27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Þegar frv. um niðurfærslu verðlags og launa o. fl. var til 1. umr. hér í hv. d., var það að vonum mikið rætt og skoðanir þm. mjög skiptar um málið. Það, sem mér fannst einkennandi við þær umr., var það, hvað annar stjórnarfl., þ. e. Alþfl., hafði sig lítið í frammi við þær umr. Aðeins tveir ráðherranna, hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh., töluðu í málinu. Maður skyldi þó ætla, að t. d. hæstv. forsrh., sem hafði framsögu fyrir frv., hefði talið sér skylt að svara ýmsu af því, sem fram kom í ræðum andstæðinga frv. En svo var ekki. Aftur á móti gerðist það, að þm. Sjálfstfl. gengu fram fyrir skjöldu og vörðu frv. og töldu það vera flestra meina bót á efnahagsástandinu, eins og það er nú.

Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) lét þó í það skína, að þetta frv. væri aðeins bráðabirgðalausn: fleiri og stærri skref þyrfti að stiga til úrbóta vandamálunum. Það fór ekkert á milli mála, að hv. þingmönnum Sjálfstfl. fannst ekkert við það að athuga, þó að gengið væri á hinn freklegasta hátt á samningsrétt verkalýðsfélaganna og þó að launastéttirnar yrðu rændar a. m. k. 10 vísitölustigum án alls samráðs við heildarsamtökin og án þess að nokkrar bætur kæmu þar á móti. Því var bara slegið föstu án nokkurra raka, að kaupgjaldið væri allt of hátt og að engin leið væri önnur til, til lækninga á ástandinu, kaupgjaldið væri það, sem öllu réði, aðalatriðið væri að skerða vísitöluna um nógu mörg stig.

Þessi skoðun virðist vera sameiginleg hjá báðum stjórnarfl., Alþfl. og Sjálfstfl. Í ræðum þm. Alþb. var sýnt fram á með óyggjandi rökum, hvað mikil fjarstæða þetta væri og það væri allt annað og meira, sem væri aðalorsökin fyrir vaxandi dýrtíð og verðbólgu.

Þegar hæstv. ríkisstjórn tók við völdum 23. des. s. l., var það eitt af hennar fyrstu verkum að auka niðurgreiðslur að miklum mun frá því, sem áður hafði verið. Gert var ráð fyrir, að til niðurgreiðslna þyrfti að verja um 75 millj. kr. á þessu ári. Þó má telja líklegt, að sú upphæð nægi ekki og að til niðurgreiðslnanna á landbúnaðarvörum o. fl. þyrfti að verja allmiklu hærri upphæð. Allt er þetta mjög óljóst og varlegt að tilnefna nokkrar ákveðnar tölur.

Hæstv. ríkisstj. telur sig þurfa a. m. k. 170 millj. kr. til að standast hin auknu útgjöld vegna hinna ýmsu ráðstafana, sem gerðar verða, svo sem niðurgreiðslu landbúnaðarvara, aukna styrki til útvegsins o. fl. Þetta virðist nú vera dálaglegur skildingur til viðbótar við það, sem áður var veitt til slíkra mála. Hv. 1. þm. S-M. (EystJ) telur t. d., að til að standast hin auknu útgjöld muni þurfa um 230 millj. kr. Hér ber allmikið á milli og verður ekkert um það fullyrt, hvor talan sé rétt. En ýmislegt bendir þó til þess, að hin auknu útgjöld verði allmiklu meiri og hærri, en hæstv. forsrh. telur að verði. Til að standast þessi nýju útgjöld hugsar hæstv. ríkisstjórn sér eftirfarandi leiðir: 20 millj. kr. af rekstrarafgangi s. l. árs, hækkun hinna ýmsu tekjuliða fjárlaga um 83 millj. kr., sparnað í ríkisrekstri 40 millj. kr. og nýja tekjuliði 35 millj. kr. Samtals gerir þetta 178 millj. kr.

