25.02.1959
Sameinað þing: 29. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (1968)

96. mál, birting skýrslna um fjárfestingu

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjárfestingar- og lánamálin hefur nokkuð borið á góma undanfarið hér á hæstv. Alþ. í umr. um efnahagsmál. Hér liggja þó ekki fyrir neinar till. um nýskipan þeirra mála, þó að slíkra till. væri að vísu að mínu áliti þörf, heldur er aðeins hér um það að ræða, að beðið er um nokkrar ákveðnar upplýsingar í þessum efnum, sem ég tel máli skipta. Og skal ég nú með fáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég tel það máli skipta, að þessar upplýsingar fáist, að mér finnst ástæða til þess, að hæstv. Alþ. geri sérstaka ályktun um það mál.

Það er kunnugt að, að undanförnu hafa Íslendingar haft meiri fjármuni til ráðstöfunar heldur, en nemur þjóðarframleiðslunni vegna lána, sem tekin hafa verið erlendis. Í tímariti Framkvæmdabankans, „Úr þjóðarbúskapnum“, sem útbýtt hefur verið meðal hv. þm., er einmitt í síðasta hefti af þessu tímariti eða 6. heftinu, greinagóð skýrsla um erlendar skuldir í árslok 1957 og jafnframt um þróun þeirra mála. Samkv. þessum upplýsingum, sem gefnar eru í nefndri skýrslu Framkvæmdabankans, hafa erlend lán numið í árslok árið 1955 329 millj. kr. Í árslok 1957 er tilsvarandi tala 867 millj. kr., svo að hér er um að ræða meira, en tvöföldun erlendra ríkisskulda á þessum tíma. Þess ber að vísu að gæta í sambandi við þessa skuldaaukningu, að þau erlendu lán, sem tekin höfðu verið, — það á við um bæði árin, sennilega þó í ríkara mæli um árið 1957, höfðu ekki verið að fullu notuð. Framkvæmdabankinn hefur enn fremur látið reikna það út fyrir hvert ár um sig, hve miklu nemi greiðslubyrðin, eins og það er kallað, en með því er átt við það, hve mikill hluti það sé af gjaldeyristekjunum, sem verja verður á ári hverju til vaxta og afborgana af erlendum lánum. Greiðslubyrðin hefur samkv. þessari skýrslu árið 1955 numið 2.6% af gjaldeyristekjunum, en fyrir árið 1959, eða yfirstandandi ár, er gert ráð fyrir því, að þessi greiðslubyrði sé komin upp í 7.8% af gjaldeyristekjunum, þannig að um þreföldun er að ræða frá árinu 1955.

Ég býst varla við því, að ágreiningur geti verið um það, að skuldasöfnun Íslendinga erlendis er nú orðin svo mikil, að ekki er fært að halda áfram á sömu braut, eins og verið hefur hingað til. Jafnvel þó að það væri vilji íslenzkra stjórnarvalda að halda áfram að taka erlend lán, þá hlýtur fyrr eða síðar að koma að takmörkunum fyrir því, að slík lán fáist.

Af þessu leiðir aftur, að við sjáum fram á það, að á næstu missirum verður minni erlendur gjaldeyrir til ráðstöfunar, en verið hefur undanfarið. Þjóðin getur ekki gert ráð fyrir því að geta á næstu missirum haft meiri fjármuni til ráðstöfunar, en nemur þjóðarframleiðslunni, heldur þvert á móti minni fjármuni vegna sívaxandi skuldabyrði, þannig að það mun varla vera of í lagt, að á næstu missirum megi gera ráð fyrir því, að ráðstöfunarfé þjóðarinnar verði a.m.k. 5% minna, en verið hefur að undanförnu. Þá vaknar sú spurning, þegar það er ljóst, að ekki verður með neinu móti umflúið á allra næstu missirum, að við herðum að okkur ólina í þessu efni: Á hverju á þetta að bitna? Þetta verður ein af þeim spurningum, sem stjórnmálaflokkarnir verða að svara kjósendunum í kosningum þeim, sem nú eru fyrirhugaðar.

Nú er það þannig með ráðstöfun þjóðarteknanna, að annaðhvort hljóta tekjurnar að vera notaðar á því tímabili, sem þeirra er aflað, það köllum við neyzlu, — eða þá að þjóðartekjunum er varið til birgðasöfnunar, verklegra framkvæmda eða annarrar eignaaukningar, en það er það, sem við köllum fjárfestingu. Það er ekki nema um þessa tvo möguleika að ræða, þannig að ef minna fé verður til ráðstöfunar, en áður hefur verið, þá hlýtur það að ganga annaðhvort út yfir neyzluna eða lífskjörin eða fjárfestinguna.

