05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2046)

21. mál, aðbúnaður fanga

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er sízt ófyrirsynju, að þetta mál kemur til umr. á hv. Alþ., og ég vil strax taka fram, að ég er eftir atvikum því sammála, að þessari till. verði vísað til hæstv. ríkisstj. En ég vil láta það koma alveg ljóst fram, að ég hef ekki trú á því, að úr meginvandkvæðum, sem á meðferð þessara mála eru hér nú, verði bætt nema með verulegum fjárframlögum, og hv. Alþ. getur ekki vænzt þess, að nein ríkisstj., hver sem hún er, geti ráðið við þennan vanda, nema verulegt fé sé lagt fram í því skyni.

Ég geri ráð fyrir því, að hér á landi sé ef til vill öllu fremur en víðast hvar annars staðar reynt að forðast að dæma menn í fangelsi fyrr en í fulla hnefa, að reynt er að halda mönnum utan fangelsismúra, í fyrsta lagi með vægum dómum og síðan af hálfu dómsmálastjórnarinnar, meðan þess er nokkur kostur. Það er fyrst eftir að brot eru farin að verða framin æ ofan í æ eða fyrstu brot eru svo alvarleg, að ekki er með nokkru móti unnt að láta menn ganga lausa, sem yfirleitt hefur verið beitt fangelsisrefsingu. Það er því ekki hægt að segja að, að þessu leyti séu menn settir í fangelsi óreyndir eða að lítt athuguðu máli. Það er yfirleitt ekki gert, fyrr en að mati kunnugustu manna það er nánast óumflýjanlegt, og þar kemur fyrst og fremst til greina álit, eins og ég segi, dómaranna, sem með málin fara og styðjast við umsögn starfsmanna sinna, enn fremur álit fangahjálparinnar, loks skoðun sjálfs dómsmrn., sem ekki getur farið hjá að kynnist verulega mörgum af þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máll, því að sem betur fer er hópurinn ekki svo ýkja stór og iðulega eru það sömu nöfnin, sem koma æ ofan í æ, og þess vegna hljóta þeir embættismenn og jafnvel ráðherra, sem með úrskurðarvaldið fer, í sumum tilfellum að vera kunnugur högum þessara manna og geta gert sér grein fyrir, hvað líklegt sé fyrir hann að gera.

Hitt er svo rétt, sem hv. frsm. n., 1. landsk. þm. (AG), sagði, að dómsmálastjórnin getur ekki beitt öðrum aðferðum,i en hún hefur færi til. Það er að vísu ráðgert í lögum, að til séu hér hinar og þessar stofnanir, en þær eru yfirleitt ekki til, og það er þýðingarlaust að ætla að vísa á þær eða skipa dómsmálastjórn eða dómstólum að láta menn sitja í þeim stofnunum, sem aðeins eru til á pappírnum, en ekki í raunveruleikanum. Þetta er mjög alvarlegt mál út af fyrir sig, en ég hygg þó, að það verði seint hér í okkar litla þjóðfélagi komið upp allri þeirri sundurgreiningu í þessum efnum, sem er möguleg og ef til vill ríkari ástæða til, en hér í hinum stærri þjóðfélögum. Það er ákaflega hætt við því, að við þurfum lengi að bíða eftir því, að allar þær stofnanir, sem lögboðnar eru og út af fyrir sig væri gott að hafa, verði komnar upp. Það er jafngott að horfast í augu við það. Þeim verður ekki komið upp nema með mjög miklum stofnkostnaði og síðan mjög miklum rekstrarkostnaði.

Þetta er þó í sjálfu sér allt aukaatriði. Aðalatriðið er það, sem Alþ. getur ekki með nokkru móti lengur lokað augunum fyrir, og það er, að sjálft aðalfangelsi landsins, er með öllu óhæft til sinna nota, með öllu óhæft, og það er ekki hægt fyrir nokkra menn, hversu vel að sér sem þeir eru og hversu duglegir fangaverðir sem þeir kunna að vera í eðli sínu, að rækja sitt starf, meðan þeim er ætlað að starfa í slíkri stofnun sem aðalfangelsi landsins á Litla-Hrauni er, að því slepptu, hvernig ástandið í fangelsismálum — jafnvel varðandi varðhaldsgæzlu — er hér í Reykjavík, sem er nú orðið fyrir löngu hneykslismál og er þó í sjálfu sér ekki eins alvarlegt og ástandið á Litla-Hrauni.

Það var gert að verulegu árásarefni fyrir nokkrum árum, hvernig þá var komið á Litla-Hrauni. Það var tekin skýrsla og birtar um það ýtarlegar lýsingar, að þar hefði verið dapurlegt ástand, um það bil sem verið var að koma á meiri háttar aðgerð og lagfæringu. Síðan var sú lagfæring gerð, og fangelsið er nú eftir þá meiri háttar aðgerð, sem á þeim árum var gerð, það er búið hvað eftir annað síðan að sýna sig að vera ómögulegt. Mér dettur ekki í hug að kenna þeim fangavörðum, sem síðan hafa verið og voru látnir taka við af þeim, sem voru látnir hverfa frá störfum upp úr 1956, um, hvernig farið hefur. Ég fullyrði þvert á móti, að það er ekki á færi nokkurra manna að annast sæmilega geymslu fanga við þá aðstöðu, sem þeim er fengin.

Þess vegna er það höfuðatriði þessa máls, sem er alger sjálfsblekking að horfa fram hjá, að svo fljótt sem mögulegt er vegna kostnaðar og annarra aðstæðna verði komið upp fangelsi, sem sé í samræmi við nútímakröfur. Hvort þar geti verið meira sundurgreint, en nú er á Litla-Hrauni og hvernig því eigi að haga í einstökum atriðum, skal ég ekki dæma um. Það er sérfróðra manna að segja til um. En þar sem ég hef starfað svo lengi að meðferð þessara mála í dómsmrn., að ég er þessu ástandi svo vel kunnugur, að það er þá enginn, nema ef það er hv. þm. Str. (HermJ), sem hefur af því aðra eins reynslu og ég, þá tel ég það beina skyldu mína að aðvara Alþ. um það, að það verður ekki komið við neinum bótum, sem að gagni verða, á því hneykslanlega ástandi, sem nú er í þessum efnum, nema með mjög verulegum stofnkostnaði. Og þá er það brýnasta og fyrsta jafnframt eða næst því, að komið verði upp viðhlítandi lögreglustöð í Reykjavík með fangageymslu, að koma upp nýju allsherjarfangelsi fyrir landið. Þetta segi ég ekki vegna þess, að ég hafi sérstaklega trú á því, að menn batni við að vera geymdir í fangelsi, — ég hef sáralitla trú á því og tel, að það eigi ekki að setja menn í fangelsi fyrr, en í allra síðustu lög. En Ísland kemst ekki af án fangelsis, því miður, frekar en önnur lönd. Það er staðreynd, sem við verðum að horfast í augu við, og ég vil — um leið og ég mun greiða þessari till. atkv. — skora á hæstv. dómsmrh. núverandi, sem er dómari og þessum málum kunnugur að verulegu leyti, að gera gangskör að því, að hafinn verði undirbúningur að þeirri grundvallarumbót, sem hér þarf að gera, og það er bygging nýs fangelsis, þannig að hægt sé að ætlast til af þeim mönnum, sem lenda í þeirri ógæfu að verða fangaverðir, að þeir geti innt starf sitt sómasamlega af hendi.