11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2003)

168. mál, þjóðvegir úr steinsteypu

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem segir í grg. þessarar þáltill., var snemma á þessu þingi vísað til fjvn. tveimur þáltill. Önnur var frá hv. þm. G-K. (ÓTh) þess efnis, að gerð yrði fullnaðaráætlun um lagningu steinsteypts vegar frá Hafnarfirði yfir Keflavík og Garð til Sandgerðis og að því stefnt, að áætlunin yrði fullbúin það snemma, að vegagerð gæti hafizt á árinu 1959, og jafnframt var gert ráð fyrir því í þeirri till., að ríkisstj. aflaði sér heimildar til lántöku í þessu skyni. Hin till. var flutt af hv. 1. þm. Rang. (IngJ), en hún var þess efnis, að athugað yrði, hvort ekki mundi hagkvæmt í sambandi við steinsteypu þjóðvega að nota sement það, sem yrði umframframleiðsla sementsverksmiðjunnar, umfram það, sem notað væri hér innanlands, og þá þannig, að sement þetta yrði selt til vegagerðar við lægra verði. Báðar þessar till. hafa verið athugaðar í fjvn. og leitað um þær álits vegamálastjóra, og hann hefur sent n. mjög ýtarlega grg., sem er prentuð sem fylgiskjal með till. þessari.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þá grg. í einstökum atriðum. Hún er mjög glögg og skýrir það viðfangsefni, sem hér er við að fást. En í stuttu máli sagt er það mat vegamálastjóra, að það sé óumflýjanlegt að hefjast nú handa um að steinsteypa vissa fjölförnustu vegakafla i landinu. Það er hins vegar ljóst, að þessi framkvæmd hlýtur að kosta mikið fé, og til þess að hægt sé að vinna að henni á þann hátt, sem vegamálastjóri telur nauðsynlegt, þarf að gera sérstakar ráðstafanir, bæði varðandi heildaráætlun um þessar framkvæmdir yfir höfuð, hvernig þeim skuli hagað, og þá jafnframt, hvaða úrræði væru fyrir hendi til þess að afla fjár til þessara miklu framkvæmda.

Það er gert ráð fyrir því, að til þess að auðið væri að hefjast handa um þetta efni, yrði að reikna með að steypa á hverju ári vissa vegakafla. Það verður að tryggja sér til þess, tilteknar vélar, og það verður að vera hægt þess vegna, að framkvæma þetta nokkuð samhangandi. Það þarf jafnframt margvíslegar undirbúningsráðstafanir varðandi suma vegi, eins og t.d. Keflavíkurveg, sem er í fremstu röð þessara vegakafla, sem til greina koma, þann veg verður fyrst og fremst að undirbyggja, sem einnig er mikil framkvæmd.

Þá kemur hins vegar fram í þeirri grg., sem vegamálastjóri birtir og hefur gert um þetta, að enda þótt hér sé um dýra framkvæmd að ræða, þá er um þá tilteknu vegakafla, sem hann nefnir, Keflavíkurveg, veginn hér austur yfir fjall og upp í Kollafjörð og stuttan vegakafla út frá Akureyri, svo geysimikil umferð, að steinsteypa þeirra mundi spara ríkissjóði í viðhaldi verulegt fé, og einnig mundi það spara mjög mikið fé í sambandi við viðhald farartækjanna sjálfra. Það er því síður en svo, að hér sé um neinar þær tölur að ræða, sem ástæða sé til að fæli menn frá þessum framkvæmdum, heldur þvert á móti er allt, sem með því mælir, að hafizt verði sem skjótast handa í þessu efni. .

Miðað við það, að hér er nauðsynlegt að gera heildaráætlun um þessar framkvæmdir, þótti fjvn. eðlilegast að flytja um þetta mál sérstaka þáltill. í tilefni þessara tveggja till., sem ég vitnaði til, og er í þessari þáltill. gert ráð fyrir, að ríkisstj. láti undirbúa fyrir næsta þing framkvæmdaáætlun um að steinsteypa fjölförnustu þjóðvegi á næstu árum og að jafnframt verði þá um leið gerðar till. um fjáröflun til þessara framkvæmda, því að það er augljóst, að af venjulegum fjárveitingum til vegagerða, sem í fjárlögum eru, verður þetta verk ekki framkvæmt, heldur verður að finna einhver önnur úrræði til þess að þoka málinu áleiðis. Það er skoðun n., að þetta mál sé hið mikilsverðasta og það beri þess vegna að hrinda því áleiðis svo fljótt sem verða má, og þess vegna telur n. æskilegt, að þessum athugunum öllum verði lokið fyrir næsta þing, þannig að hægt verði að hefjast handa um vegagerð þessa þegar á næsta ári.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða meira um till. þessa, en þar sem hún er flutt af n., er ekki ástæða til að vísa henni til athugunar til n. aftur.