borð og annað launafólk, yrðu ekki skildir eftir. Það hefur aldrei verið stefna framsóknarmanna, að þannig væri farið að, þó að það væri hernaðaráætlun sjálfstæðismanna, að ekkert lægi á því að hækka kaupgjaldið við Dagsbrún. Það væri rétt, að þeir fyndu sjálfa sig fyrir, af því að þeir hefðu ekki viljað dansa eftir kauphækkunarpípu útsendara sjálfstæðismanna í því félagi og annars staðar.

Þessum hv. þm. og sjálfstæðismönnum yfir höfuð mun reynast það algerlega ofvaxið að komast frá þessu, því að hvert mannsbarn á Íslandi veit, að það er satt, að þeir reyndu á allar lundir að sprengja efnahagsmálastefnu fyrrv. ríkisstj. í framkvæmdinni með því að láta útsendara sína í öllum launasamtökum landsins heimta kauphækkanir ofan á kauphækkanir. Það var eina ráðið, sem þeir sáu. En nú er verið að senda reikninginn og það er þetta frv.

Sjálfstæðismenn eru vel að því komnir að bisa við að færa niður þær hækkanir, sem þeir börðust fyrir eins og óðir menn að yrðu innleiddar. Það er auðséð, að hv. 1. þm. Reykv. og sjálfstæðismenn taka það nærri sér, að á þetta sé minnzt. Það sést á öllu þeirra fasi. En það er engin ástæða til þess fyrir þá að vera að reiðast við mig út af þessu. Það var ekki ég, sem stóð fyrir þessari stefnu. Þeir geta sjálfum sér um kennt. Þeir hefðu aldrei átt að gera þetta. Það er þeim sjálfum að kenna, að þeir eru nú komnir í þessa klípu og þeir geta reiðzt sjálfum sér, en ekki öðrum. Og geta þeir búizt við því, að það sé ekki á þetta minnzt? Það er ekki mér að kenna, að hv. 1. þm. Reykv. hefur gert Sjálfstfl. að viðundri. Það er engin ástæða til þess að reiðast við mig út af því. Ég hefði ekki getað komið í veg fyrir það, jafnvel þó að ég hefði viljað og veit nú ekki einu sinni, hvort ég hefði viljað koma í veg fyrir, að hann gerði sig að viðundri.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að þetta frv. væri aðeins fyrsti áfanginn í efnahagsmálunum eða öllu heldur, að sú ályktun sjálfstæðismanna að lækka kaupið um 6% væri aðeins fyrsti áfanginn í efnahagsmálunum og svo minnir mig, að hann læsi eitthvað upp um það, ég hef a. m. k. séð það í Morgunblaðinu í ályktun frá flokknum, að það þyrfti að breyta stefnunni í fjárfestingarmálum og ég held í bankamálum líka og í fleiri efnum. Og þessi hv. þm. sagði, að það væri út af þessu, þegar verið var að álasa honum og öðrum fyrir að flana út í kosningar í vor. Þessi hv. þm. sagði, að það þyrfti að kjósa í vor, því að þjóðin yrði að fá að geta sagt m. a. álit sitt um stefnu Sjálfstfl. í efnahagsmálum og úrræði hans strax, það mætti ekki bíða. Út af þessu er full ástæða til þess að spyrja, vegna þess að það sést ekki á þeirri langloku, sem frá flokknum hefur komið í þessu efni, hver þessi úrræði eru. Jú, það á að breyta stefnunni í fjárfestingarmálum. En mætti mönnum leyfast að spyrja: Hvernig á að breyta stefnunni í fjárfestingarmálum? Sennilega á að lækka fjárfestinguna, en þá: Hvaða fjárfesting er það, sem á að lækka? Og vill nú ekki hv. 1. þm. Reykv., sem telur svona knýjandi nauðsynlegt, að þjóðin fái að segja álit sitt um þessa stefnu, gera svo vel að svara því: Hvernig er nauðsynlegt að breyta fjárfestingarstefnunni, á hvaða hátt á að lækka fjárfestinguna,og hvaða framkvæmdir eru það þá, sem á að skera niður? Eða á kannske ekki að segja neitt um þetta, fyrr en búið er að leggja niður kjördæmin, breyta kjördæmunum, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv.?