Það liggur ekkert fyrir opinberlega um það, hvort þingflokkur Sjálfstfl. muni vilja styðja þessar till. hæstv. ríkisstj. Hv. 1. þm. Reykv. hefur lýst því yfir hér á Alþingi, að engir samningar hafi verið gerðir á milli þessara flokka nema um það eitt að forða hæstv. ríkisstj. frá vantrausti gegn skýlausu loforði um þingrof.

Mér skilst því, að það sé síður en svo traustur grundvöllur fyrir þeim till. til fjáröflunar, sem hæstv. forsrh. lýsti í framsöguræðu sinni fyrir frv. og í sjálfu sér er það lítt forsvaranlegt að afgreiða frv., fyrr en fyrir liggja frekari upplýsingar um afstöðu Sjálfstfl. til áðurnefndra till.

Um sjálfar till. væri margt hægt að segja. Mér finnst t. d. mjög óvarlegt að ætla sér að hækka tekjuliði fjárlagafrv. um 83 millj. kr. Það er að vísu rétt, að fyrrv. fjmrh. hefur alltaf áætlað hina ýmsu tekjuliði of lágt. Það sýna bezt hinir miklu tekjuafgangar undanfarinna ára. En að rétt sé að hækka tekjur fjárlaga um 83 millj. kr., tel ég óraunhæft.

Alþfl. hefur lýst því yfir, að til þess að standast hin auknu útgjöld verði ekki lagðir nýir skattar á almenning. Nú segir hæstv. forsrh., að nýir tekjuliðir séu áætlaðir 35 millj. kr. Nú spyr ég: Hvaða nýir tekjuliðir eru það? Hverjir eiga að greiða þessar 35 millj. kr. ? Ætli það verði ekki allur almenningur, sem kemur til með að greiða þessar upphæðir? Og hvað um sparnaðinn? Hvaða liðir fjárlaga eru það, sem á að færa niður? Til skamms tíma hefur Alþfl. ekki verið til viðræðna um neinn sparnað, heldur þveröfugt. Og hvað þá um Sjálfstfl.? Hvað vill hann spara? Á undanförnum þingum hafa þm. Sjálfstfl. flutt fjölda brtt. til stórhækkana fjárlaganna. Ekki bendir það í þá átt, að þaðan sé sparnaðar að vænta. Þó má vel vera, að Sjálfstfl. sé nú allt í einu orðinn sparnaðarflokkur, en mér finnst, að fátt bendi þó til þess, að svo sé.

Það er í sjálfu sér ekkert nema allt gott um það að segja að taka upp sparnað í rekstri ríkisins, t. d. með því að draga að einhverju leyti úr fjárfestingu á vegum ríkisins með sparnaði í utanríkisþjónustu, t. d. með því að sameina sendiráðin á Norðurlöndum, með því væri t. d. hægt að leysa úr útlegð sendiherra þann, sem hv. 1. þm. Reykv. taldi að fyrrv. ríkisstj. hefði sent í útlegð. Það væri hægt að spara líka stórfé með því að fækka sendiferðum til útlanda á fund Atlantshafsbandalagsins, Evrópuráðsins og ótalmargra fleiri stofnana. Sjálfsagt væri líka hægt að meinalausu að fækka fólki á hinum ýmsu skrifstofum og ráðuneytum og sameina ríkisstofnanir svo sem Áfengisverzlun ríkisins og Tóbakseinkasöluna, svo að eitthvað sé nefnt.

En allt þetta mál er á huldu og ekkert liggur fyrir um það, hvað það er, sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að spara. Væri nú til of mikils mælzt, að hæstv. fjmrh. gæfi þinginu skýrslu um það, í hverju fyrirhugaðar sparnaðartill. eru fólgnar? Sjálfsagt er hæstv. ríkisstj. nú þegar búin að taka ákvörðun um það, í hverju þær liggja, hinar fyrirhuguðu sparnaðartill.

