23.01.1959
Neðri deild: 61. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Í umr. um þetta mál hér í gær minntist ég á það, að daginn, sem fyrrv. ríkisstj. lét af völdum, hefði með meiri hluta atkv. í ríkisstj. verið úthlutað 63 millj. kr. af fé, sem fallið hefði til í sambandi við setningu laganna um útflutningssjóð frá s. l. vori.

Þetta hefur nokkuð verið rætt hér frekar af ýmsum ræðumönnum, og ég sé nokkra ástæðu til að koma nokkru nánar inn á þetta atriði.

Ég minntist á þetta í þeim tilgangi, að ég var að vekja athygli á því, að svo hafði til tekizt á síðasta ári, að hreinn greiðsluafgangur mun verða hjá ríkissjóði, sem nemur 60–70 millj. kr. Auðvitað verður þessi greiðsluafgangur fyrir hendi vegna þess, að tekna hafði verið aflað til ríkissjóðs þetta rösklega eða þetta fram yfir það að halda uppi greiðslum til allra þeirra útgjalda, sem annars hafði verið stofnað til. En auk þess, að þessi greiðsluafgangur hafði myndast, hafði einnig fallið til þessi 63 millj. kr. fjárhæð. Það var raunverulega svo, að aflað hafði verið þarna tekna upp á 120–130 millj. kr. með þeirri skattlagningu, sem fram fór s. l. vor, fram yfir það, sem bein lögskilin útgjöld ríkissjóðs og útflutningssjóðs stóðu til. Ég vildi vekja athygli á því, að vitanlega var ekki hægt að innheimta þetta fé, nema af því yrðu ákveðnar afleiðingar. Vitanlega hlaut verðlag á varningi í landi að hækka af þessum ástæðum. Vitanlega hlaut vísitalan að hækka um allmörg stig sem bein afleiðing af þessu. Og svo kom það fram, að þegar þessi hækkun á vísitölunni sýndi sig og launþegar vildu vitanlega fá sína bót vegna verðlagshækkana, þá komu þeir menn, sem fastast höfðu sótt á um það að hafa skattlagninguna sem hæsta, og vildu ekki standa við það, sem orðið var, vildu hlaupast frá afleiðingunum og leggja til, að vísitalan yrði slitin úr sambandi og launþegar fengju ekki uppbætur, sem nam hækkuðu verðlagi.

En þegar þessi atriði eru nú rædd, þá eru svörin þessi: Jú, þessum 63 millj. kr., sem þarna féllu til, af því að útflutningssjóður var látinn borga yfirfærslugjald á þetta fé, þeim hefur verið úthlutað á ágætan hátt, ágætar framkvæmdir í landi hafa fengið þessa fjárhæð. — Og hver er á móti því, að sementsverksmiðjan okkar fái um 18 millj. kr.? Og hver er á móti því, að ræktunarsjóður landsins fái 17 millj, kr.? Og hver er á móti því, að raforkuplan dreifbýlisins fái um 13 millj. kr. o. s. frv.? Ekki vil ég neita því, að þessar framkvæmdir séu í eðli sínu allar góðar og þess maklegar að fá fé og þeim verði komið upp. En menn verða að gera sér fyllilega grein fyrir því, að ef á að fara þá leið að byggja upp sementsverksmiðju eða byggja upp aðrar stofnframkvæmdir á þann hátt að hækka skatta og tolla, að hækka verðlag í landinu, sem vitanlega hlýtur að kalla á hækkað kaupgjald, þá er það vægast sagt hæpin ráðstöfun og verður ekki farin nema þá að mjög takmörkuðu leyti.

Ég vil benda á í þessu sambandi, að eitt af því þýðingarmesta fyrir okkar efnahagslíf væri, að við gætum keypt allmarga nýja og stóra togara til landsins. Við vitum, að okkar togarafloti gengur mjög ört úr sér. Hvernig stendur á því, að þessir togarar, sem um hefur verið rætt að kaupa, hafa ekki verið keyptir? Við höfum ekki haft handbært fé til þess að kaupa þessi skip. En hefur mönnum þá ekki dottið í hug það snjallræði að hækka alla tolla og skatta á landsmönnum, taka inn svona eins og tvisvar sinnum 63 millj. kr. í hækkuðu vöruverði í landinu til þess að nota þetta fé í því bráðnauðsynlega skyni að kaupa inn þessi þýðingarmiklu framleiðslutæki til landsins? Nei, allir hafa verið sammála um, að við gætum ekki keypt togarana, að slíkt yrði að bíða, þar til við gætum fengið eðlilegt stofnlán til þessara kaupa. En á sama tíma sem menn hugsa svona í sambandi við þessi undirstöðuframleiðslutæki þjóðarinnar og kaup þeirra verða að bíða, þá geta menn eigi að síður hugsað sér að fara að afla stofnfjár til þess að byggja sementsverksmiðju og til annarra slíkra framkvæmda eins og hér hafa verið nefndar á þennan sama hátt, að leggja á nýja tolla og skatta, hækka vöruverð í landinu, en hlaupið svo frá afleiðingum þess, sem kemur fram í hækkaðri vísitölu og hækkuðu kaupi.

