29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (2055)

7. mál, innflutningur varahluta í vélar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. gaf þá skýringu hér, að hann hefði skrifað gjaldeyrisbönkunum, og var að skilja, að hann hefði haft hug á að gera það, sem í hans valdi stendur, til þess að úr því yrði bætt, sem hefur valdið stórkostlegu tjóni s.l. tvö ár, að margar af hinum góðu vinnuvélum, bæði stórum og smáum, hafa ekki getað starfað vegna þess, að varahlutar hafa ekki fengizt. Ég efa ekki, að hæstv. landbrh. vildi, að minnsta kosti, ef hann þyrfti ekki að leggja mjög mikið að sér, leysa úr þessu máli. En ég vil nú spyrja hv. 1. flm. þessarar til.: Hefur hann eða samherjar hans, sem eru flm. till., gert það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að hafa áhrif á stjórnarvöldin um það að leysa þessi mál?

Ég tel út af fyrir sig, að þessi þáltill. bæti lítið úr, vegna þess að það er fyrir fram vitað, að meiri hl. Alþ. hefur meiri skilning á þessum málum, en stjórnarvöldin. Að vísu eru ekki nema 7 flm. þessarar till. framsóknarmenn, en aðeins 19 sjálfstæðismenn á þingl. Það er ekki meiri hl., en það eru 26 menn, og ég geri ráð fyrir því, að þótt flm. till. úr Framsfl, séu ekki 8 til þess að mynda meiri hl. með Sjálfstfl., muni 8 framsóknarmenn greiða till. atkv. og kannske fleiri. Það er vitað mál, að sjálfstæðismenn hafa alla tíð haft þann skilning á atvinnumálum þjóðarinnar, að þeir hafa viljað koma í veg fyrir, að það ástand skapaðist, sem nú ríkir. Að það vantar varahluta í vélar, sem treyst er á og búið er að kaupa dýru verði, er svo alvarlegt, að tjónið, sem af því leiðir, er óútreiknanlegt. Óánægjuraddirnar utan af landinu af þessum ástæðum hafa verið háværar, sérstaklega s.l. sumar. Jarðýta, sem kostar hálfa milljón, getur ekki starfað, af því að það fæst ekki stykki í hana, sem kostar undir þúsund krónum. Skurðgrafa, sem kostar aðra eins upphæð, eða skurðgröfur, geta ekki starfað, vegna þess að það vantar varahluta, sem kosta nokkur hundruð krónur. Bóndinn, sem treystir á hjóladráttarvélina heima og hefur þess vegna ekki hesta og ekki hestaverkfæri, er stöðvaður með vélina, vegna þess að það fæst ekki gúmmí undir hana eða í hana vantar eitt tannhjól, sem kostar örfáar krónur.

Ég efast ekki um, að hv. þm. Dal. hefur skilning á því, hvað hér er mikil alvara á ferðum, og undrast þess vegna ekkert viðleitni hans, þótt hann hafi reynt að fara þessa leið, — fara inn í þingið með þetta mál og fá meiri hluta Alþ. til þess að lýsa því yfir, að úr þessu verði að bæta, og það er enginn vafi á því, að þessi till. verður samþ., ég er alveg sannfærður um það.

Að ástandið sé eins alvarlegt í sjávarútveginum, að bátar hafi verið stöðvaðir vegna þess, að þeir hafi ekki fengið nauðsynlegustu varahluti, ég er ekki eins kunnugur því, en þetta má þó vel vera, og það er vitanlega skiljanlegt, að eftir því sem vélarnar eldast, eftir því sem vélunum fjölgar í landinu, eftir því þarf meiri upphæð til þess að halda þeim við. En það sýnir sig, að s.l. tvö ár hefur verið notaður minni gjaldeyrir hvort ár um sig en áður., enda þótt vélarnar hafi elzt og vélunum hafi fjölgað, eins og lýst var hér áðan, og enda þótt varahlutarnir hafi hækkað í verði erlendis.

