12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (2042)

21. mál, aðbúnaður fanga

Ólafur Thors:

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir á þskj. 40 og hv. fyrri flm. hefur nú gert grein fyrir, er án efa góðra gjalda verð. Hann gat sjálfur um það í upphafi máls síns, að mþn. hefði fjallað um þetta mál. Hún hefur gert það, eftir því sem ég bezt veit. Ég hef ekki séð álit hennar, en eftir þeirri afspurn, sem ég af því hef, virðist það að verulegu leyti fjalla um sama þátt málsins og þessi till. gerir. En eins og menn hafa veitt athygli, bæði við lestur sjálfrar till. og eins við að hlýða á ræðu hv. fyrri flm., þá leggur þessi till. megináherzlu á rannsókn á ástandinu, eins og það er, með það meginsjónarmið fyrir augum, að ef eitthvað það komi í ljós, sem bendi til, að hægt sé að leggja meiri áherzlu á betrun fanganna, en nú er gert, þá verði framkvæmdum hagað einmitt með það sérstaklega fyrir augum. Ég tel þetta virðingarvert sjónarmið og sjálfsagt að veita því stuðning. En ég vil nota tækifærið til þess að vekja athygli á því, að í þessum efnum þarf að hafa fleiri sjónarmið.

Ég er ekki þeirrar skoðunar fyrir mitt leyti, að það eigi að vera neitt aðalatriði frá sjónarmiði þjóðfélagsins að láta auga koma fyrir auga og tönn fyrir tönn. Ég álít hins vegar, að ástandið í þessum efnum yfirleitt hér á landi sé svo alvarlegt, að Íslendingar verði að gera það upp við sig fyrr en síðar, hvort þeir vilji fallast á þá meginstefnu, að á Íslandi sé sjálfur dómurinn refsingin, hvort við getum látið okkur nægja það, að maður, sem hefur brotið lögin og er kærður og sekur fundinn, hafi þar með fengið sína refsingu. Þetta er sjónarmið. Ég veit ekki, hvort það væri þjóðinni hollt að aðhyllast það eða hvort við þyrðum að gera það. Við erum sjálfsagt margir þannig, að ef á annað borð dómur hefur verið kveðinn upp um sekt okkar, þá er það fremur aukaatriði, hvort við þurfum að standa skil á afbrotinu með fangelsisvist skamman eða langan tíma eða þola þá niðurlægingu, sem í dómnum felst.

En það er svo annað mál, hvort hægt er að hafa það meginsjónarmið um aðgerðir í þessum efnum. Ég held, að menn hljóti að verða sammála um það, að ástandið er, eins og hv. flm. sagði, alveg óviðunandi, almennt talað. Við þekkjum allir dæmin um unga manninn, sem var eins og strokuhestur, sem leitar heim í átthagana, ungur maður, sem ekki undi hag sínum í fangelsinu og brauzt um eins og fugl í búri, brauzt út og fór sinna ferða. Að lokum virðist hafa farið svo, eftir að hann hafði gert þessar tilraunir nógu oft og að því leyti náð nægilega góðum árangri, að hann fór sínu fram, að þjóðfélagið gafst upp.

Nú mega menn ekki halda,, að ég telji mig dómbæran um að kveða á um það, hvort það, sem fram hefur farið af hendi þjóðfélagsins, að gefast upp fyrir manninum, er í þessu tilfelli, sem fyrir liggur, hið rétta eða ekki, og sannarlega get ég ekki neitað því, að ég hef mikla samúð með þessum unga manni, ef það má ráða. En fordæmið, sem með þessu er gefið, er vitaskuld ákaflega hættulegt. Menn vita einnig frá blöðunum nú að undanförnu, að ungur maður hefur gert leik að því, hvenær sem honum sýnist, að brjótast út úr fangelsinu og fara sinna ferða og koma svo kannske aftur og skila sér, þegar hann er búinn að hafa sitt sumarfrí eða vetrarfrí eða sína hvíld frá hinum þröngu múrum. Ég man ekki betur en í einu blaðinu, — ég held það hafi verið blað dómsmrh., — hafi verið sagt, að þessi maður væri í sínum áætlunarferðum upp að Reykjum, og þótti ekki alvarlegri tíðindi en svo, að það mátti hafa þetta sem hálfgert gamanmál. En nú segi ég: Við vitum allir, líka þeir, sem ekki eru lögfræðingar eins og ég, að það er mjög algengt, að menn, sem eru grunaðir um að vera við glæp riðnir eða afbrot, eru settir í gæzluvarðhald með það meginsjónarmið fyrir augum, að þeir geti ekki hindrað uppljóstrun afbrotanna með því að hafa samband sín á milli, annaðhvort sjálfir þeir, sem settir eru í gæzluvarðhald, innbyrðis eða einhver þeirra við einhvern aðila utan veggja fangelsisins. Allir sjá, að slík meðferð á mönnum, sem ekki eru sannir að sök, þ.e.a.s. að setja þá í gæzluvarðhald, er út af fyrir sig ærið áhyggjuefni og mæðuefni hverjum, sem fyrir því verður. En það er tilgangslaust að gera þetta, ef þannig er um hnúta búið, að þessir menn geti, ef þeir hafa til þess — ef svo mætti segja einhverja handlagni, farið úr fangelsinu dag og nótt, haft allt það samband við aðra meðseka í málinu, sem þeir þurfa til þess að geta hindrað áframhaldandi rannsókn málsins með jákvæða niðurstöðu fyrir augum. Þetta er auðvitað mjög hættulegt ástand og sannast sagna óviðunandi.