Það þýðir vitanlega ekki að loka augunum fyrir því, að ef menn ætla sér að velja þá leið að afla stofnfjár til kostnaðarsamra framkvæmda í landinu á þennan hátt, þá hlýtur að verða erfitt að eiga við efnahagsmálin á hverjum tíma hér á Alþingi. Það lá alveg ljóst fyrir, þegar efnahagsmálalöggjöfin var sett í maímánuði s. l., að þessar 63 millj. kr., sem þarna féllu til í sambandi við yfirfærslubætur af þessum erlendu lántökum, voru fullkomin eign ríkisins og enginn annar átti þetta fé, en íslenzka ríkið. Og það var því í rauninni alveg sama sem gilti um það og aðrar ríkissjóðstekjur, enda var það viðurkennt af efnahagsmálasérfræðingi ríkisstjórnarinnar, ráðunaut ríkisstjórnarinnar, að það mætti vissulega hafa yfirfærslugjöldin nokkru lægri, en þau voru ákveðin, þannig að heildartekjurnar yrðu þessum 63 millj. kr. lægri, ef menn vildu hafa það svo. En þessi leið var valin, að hafa yfirfærslubæturnar þetta háar og þannig féll þetta fé til.

Þegar um það er rætt að skera nokkuð niður útgjöld á fjárlögum, þá er það svo, að ýmsir eru þeir menn, sem telja það með öllu útilokaða leið. Hv. 1. þm. S-M. (EystJ) vék að þessu máli í sinni ræðu fyrr í kvöld og hann taldi, að hann vissi nokkuð um það, hvað fyrir okkur vekti, Alþýðubandalagsmönnum, þegar við ræddum um, að það mætti lækka fjárl. nokkuð, og hann taldi þar upp í þeim efnum nokkra útgjaldaliði, sem við höfðum bent á, en nefndi þó vitanlega ekki marga þá, sem hér skipta miklum mun meira máli. Við drögum enga dul á, að það geti þurft að gripa til þess fremur, en að reyna að knýja í gegn kauplækkun, sem erfitt mun verða að koma í gegn, að draga nokkuð úr fjárfestingarfjárveitingum, sem í fjárlögum eru, til vissra framkvæmda, þar sem fjárhækkunin hefur orðið óeðlilega mikil eða mjög mikil á síðustu árum. Við erum ekkert hræddir að segja frá því, að við álítum t. d., þegar slíkt stökk er tekið, að útgjöld á fjárlögum í sambandi við raforkumálaframkvæmdir eru hækkuð frá fjárlögum 1956 úr 8.7 millj. kr. og nú á s. l. ári, þegar allt er talið þar með, upp í 15 millj. kr., að þá er vitanlega slík fjárveiting mjög erfið, að ráða við hana til margra ára í senn. Og við kjósum miklu fremur að hægja þar nokkuð á framkvæmdum, þegar komið er yfir örðugasta hjallann, heldur en ætla að knýja fram þá kauplækkun, sem framsóknarmenn leggja nú höfuðáherzlu á og rufu stjórnarsamstarfið út af.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. S-M. minntist hér á í ræðu sinni, við höfðum minnzt á það m. a. í okkar till., að það mætti t. d. draga nokkuð úr lögreglukostnaði. Við lítum svo á, að það sé engin þörf á því, að lögreglukostnaður ríkisins suður á Keflavíkurvelli, innan girðinga þar, sé 3.7 millj. kr. á hverju ári. Við teljum, að þetta sé langt umfram það, sem nokkur þörf er á. Hv. 1. þm. S-M. lemur höfði sínu í steininn ár eftir ár og neitar því með öllu að vilja taka til athugunar að færa þennan lið niður. Það er vitanlega hægt að nefna marga aðra liði, sem eru þess eðlis, að það ber bein skylda til að spara þar nokkuð.

Hv. 1. þm. S-M. minntist hér einnig á aðra till. frá okkur í þessum efnum. Svo er háttað málum, að íslenzka ríkið hefur hvorki meira né minna, en tvö sendiráð í París. Margir álíta, að við gætum vel komizt af algerlega án nokkurs sendiráðs í París, að við gætum t. d. látið sendiráð, sem við höfum í London, vinna þetta verk. En dýrustu sendiráðin, sem við höfum erlendis, eru í París, hvort um sig þar, og þau eru tvö. Skyldi það nú vera goðgá að minnast á það að spara þarna svona eins og 1 millj. kr. á því að leggja niður annað af þessum tveimur sendiráðum ?