Ég ætla ekki hér að lýsa skoðun minni á því, hvora leiðina eigi að fara, enda skiptir hún út af fyrir sig ekki máli í sambandi við það mál, sem hér er til umr. En auðvitað verður það mikilvægt og nauðsynlegt, þegar menn vilja mynda sér skoðun á þessu, hvort það eigi heldur að vera neyzlan eða lífskjörin, sem skert eru, eða fjárfestingin, að vita það, hve mikil fjárfestingin er og hve miklum hluta fjárfestingin nemur af þjóðartekjunum, enn fremur hvers konar fjárfestingu er um að ræða, hvort öll sú fjárfesting, sem á sér stað, er það nauðsynleg, að ekki komi til mála að skerða hana, þannig að fara verði frekar hina leiðina, með þeim vanköntum, sem vissulega eru á henni, að skerða lífskjör almennings frekar, en orðið er.

Nú er mér fyllilega ljóst, að upplýsingar um þjóðartekjurnar hér á landi og ráðstöfun þeirra eru meira eða minna í molum. Öll upplýsingasöfnun hvað þetta snertir er á frumstigi hér hjá okkur, og er það mjög miður farið, en það er náttúrlega önnur hlið á þessu máli, hversu úr því skuli bæta. En það er einmitt eitt af þeim atriðum, sem óskað er að fá upplýsingar um, hve mikið sé að byggja á þeim upplýsingum, sem birtar hafa verið um þetta efni.

Samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja í þessu efni og nokkuð hefur borið á góma í umr. um efnahagsmál hér á hæstv. Alþ. að undanförnu, er full ástæða til þess að ætla, að fjáröflun til fjárfestingar hér á landi hafi að undanförnu ekki verið með þeim hætti, að samrýmist heilbrigðu efnahagskerfi. Samkv. skýrslu, sem útbýtt var á síðasta Alþýðusambandsþingi og samin mun hafa verið af starfsmönnum Framkvæmdabankans, áttu þjóðartekjurnar, eða það fé, sem þjóðin hafði til ráðstöfunar á árinu 1957, að nema 4.9 milljörðum kr. Af þessu var 2.6 milljörðum varið til neyzlu, 1.6 milljörðum til fjárfestingar og 700 millj. kr. í rekstrargjöld opinberra aðila, þannig að þetta þýðir m.ö.o., að um helmingi þjóðarteknanna er ráðstafað annaðhvort til fjárfestingar eða til þarfa hins opinbera.

Hvernig er þess fjár nú aflað, sem ráðstafað er í þessu skyni? Hvað snertir rekstrarútgjöld hins opinbera og opinbera fjárfestingu, a.m.k. að verulegu leyti, þá er fjárins aflað með skattaálögum, en þetta samanlagt gerir þó ekki nema um 1 milljarð kr., þó að maður gerði ráð fyrir því, sem ekki mun vera raunin að öllu leyti, að fjár til allrar fjárfestingar á vegum hins opinbera sé aflað með sköttum, en a.m.k. þegar um sveitar- og bæjarfélög er að ræða og að einhverju leyti sennilega hvað snertir framkvæmdir á vegum ríkisins, má gera ráð fyrir því, að þessa fjár sé aflað með lánum. Eftir er þá um hálfur annar milljarður, sem fjárfestingin nemur. Að nokkru leyti er staðið undir þessari fjárfestingu á þann hátt, að bankarnir og aðrar lánastofnanir lána út sparifé, sem þeim berst. En eins og ég benti á við umr. um niðurfærslufrumvarpið fyrir nokkru hér í hv. d., þá væri það þannig, að ef sparifé ætti að hrökkva til að standa undir þessari fjárfestingu, þá þyrftu menn að spara um þriðjung af þeim tekjum, sem þeir hafa afgangs í sköttum. En þar sem tekjurnar á framfæranda eru ekki nema rúmar 60 þús. kr., þá er það auðsætt, að af 50 þús. kr., sem þá eru eftir, þegar búið er að greiða skattana, sparar enginn af frjálsum vilja þriðjung teknanna, og fyrir fjölskyldumenn er þetta auðvitað ekki hægt.

Hvernig er þá þessi vandi leystur? Jú, hann er leystur á þann einfalda hátt, að bankarnir eða réttara sagt seðlabankinn er látinn lána til fjárfestingarframkvæmda umfram það, sem sparifjármynduninni nemur, þannig að nægilegs fjár sé aflað á þann hátt. Þetta skapar svo nægilega mikla verðbólgu í hagkerfinu til þess, að fólkið verður að herða nægilega að sér ólina, til þess að sá þvingaði sparnaður, sem með þessu er knúinn fram, verði nægur til þess að standa undir fjárfestingarframkvæmdunum. Svo framarlega sem á þeim upplýsingum er að byggja, sem Framkvæmdabankinn hefur gefið um þetta efni, þá verður ekki annað séð, en að aukin útlán seðlabankans hafi verið stórkostlega verðbólguskapandi á undanförnum árum. Og hvað sem líður skoðunum manna á skipan fjárfestingarmálanna, þá ætti að vera samkomulag um það, að hið sanna í þessu efni beri að upplýsa.