Ég get svo látið útrætt um þessa hlið málsins, en mun nú ræða að nokkru sjálft frv. og hvernig það kemur til með að verka gagnvart launastéttunum.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að frá 1. febr. 1959 skuli greidd verðlagsuppbót á laun og aðrar greiðslur, er fylgja kaupgreiðsluvísitölu, samkv. vísitölunni 175 stig.

Í grg., sem frv. fylgir, er því haldið fram, að hér sé um að ræða 10 vísitölustiga eftirgjöf af hendi launþega. Miklar líkur benda þó til þess, að hér sé um miklu meiri eftirgjöf að ræða og að sú lækkun, sem verður vegna niðurgreiðslu nokkurra vöruflokka, sýni alranga mynd af hinu raunverulega verðlagi. Þær vörutegundir, sem nú eru greiddar niður, eru m. a. mjólk, kjöt (ekki unnar kjötvörur), kartöflur, smjör, smjörlíki og saltfiskur. Þessar niðurgreiðslur eru vægast sagt mjög athyglisverðar, t. d. niðurgreiðslur á kartöflum og saltfiski. Báðar þessar vörutegundir eru óeðlilega háar í vísitöluútreikningnum og hefur oft verið áður til þess gripið að greiða niður kartöflur beinlínis til þess eins að falsa vísitöluna. Af hverju er t. d. ekki greiddur niður allur fiskur, jafnt nýr sem saltaður? Af hverju eru ekki greiddar niður unnar kjötvörur? Þessar spurningar eru á hvers manns vörum. Því miður bendir þetta til þess, að ekki sé allt mjölið hreint í pokanum og að kaupskerðingin sé miklu meiri, en þessi 10 vísitölustig.

En þó að gengið væri út frá því, að eftirgjöfin sé ekki meiri en 10 vísitölustig, er hér um stórfellda kaupskerðingu að ræða. Það, sem er þó alvarlegast við þessar fyrirhuguðu ráðstafanir, er það, að með þessu er verið að ógilda gerða samninga verkalýðsfélaganna við atvinnurekendur. Í öllum samningum verkalýðsfélaganna er gert ráð fyrir fullri vísitölu af grunnkaupi eins og hún er reiknuð út af kauplagsnefnd. Hér á nú með lögum að taka af launastéttunum 10–15 vísitölustig og það án þess að nokkuð komi í staðinn. Með slíkum ráðstöfunum er svo freklega gengið á rétt launastéttanna, að stórfurðulegt verður að teljast. Við mörgu gat maður búizt, en ég held, að fáir launþegar hafi látið sér til hugar koma slíkar ráðstafanir af hendi Alþfl. Ekki var verið að hafa fyrir því að leita eftir samráði við verkalýðssamtökin um lausn þessara mála. Hæstv. ríkisstj. var þó vel kunnugt um skoðanir og vilja verkalýðssamtakanna í þessum málum.

Á þingi Alþýðusambands Íslands, sem haldið var síðustu daga nóvembermánaðar, var gerð efnahagsmálasamþykkt, þar sem lögð var áherzla á, að vandi efnahagsmálanna yrði bezt leystur með nánu samstarfi verkalýðssamtakanna og ríkisvaldsins. Það var viðurkennt, að stöðvun vísitölunnar í 185 stigum væri nauðsyn til tryggingar fullrar atvinnu og áframhaldandi aukningar útflutningsframleiðslunnar. Samþykktin, sem gerð var, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„26. þing A. S. Í. telur mjög nauðsynlegt, að slíkt samstarf sé á milli ríkisstjórnar og verkalýðssamtakanna og leggur mikla áherzlu á, að slíkt samstarf geti haldizt á þeim grundvelli, sem lagður var í málefnasamningi stjórnarflokkanna.