Nei, hv. 1. þm. S-M. veit það vel, að í fyrrv. ríkisstj. lögðum við Alþýðubandalagsmenn fram skriflegar till, í mörgum liðum um sparnað á útgjöldum á fjárlögum upp á rúmar 20 millj. kr. Þær liggja allar fyrir, hann getur lesið þær upp, þegar hann vill og vitanlega reynt að telja mönnum trú um, að hann sé svo miklu meiri framkvæmdamaður og framfaramaður en aðrir, vegna þess að hann vilji eyða þessu fé. En ég hygg nú, að a. m. k. muni svo fara fyrir flestum launþegum í landinu, að þeir óski fremur eftir því að fá að halda því kaupi óskertu, sem þeir hafa nú fengið samkvæmt rétt gerðum samningum við sína vinnuveitendur, heldur en halda öllum þeim útgjöldum algerlega óskertum, sem eru á því fjárlagafrv., sem nú liggur hér fyrir Alþingi.

Hv. 1. þm. S-M. gerðist æði stórorður, þegar hann ræddi um þessi mál hér. Ég tók eftir því, að hann sagði, að það værum við sósíalistar, sem bærum meiri ábyrgð eða hefðum átt meiri þátt í útgjöldum ríkisins en nokkrir aðrir. Ja, þetta hlýtur nú að skjóta nokkuð skökku við. Við höfum ekki verið í ríkisstj. nema tiltölulega skamman tíma, og það hefur ekki gerzt ýkja mikið í þessu á þeim tíma. En hann hefur verið fjmrh. landsins um tuttugu ára skeið. Hann vitanlega ber minnihlutaábyrgð í þessu efni, en þeir, sem hafa verið utan ríkisstj. allan tímann, bera hér meginábyrgðina á, segir hann. Er þetta nú ekki að reyna að skjóta sér undan ábyrgðinni á heldur lítilmannlegan hátt ?

En þessi hv. þm. þiggur það samt sem áður að þakka sér svo allar þær ágætu framkvæmdir, sem fé hefur verið veitt til á fjárlögum. Það er nefnilega svo, að það hefur verið algengt á undanförnum árum, að þegar við fulltrúar Alþb. hér á Alþ. höfum flutt till., sem miðað hafa að útgjöldum hjá ríkinu, þá eru þær venjulega teknar af hv. 1. þm. S-M., sem lengst af hefur verið fjmrh., þær eru lagðar saman, jú, þær mynda þetta háa upphæð, — ja, svona vilja þeir nú auka mikið útgjöldin hjá ríkinu. Þegar hann er búinn að skáka fram sínum till. upp á 800–900 millj. kr. og ef aðrir leyfa sér þá að minnast á útgjöld upp á 5 eða 10 millj. kr., þá hljóta þær till. allar að vera til viðbótar eða hækkunar á öllu því, sem fyrr er sett inn á plaggið af honum. Nei, málið er nefnilega þannig, að þó að við leggjum til till. um útgjöld, þá höfum við gjarnan bent á, að það er ósköp auðveldur hlutur að skapa rúm á fjárlögunum fyrir þessi útgjöld, án þess að heildarútkoma fjárl. þurfi að hækka.

Það hefur komið mjög ljóslega fram í þessum umr., að hvaða leyti ágreiningur er hér í sambandi við lausn efnahagsmálanna á milli okkar Alþýðubandalagsmanna annars vegar og framsóknarmanna hins vegar. Hv. 1. þm. S-M., sem hér er aðaltalsmaður Framsfl., heldur sér í sambandi við lausn efnahagsmálanna að þeirri höfuðkröfu, að það sé óhjákvæmilegt að lækka allt kaupgjald í landinu, þar með kaupgjald hinna lægst launuðu, um ekki minna en 8%. Hann vill halda þannig á málunum, að þegar hann hefur sjálfur staðið að því, að álögur yrðu hækkaðar mjög verulega, tekjur ríkissjóðs stórhækkaðar, þá verði þannig staðið að málunum að neita að standa við afleiðingarnar af þessum verðhækkunum, sem þannig hafa myndazt og neita launþegum um að fá réttar bætur á móti hækkandi verðlagi. Við Alþýðubandalagsmenn erum algerlega á móti þessari skoðun. Við teljum, að höfuðnauðsyn sé að vernda láglaunamennina í landinu, reyna að tryggja kaupmátt launa þeirra, við bendum á, að áður en til greina komi að óska eftir lækkunum frá þeirra hendi, þá verði ríkissjóður að sýna sparnað, þá verði a. m. k. að skila aftur því fé, sem sannanlega hefur verið oftekið til ríkissjóðs. Við höfum einnig bent á það margsinnis í okkar till., að það sé ástæða til þess að innheimta þá viðbótarfé, ef með þarf, af ýmsum auðfélögum í landinu, sem sannanlega hafa rakað að sér gróða á undanförnum árum. Í þeim efnum höfum við margsinnis lagt til í ríkisstj., að tekin yrði upp einkasala á olíu og létt m. a. af landsmönnum og sjávarútveg landsmanna, verulega miklum álögum á þann hátt. Við höfum iðulega bent á, að það mætti skerða nokkuð gróða bankanna. Í þessum efnum hefur Framsfl. ekki fengizt til þess að hlusta á okkar mál, en haldið sér stíft við sína meginkröfu um það, að vandann verði að leysa einhliða með almennri kauplækkun. Þarna skilur á milli framsóknarmanna og okkar Alþýðubandalagsmanna alveg greinilega. Og það er ósköp hætt við því, að það takist ekki vinstra samstarf í landinu og ekki samstarf á milli okkar Alþýðubandalagsmanna og framsóknarmanna, hvorki um stjórn landsins né um ráðstafanir yfirleitt í efnahagsmálunum, á meðan Framsfl. heldur sér við þetta heygarðshornið, meðan hann skilur ekki þá nauðsyn að vernda laun hinna lægst launuðu í landinu og meðan hann skilur ekki, að það er meiri ástæða til þess að draga úr síhækkandi útgjöldum hjá ríkinu, heldur en ætla að knýja fram launalækkun.

