25.02.1959
Sameinað þing: 29. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (1970)

96. mál, birting skýrslna um fjárfestingu

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Mikið af því, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) sagði í sambandi við þetta mál, var að mínu áliti fyrir utan það, sem ég tel kjarna málsins, þó að hann kæmi inn á að ræða ýmsa hluti í sambandi við fjárfestingarmálin almennt, sem vissulega eru þess verðir að vera ræddir. En það voru sérstaklega lokaorð ræðu hv. þm., sem snertu það, sem hér er í rauninni um að ræða, nefnilega spurningin um það, hvort nauðsyn sé á því, að þessar skýrslur séu birtar. Hann taldi, að svo væri ekki, vegna þess að það, sem hér væri spurt um, lægi þegar fyrir í skýrslum, sem birtar hefðu verið.

Í þessu efni er um misskilning að ræða hjá hv. þm. Mér er það að vísu fyllilega ljóst, og þess gat ég í minni framsöguræðu, að það hafa verið birtar á vegum Framkvæmdabankans skýrslur um fjárfestingu undanfarinna ára og sundurliðun hennar á ýmsar atvinnugreinar. En það er ekki þetta, sem fyrst og fremst vakti fyrir mér. Það, sem upplýsingar vantar um, er það, hvernig fjár hefur verið aflað til þeirrar fjárfestingar, sem átt hefur sér stað, að hve miklu leyti fjárins hefur verið aflað með skattaálögum, eins og við vitum að tilfellið er hvað snertir mest af hinni opinberu fjárfestingu, og að hve miklu leyti sparifjársöfnun hefur staðið undir þessu, og að því leyti sem þetta tvennt hrekkur ekki til, þá er ekki nema einn möguleiki fyrir hendi, að það hefur átt sér stað verðbólgumyndun með útlánum bankanna. Það er þetta, sem skiptir mestu máli að mínu áliti að fá upplýsingar um. Og ég hefði ekki borið fram þessa þáltill., ef mér væri ekkí kunnugt um, að það ættu að vera möguleikar á því að fá þetta upplýst.

Ég gat þess í framsöguræðu minni, að í eldri heftum af tímariti Framkvæmdabankans eru skýrslur um þetta, fjáröflun til fjárfestingarinnar frá árinu 1953 a.m.k. og jafnvel frá árinu 1954, svo að það ætti þá einnig að vera hægt að fá upplýsingar um seinni ár.

Enn fremur er mér það kunnugt af gögnum, sem ég hef haft aðgang að og safnað var á vegum hæstv. fyrrv. ríkisstj., að athugun hefur verið á þessu gerð að meira eða minna leyti, þó að það sé nú sennilega hernaðarleyndarmál að skýra frá einstökum atriðum í sambandi við það, a.m.k. skal ég ekki fara út í það. En ég tel þess fulla þörf, að þessar skýrslur séu birtar.

Það var vitanlega ekkí ætlun mín að ætla hæstv. ráðherrum að ganga í það að safna þessum skýrslum og gefa þær út. Eðlilega verður það verkefni þeirra stofnana og starfsmanna þeirra, sem við þessa skýrslugerð hafa fengizt.

Annað, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, er að því leyti utan við það, sem ég tel kjarna málsins, að ég var aðeins að biðja um það, að þessar upplýsingar væru birtar, en hann fór almennt að tala um fjárfestinguna, hvort hún væri of mikil eða ekki. Það er stjórnmálalegt atriði, sem er svo út af fyrir sig.

Hv. þm. talaði um það, að fjárfesting væri óheppilegt orð. Það má vei vera, og það væri vonandi, að hægt væri að finna upp annað betra orð yfir þetta. En ég skal í stuttu máli skýra frá því, sem ég skil við fjárfestingu, sem ég hygg að sé sú merking, sem hagfræðingar leggja almennt í þetta. Fjárfesting er þýðing á enska orðinu „investment“ eða „investering“ á Norðurlandamálum. En með því er blátt áfram átt við verklegar framkvæmdir og birgðasöfnun. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það getur stundum verið vandi að draga þarna ákveðnar markalínur á milli eða skera úr því, hvað sé fjárfesting og hvað ekki. Venjan er sú, að öll neyzluvörukaup eru talin til neyzlu, þó að þar geti verið um að ræða fjárfestingu í þeirri merkingu, að ef um varanlegar neyzluvörur er að ræða, sem lengi endast, þá má segja, að ráðstöfun fjármuna þannig sé hliðstæð fjárfestingunni, en einhvern veginn verður auðvitað að draga markalínuna í því efni, og venjan er þá sú, að öll kaup á neyzluvörum, hvort sem þær eru varanlegar eða ekki, eru talin til fjárfestingar.

