11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (1992)

113. mál, mannúðar- og vísindastarfsemi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. þessa, en efnislega gerir till. ráð fyrir því, að ríkisstj. verði falið að athuga, hvort unnt sé að veita fjárhagsstuðning við ýmiss konar mannúðar- og vísindastarfsemi með því að gera framlög fólks til þeirra mála frádráttarhæf við álagningu tekjuskatts og útsvars.

Áður hafa verið flutt hér í þinginu frv. um þetta efni, en í þetta sinn hefur það verið flutt sem þáltill., þar sem aðeins er falið ríkisstj. að gera athugun á þessu máli. Það hefur orðið samkomulag um það í fjvn. að mæla með samþykkt þessarar till., en þó þannig, að þessi undanþága yrði aðeins bundin við tekjuskatt, ef til hennar kæmi. Byggist þetta m. a . á því, að svo sem hv. þm. er kunnugt, er það meginregla í útsvarslögum, að útsvör séu lögð á eftir efnum og ástæðum, og gilda því nokkuð aðrar reglur um álagningu þeirra, en um álagningu tekjuskatts og þess vegna ekki vist, meðan sú regla er í gildi, hversu auðið væri að tryggja mönnum undanþágu að þessu leyti, þó að í lög yrði sett. Það er því till. fjvn., að tillagan á þskj. 272 verði samþ. með þeirri breytingu, sem segir í áliti n. á þskj. 486, að niðurlagsorð tillögunnar, að hún skuli einnig ná til útsvara, falli niður.