Deilur okkar við sjálfstæðismenn eru enn þá viðtækari í þessum efnum. Það er að visu jafngreinilegt nú og áður, að Sjálfstfl. keppir sí og æ að því að koma fram kauplækkunum. Hans máttarstólpar óska eftir því að fá vinnuaflið við sem lægstu verði og geta á þann hátt gert sinn hagnað sem mestan. Og hvað sem líður einstökum kröfum, sem fram koma hjá einstaka sjálfstæðismönnum við viss tækifæri og miðaðar eru við að reyna að sprengja þá ríkisstj., sem þeim stendur nokkur beygur af, hvað sem líður einstaka kauphækkunarkröfum, sem kunna að koma frá þeim, þá vitum við, að undir niðri vakir fyrir þeim, og það kemur alltaf í ljós, þegar þeir fá að sýna sína valdaaðstöðu, — þá vakir fyrir þeim að koma á kauplækkun og þeir jafnvel segja, eins og komið hefur fram í þessum umr., að þessi 6% kauplækkun, sem þeir hafa verið að leggja til og nú á að samþykkja, sé bara fyrsta skrefið. Þeir ætla að stíga miklu fleiri skref og miklu stærri skref, þegar þeir fá betri aðstöðu til þess, í þessum efnum. Þetta kemur okkur ekkert á óvart. Við vitum mætavel um þessa afstöðu sjálfstæðismanna.

Það er svo haldlaust, fyrir þá sjálfstæðismenn í þessum efnum, að ætla sér að sleppa við ábyrgðina af því, sem þeir eru nú að gera varðandi launafólk í landinu, með því að reyna að halda því fram, að viðskilnaður fyrrv. ríkisstj. sé þannig varðandi rekstur þjóðarbúsins, að nú verði ekki komizt hjá því, að almenningur í landinu verði að fórna. Allar lýsingar hv. 1. þm. Reykv., Bjarna Benediktssonar, um það, að hér sé í rauninni gjaldþrotabú, sem vinstri stjórnin skilji eftir sig, og af því þurfi að grípa til þessara neyðarráðstafana, — allar slíkar yfirlýsingar hljóta vitanlega að detta með öllu dauðar og ómerkar. Það vita nefnilega allir landsmenn, að þegar fyrrv. ríkisstj. lét af völdum, þá var öll staða þjóðarbúsins miklum mun betri og á allt annan veg en hún var, þegar þessi hv. þm., 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, fór úr ríkisstj. Þegar Sjálfstfl. skildi við stjórnarstólana, var þannig ástatt, að þá var búið að lofa sjávarútveginum í greiðslum nokkuð á annað hundrað millj. kr., sem ekkert fé var fyrir hendi til að greiða. Þá voru skuldir útflutningssjóðskerfisins nokkuð á annað hundrað millj. kr. En nú er hins vegar viðskilnaður þannig, að útflutningssjóður á nokkurt handbært fé fram yfir þær kröfur, sem fram eru komnar frá útveginum í landinu. Hans hagur er núna góður. En hann var raunverulega gjaldþrota, þegar hv. 1. þm. Reykv. fór úr stjórnarstól sínum.

Nú liggur það fyrir, að afkoma sjávarútvegsins og atvinnuveganna í landinu er þannig, þegar nú er glímt við vandamálin, að afkoma atvinnuveganna hefur verið mjög góð. Það liggur nú fyrir viðurkennt af öllum, að togaraflotinn í landinu hefur yfirleitt skilað álitlegum gróða á s. l. ári. Það liggur líka fyrir, að frystihúsaiðnaðurinn í landinu hefur skilað gróða á s. l. ári. Og meginhluti framleiðslunnar hefur verið rekinn á hagstæðan hátt á árinu, sem nýlega er liðið. En hvernig var þessu háttað, um það leyti sem Sjálfstfl. yfirgaf ríkisstj.? Þá var þetta á allt annan veg. Þá lýstu því allir yfir, að það væri bullandi taprekstur á öllum greinum sjávarútvegsins og það þyrfti því ekki aðeins að afla tekna til þess, að þeir sjóðir gætu staðið við sínar skuldbindingar, sem áttu að standa undir greiðslunum til útvegsins, heldur þyrfti einnig að afla tekna til þess að rétta við rekstraraðstöðu sjávarútvegsins í landinu.

