05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2026)

147. mál, mæðiveiki á Vestfjörðum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Till. þessi er þess eðlis, að ég vona, að það verði ekki ágreiningur um það, að hún verði samþykkt. Þeir atburðir, sem till. fjallar um, eru svo alvarlegir, að það sjá allir og skilja, hversu þýðingarmikið er að hefta þessa plágu, sem nú hefur skotið upp höfðinu í þeim landshluta, sem hefur orðið öðrum héruðum þessa lands til mestrar bjargar í því að halda við sauðfjárrækt í landinu. Hins vegar er vitað, að um þetta eru sérstök lög frá 1947, þar sem eru skýr og ótvíræð fyrirmæli um það, hvað sauðfjársjúkdómanefnd beri að gera í þessum efnum, og breytir till. ekki neinu í því, enda ekki flutt í þeim tilgangi.

Mér sýnist, að eitt aðalatriðið í þessu máli, sem till. fjallar um, sé það, að ekki sé skorið við nögl sér það fé, sem þarf til að gera óhjákvæmilegar varnarlínur. Þess vegna flutti ég brtt. við fjárl. um það, að sú upphæð, sem í fjárlagafrv. var ætluð til nýrra girðinga til varnar útbreiðslu mæðiveikinnar, yrði nokkuð hækkuð. Ég harma það, að slík till. var ekki samþykkt. En ég vona fastlega, að hæstv. ríkisstj. láti það engin áhrif hafa á framkvæmd varnanna, þá framkvæmd, sem hlýtur nú að kosta nokkru meira en áður, eftir að þessi plága hefur komið upp, og auðvitað þarf þar að gera varnarlínur, sem kosta fé. Ég skil það svo, að hv. alþm., sem samþykkja þessa till., leggi með því áherzlu á þetta við hæstv. ríkisstj., að ekki verði fjárskortur látinn hindra eða tefja þær varnarráðstafanir, sem sauðfjársjúkdómanefnd ber nú að undirbúa.

Hv flm. drap á það í framsöguræðu sinni hér áðan, að hann teldi líklegt, að þrenns konar ráðstafanir þyrfti að gera: að bæta mjög girðinguna úr Kollafirði í Ísafjörð, í öðru lagi að girða af Reykjanes eða Reykhólasveit og í þriðja lagi að efla girðinguna úr Berufirði í Steingrímsfjörð. Ég er honum sammála um það, að þessi atriði koma öll til greina. Í fyrsta lagi er ég sannfærður um, að það er óhjákvæmilegt að gera tvöfalda girðinguna að Klettshálsi í Ísafjörð, svo að hún sé örugg. Í öðru lagi er rétt, að girða þarf af Reykhólasveit vestan varnarlínunnar, sem nú liggur þvert í gegnum sveitina. Hins vegar er ekki unnt að girða af Reykjanesið sjálft, eins og hann líka drap hér á. Það er vegna þess, að sauðfjárrækt á Reykjanesinu sjálfu yrði óframkvæmanleg vegna landþrengsla, ef þar væri girt þvert yfir. Því mun vera í undirbúningi sú ráðstöfun að girða af Reykhólasveitina vestan Berufjarðargirðingar. Ég skal nefna þriðju leiðina, sem hv. flm. drap hér á. Það er girðingin úr Berufirði í Steingrímsfjörð. Það getur verið, að það sé rétt hjá honum, að hana þurfi að endurbæta. En þetta er þó tvöföld girðing, sem jafnan hefur verið vel við haldið, og ég hygg, að tiltölulega lítill kostnaður muni verða við endurnýjun á henni. En ég vil nefna eina till., sem ég hef varpað fram við sauðfjársjúkdómanefnd, og hún er sú að koma upp nýju öryggishólfi vestan við Klettsháls. Það hólf, sem nú er milli Berufjarðar og Klettsháls, var öryggishólf. Það var hugsað sem vörn gegn því, að veikin, sem þá var austan við þessa girðingu, kæmist vestur til Vestfjarða. Nú er þetta öryggishólf ekkert öryggishólf lengur, heldur er þessi sauðfjárveiki nú í þessu hólfi. Það er orðið sýkt. Því hef ég bent á, hvort ekki sé rétt að koma upp nýju hólfi þar fyrir vestan, og hafði mér þá dottið í hug, að sú girðing væri úr Kjálkafirði upp á Þingmannaheiði og jafnvel þaðan austur í girðinguna úr Kollafirði. Allt þetta er sauðfjársjúkdómanefnd nú að athuga og bera sig saman um við ráðamenn og bændur þar vestra.

Ég vil að lokum leggja mjög eindregið með því, að þessi till. verði samþ., og legg áherzlu á, að samþykkt hennar þýðir að mínum dómi fyrst og fremst það, að ekki verði látið sitja við þá fjárveitingu, sem samþ. var á fjárl., ef nauðsyn krefur, heldur hlutist ríkisstj. til um, að ekki skorti viðbótarfé í þessar nýju varnarlínur, þrátt fyrir það, að till. mín við fjárl. í þessu efni náði ekki samþykki.