Ég ætla ekki að hafa neinar getsakir uppi um það, að till. þessi sé flutt til þess að sýnast. Ég trúi því, að flm. þessarar till. geri það sem þrautaleið í málinu til þess að fá það leyst. Og það er áreiðanlegt, að bændastéttin eða þeir, sem harðast hafa orðið úti vegna þessara ráðstafana undanfarið, sætta sig ekki við það, þótt flutt sé till. um þetta mál, ef ekkert fylgir á eftir, sem getur komið að raunhæfum notum. En það er að vísu ástæða til að ætla, að nokkru geti ráðið tilraun til sýndarmennsku í sambandi við þessa till., vegna þess að hv. framsóknarmenn á þingi, þótt margir séu þeir góðir, hafa á þessum fáu dögum, sem þetta þing hefur staðið, sýnt alveg sérstaklega tilhneigingu til tillöguflutnings, sem verður að ætla að sé sýndarmennska að nokkru leyti. Ég á við það, þegar verið er að flytja till. upp aftur og aftur, eins og t.d. hv. þm. Mýr. (HS). Hann talaði hér fyrir till. fyrir nokkrum dögum, sem hafði verið samþ. s.l. ár og var til meðferðar hjá hæstv. ríkisstj. En það er eins og sá hv. þm. eða þeir, sem stóðu að flutningi þeirrar till., séu að missa traustið á hæstv. ríkisstj., því að þeir lögðu til, að skipuð yrði n. til þess að fara með það mál, sennilega vegna þess að ríkisstj. hafi ekkert gert í því. Svo sé ég, að á dagskrá í dag er önnur till., sem kemur væntanlega til umr. hér á eftir og var flutt fyrir tveimur árum af mætum hv. framsóknarmanni og samþykkt, og það var samþykkt, að hæstv. ríkisstj. gerði ráðstafanir til að athuga það mál rækilega. Það hefur ekkert heyrzt um það, hvað hæstv. ríkisstj. hefur aðhafzt í því máli, en sennilega hafa flm. till. kynnt sér það, að hæstv. ríkisstj. hafi þar sofið á verðinum, og vilja þeir með þeirri till. fá okkur stjórnarandstæðinga í lið með sér til þess að gera nýja samþykkt í góðu máli, ef það skyldi nægja til þess að hnippa í hina sofandi ríkisstj.

Úr því að sú till., sem við erum að ræða um, er fram komin og það eru sjö hv. framsóknarmenn, sem flytja till., og nítján sjálfstæðismenn, sem áreiðanlega eru tilbúnir til að samþykkja hana, getum við reiknað með því, að hún verði samþykkt. Við skulum þá stuðla að því, að þeirri samþykkt verði fylgt vel eftir og hæstv. ríkisstj, hafi engan frið, fyrr en þetta mál hefur verið leyst og nauðsynlegir varahlutar verði fluttir inn, til hinna dýru tækja, sem svo margir treysta á. Við vitum það, að gjaldeyrisástandið er ekki gott, en einmitt vegna þess, að gjaldeyrisástandið er ekki gott, höfum við ekki efni á því að láta hin dýru framleiðslutæki standa og stöðvast vegna þess, að það vantar varahluta, sem kosta tiltölulega lítinn pening.

Hæstv. landbrh. sagði hér áðan, að hann hefði skipað þriggja manna n. til þess að gera athugun á því, hversu gjaldeyrisþörfin væri mikil fyrir nauðsynlegum varahlutum, og það mætti ætla, að þetta væri komið upp í 10 millj. kr. árlega, en það er meira en helmingi meira en það, sem hefur verið veitt á þessu ári til varahlutakaupa. Mér blöskrar það ekki, þótt það þurfi 10 millj. kr. til viðhalds á hinum mörgu og afkastamiklu og dýru vélum, sem eru notaðar í þágu þessara atvinnuvega, og ef vantar gjaldeyri, verður að láta hann vanta fyrir eitthvað annað ónauðsynlegra og láta það nauðsynlega, sem framleiðslan þarf að nota, sitja fyrir.