Eins og ég sagði áðan, þá er það ekki ætlun mín hér að lýsa skoðun minni á því, hvora leiðina beri að fara, vegna þess að við óumflýjanlega hljótum að hafa minni gjaldeyristekjur til ráðstöfunar á næstu missirum, en við hingað til höfum haft, það á að minnka fjárfestinguna eða hina að skerða neyzluna eða lífskjörin. Á hitt er þó rétt að benda, að ef niðurstaðan verður sú, að fjárfestinguna megi ekki skerða, þá hefur það miklu heilbrigðari áhrif á hagkerfið, að fjárins sé aflað með beinni og ódulbúinni skattaálagningu, heldur en með verðbólguaukningu, og undir öllum kringumstæðum á þjóðin að mínu áliti kröfu á því að fá að vita, hversu miklu þessi dulbúna skattaálagning nemur og hvernig því fé, sem þannig er tekið, hefur verið varið.

Ég ætla ekki í þessu sambandi að ræða þá hlið málsins, hvernig þessum málum beri að skipa. Þetta mál bar nokkuð á góma í hv. Nd. á sínum tíma í sambandi við athyglisvert frv., sem flutt var af hv. 3. þm. Reykv. En hvað sem því líður, hverjar endurbætur kunna að vera nauðsynlegar í þessum málum og hvernig þær eigi að framkvæma, þá getur að mínu áliti ekki verið ágreiningur um það, að nauðsyn beri til þess að samræma stefnuna í fjárfestingar- og útlánamálum annars vegar og stefnuna í verðlags- og kaupgjaldsmálum hins vegar. En hingað til hefur því yfirleitt farið fjarri, að þessu skilyrði hafi verið fullnægt, heldur hefur það þvert á móti verið þannig, að í verðlags- og kaupgjaldsmálum hefur þeirri stefnu verið fylgt að halda verðlaginu niðri, en í fjárfestingar- og útlánamálum hefur aftur á móti verið rekin verðbólgu- og þenslustefna. Það, að þetta verði samræmt, að það sé sama stefnan, sem rekin er á báðum sviðum, er að mínu áliti beinlínis skilyrði fyrir því, eins og ég gerði að vísu nokkra grein fyrir í sambandi við frv., sem flutt var í hv. Nd. af hv. 3. þm. Reykv., að það væri nauðsynlegt skilyrði til þess að fá yfirleitt starfhæft hagkerfi, að stefnan á hinum ýmsu sviðum efnahagsmálanna væri þannig samræmd, og væri það atriði í rauninni hafið upp yfir þann ágreining, sem út af fyrir sig er mikilvægur og er um það, hvernig efnahagsmálunum að öðru leyti beri að skipa, hvort ríkja eigi einstaklingsrekstur, opinber rekstur eða hvað. Og það er annað, sem í þessu sambandi er rétt að vekja sérstaka athygli á. Það er það atriði, að það, sem hingað til hefur þó gert mögulegt að hafa þá stefnu í fjárfestingar- og lánamálum, sem raun er á, er niðurgreiðslufyrirkomulagið. Það hefur verið kleift að halda dýrtíðaráhrifum útlánaaukningar bankanna í skefjum með því að borga niður vöruverð. Grundvöllurinn fyrir þessu var aftur sú staðreynd, að vísitölugrundvöllurinn, sem fram að þessu hefur verið notaður, er orðinn gamall. Gamli vísitölugrundvöllurinn var byggður á lífskjörum fátækra verkamanna hér í Reykjavík á árunum fyrir stríðið, þannig að það voru fáar, en brýnar nauðsynjar, sem voru langþýðingarmestu vörurnar í vísitölugrundvellinum, þannig að þá var tiltölulega auðvelt að halda niðri verðinu á þeim tiltölulega fáu vörutegundum, sem gildi höfðu í vísitölugrundvellinum, og afla þá fjár til þess með því að leggja gjöld á aðrar vörur, sem þar höfðu ekki þýðingu.

Nú skeði það einmitt um síðastliðin mánaðamót, að hv. alþm. samþykktu svo að segja einum rómi gagngera breyt. á vísitölugrundvellinum og þar með að mínu áliti að kippa grundvellinum undan þeirri stefnu í fjárfestingar- og lánamálum, sem hingað til hefur verið rekin. Þó að mikill ágreiningur væri að vísu um niðurfærslufrumvarpið, var þó eitt atriði, sem allir virtust vera sammála um að rétt væri að breyta, nefnilega vísitölugrundvöllurinn. Hv. þm. Alþb., sem greiddu atkv. gegn frv., tóku að vísu fram, að þeir teldu þessa breyt. bera að með öðrum hætti, en þeir hefðu óskað, en efnislega, ef ég tók rétt eftir, lýstu flestir því yfir, að þeir teldu, að þá breyt. ætti að gera.