Ég veit, að jafnskýr maður og hv. 1. þm. Reykv. (BBen) er, hann sér, að þessi spurning er alveg eðlileg og mér dettur ekki í hug, að hann skorist undan því, að flokkurinn svari þessu, því að hvernig er hægt að bera sér í munn, að það sé nauðsynlegt að kjósa strax, til þess að hægt sé að fá dóm um efnahagsmálastefnu Sjálfstfl., ef það er ekkert annað, sem menn fá að heyra, heldur en nokkrar almennar setningar, sem geta þýtt allt á milli himins og jarðar.

Þess vegna verður spurt: Í hverju er þessi stefnubreyting fólgin, sem nauðsynleg er, m. a. í fjárfestingarmálum?

Þá sagði þessi hv. þm., að það hefði getað gengið miklu betur og hefði sennilega verið hægt, að því er mér skildist, að fá meiri samtök um efnahagsmál og fleira, ef Framsfl. hefði viljað leggja til hliðar, eins og hann kallaði það, sérkreddu sína í kjördæmamálinu. Hver er þessi sérkredda framsóknarmanna í kjördæmamálinu? Jú, sérkredda framsóknarmanna í kjördæmamálinu er sú, að það skuli ekki leggja niður öll kjördæmin nema eitt. Það er sérkredda framsóknarmanna í kjördæmamálinu. Eins og ég sagði, ætla ég ekki að fara að ræða um kjördæmamálið, það verður gert seinna, en ætli hv. 1. þm. Reykv. eigi nú ekki eftir að sjá, að þetta muni vera sérkredda einhverra fleiri manna, en bara framsóknarmanna? Og furðulegt þykir mér það, ef þm. yfir höfuð telja sig hafa umboð og vera kosna á þing til þess að leggja niður kjördæmin, sem kusu þá á þing. Það á allt eftir að sjást, en því hefur verið yfir lýst, að þetta stæði til og sérkredda framsóknarmanna í kjördæmamálinu er þessi, að þeir vilja ekki fallast á að leggja niður öll kjördæmin nema eitt.

Hvernig svo hægt hefði verið að tapa af einhverju í kjördæmamálinu, þó að því hefði verið frestað til næsta árs og snúið sér að efnahagsmálunum, það er enn óskýrt og verður vitanlega aldrei skýrt. En við vitum vel, hvernig stendur á því, að það þarf að flýta sér svona mikið. Það er vegna þess, að það, sem Sjálfstfl. hefur í hyggju, passar ekki svo vel við það, sem flokkurinn hefur lýst yfir og sagt undanfarið, að það er ekki hægt að sýna það fyrir kosningar. Það er bara ekki hægt. En samt sem áður verður spurt: Hvað er það?

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að framsóknarmenn og Alþýðuflokksmenn hefðu orðið berir að miklum svikum. Hann kallaði mig berum orðum svikara, það var nú svona eins og smárúsína í þeim graut, sem ég fékk hjá honum. Svikin lægju í því, að því hefði verið lýst yfir, að ekki kæmi til mála eftir kosningar að vinna með kommúnistum. Og hann sagði, að Haraldur Guðmundsson hefði verið sendur í útlegð, af því að hann hefði lýst þessu yfir fyrir báða, Alþfl. og Framsfl., en svo hefði þetta orðið og hann hefði verið sendur í útlegð. Það er ein af slúðursögunum, sem hv. þm. býr til, að Haraldur Guðmundsson hafi lýst nokkru yfir fyrir Framsfl. í þessu sambandi. Hefur enginn haldið því fram nema þessi hv. þm., sem hefur búið það til.

En til viðbótar er svo það að segja, að þessi hv. þm. hafði mann á launum í langan tíma til þess að skoða allt það, sem eftir mér var haft í síðustu kosningabaráttu, til þess að leita að yfirlýsingu um það, að ekki kæmi til mála af minni hendi að vinna með Alþb. eftir kosningarnar og hann fann aldrei neitt. Hann fann aldrei neitt frá mér um það atriði.

