05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (1961)

84. mál, flugsamgöngur

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í fjarveru frsm. n. í þessu máli, hv. þm. V-Ísf., vil ég gera fyrir því örstutta grein af hennar hálfu. Till., sem um ræðir, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á nýjungum og framförum í smíða farþegaflugvéla, sérstaklega að því leyti er hentar innanlandsflugi á Íslandi og sparað getur fé við byggingu flugvalla.“

Það virðist vera augljóst mál, að það er mjög nauðsynlegt fyrir þjóð, sem byggir eins mikið á flugsamgöngum og Íslendingar, að láta slíka rannsókn fara fram, að gera raunar meira, að fylgjast ávallt með nýjungum í smíði farþegaflugvéla. En ég hygg, að nú sé sérstakt tilefni til þess að gefa þessu máli gaum, sökum þess að bent hefur verið á nýjar gerðir flugvéla, sem verið er að byrja að smíða og virðast gefa nokkrar vonir um, að hægt sé að komast af með miklu minni flugvelli, en álitið hefur verið hingað til. Ef þetta reynist svo, þá getur þjóð eins og Íslendingar sparað sér stórfé við flugvallagerð, og er því augljóst mál, að rétt er að fylgjast með hverju skrefi í þessu máli, á sama tíma sem varið er milljónum króna árlega til þess að stækka flugvelli víða á landinu. — Allshn. hefur leitað um þessa till. álits flugmálastjóra, og hann mælir með samþykkt hennar. N. mælir því með því, að till. verði samþykkt.