15.04.1959
Sameinað þing: 39. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (1997)

136. mál, vinnsla kísilleirsins við Mývatn

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. þá til þál., sem nú er fyrir tekin, um vinnslu kísilleirs við Mývatn og í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Baldur Líndal efnafræðingur og Tómas Tryggvason jarðfræðingur munu fyrstir manna hafa komið auga á, að leðjan á botni Mývatns meðfram Laxá, sem fellur úr Mývatni, mundi innihalda hagnýt efni. Hafa þeir manna mest unnið að því að leita sannana fyrir því, að þarna sé um verðmæt efni að ræða.

Mývatn er 38 km2 að flatarmáli og er umlukið hraunum á þrjá vegu. Botn þess er með þykku leðjulagi, sem jafnar mishæðir hans. Lagið er allmisþykkt eftir mælingum, sem gerðar hafa verið á því. Mesta þykktin er talin vera 10 metrar. Vatnið sjálft er víða mjög grunnt og virðist grynnast býsna ört á sumum stöðum vegna örrar myndunar þessarar leðju, sem er að aðalefni kísilþörungar. Þörungar þessir eru einfrumungar, plöntur, sem lifa í vatni. Um þá vaxa skeljar úr ópalkenndum kísil. Þegar þörungarnir deyja, þá falla skeljarnar til botnsins, og þannig myndast leðjan. Sagt er, að til séu um 8.000 tegundir kísilþörunga, og er verðmæti skeljanna misjafnt eftir tegundum og einnig eftir því, hve skeljalögin eru hrein eða auðvelt að hreinsa frá þeim önnur efni.

Hér á landi er þess að vænta, að hægt sé að finna hreinastan kísilleir í tjörnum og stöðuvötnum, sem girt eru hraunum, eins og Mývatn, eða annars staðar, þar sem lítið er um aðrennsli og yfirborðsvatns og sandfoks gætir ekki til muna, segja fræðimennirnir.

Úr Mývatni hefur um aldir borizt með Laxá kísilleir og þörungagróður. Merki þess sjást í jarðlögum meðfram ánni og á allvíðáttumiklum svæðum út frá henni, þar sem hún hefur hlaupið oftast, þegar flóð hafa komið í hana. Í landi Ness í Aðaldal og Árness, sem er nýbýli úr landi Ness, er allmikil kísilleirsnáma á gömlum vatnsbotni, sem kominn er undir jarðveg. Sá kísilleir er álitinn tæplega eins góð vara og leðjuleirinn við Mývatn, en þó hæfur til ýmissa nota. Ekki er talið ólíklegt, að hentugt geti verið að hafa þann leir á boðstólum samhliða leirnum úr Mývatni, af því að verðmunur hlýtur að verða og til sumra nota er óþarft að kaupa tegundir, sem dýrari eru.

Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa stuttan kafla úr óprentaðri ritgerð, sem Tómas Tryggvason jarðfræðingur er að semja og hefur lánað mér. Þessi kafli er um það, til hvers kísilleirinn eða salli sá, sem úr honum er unninn, er notaður. Jarðfræðingurinn segir:

„Fróðan mann þyrfti til og mikinn pappír, ef telja skyldi allar þær vörutegundir, sem kísilsalli er að einhverju leyti notaður í. Hann hefur verið nefndur efni þúsund þjala, en sennilega er talan þúsund of lágt til tekin. Ýmsar vörur, sem við notum daglega, eru blandaðar kísilsalla. Fægiefni í flestum tegundum tannlöðurs er kísilsalli, og margar betri pappírstegundir eru blandaðar honum sem fylliefni. Eru dæmi þessi tvö af mörgum.

Notkun kísilsalla í stórum stíl er svo ný af nálinni, að hann er naumast búinn að vinna sér þá hefð sem skyldi í skýrslum og öðrum fræðibókum um nothæf jarðefni. Auk þess er hann seldur undir margs konar vörunöfnum, sem torvelda skýrslugerð um notkun hans. Sennilegt má þó telja, að samanlögð notkun hans um allan heim nemi um það bil hálfri milljón lesta árlega eða rúmlega það. Er það ekki há tala, ef borið er saman við vinnslu og notkun ýmissa annarra jarðefna. En kísilsallinn er léttur í vígtina, svo að í rauninni er þessi lestatala allmikið magn, ef miðað er við rúmmálið.