Þá var þessi hv. þm. mjög móðgaður, að því er virtist og honum var þungt í skapi út af því, að ég skyldi kalla Sjálfstfl, stjórnarflokk. Hvílík óhæfa! Ég kallaði Sjálfstfl. stjórnarflokk. Hann virtist alls ekki vilja við það kannast. Hann var órór út af því, hv. þm. Hvað er Sjálfstfl. annað en stjórnarflokkur? Hefur hann ekki lýst því yfir, að hann styðji núverandi ríkisstj.? Er ekki núverandi stjórn gerð að þingræðisstjórn með yfirlýsingu Sjálfstfl. um stuðning við hana? Hvað er hv. þm. að tala um? Þetta er nú svona sér á parti. En hvers vegna er hv. þm. svona viðkvæmur fyrir því, að Sjálfstfl. sé kallaður því rétta nafni, stjórnarflokkur? Það virðist vera meira, en lítill beygur í Sjálfstfl. við að bera ábyrgð á stjórninni. Kannske eru það sporin frá 1942, eða minningarnar frá 1942, sem hræða eitthvað í þessu tilliti. En ekki finnst mér þeim sjálfstæðismönnum farast stórmannlega, ef þeir vilja ekki kannast við stuðning sinn við núverandi ríkisstj. og ætla að leika í þessu efni fullkomlega tveimur skjöldum og neita í öðru orðinu að bera ábyrgð á því, sem þeir hafa gert. Og ekki sýnast þeir gera sér glæstar vonir um árangurinn af störfum hæstv. ríkisstj., að þeir skuli móðgast út af því að vera kallaðir stjórnarflokkur.

Hv. þm. sagði, að Sjálfstfl. hefði ekkert fyrir snúð sinn í sambandi við þetta stjórnarmyndunarmál. Manni skildist helzt, að Sjálfstfl. væri að vinna eitthvert góðverk, kærleiksverk með því að verja ríkisstj. falli eða með stuðningnum við ríkisstj. En þeir, sem þessum hnútum eru kunnugir, vita miklu betur. Þeir vita, að þessi stjórn er beinlínis mynduð vegna þeirrar afstöðu Sjálfstfl. að knýja fram kjördæmabreytingar og kosningar strax í vor og þeir vita, að þetta er gert með flokkshagsmuni Sjálfstfl. fyrir augum, eins og ég hef sýnt fram á nú þegar í þessum umræðum.

Sjálfstfl. telur kosningarnar nauðsynlegar sem allra fyrst til þess að þurfa að sýna sem minnst af úrræðum sínum fyrir kosningar. Það er höfuðástæðan. Það á að breyta kjördæmaskipuninni fyrst til þess að skapa grundvöll fyrir því, að Sjálfstfl. þori að sýna það, sem raunverulega býr inni fyrir í efnahagsmálunum, þessa breytingu á fjárfestingarstefnunni, sem verið er að boða, en fæst ekki sundurliðað enn, í hverju er fólgin. En við vitum, hvað meint er.

Svo þykist hv. 1. þm. Reykv. eiginlega ekkert vita um fyrirætlanir ríkisstj. Hann sagði m. a. í því sambandi, að það hefði ekki verið borið undir þá enn þá, hvort taka eigi 6 millj. dollara lán í Bandaríkjunum, 160 millj. kr., og hann sagði eitthvað á þá lund: Ég veit ekki, hvort þetta verður undir okkur borið. — Aumingja mennirnir. Ekki er nú ástandið gott, ef það verður ekki einu sinni ráðgazt við aðalstjórnarflokkinn um það, hvort eigi að taka 150-160 millj. kr. lán. (Gripið fram í: Er ekki. . . . ) Jú, það eru 150–160 millj. ísl. kr. með 55% álagi. Það er álag á lánsfé líka, þegar það kemur inn, og það verða 150–160 millj. kr. Nei, það er ekki borið undir þá, segja þeir, en auðvitað vitum við, að ríkisstj. ráðgast við Sjálfstfl. um sínar höfuðráðstafanir, enda væri það nú annað hvort, þar sem hann er aðalstuðningsflokkur stjórnarinnar. Og það vitum við auðvitað, að þeir hafa ráðgazt við Sjálfstfl. um þau frumvörp, sem þeir leggja hér fram í efnahagsmálunum. Og Sjálfstfl. ber raunverulega sömu ábyrgð á þeim frv. og Alþfl. og frágangi þeirra sem stjórnarflokkur.

Í sambandi við lántökurnar vil ég aðeins segja örfá orð.

