15.04.1959
Sameinað þing: 39. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (1980)

141. mál, milliþinganefnd um öryrkjamál

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er af því, að ég tel þau atriði, sem hv. frsm. taldi upp og n. þyrfti að taka til athugunar, misþýðingarmikil og eitt vera þannig vaxið, að ég tel hæstv. ríkisstj. — og við erum svo heppnir núna, að forsrh. er hér í d. — þurfa að taka til athugunar, áður en n. skilar sínu áliti, en það er gerð gervilima.

Ég komst af tilviljun í það að aðstoða mann, sem missti fót fyrir tveimur árum eða svo. Jú, hann fór til læknis og fékk öll sín vottorð, og svo var hann sendur til einhvers gervilimamanns hér í Reykjavík. Hann fékk fót, sem hann gat gengið á með hækjum, ekkert gert, lærið var stokkbólgið alltaf og allt eftir því, og eftir að hann var búinn að baksa með þetta með miklum kvölum og harmkvælum og ekkert getað unnið sér inn nokkra mánuði, þá varð það úr, að hann var sendur til Danmerkur. Eftir fjórtán daga fékk hann fót. Eftir að hann kom heim með hann, vinnur hann fulla vinnu, gengur hækjulaus og sér enginn maður, að hann sé haltur.

Að hafa svona gervilimasmiði hér á landi og vísa mönnum til þeirra, þessa eða hins, af því opinbera til að fá fætur eða hvaða gervilim sem er, það nær ekki nokkurri átt. Það verður sem allra fyrst að vinna að því, að hér komist upp almennileg tækni til þess að geta gert gervilimi, svo að menn komist strax aftur í atvinnulífið, þó að þeir verði fyrir því óláni að missa handlegg eða fót og þurfi að fá gervilimi.

Ég vildi benda á þetta, því að ég held, að þetta þoli ekki bið. N. verður skipuð. Það er ég alveg viss um, að það eru ekki allir þm. með því. Hún mun starfa, og eftir 1–2 ár kemur eitthvert nál. En það geta margir þurft að halda á gervilim fyrir þann tíma og engin ástæða til að biða eftir því, að nál. komi um það, að þessu atriði sé kippt í lag.