Alþýðusambandsþingið telur, að vandamál þau, sem nú er við að eiga í efnahagsmálum þjóðarinnar, verði bezt leyst launastéttunum til handa með slíku samstarfi ríkisvaldsins og verkalýðssamtakanna.

Þingið telur, að miða þurfi ráðstafanir í efnahagsmálunum við eftirfarandi: 1) að stöðva dýrtíðina, 2) að tryggja kaupmátt launanna, 3) að tryggja næga atvinnu, 4) að vinna markvisst að aukinni útflutningsframleiðslu.

Þingið leggur því áherzlu á, að þegar í stað verði eftirfarandi ráðstafanir gerðar:

I. Stöðvun verðbólgunnar. — Nú þegar verði hafizt handa um að stöðva verðbólguna. 26. þing A. S. Í. lýsir því yfir, að til þess að auðvelda frekari aðgerðir getur það fallizt á, að vísitalan verði greidd niður þannig, að hún hækki ekki frá því, sem hún nú er (framfærsluvísitala 202 stig og kaupgjaldsvísitala 185), með þeim hætti, að það valdi engri rýrnun á kaupmætti launa, enda verði fjárins til niðurgreiðslunnar ekki aflað með auknum sköttum, sem verkalýðsstéttinni sé ætlað að bera. Fjár til niðurgreiðslunnar og til stuðnings atvinnuvegunum verði m. a. aflað : 1) með sparnaði í rekstri ríkisins og frestun um skeið á nokkrum þeim fjárveitingum til fjárfestingar á vegum hins opinbera, sem minni þýðingu hafa í rekstri þjóðarbúsins, þó án þess að af því leiði atvinnuleysi; 2) með því að verja greiðsluafgangi ríkissjóðs í því skyni, 3) með auknum tekjum af einkasölum og skattlagningu á þá, sem grætt hafa á verðbólgunni.

II. Komið verði upp stofnun, er hafi það verkefni að gera áætlun um fjárfestingu og heildarstjórn á sviði atvinnumála í samráði við ríkisstjórnina. Lögð verði áherzla á að efla þær atvinnugreinar, sem þýðingarmestar eru frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

III. Látin verði fara fram ýtarleg endurskoðun á rekstrarfyrirkomulagi og skipan mála atvinnuvega landsins, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, með það fyrir augum, að rekstur þeirra verði sem hagfelldastur frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar.“

Samþykkt þessi var gerð með atkvæðum svo til allra þingfulltrúa eða miklum meiri hluta allra þingfulltrúa, þar með taldir rúmir 100 fulltrúar Alþfl.

Núverandi hæstv. ríkisstj., sem skipuð er eingöngu flokksbundnum Alþýðuflokksmönnum, var mæta vel kunnugt um þessa samþykkt og um vilja Alþýðusambandsþings til þessara mála. En þrátt fyrir það hikar hæstv. ríkisstj. ekki við að ganga algerlega fram hjá heildarsamtökum verkalýðsins og vilja þeirra í þessum málum. Aðeins til málamynda var frv. lagt fyrir miðstjórn Alþýðusambandsins með svo stuttum fyrirvara, að tæplega hefði unnizt tími til að gera nauðsynlegar breytingar á frv., enda vitað, að til þess var ekki ætlazt af hæstv. ríkisstj.

Á fundi, sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands hélt þá strax, var þetta frv. tekið fyrir. Meiri hluti miðstjórnar samþykkti harðorð mótmæli gegn því og benti alveg sérstaklega á þá geysilegu hættu, sem í frv. ríkisstj. felst með því að gera slíka ráðstöfun í efnahagsmálunum án þess að hafa haft nauðsynlegt samstarf og samráð við launasamtökin í landinu. Minni hluti miðstjórnarinnar, þ. e. Alþfl.-mennirnir, hafði sérstöðu í málinu og lýsti sig sammála þeim fyrirætlunum að rjúfa samninga verkalýðsfélaganna og skerða kjör launþega.