En hvað þýðir þetta í rauninni, að það er búið að taka upp nýjan vísitölugrundvöll, sem miðaður er við til mikilla muna betri lífskjör, en hér voru fyrir stríðið ? Það þýðir það, að sú leið að halda dýrtíðinni í skefjum með auknum niðurgreiðslum verður raunverulega ekki lengur fær, af því að kostnaðurinn við að borga vörurnar niður, ef á að auka niðurgreiðslurnar, verður jafnmikill. og þar vinnst. Ég skal taka aðeins eitt einfalt dæmi þessu til sönnunar. Í gamla vísitölugrundvellinum hafði t.d. vara eins og saltfiskur tiltölulega mikið gildi. Saltfiskur er, miðað við næringargildi, tiltölulega ódýr neyzluvara, þannig að fátækar verkamannafjölskyldur hafa notað tiltölulega mikið af þessari vöru fyrir stríðið. Nú hefur bættur efnahagur gert það að verkum, hvort sem maður nú út af fyrir sig telur það af því góða eða illa, því að saltfiskur er vissulega holl neyzluvara, að saltfisksneyzlan er orðin hverfandi lítil. Aftur á móti vörur eins og áfengi og tóbak höfðu sáralítið gildi í gamla vísitölugrundvellinum, af því að þær verkamannafjölskyldur, sem héldu þá búreikninga, sem lagðir voru þar til grundvallar, höfðu blátt áfram ekki efni á því að neyta áfengis, þó að hugsanlegt sé, að suma hafi kannske langað til þess eins og aðra. Þess vegna lá sú leið einfaldlega við, — það er kannske hægt að kalla það að falsa vísitöluna, — að leggja gjöld á áfengi og verja svo þeim peningum, sem þannig komu inn, til þess að borga niður saltfiskinn og aðrar slíkar vörutegundir, sem þýðingu höfðu í vísitölugrundvellinum. En nú er þannig komið, að áfengið er orðið þýðingar meiri vara í vísitölugrundvellinum, en saltfiskurinn, svo að það verður ódýrara að borga niður áfengið heldur en saltfiskinn, ef í það fer, þannig að sú leið, sem hingað til hefur gert það mögulegt að reka þessa stefnu, er að mínu áliti ekki lengur fær. Verðbólguáhrifin vegna útlánaaukningar bankanna umfram sparifjármyndunina koma nú í miklu ríkara mæli og á skemmri tíma fram í vísitölunni. Það er ekki hægt að telja neinar líkur á því, að verkamenn muni hér eftir fallast á það, að breytt verði um orðinn hlut í þessu efni. Þeir munu eðlilega líta þannig á, að borðið helgi hér í þessu efni, þannig að það skref, sem nú hefur verið tekið, verður ekki tekið aftur. En það gerir einmitt miklu meira aðkallandi, en áður var, að fjárfestingarmálin og lánamálin verði athuguð, svo að ekki sé meira sagt, af meiri alvöru, en hingað til hefur verið.

Ég vil aðeins að lokum gefa skýringu á því, hvers vegna er talað um það, að sú skýrsla, sem hér er beðið um, eigi aðeins að ná til fjögurra síðustu ára. Það er vegna þess, að fram til ársins 1954 munu hafa verið birtar skýrslur um þetta efni, bæði um heildarfjárfestinguna, í hverju sem hún hefur verið fólgin, og hvernig aflað hefur verið fjár til hennar. Í þessu síðasta hefti af tímariti Framkvæmdabankans, sem ég nefndi, er að vísu skýrsla um fjárfestingu áranna 1954–58, mun þó aðeins vera um að ræða lauslegar áætlunartölur fyrir árið 1958, — og það er sundurliðað, til hvaða atvinnugreina þessi fjárfesting hafi gengið. En það er ekki þetta, sem er aðalatriðið að mínu áliti, heldur einmitt upplýsingar um það, hvernig fjár hefur verið aflað til þessarar fjárfestingar, sérstaklega að hve miklu leyti má telja þá fjáröflun verðbólgumyndandi. Um þetta eru til upplýsingar fram til áranna 1953–54, og ætti því að mínu áliti að vera mögulegt að fá þessar upplýsingar einnig fyrir seinni árin, því að ég tel, að einmitt það skipti meginmáli í þessu sambandi, þegar flokkarnir standa gagnvart því að marka stefnu sína í þessum málum fyrir kosningar