Það er líka á öllum þeim sviðum, sem skipta fjárhagsafkomu í landinu, gersamlega annað ástand nú eða var um það leyti, sem hv. 1. þm. Reykv. fór úr stjórn. Þann tíma, sem sjálfstæðismenn réðu hér mestu í ríkisstj., var þannig haldið á málunum varðandi undirstöðuatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn, að þá rýrnaði fiskiskipaflotinn jafnt og þétt frá ári til árs. Þetta sýna opinberar skýrslur. En nú á tíma vinstri stjórnarinnar hefur þetta tekið stökkbreytingum fram á við, þá hefur fiskiskipastóllinn stórlega aukizt og búið er að undirbúa þar enn meiri aukningu og afla fjár í því skyni. Það er því engin ástæða til þess, að Sjálfstfl. komist upp með það nú að halda því fram, að það þurfi vegna einhverra neyðarráðstafana að rjúka til þess nú að lækka kaup launþega í landinu vegna þess, hvernig viðskilnaður ríkisstj. hafi verið á þjóðarbúinu. Það fær ekki staðizt. Hið sanna er það, að við erum aðeins að sjá hér framan í byrjunarframkvæmdina á hugsjón Sjálfstfl, í þessum efnum, að koma fram kauplækkun. Hann er aðeins að byrja að framkvæma sínar till. Meira mun koma á eftir.

Það var fyrr í þessum umr., að ég hafði nokkuð vikið að því, að nú hefði verið samið m. a. við framleiðsluatvinnuvegina á þann hátt, að um það væri ekki að villast, að ætlað væri nú að greiða atvinnuvegunum nokkuð hækkaðar bætur frá því, sem áður hefði verið, hækkaðar bætur frá því, sem t. d. umboðsmenn útgerðarinnar höfðu sjálfir samið um og höfðu lýst yfir að væru mjög sanngjarnar bætur og mættu tryggja útgerðinni eðlilega rekstrarafkomu.

Hæstv. menntmrh. gerði hér tilraun til þess að reyna að hrekja þetta og hélt því fram, að þannig hefði verið samið við útgerðina nú, að hún hefði ekki fengið neinar bætur til viðbótar því, sem henni hefði verið ætlað áður, nema á móti þeim verðhækkunum, sem hún hefur orðið fyrir nú á þessu ári. Sannanir þær, sem hann reyndi að færa hér fram fyrir þessari fullyrðingu sinni, voru svona álíka sannfærandi fyrir mig eins og þær fullyrðingar hæstv. ríkisstj., að þegar launþegar eru látnir gefa eftir bótalaust 10 vísitölustig eða eiga að missa 5.4%, eftir því sem ríkisstj. segir, bótalaust af kaupi sínu, þá eigi afleiðingin af því að verða kjarabætur, eins og ríkisstj. hefur sagt í grg. síns frv. og þessi hæstv. ráðh. tekur að sér að reyna að sanna, — eða farið svona álíka nákvæmlega með tölur eins og þegar hann í ræðu sinni hér sagði, að í till. Alþb. hefði verið gert ráð fyrir því að borga niður 15 vísitölustig, sem mundu hafa kostað a. m. k. 97 millj. kr., en í sömu ræðunni er svo það hins vegar sagt, að stjórn Alþfl. sé að borga niður 13 vísitölustig og það kosti bara 75 millj. kr. Auðvitað er ekki hirt um það að láta þessum tölum bera saman. Það virtist eiga að kosta miklu meira hvert stigið, þegar hann reiknar það út í nafni Alþb., heldur en þegar hann reiknar það út í nafni Alþfl., ríkisstj.

Nei, tölur hæstv. ráðh. voru ekki sannfærandi. En ég skal án þess að fara ýtarlega út í samanburð á þeim bótum, sem sjávarútveginum eru ætlaðar nú samkvæmt nýgerðum samningi og þeim bótum, sem í gildi voru áður, en það mun gefast væntanlega tími til þess að fara nákvæmar út í það síðar, þá vil ég þó aðeins benda á þetta:

Þær bætur, sem sjávarútvegurinn bjó við, voru miðaðar við kaupgjaldsvísitölu 183 stig og það grunnkaup, sem þá var almennt í gildi. Nú hefur orðið sú breyting á, að grunnkaup hefur breytzt, eins og ég sagði áður, frá 5–9%, en vísitalan, sem reiknað var almennt með og hafði verið nú alllengi, var 185 stig. Það var því alveg augljóst, að það, sem sjávarútvegurinn gat átt ýtrasta kröfu til að fá bætur fyrir nú að þessu sinni, miðað við vísitöluna 185, var að fá bætur, sem jafngiltu grunnkaupshækkuninni frá 5–9%, enda hefur þetta verið margviðurkennt af öllum og m. a. forsvarsmönnum útvegsmanna.