Hv. 1. þm. Reykv. hefur haldið því fram undanfarið, að það væri hneykslanlegt og óverjandi fyrir Ísland að taka lán í Bandaríkjunum á vegum Bandaríkjastjórnar. Og hann hefur gengið lengra, þessi hv. þm. Hann hefur fullyrt og búið til um það eina af sínum alþekktu slúðursögum, að lántökunum hafi fylgt þau skilyrði, að varnarliðið yrði áfram á Íslandi. Þessi hv. þm. var einu sinni utanrrh. og ráðherra annarra deilda í fleiri ríkisstj., m. a. þegar samningurinn um Marshallaðstoðina var gerður og Marshallhjálpin þegin. Þá héldu kommúnistar því fram um þennan hv. þm., að hann hefði gert verzlunarsamning við Bandaríkin um það, að varnarliðið yrði hér og fengið Marshallaðstoðina á móti. Auðvitað var þetta lygi. Þetta var ósatt. Þetta gerði þessi hv. þm. ekki, þegar hann var ráðh., en það var sagt um hann þá. Nú hefur þessi hv. þm. lagzt svo lágt, að hann er að búa til sams konar lygasögu um fyrrv. ríkisstj. og kommúnistarnir gerðu um hann. Hann hefur lagzt svo lágt, þessi hv. þm., heldur fram sams konar fjarstæðu og sögð var um hann þá. Og það er meira. Nú hefur verið undirbúin 6 millj. dollara lántaka í Bandaríkjunum af hendi fyrrv. ríkisstj., og það verður tekið eftir því, hvort Sjálfstfl. sem aðalstjórnarflokkurinn ætlar að verða aðili eða ætlar að samþykkja, að þessi lántaka verði framkvæmd, því að engum dettur í hug, að hún verði gerð, nema Sjálfstfl. samþykki það, aðalstjórnarflokkurinn. Þetta lán verður tekið eftir nákvæmlega sömu leiðum og þau lán, sem hv. þm. Reykv. hefur lagzt svo lágt að viðhafa þessi ummæli um, að þau væru sníkjulán, að þau væru tekin með þessu skilyrði, sem hann veit að er ósatt. Nú verður tekið eftir því, hvort nýtt lán verður tekið á sama hátt eða ekki, eins og undirbúið hefur verið. Við í Framsfl. álítum rétt að taka þetta lán, en það verður tekið eftir því, hvort það verður gert eða ekki, nú þegar Sjálfstfl. er orðinn aðalstjórnarflokkurinn. Það verður tekið eftir því og það þýða ekkert svona auvirðileg undanbrögð eins og það, að ekki hafi verið talað við þá enn þá um þetta mál og að þeir viti ekki, hvort það verði undir þá borið að taka 150–160 millj. að láni. Það hefur fyndinn maður sagt um aðstöðu hv. 1. þm. Reykv. í þessum efnum og Sjálfstfl., að sennilega mundi það fara svo, að hann yrði að taka lán í tunglinu, ef hann kæmi til valda, því að hann hefur sagt, að það væri ódæði að taka lán fyrir austan járntjald og sníkjulán vestra væri hneyksli, sem enginn ærlegur maður gæti verið við riðinn, þess vegna yrði hann líklega að taka lán í tunglinu. Kannske ríkisstj. hætti við þessa fyrirhuguðu lántöku og sendi hv. 1. þm. Reykv, til tunglsins til þess að sækja þangað peninga, svo að hann þurfi ekki nánast að verða sér til minnkunar samanborið við það, sem hann hefur áður sagt um þessi efni í sambandi við lántöku. Kannske er enginn annar útvegur í þessu efni en sá. (Gripið fram í.) Ég skal náttúrlega ekkert segja, hvaða farartæki hv. 1. þm. Reykv. notar til tunglsins, en ég vona, að hann komi heill aftur, ef hann leggur í þessa glæfraför, því að þótt við séum oft að hnotabitast hér, þá mundi ég sannarlega sakna þess, ef honum heppnaðist ekki förin og á milli okkar er ekki nema allt gott að öðru leyti, þótt við deilum hér hart.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. að tala hér um eyðslulán og af því að ég sé, að þarna situr nú hv. 1. þm. Rang., þá er mér það minnisstætt, að hann hefur stundum brugðið sér í þær buxur að tala um eyðslulántökur fyrrv. ríkisstj. Og hv. 1. þm. Reykv. bætti því við, að þetta 6 millj. dollara lán, sem búið væri að leggja drögin að, ætti líka að vera eyðslulán. Það er gaman að athuga þetta ofur lítið nánar og gefur ástæðu til nokkurra spurninga.