Ég tók það skýrt fram í minni framsöguræðu, að það væri ekki ætlun mín að lýsa skoðun minni á því, hvort það bæri heldur að minnka fjárfestinguna eða skerða neyzluna. Hitt tel ég að engum geti dulizt, að það á jafnt við hvað snertir einstaklinginn og þjóðfélagsheildina, að neyzla og fjárfesting hlýtur að vera hvað á annars kostnað. Fjárfesting er í rauninni það, að verðmæti eru geymd til seinni tíma í einni eða annarri mynd, og af því leiðir, að þau verðmæti, sem geymd eru, verða ekki um leið notuð. Það er alveg á sama hátt eins og fjármunum, sem bóndinn leggur í það að rækta jörð sína, verður ekki um leið varið til þess að kaupa húsgögn eða klæðnað á fjölskylduna o.s.frv. Þetta tvennt hlýtur að vera hvað á kostnað annars. Um það getur ekki verið neinn ágreiningur. Hitt má svo auðvitað aftur um deila, hvort leggja beri meiri áherzlu á það að auka neyzluna eða bæta lífskjörin, þegar yfir skemmri tíma er litið, eða leggja í fjárfestingu.

Hv. þm. lýsti eindregið sinni skoðun á þessu máli. Hann sagði, að eyðslan í þessu þjóðfélagi væri of mikil, hér hefðu allir nóg að bita og brenna, mat, klæðnað o.s.frv. Nú veit ég ekki, hvort hv. 7. þm. Reykv., forseti Alþýðusambands Íslands, sem hér situr á móti mér, er þessu að öllu leyti sammála, að allir hafi nóg af öllu í þessu þjóðfélagi, en það er önnur hlið á því máli. En það er undir öllum kringumstæðum fullkomlega heiðarlegur málflutningur að segja sem svo: Það skiptir meira máli fyrir ykkur, góðir hálsar, að búa í haginn fyrir framtíðina, heldur en að kýla vömb ykkar í dag. — Við því er ekkert að segja. En þó er það nú þannig, að um það getur þó varla verið ágreiningur, að markmið fjárfestingarinnar, sem hlýtur alltaf að hafa það í för með sér, að menn í bili verða að herða að sér ólina, hlýtur þó alltaf að verða bætt kjör síðar, því að í hvaða tilgangi er það, sem bóndinn ræktar jörð sína, byggir betri peningshús o.s.frv.? Hlýtur það ekki að vera einmitt í von um það, að aukin framleiðsluafköst búsins skapi honum möguleika á því seinna, að fjölskylda hans hafi meira að bíta og brenna, að hún geti keypt betri húsgögn, betri klæðnað, lyft sér upp einstöku sinnum o.s.frv. Það er í þessum tilgangi, sem framkvæmdirnar eru í flestum tilfellum gerðar. Það geta að vísu verið einstaka hugsjónamenn, og ekki nema gott um það að segja, sem telja, að aukin ræktun sé markmið í sjálfu sér, óháð því, hvort slíkt leiði til betri lífskjara eða ekki, en undir öllum kringumstæðum er einmitt ástæðan til þess, að lagt er í þessar framkvæmdir, sú, að menn gera sér vonir um það, að þessar framkvæmdir skapi möguleika á aukinni neyzlu og bættum lífskjörum, sem er eitt og það sama, einhvern tíma seinna. En nú er bara það einkennilega við þetta, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) raunar tók fram í sinni ræðu, að þær skýrslur, sem fyrir liggja um þetta efni, hvort sem þær er svo meira eða minna að marka, — það skal ég ekki segja um, leiða þá einkennilegu staðreynd í ljós, að neyzlan á mann, þrátt fyrir þá geysimiklu fjárfestingu, sem hér hefur átt sér stað síðustu 12–14 árin, er að raunverulegu verðmæti ekki meiri en 1948, og það er auðvitað þetta, sem er bogið við. Og er það ekki þannig, að skýringin á þessu, ef hún er rétt, er einmitt sú, að vegna þess að hagkerfið hefur farið svo úr skorðum sem raun er á, vegna þess að fjár til fjárfestingarinnar hefur ekki verið aflað með heilbrigðum hætti, þá er árangurinn ekki meiri en þetta? Ég skal, eins og ég sagði, ekki segja um það, hvað mikið þessar upplýsingar er að marka, en hv. þm. V-Húnv. lýsti furðu sinni á því, hvernig það gæti verið, að neyzlan hefði ekki aukizt þrátt fyrir aukna fjárfestingu. Hann spurði sem svo: Ef byggð eru íbúðarhús, kemur það þá ekki fram í aukinni vellíðan, vegna þess, að fólk hefur betra húsnæði en áður? Jú, það á það auðvitað að gera. En þá ætti þetta einmitt, aukning húsnæðisins, að koma fram í auknum neyzluþjóðartekjum síðar, því að notkun húsnæðis er einmitt einn þeirra liða, sem reikna á með, þegar neyzla þjóðarinnar er gerð upp. Það er nú einmitt svo, að á sama hátt og um misheppnaðar ræktunarframkvæmdir getur verið að ræða hjá bóndanum og e.t.v. þeim mun meiri hætta á því, að framkvæmdirnar verði misheppnaðar, ef maðurinn reisir sér fullkomlega hurðarás um öxl, þá er ég smeykur um, að mjög mikið af þeirri fjárfestingu, sem hefur átt sér stað, hafi ekki náð þeim tilgangi, sem henni hefur verið ætlað, að skapa grundvöll fyrir aukinni neyzlu eða bættum lífskjörum síðar, þannig að fólkið hefur borið byrðarnar til ekki neins.