Í ályktun meiri hluta miðstjórnar er sérstaklega bent á, að með frv., ef að lögum yrði, er gert ráð fyrir því að breyta löglega gerðum kjarasamningum stéttarfélaganna stórlega til lækkunar og ákveða þannig kauplækkun með lögum. Þá er og bent á, að verkalýðshreyfingin geti ekki og megi ekki láta undir höfuð leggjast að mótmæla slíku gerræði harðlega.

Þá er og bent á, að nú þegar hafi verið samið við atvinnurekendur í sjávarútvegi um tugmilljóna króna auknar bætur af opinberu fé umfram það, sem fellur þeim til hagsbóta í kauplækkunum. Engin trygging liggi fyrir um það, hvernig þessa fjár verði aflað.

Hver getur fullyrt um það nú, að ekki verði lagðir á nýir skattar, nýjar álögur á almenning, t. d. síðar á árinu?

Þá bendir miðstjórn Alþýðusambandsins á, að hún telji þessar aðgerðir brjóta í meginatriðum í bága við stefnu Alþýðusambandsþings og stefnu þá, sem þingið markaði í efnahagsmálunum, það sé með þessu frv. gengið á sameiginlegan samningsrétt verkalýðsfélaganna og stefnt að stórfelldri kjaraskerðingu. Miðstjórn Alþýðusambandsins varar alvarlega við því að samþykkja frv. og bendir sérstaklega á þá hættu, sem í því felst að ætla að afgreiða aðgerðir í efnahagsmálunum án eðlilegs samráðs og samstarfs við launþegasamtökin í landinu.

Að lokum lýsir miðstjórn Alþýðusambands Íslands sig reiðubúna til viðræðna við hæstv. ríkisstj. um aðgerðir til stöðvunar verðbólgunni á grundvelli þeirrar samþykktar, sem Alþýðusambandsþing gerði í þessum málum í lok nóvembermánaðar s. l., en hæstv. ríkisstj. hefur ekki óskað eftir neinum viðræðum við miðstjórn A. S. Í. um þessi mál og verður það skoðað sem hún hafi engan sérstakan áhuga á því að eiga viðræður við miðstjórn Alþýðusambandsins eða heildarsamtökin um málið og tel ég það mjög illa farið og er sízt til fyrirmyndar.

Minni hluti miðstjórnar Alþýðusambandsins var mótfallinn þessari ályktun meiri hlutans og flutti aðra ályktun, þar sem mælt er með frv. ríkisstj.

Í þessu sambandi hlýtur það að vekja allmikla undrun, hvað Alþfl.-mennirnir í miðstjórninni hafa verið fljótir að skipta um skoðun. Á þingi Alþýðusambandsins töldu þeir sig ekki hafa umboð til þess að samþykkja frestun í einn mánuð, þ. e. a. s. í desember, að 17 vísitölustig kæmu inn í kaupgjaldið. En þó lágu þá fyrir skýlaus loforð frá hæstv. ríkisstj. fyrrv. um það, að ef ekki næðist samkomulag í desember um raunhæfar aðgerðir í dýrtíðarmálunum, skyldu launþegum greidd umrædd vísitölustig í janúar. Það voru ekki eingöngu Alþfl.-menn, sem höfðu þessa skoðun. Mikill meiri hluti þingfulltrúa var þeim sammála og taldi sig ekki geta orðið við óskum fyrrv. ríkisstj.

En nú skeður það merkilega í málinu, að fulltrúar Alþfl. í miðstjórn Alþýðusambandsins, sem áttu sæti á síðasta Alþýðusambandsþingi og töldu sig þá ekki hafa umboð til þess að veita umbeðna frestun, mæla nú með ekki frestun, nei, nei, heldur með því að taka af launastéttunum með lögum 10 vísitölustig, án þess að nokkrar hagsbætur komi á móti. Þetta getur maður nú kallað að kunna vel til verka.