Hv. 1. þm. Reykv. nefndi stórar fjárhæðir í sambandi við skuldaaukningar og þær voru nú eitthvað skrýtnar. En ég hef ekki haft aðstöðu til nú á stundinni að rannsaka það alveg ofan í kjölinn, hvernig á þeim mismun stendur, sem þar kemur fram. En samkvæmt þeirri skýrslu, sem á hefur verið byggt í þessu efni, hafa opinberar lántökur í tíð fyrrv. stjórnar numið sem næst 400 millj. kr. Og þessi lán, sem hv. 1. þm. Reykv. kallaði eyðslulán, í hvað hafa þau farið? Til hvers hafa þessi lán verið tekin? Þau hafa verið tekin í eftirtaldar framkvæmdir: til ræktunarsjóðs, til raforkuáætlunarinnar, fiskveiðasjóðs, sementsverksmiðjunnar, til flökunarvéla, til hafnar á Akranesi, til Sogsvirkjunarinnar og til þess að kaupa skipin 12. Nú vil ég spyrja hv. 1. þm. Reykv. Hvað af þessu er eyðsla? Hvað af þessu flokkar hv. 1. þm. Reykv. undir eyðslu? Engar vöflur. Þetta er tæmandi upptalning á því, sem lánin hafa gengið til, sem ríkisstj. hefur staðið fyrir að taka og nú er að segja. Hvað af þessu er eyðsla, telst undir eyðslu? Hann var að tala um það, hv. þm., að þegar menn tækju við þrotabúi, þá yrði stundum að taka lán eitthvað fyrst, þess vegna væri það svo sem ekkert einkennilegt, þó að Sjálfstfl. yrði að vera með einhverjar lántökur svona til að byrja með, það væri ekki strax hægt að taka upp þessa stefnu, að allt væri hægt að gera án lána. Hann sagði, að það væri neyðarkostur að taka eyðslulán, en það yrði kannske að gera og talaði um eyðslulán í sambandi við lántökuna, sem fyrirhuguð er í Bandaríkjunum og grundvöllur lagður að af fyrrv. ríkisstj.

En í hvað átti þetta fé að fara að ákvörðun fyrrv. ríkisstj.? Í fyrrv. ríkisstj, var ákveðið að leita eftir lánum í fjórar greinar fjárfestingarinnar, en ekki ákveðið í stjórninni, hvernig það skyldi skiptast á milli greina, enda ekki fullar lánsheimildir fyrir hendi, þannig að málið verður vafalaust að koma til þingsins, áður en slík lántaka gæti átt sér stað. En þessar fjórar greinar voru: ræktunarsjóður, fiskveiðasjóður, raforkuáætlunin og hafnargerðirnar. Það voru þessar fjórar greinar. Nú getur hv. 1. þm. Reykv. gert þetta upp við sig. Vill hann kalla byggingarnar í sveitunum, sem ræktunarsjóður lánar til, eyðslu? Vill hann kalla raforkulínurnar eyðslu? Telur hann það til eyðslu að kaupa báta og fiskiskip? Telst það til eyðslu að byggja sementsverksmiðju eða kaupa flökunarvélar í frystihúsin? Telst það til eyðslu að byggja nýju Sogsvirkjunina? Telst það til eyðslu að kaupa nýju skipin 12? Telst það til eyðslu að taka lán til þess að byggja nýjar hafnir? Þarna er það. Svo bíðum við eftir svari.

Að lokum vil ég svo aðeins segja þetta: Mér leikur grunur á því, að ég nú ekki fullyrði neitt, að eins og hv. 1. þm. Reykv. og sjálfstæðismenn yfir höfuð hafa haldið á málum sínum í stjórnarandstöðunni undanfarið, þá verði þau æðimörg jarðarmenin, sem þeir verða að ganga undir, um það er lýkur, ef borið er saman það, sem þeir hafa sagt og það, sem þeir eiga eftir að þurfa að gera. En þeir geta ekki kennt okkur um það. Þeir geta ekki reiðzt okkur fyrir það. Þeir verða að snúa þykkjunni að sjálfum sér. Þeir hafa kallað þetta yfir sig sjálfir.

Og svo vil ég segja það að lokum, það eru mín síðustu orð í þetta sinn, um þessa stjórnarmyndun, að það er eins og Sjálfstfl. hafi tilhneigingu til þess að vilja leika einhvern feluleik í þessu sambandi. Kannske það sé meining Sjálfstfl. að reyna að fela sig á bak við Alþfl.? En ætli það sé ekki hætt við því, að Sjálfstfl. standi þá alltaf vegna stærðarmunarins út undan, þannig að það sjáist alltaf á hann út undan Alþfl.? Og það held ég nú sannast að segja að verði niðurstaðan og þess vegna sé sá feluleikur alveg þýðingarlaus frá byrjun.