Verðmæti og notagildi kísilsalla fer eftir því, hversu hreinn hann er. Kísilsalli, sem nota skal til múrsteinsgerðar, hjúpunar áburðar eða til þess að drýgja sement, þarf ekki að vera ýkja hreinn. Aftur á móti verður að gera miklar kröfur um gæði hans, ef hann er ætlaður í síumassa, fylliefni eða gróðrarbeði fyrir gerla. Mikið af kísilsalla er notað til þess að hjúpa tilbúinn áburð, svo að hann blotni ekki og hlaupi í kekki við geymslu. Til slíkra hluta þarf ekki mjög hreina kísilmold, en að magninu til munu áburðarverksmiðjur fremst á blaði um notkun kísilsalla í Evrópu að minnsta kosti.

Næst koma síurnar. Hreinsaður og brenndur kísilsalli er notaður til þess að hreinsa og aflita fjölda vökva. Má þar nefna olíur margs konar, lífrænar sem ólífrænar að uppruna, efnaupplausnir, svo sem lökk, fernissápur og málningarvörur, sykurupplausnir í öl og áfenga drykki, svaladrykki alls konar, litunarvökva, bóluefni og vatn, hvort heldur er til drykkjar eða iðnaðar. Kísilsallinn dregur í sig hvers konar fíngerð óhreinindi. M.a. er talið, að unnt sé að hreinsa allt að 95% af gerlum úr menguðu vatni með kísilsíum. Þannig má gerilsneyða drykkjarvatn og halda vatni í sundlaugum hreinu og ómenguðu með reglubundinni hringrás gegnum kísilsíur, án þess að skipt sé um vatn í lauginni. Vegna þess, hve kísilsalli þolir að hitna án þess að bráðna, er hann notaður til einangrunar við háan hita. Sem dæmi má nefna ofna, sem notaðir eru við málmbræðslu, glergerð og brennslu leirkera.

Loks er kísilsalli notaður í stórum stíl sem fyllir eða burðarefni fyrir ýmiss konar vökva. Einfalt dæmi um þess háttar notkun er dýnamítið, sem fyrr var nefnt, en þar er kísilsallinn burðarefni, sem drekkur í sig hið fljótandi sprengiefni. Sama máli gildir um ýmiss konar málningarvörur og litarefni, sem gerð eru deigkennd eða seigfljótandi með kísilsalla. Þá tíðkast að nota sallann sem burðarefni fyrir þær tegundir skordýraeiturs, sem notaðar eru í duftformi.“

Þetta yfirlit jarðfræðingsins um hið fjölbreytta notagildi kísilleirsins taldi ég rétt að lesa í sambandi við till. mína, af því að það gefur upplýsingar um, að hér er ekki um framleiðslu að ræða, sem hætt sé við að geti dottið niður kaup á vegna einhæfs notagildis.

Svo sem kunnugt er, hefur verið borað eftir jarðgufum við Námafjall, sem er skammt frá Mývatni. Þar er mikill jarðhiti, og væntanlega tekst að vinna þar verðmæt efni úr jarðgufum. En til þess að það megi verða, þarf dýpri boranir en þær, sem þegar hafa verið framkvæmdar, svo að nægilegt gufumagn fáist. Verður vafalaust borað dýpra, áður en langir tímar líða, en það er önnur saga, sem ekki er til umr. að þessu sinni.

Hins vegar er þarna við Námafjall nógur jarðhiti nú þegar og tiltækur til þess að þurrka kísilleirinn. Talið er jafnvel, að dæla megi botnleðjunni alla leið þangað. Annars yrði hún flutt á bílum þangað, eftir að úr henni hefur sigið mesta vatnið. Er þetta til mikils hagræðis, að jarðhitinn er svona tiltækur. Leirinn í Aðaldal þarf aftur á móti að þurrka með olíuhitun að öllum líkindum. Þó er talið athugandi að flytja hann að hverunum í Reykjahverfi, en það er alllöng leið, eins og nú liggja vegir, sennilega um 6 km, ef gert væri akfært beina leið.

Gerðar voru tilraunir með að dæla leir upp úr botni Mývatns 1954, 1955 og þó sérstaklega 1957, og þóttu þær takast vel. Síðan voru sýnishorn af kísilsalla, sem rannsóknarstofa jarðhitadeildarinnar vann úr leirnum, send til athugunar erlendis, og kom fram eindreginn áhugi fyrir þessari framleiðslu hjá mönnum ýmissa landa í Evrópu. Sérstaklega brugðu Þjóðverjar við.

Sumarið 1956 kom hingað og dvaldist við Mývatn um tíma þýzkur prófessor til að rannsaka gæði leirsins og magn og aðstæður til þess að ná honum upp úr vatninu. Á s.l. ári sendi svo stjórn sambandslýðveldisins í Þýzkalandi sérfræðinga hingað til þess að veita tæknilega aðstoð við rannsóknir leirsins og námanna þarna.