Það er fullkomlega heiðarlegur málflutningur að segja við fólkið: Framkvæmdirnar eru nauðsynlegri, en neyzlan. Þið verðið að herða að ykkur ólina, svo að hægt sé, þrátt fyrir það þótt þjóðin hafi minna fé til ráðstöfunar en áður, að halda uppi sömu framkvæmdum. — En það er bara þetta, að þó að menn séu sammála um, að mikla áherzlu beri að leggja á fjárfestingu og verklegar framkvæmdir, þá þarf að vera samræmi á milli getu fólksins og vilja til þess að bera þær byrðar, sem þetta hefur í för með sér, og þess, sem gert er. Telji fólkið sig ekki hafa getu eða vilja til þess að standa undir þessum byrðum, þá leiðir af því átök á milli hagsmunasamtaka almennings og ríkisvaldsins, sem gerir það að verkum, að hagkerfið fer meira eða minna úr skorðum, þannig að árangurinn af fjárfestingunni verður ekki sá, sem til var ætlazt.

Það getur vel verið, og það er ekki nema skiljanlegur hlutur, að fólkið geri sér ekki eins ljóst samhengið í þessum málum og æskilegt væri. Það mun ekki vera úr lausu lofti gripið, að sjálfsagt hafa margir þeir, sem hér eru inni, bæði meðal hv. þm. og áheyrenda, komið á þingmálafundi, þar sem stjórnmálamaður, sem þar hefur talað, hefur lýst því, hvað honum hafi orðið ágengt að afla fjár til ýmissa verklegra framkvæmda. Mér tókst að fá fjárveitingu til þessara framkvæmda, bankalán til annarra framkvæmda o.s.frv. Honum er klappað lof í lófa. En það er bara þetta, að þegar sama fólkið, sem hefur tekið þátt í lófaklappinu, kemur svo á fundi í sínum fagfélögum, þá er annar maður, sem stendur þar upp og segir: Það er ekki hægt að bera þá dýrtíð og skatta, sem nú eru, við verðum að beita okkar samtökum til þess að fá leiðréttingu á því. Það er ekki annað hægt en gera verkfall og knýja fram hærra kaup til þess að vega eitthvað á móti þessari kjaraskerðingu. — Og sömu mennirnir, sem áður klöppuðu fyrir því, að fengizt hafði lán og fjárfesting til framkvæmdanna, klappar nú aftur, þegar till. kemur fram um það að velta af sér byrðinni af þessum ráðstöfunum með því að knýja fram hærra kaup. Það er í þessu, sem vandinn liggur, það þarf að samræma framkvæmdirnar þeirri getu og vilja, sem er fyrir hendi til þess að bera þær byrðar, sem af fjárfestingunni leiðir.

Að öðru leyti vil ég leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.