Í því frv., sem ríkisstj. hefur nú látið útbýta hér um breyt. á l. um útflutningssjóð, segir beinlínis, að það hafi verið látin fara fram athugun á því, hversu miklar þessar bætur þyrftu að vera til útvegsins, þegar miðað væri við vísitöluna 185 og svo hina nýju grunnkaupshækkun, sem orðin var, og í þessu frv. segir, að þessi athugun hafi leitt í ljós, að það mundi þurfa að bæta útflutningsframleiðslunni þetta upp með 105 millj. kr. En nú er það svo, að sundurliðun á þessum 105 millj. kr. sýndi, að þar var gert ráð fyrir því, að sjávarútvegurinn fengi að stórhækka fyrningarafskriftir sínar frá því, sem áður var, svo að það var alveg augljóst mál, að uppbæturnar áttu ekki að vera svona miklar.

En svo kom annað til, sem menn viðurkenndu líka, að það hafði annað gerzt á móti því, að grunnkaupshækkunin hafði fallið á til aukinna útgjalda fyrir útgerðina, þá hafði útgerðin í þessu efni fengið annað til, sem var henni hagstætt. Allmikill hluti af útflutningi okkar hafði beinlínis hækkað í verði, frá því að síðast var samið, á erlendum markaði, og frystihúsin í landinu höfðu stóraukið framleiðslu sína og þannig bætt alla afkomu sína.

Nefnd, sem ríkisstj. setti til þess að athuga þetta mál, gaf það frá sér skriflega og ég á í mínum höndum það bréf, að hennar athugun hefði leitt í ljós, að frystihúsin í landinu gætu fyllilega tekið á sig alla grunnkaupshækkunina og ættu engar bætur að fá, vegna þess að þær breytingar hefðu orðið á öðrum liðum í rekstri þeirra, sem þessu næmi.

Það er því alveg ljóst af þessu og reyndar enn fleiri ástæðum, sem ég skal greina nánar síðar, þegar þetta verður hér til umr., að það átti ekki að þurfa að semja um 105 millj., heldur allmiklu lægri upphæð. En svo kemur hæstv. forsrh, hér fram og tilkynnir, að samið hafi verið, miðað við vísitöluna 185, um 159 millj. kr.

Það er því engum blöðum um það að fletta, að hér hefur verið aukið við bæturnar til útflutningsframleiðslunnar um nokkra tugi milljóna króna og ég efast ekki um það fyrir mitt leyti, að þessar auknu bætur munu nema varla lægri upphæð en 60–70 millj. kr., þegar mælt er yfir allan flotann yfir árið.

Það er svo rangt, sem hér hefur verið sagt, m. a. af 1. þm. S-M., að ég hafi hagað orðum mínum þannig hér, að þetta hafi verið eitthvað óguðlegt, þetta sé eitthvað stórhættulegt. Nei, fyrir mér er það ekki þannig. Ég get vitanlega alveg viðurkennt það, það má vel hugsa sér að ætla að gera afkomu útgerðarinnar enn betri, en hún hefur verið á s. l. ári. Það er vel hægt að hugsa sér það, að útgerðin fái að hagnast enn meira en hún fékk að gera nú. En ég neita því líka algerlega, að með þeim frv., sem nú hafa verið lögð fram hér á Alþingi af núv. hæstv. ríkisstj., sé bættur hagur útgerðarinnar tryggður með þessu á nokkurn hátt nema hreinlega með því að lofa upp í ermina sína. Það er enginn vandi að hækka bæturnar á pappír, en það er ekkert gert að því að tryggja, að hægt verði að standa við þessi loforð, — ekkert.

Fyrrv. ríkisstj. Framsóknar og íhalds lék þennan leik, rétt áður en sú stjórn leið út af. Þá var ausið út loforðum til útgerðarinnar, þá var lofað að hækka bæturnar frá því, sem áður var, þá var gefin ávísun á gjaldþrota sjóð. Það er kannske meiningin að gera að líka núna. Nei, vandinn hefur legið í því hingað til að reyna að tryggja, að sjávarútvegurinn fengi þannig bætur, að hann gæti búið við eðlilegan rekstur, og sjá einnig um, að hægt væri að greiða þessar bætur.

Hin ráðstöfunin, sem nú er gripið til í þessum efnum og sú eina, sem hér eru einhverjir tilburðir til þess að koma fram til þess að reyna að tryggja, að sjávarútvegurinn fái nú að njóta þessara auknu bóta, er að reyna að koma fram kauplækkun hjá vinnandi fólki í landinu. En það hrekkur vitanlega mjög skammt upp í það að tryggja fé til þess, að hægt verði að standa í skilum með þau útgjöld, sem hér er stofnað til.

Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því hér í sinni ræðu, að allt væri þetta frá hálfu Alþfl. byggt upp á því, að það mætti takast að breyta fjárl. þannig, að í fyrsta lagi yrði tekjuáætlun fjárlfrv. hækkuð um 83 millj. kr. frá því, sem fjárlfrv. liggur nú fyrir með, og einnig var þetta miðað við það, að það mætti takast að fá það samþykkt hér á Alþ. að lækka beinar fjárveitingar á fjárl. um 40 millj. kr.

Nú var mér það ljóst, að þessir peningastofnar, sem þarna var bent á, voru engan veginn tryggir. Ég dró það í efa hér í minni ræðu, að þessar 83 millj. kr. væru fyrir hendi, og ég dró það líka nokkuð í efa, að það fengist samþ. hér á Alþ. að lækka útgjöldin á fjárlfrv. um 40 millj. kr. Sjálfur er ég samþykkur því, að það sé reynt og ágreiningur minn við Alþfl. er ekki um það að reyna þessar leiðir, heldur hitt: hefur Alþfl. tryggt sér nægilegt atkvæðamagn hér á Alþ. til þess að hækka tekjuhlið fjárlfrv. um 83 millj. kr., þannig að það megi standast? Hefur hann tryggt sér það, að útgjöld á fjárl. verði skorin niður um 40 millj. kr.? Ég spurði um það hér í minni fyrri ræðu, hvernig þessu væri varið. Ég spurði sérstaklega um það, hvort stærri stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., hefði ákveðið að vera með þessum till. Alþfl. Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) svaraði hér fyrir hönd Sjálfstfl. og lýsti því yfir, að þeir væru algerlega óbundnir í þessum efnum, þeir hefðu ekkert loforð gefið viðvíkjandi afgreiðslu á þessum málum, um afgreiðslu fjárl. hefðu þeir algerlega óbundnar hendur enn.

Það kemur þá í ljós, að öryggi fyrir því, að fé fáist í útflutningssjóð til þess að borga það, sem nú er þegar búið að leggja á útflutningssjóð, því að það er búið að gera honum að greiða 75 millj. kr. á þessu ári í auknar niðurgreiðslur á verðlag í landinu, og síðan er ætlazt til þess, að hann greiði framleiðsluuppbætur upp á 77 millj. kr. fram yfir það, sem áður var, — það kemur þá í ljós, að það er ekkert öryggi fyrir því hjá ríkisstj., að hún hafi vald á því að tryggja, að útflutningssjóður fái þetta fé. Þetta er vitanlega mergurinn málsins í þessum efnum.

Málið lítur sem sé þannig út, að Alþfl. hefur aðeins fengið eitt tryggt í þessum efnum: hann hefur fengið loforð Sjálfstfl. fyrir því, að hann skuli samþ. með Alþfl. frv. um kauplækkun hér á Alþ., — ekkert annað. Það er eina öryggið, sem Alþfl. hefur viðvíkjandi afgreiðslu þessara mála, þ. e. að fá samþ. frv. hér um ákveðna kauplækkun fyrir alla launþega í landinu, en önnur atriði, sem tryggja þarf, til þess að það fái staðizt, sem hér hefur verið gert, sem útveginum í landinu hefur m. a. verið lofað, það hefur Alþfl. enn ekki haft vald til þess að tryggja.

Ég verð að segja, að það eru furðuleg vinnubrögð af Alþfl. hendi í þessum efnum að ætla sér að halda svona á þessu máli. Það er alveg augljóst mál, að svo getur farið, að búið sé að lofa útflutningsatvinnuvegunum auknum bótum frá því, sem áður var, búið sé að taka á sig skuldbindingar með aukna niðurgreiðslu á dýrtíð í landinu, en áfram verði haldið jafnvel að hækka útgjöld á fjárl. frá því, sem áður var og að afleiðingin yrði svo nýr langur skuldahali gagnvart framleiðslunni í landinu á næsta hausti eða ástandið yrði þá svipað og var, þegar íhalds-framsóknarstjórnin lét af völdum á árinu 1956.

Það hefur nokkuð verið vikið að því hér í þessum umræðum og var nú gert síðast af hv. 1. þm. Reykv., að það, sem hér væri verið að gera með ákvörðun um, að launþegar í landinu ættu að gefa eftir bótalaust 10 vísitölustig, væri hliðstætt því, sem gert var varðandi 6 vísitölustigin haustið 1956. — Nú efast ég ekki um, að hv. 1. þm. Reykv. veit það, að hér er um tvennt algerlega ólíkt að ræða. Það, sem gert var haustið 1956 varðandi vísitölustigin 6, var það, að með beinu samkomulagi á milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna og launþegasamtakanna í landinu var ákveðið, að tiltekin verðhækkun, sem átti að eiga sér stað í septembermánuði, var látin niður falla gegn því, að 6 vísitölustig féllu þar niður á móti, og þessi verðhækkun, sem átti að eiga sér stað um miðjan septembermánuð, var þannig, að launþegar hefðu ekki fengið hana aftur bætta í vísitölunni. Þetta atriði var þá borið undir verkalýðssamtökin í landinu, ekki aðeins undir miðstjórn Alþýðusambands Íslands, heldur einnig undir fjórðungssambönd Alþýðusambandsins, einnig undir fulltrúaráð verkalýðsfélaganna hér í Reykjavík og formenn allra verkalýðsfélaga hér í Reykjavík, sem héldu fund um málið, og þetta var einnig borið undir stjórnir flestra verkalýðsfélaga í landinu og eftir að fyrir lá samþykki þessara aðila og þar með Alþýðusambands Íslands, var ákveðið að setja þessi lög.