Rétt er að athuga dálítið nánar, hvað hér er um að ræða og hvaða áhrif þetta frv. kemur til með að hafa, ef að lögum verður, á lífskjör launastéttanna. Eins og menn vita er kaup verkamanna nú greitt eftir kaupgjaldsvísitölu 202 stig samkv. gildandi samningum og átti að greiða eftir sömu vísitölu desember, janúar og febrúar. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir að breyta þessu fyrirkomulagi þannig, að eftir 1. febr. skuli greitt eftir kaupgjaldsvísitölu 175 stig í staðinn fyrir 202, eins og ætti að gera samkv. samningum verkalýðsfélaga við atvinnurekendur og þar með hafa af launastéttunum rétta vísitölu í febrúarmánuði, sem þeim bar samkv. áður gerðum samningum. Þetta hefur þau áhrif, að tímakaup verkamanna, sem vinna eftir Dagsbrúnartaxta, lækkar úr kr. 23.86 á klst. í 20.67, eða um kr. 3.19 á klst. Þessi lækkun gerir á viku kr. 152.12 eða yfir árið, ef þannig væri reiknað, 7.656 kr., miðað við dagvinnu. Vitanlega verður kjararýrnunin miklu meiri, því að allur fjöldi verkamanna vinnur mikla eftirvinnu og helgidagavinnu. T. d. í síldarbæjum á Norðurlandi er mikið um eftir- og næturvinnu að ræða og helgidagavinnu yfir síldveiðitímabil og verður þetta kauprán sízt minna þar, en hér. Ég er hræddur um, að síldarsaltendur yrðu hálfskrýtnir, ef verkamennirnir og verkakonurnar, sem vinna við þessa framleiðslu, tækju upp á því að segja: Nei, við vinnum bara dagvinnu, það er nóg, að þið rænið þar af okkur, en við ætlum ekki að vinna neina eftirvinnu eða helgidagavinnu. Ég er hræddur um, að það mundi koma skrýtið hljóð þá, enda ekki óeðlilegt og enda munu verkalýðssamtökin ekki fara inn á slíkar leiðir. Til þess eru þau of ábyrgir aðilar.

Ég tel því, að hér sé um mestu kjaraskerðingu að ræða, sem gerð hefur verið, síðan gengisfellingarlögin voru samþykkt 1950. Þó segja nú fulltrúar Sjálfstfl., að hér verði aðeins um byrjun að ræða, stærra skref þurfi að stíga nú alveg á næstunni. Hér var nú að ljúka máli sínu einn af aðalforustumönnum Sjálfstfl. á þingi og hann hélt því fram, að þetta væru aðeins fyrstu skrefin. Hann hélt hér langa ræðu um nauðsyn og blessun gengisfellingar fyrir alþjóð og mér skildist jafnvel fyrst og fremst fyrir launastéttirnar. Þessi kenning, sem hér hefur verið sett fram, ætti fyllilega skilið, að hún væri athuguð nánar síðar.

Þetta vísitölurán verða launastéttirnar að þola bótalaust. Því miður er allt í óvissu um það, eins og ég hef áður tekið fram, nema verkafólkið og launastéttirnar verða að lækka kaup sitt í haust að dómi kauplækkunarpostulanna. Allt bendir til þess, að svo verði. Já, það bendir sannarlega allt í þá átt, að afturhaldið ætli sér að framkvæma óskadraum sinn og lækka gengið, eins og sá hv. þm., sem hér var að tala áðan, benti á og taldi allra meina bót, enda er þetta yfirlýst stefna þeirra flokka, sem að frv. standa. Það fer ekki milli mála. Það er margyfirlýst af hendi vissra forustumanna Alþfl., að þeir hafa ekki séð aðra lausn í þessum málum, en að lækka gengið. Það er aðeins fyrir harðfylgi ráðh. Alþb. á síðasta kjörtímabili, að ekki var farið inn á almenna gengislækkun. Það er alveg vitað, að hæstv. menntmrh. var einn aðalgengislækkunarpostulinn í fyrrv. ríkisstj., og ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi neitt breytt þar um skoðun síðan.

