05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (1973)

96. mál, birting skýrslna um fjárfestingu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það urðu nokkrar umr. um þessa þáltill., áður en hún fór til n. Ég benti á við það tækifæri, að aldrei hefðu komið fram mér vitanlega glögg skil á milli þess, sem kallað er fjárfesting og neyzla, þar mundi vera um allmörg vafaatriði að ræða, og því væri ástæða til að efast mjög um, að það yrði auðvelt að fá um þetta tæmandi skýrslur. Til þess að fá glöggar skýrslur um slíkt yrði að sjálfsögðu að byrja á því að gera sér grein fyrir því, hvað þetta nýja orð, fjárfesting, merkir, hvaða athafnir manna og framkvæmdir eigi að koma undir það heiti. En þetta hefur mér vitanlega aldrei verið skýrt. Og trúað gæti ég, að það yrði torvelt, jafnvel þótt fræðimenn eigi um þetta að fjalla, að draga þarna ákveðnar landamerkjalínur.

Það er talað um það í till. einnig, að skýrslurnar eigi að sýna, hvernig hafi verið varið fjáröflun til hinnar svonefndu fjárfestingar, hvernig sú fjáröflun skiptist á milli skattaálagningar, sparifjármyndunar og verðbólgumyndandi fjáröflunar. Þar sem flm. talar um verðbólgumyndandi fjáröflun, þá geri ég ráð fyrir, að hann eigi við lánveitingar banka og annarra lánsstofnana, ef þeim lánveitingum er þannig hagað, að verðbólga geti myndazt í sambandi við þær. En mér er ekki ljóst, hvernig á að fara að því að finna það út með nokkurri nákvæmni, svo að um það verði birtar skýrslur, hvernig lánsfénu frá bönkum og öðrum lánsstofnunum er varið. Það er vitað, að lántakendur eru margir, bæði fyrirtæki og einstaklingar, og ég hygg, að það sé alls ekki auðvelt, það mundi kosta mikla vinnu, ef það ætti að safna upplýsingum um það, hve miklu af þeim lánum, sem hver einstakur aðili tekur hjá bönkum eða öðrum stofnunum, hann ver til þess, sem menn vilja kalla fjárfestingu, og hvað hann notar til annarra hluta, sem þá ættu að teljast með neyzlunni.

Till. var vísað til hv. allshn., og hún hefur skilað áliti á þskj. 461. Undir það hafa ritað fimm af sjö nm., tveir voru fjarverandi, er málið var afgreitt, eftir því sem þar hermir, og einn af þessum fimm, sem skrifa undir álitið, skrifar undir það með fyrirvara, sem ég veit ekki hvað þýðir, því að sá hv. þm. hefur nú fjarvistarleyfi.

N. segist hafa rætt málið og leitað umsagnar Hagstofu Íslands, Landsbanka Íslands, þ.e.a.s. Seðlabankans, og Framkvæmdabanka Íslands. En ekkert segir um það í nál., hvað þessir aðilar hafi um málið sagt, hvort þeir hafi talið þörf á því að birta þessar skýrslur.

Eins og ég hef áður vikið að í umr. um þetta mál, þá er allmikið til af skýrslum, sem snerta þessi efni. Hagstofan gefur út sínar skýrslur, Landsbankinn gefur út ársfjórðungsrit, sem nefnist Fjármálatíðindi, og þar birtast glöggar skýrslur um ýmsa þætti þessara mála, og Framkvæmdabanki Íslands, sem á samkvæmt l., sem um hann voru sett á sínum tíma, að annast um ýmsa þætti þessara mála og skýrslugerðir í því sambandi, hefur gefið út rit, sem hann nefnir: „Úr þjóðarbúskapnum“, og þar er að finna upplýsingar um það, hve mikið er lagt í ýmsar framkvæmdir, eins og byggingar, kaup á ýmsum framleiðslutækjum og margt fleira, sem menn munu vilja telja til fjárfestingar. Ég verð því enn að draga mjög í efa, að það sé brýn þörf fyrir meiri skýrslugerðir um þessa hluti, og einnig, að þær skýrslur geti orðið gerðar þannig, að á þeim sé hægt að byggja og fá nákvæmar upplýsingar úr þeim um þessa hluti.

Í nál. segir, að n. telji þó æskilegt að birta aðgengilegar, sundurliðaðar skýrslur um fjárfestingu síðustu ára, eftir að n. er búin að benda á það, að áður hafi verið unnið að skýrslugerð um þetta efni. Mér virðist þetta orðalag ekki benda til þess, að hv. allshn. sé sannfærð um, að það sé brýn þörf fyrir þetta og að leggja í kostnað við þessa skýrslugerð og birtingu skýrslna um þessi efni. Ég held, ef hún hefði talið, að þetta væri nauðsynjaverk, þá hefði hún orðað þetta ákveðnar, en þannig að telja þetta þó æskilegt, eftir því sem tök eru á.

Ýmsir menn eru hér og þeirra á meðal fræðimenn í þessum efnum, sem telja, að hin svonefnda fjárfesting eigi jafnvel mestan þátt í verðþenslunni, og hv. frsm. allshn. talaði um það áðan, að fjárfestingin ætti mikinn þátt í verðþenslunni. Ég veit ekki, hvort það er hægt frekar að kenna fjárfestingunni svokölluðu um verðþensluna heldur en eyðslunni hjá þjóðinni, sem hinir fróðu menn vilja nú kalla neyzlu, og það eru ýmsir menn, sem boða þær kenningar, að þá muni þjóðinni betur vegna, ef hún eyðir meiru af aflafé sínu daglega, heldur en hún gerir, en fari sér hægar við framkvæmdirnar, fari sér hægar við það að byggja upp landið og að leggja fram fé til framfaramála, bæði fyrir núlifandi kynslóð og þær, sem á eftir koma, en verji í þess stað meira af sínum tekjum árlega til hinnar svonefndu neyzlu eða eyðslu. Ég tel þetta mjög vafasamar kenningar, og ef það er meiningin með þessari skýrslugerð að fá þar einhvern grundvöll til þess að byggja á tillögur samkvæmt þessum kenningum, till. um það, að það verði dregið úr framfarasókninni, en eyðslan aukin, þá tel ég, að þeim krónum væri betur varið til annarra hluta, sem hér er ætlað að verja til að birta þessar skýrslur um svokallaða fjárfestingu.