Nú er hins vegar ekki leitað eftir samþykki þessara aðila fyrir útstrikun á 10 vísitölustigum. Nú þorir ríkisstj. ekki að binda ákvörðun sína við það, að það fáist jákvæð afgreiðsla launþegasamtakanna í landinu fyrir þessu. Ríkisstj. veit, að það mundi ekki fást. Nú er þessu líka fyrir komið á allt annan hátt, en þá var. Nú hafa verðhækkanirnar átt sér stað. Launþegarnir hafa borið hið hækkaða verðlag um nokkurra mánaða skeið og vilja fá sína vísitöluhækkun á kaup þar á móti, nú á eftir. Verðhækkanirnar eiga að standa sem þessum 10 vísitölustigum nemur, þær verðhækkanir eiga að standa áfram, en það á bara að strika út bótalaust þessi 10 vísitölustig. Heldur 1. þm. Reykv. því fram, að hér sé eitthvað líkt á komið með það, sem ákveðið var haustið 1956, og það, sem ætlað er að lögbinda með því frv., sem hér er til umr.? Nei, það getur hann vitanlega ekki gert, þegar hann talar í fullri alvöru.

Ég held, eins og ég sagði hér fyrr í þessum umr., að það sé hætt við því, að það fari eins í þetta skipti og áður, þegar reynt hefur verið að knýja fram kauplækkun með lögum frá Alþingi algerlega gegn vilja verkalýðssamtakanna í landinu, að þá sé verulega hætt við því, að þessi lagasetning komi ekki að því haldi, sem þeir ætlast nú til, sem að henni standa. Ég er hræddur um, að það kunni jafnvel svo að fara, að sjávarútvegurinn í landinu, sem m. a. á að taka þessa lagasetningu sem bætur upp í það, sem honum er ætlað, kunni líka að grípa í tómt í þessum efnum. Ekki þætti mér það beint ólíklegt, eins og háttar hér til á vinnumarkaði, þegar vinnuveitendur þurfa mjög að auglýsa eftir vinnuafli og ganga jafnvel á eftir mönnum til þess að fá þá nægilega marga til vinnu hjá sér og þeir hafa þurft að yfirborga verkafólki í mörgum tilfellum, að þá kunni að fara svo, að margir vinnuveitendur verði jafnvel að borga áfram það kaup, sem strikað verður út á pappírnum með þessari löggjöf, sem er verið að reyna að knýja hér í gegn þvert gegn vilja verkalýðssamtakanna í landinu. Og hver er þá að bættari? Rétta leiðin var vitanlega sú, sem verkalýðssamtökin í landinu bentu sjálf á. Það var æskilegt að reyna samningaleiðina til lausnar á þessum málum við verkalýðssamtökin. Þau buðust til þess, en þau munu ekki taka því þegjandi, að slík lög verði sett sem þessi og þetta einhliða tekið þannig af kaupi þeirra, sem samið hefur verið um eftir réttum reglum.

Ég held því, að einnig þetta frv., sem þó er ekki nema aðeins lítill hluti af þessu heildarvandamáli, sé þannig upp byggt, að það komi að litlu gagni.

Mér sýnist líka, að það hafi sannazt alveg greinilega í þessum umr., að það var hægt að leysa þetta vandamál á þann hátt, að útflutningsframleiðslan byggi a. m. k. við jafngóð kjör og hún bjó við á s. l. ári, án þess að grípa hefði þurft til kauplækkunar á nokkurn hátt. En það er rétt, þá hefði þurft að tryggja, að útgjöld á fjárlögum hefðu nokkuð verið skorin niður, þá hefði þurft að tryggja, að tekið hefði verið nokkuð af þeim greiðsluafgangi, sem varð hjá ríkissjóði á þessu ári, til þess að greiða niður verðlag í landinu, þá hefði þurft að tryggja, að þetta fengist samþykkt á Alþingi, en ekki að heimila Alþingi, eins og helzt lítur út fyrir núna, að skjóta sér undan þessum vanda, ætla að svíkjast um að gera þetta, en reyna einvörðungu að fara kauplækkunarleiðina.

Ef farið hefði verið að till. okkar Alþýðubandalagsmanna í þessum efnum, þá hygg ég, að það hefði orðið farsælla fyrir atvinnuvegi landsins, heldur en reyna þessa lagabindingarleið, sem hér á að reyna að fara.