Áhugi Þjóðverjanna fyrir framleiðslu kísilleirs hér mun ekki sízt stafa af því, að kísilleirsnámur hjá þeim sjálfum, sem þeir hafa haft, eru að ganga til þurrðar. Þau lönd, sem talin eru fyrst og fremst koma til greina sem markaðslönd fyrir kísilsalla héðan, eru Þýzkaland, England, Holland, Belgía og Frakkland.

Eftir rannsóknina í sumar sem leið telja fræðimennirnir þýzku, námurnar í Mývatni, stærstu kísilnámur í Evrópu og leirinn þar góða vöru að efnainnihaldi. Hins vegar eru lokarannsóknir eftir, svo að gengið verði alveg úr skugga um það, hvort arðvænlegt sé að setja upp verksmiðju til þess að vinna leirinn til sölu erlendis. Markaður fyrir hann innanlands er vitanlega ekki nægilegur, þó að áburðarverksmiðjan noti 600–800 lestir og sementsverksmiðjan mundi eitthvað geta notað.

Þýzka stjórnin býður enn fram fræðilega aðstoð, hefur boðizt til að senda hingað sérfræðinga, sem vinni hér ókeypis og kosti uppihald sitt, en aðstoð verði að borga af Íslands hálfu og annan innlendan tilkostnað. Þessu tilboði hefur enn ekki verið tekið. Þeir, sem að þessum málum hafa unnið, en það eru menn á vegum rannsóknaráðs og jarðhitadeildar raforkumálanna, telja sig ekki hafa umboð til þess að taka tilboðinu.

Mér virðist einboðið, að það eigi að svara þessu tilboði játandi, og ég flyt þessa till. m.a. til þess að herða á því, að það verði gert. Hér virðist vera búið að vinna mikið að rannsókn, en eftir að ljúka henni. Það er talið líklegt, að henni geti orðið lokið á þessu ári, ef áherzla er lögð á sem skyldi og hinir erlendu tæknimenn fengnir. Það má því segja, að hér sé heitt járn, sem rétt sé að hamra, áður en það kólnar, eða meðan heitt er. Það þarf að athuga eða sannprófa vörugæðin og markaðshæfni þeirra, gera fullnaðaráætlanir um stofn og rekstrarkostnað verksmiðju, er þurfa mundi að koma á fót, ef í framkvæmdir sýnist að vel athuguðu máli ástæða til í að ráðast.

Það hefur verið gizkað á, að það mundi kosta 10–15 millj. kr. að koma upp verksmiðju með nauðsynlegum tækjum, er afkastaði framleiðslu, er næmi 10 þús. tonnum af söluvöru á ári. Fyrir slíka framleiðslu er gizkað á að fengjust a.m.k. 10 millj. ísl. kr. í erlendum gjaldeyri árlega, reiknað með lægsta verði, eins og sakir standa, en jafnvel 30 millj., ef miðað er við dýrustu vöru.

Það geta varla orðið skiptar skoðanir um, að nauðsynlegt sé fyrir þjóðina að fjölga framleiðslugreinum sínum, finna ráð til þess að auka söluhæfa framleiðslu til öflunar erlendum gjaldeyri. Engu skynsamlegu tækifæri til að koma upp nýjum atvinnugreinum má sleppa eða draga lengur, en óhjákvæmilegt er, að hagnýta það, sem landið hefur að bjóða til að koma atvinnulífinu á öruggari grundvöll en það stendur nú.

Till. þessi er um, að athugun verði látin fram fara, sem skeri úr. Gengið er út frá, að til þess verði þegin framboðin fræðileg aðstoð, sem líklegt er að á bak við standi viðskiptalegur áhugi, er tryggt gæti framleiðslusölu hinnar væntanlegu verksmiðju.

Leiði fullnaðarrannsóknir í ljós, að áreiðanlega geti verið um arðvænlegan rekstur kísilleirsframleiðslu að ræða, þá gerir till. ráð fyrir, að ríkisstj. leiti úrræða til, að vinnsla kísilleirsins verði hafin hið fyrsta.

Það er ekki ólíklegt, að til þess að gerast framleiðendur kunni að fást framtakssamir íslenzkir menn, ekki sízt ef kostur yrði á erlendu lánsfé til þess að koma fyrirtækinu upp, en um það yrði ríkisstj. að taka ákvarðanir og hafa hönd í bagga.

Herra forseti. Mál þetta er þess eðlis, að mér finnst rétt, að umr. verði frestað og n. fái það til athugunar, og ég legg til, að málinu verði vísað til fjvn.