Ég heyrði það líka nýlega og held það sé rétt frá sagt, að ungur maður, sem hafði orðið fyrir þeirri ógæfu að fremja morð, var svo ögrandi við fangaverðina, sem áttu að gæta hans, að þeir tilkynntu dómsmálastjórninni, að nema því aðeins að þessi maður yrði fjarlægður úr fangelsinu fyrir ákveðna klukkustund á ákveðnum degi, þá segðu þeir allir upp starfi. Og ég hef heyrt sagt, veit ekki beinar sönnur á því, en held þó, að það sé rétt, að afleiðing af þessu hafi verið sú, að þessi maður var fluttur úr þessu fangelsi og settur á geðveikrahæli, þar sem einhverjir möguleikar kunnu að vera til þess, að hann hræði ekki aðra, eins og hann gat þarna gert, því að á því hæli hafi verið betri tök á að geyma manninn þannig, að ekki stafaði ótti af honum. Einnig þetta er óskapleg mynd af því, sem hér skeður í þessum efnum.

Það er ákaflega eðlilegt, að þjóð eins og við, sem erum ævinlega í peningavandræðum, fjárskorti, til allra nytsamlegra þarfa og t.d. verðum að neita okkur um að byggja sæmilega yfir æðstu stjórn landsins, svo að eitthvað sé nefnt, og má auðvitað margt nefna, — að við hugsum okkur tvisvar um, hvort það sé endilega nauðsynlegt að láta það ganga fyrir, að geta gætt þeirra, sem afbrotin fremja. Ég viðurkenni það. En ég spyr um hitt: Er hægt að búast við því, að þjóðin hafi rétta meðvitund um afbrotið, sem framið er, ef hún daglega venst við þá hugsun, að þeir, sem afbrotin fremja, gangi eftir sem áður lausir, a.m.k. öðru hverju? Og er hægt að una því, að ástandið sé þannig, að fangi, sem í ógæfu sinni hefur framið manndráp, þurfi ekki annað en ógna fangavörðunum, þeir hafi þá ekki í önnur horn að venda eða annars skjóls að leita heldur en að krefjast þess, að fanginn sé fjarlægður, því að ella fari þeir? Er þetta hægt? Getur þjóð, sem kallar sig sjálfstæða menningarþjóð, búið við þetta, og hvaða afleiðingar hefur þetta gagnvart þjóðfélagsþegnunum í heild? Eg undirstrika enn, að ég óska ekki eftir neinum hefndaraðgerðum, og ég fellst fullkomlega á það, að það er sannarlega stórt sjónarmið í öllum þessum málum að reyna að haga refsingunni þannig, að þeir, sem afbrotin fremja, komi ekki verri menn, heldur betri, úr fangavistum, eftir að hafa tekið út refsinguna. En þó að þetta sé rétt, þá raskar það ekki hinu, að hitt er alveg óþolandi.

Það er líka algerlega óþolandi, að unglingar, sem af barnaskap, en engri glæpahneigð, jafnvel í einhverju ölæði, — og það undrast það nú enginn, þó að hann heyri, að unglingur geri eitthvað í ölæði, þegar maður les það, sem blöðin daglega segja um drykkjuskap æskunnar í landinu, — að slíkir meinleysingjar, sem í gáska, sinnuleysi eða ölæði hafa framið smávægilegt afbrot, séu settir til samvista við menn, sem eru allt annars eðlis og kannske hafa hreina glæpahneigð. Er á það hættandi? Ég segi það sem mína skoðun, að hér á Íslandi eru ekki til nein fangelsi, og ég veit ekki heldur, hvort er til nægjanleg menntun í þeirri stétt, sem á að gæta fanganna. Það getur vel verið, að þeir séu nægjanlega menntaðir, ég veit það ekki. Hitt veit ég, að þeim er engin aðstaða sköpuð til þess að gera sína skyldu, eins og þjóðfélagið hefur búið að þeim.

Það hafði aðeins hvarflað að okkur í Sjálfstfl. að hreyfa þessu máli í einu formi eða öðru hér á Alþingi, en meðan um það stóðu umræður í flokknum, kom þessi tilll. fram. Okkur þótti þá réttara að reyna að koma aths. okkar á framfæri við þá hv. nefnd, sem um þetta mál kemur til að fjalla, því að í sjálfu sér eru þetta nokkuð tvær greinar af sama stofni, sem um er að ræða, þó að till., sem hér liggur fyrir, leggi megináherzluna á að betra fanga, en þessar hugleiðingar, sem ég hef sett fram í viðbót, leggi einnig áherzlu á það, hvaða skyldu þjóðfélagið hefur gegn sjálfu sér um það að geta sannað í verki, að dómur er dómur og refsing er refsing, nema menn þori hitt, sem ég tel hæpið og meira en það, að kveða á um, að dómurinn sjálfur sé refsingin.

Ég skal svo ekki um það fjölyrða frekar, en vænti, að bæði hv. flm. og hv. nefnd, sem um málið fjallar, vilji athuga þessi sjónarmið.