Forsvarsmenn frv. halda því fram, að kaupgjald sé of hátt, með því sé verið að sliga atvinnuvegina. Þetta er sami söngurinn, sem sunginn hefur verið frá því fyrsta, — frá fyrstu dögum verkalýðshreyfingarinnar. Ég minnist ekki annars, en að í hvert einasta skipti, sem launastéttirnar hafa barizt fyrir hækkun launa, hefur allt afturhaldið öskrað einum rómi: landráðastefna, kommúnistaáróður o. fl. þess háttar.

Nei, sannleikurinn er hins vegar sá, að engar staðreyndir liggja fyrir um það, að kaupgjaldið sé of hátt og að hlutur verkamanna af þjóðartekjunum sé of mikill, heldur alveg þveröfugt. Eftir því sem Eðvarð Sigurðsson, ritari Dagsbrúnar, upplýsti í félaginu á fundi s. l. föstudag, hefur þjóðarframleiðslan vaxið um 41% á hvert mannsbarn í landinu á árunum 1952–1956. Á tímabilinu 1948–57 jukust atvinnutekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna að meðaltali um 37%. Á þessu sést, að hlutdeild launþega í heildarframleiðslu þjóðarbúsins hefur farið minnkandi, en ekki vaxandi.

Nei, það er hin herfilegasta blekking, að kaupgjaldið eitt út af fyrir sig sé aðalorsök hinnar ört vaxandi dýrtíðar og verðbólgu. Þar eru allt önnur öfl að verki. Þar eiga m. a. sinn mikla skerf þeir, sem hafa staðið að öllu braskinu hér í Reykjavík og öðrum stærri bæjum á landinu. Þeirra hlutur þar í því að auka verðbólguna mun vera sá stærsti. En það er ekki verkalýðshreyfingin, sem ber ábyrgð á hinni vaxandi dýrtíð, síður en svo. Verkalýðsstéttin hefur aldrei talið sig græða á dýrtíðinni, heldur hið gagnstæða. Hins vegar neita launastéttirnar því að láta ræna sig minnst 10 vísitölustigum, sem þeim ber samkv. gerðum samningum, án þess að eitthvað komi á móti. Það er mannlegt að halda í það, sem þegar er fengið, og verkalýðshreyfingin er þekkt að því á undanförnum árum, að hún hefur staðið vel á verði fyrir verkalýðsstéttirnar og hún mun gera það líka hér eftir.

Það, sem er þó langalvarlegast við þetta frv., er það að ætla sér með lögum að skerða hinn hefðbundna lagalega rétt verkalýðsfélaganna til að semja um kaup og kjör meðlima sinna, en með þessum lögum er það gert. Slíku ofbeldi af hendi löggjafarvaldsins mótmælir verkalýðshreyfingin einhuga og hún mun aldrei sætta sig við að vera beitt slíkum bolabrögðum. Verkalýðshreyfingin hefur um árabil barizt harðri baráttu fyrir fullu samningafrelsi við atvinnurekendur. Þessi réttur er hverjum launþega helgur og verður aldrei af hendi látinn. Afturhaldið hefur oft áður gert harða árás á verkalýðshreyfinguna, en alltaf orðið undir í þeim átökum. Svo mun enn verða. Það má vel vera, að í bili sé hægt að ræna af launastéttunum hluta af réttmætum launum þeirra, en verkalýðshreyfingin mun við fyrsta hentugt tækifæri rétta hlut sinn í bróðurlegri samvinnu við aðrar launastéttir og önnur framsækin öfl í þjóðfélaginu.

En það eru fleiri, en beinar launastéttir, sem verða fyrir barðinu á hinum nýju ráðstöfunum hæstv. ríkisstj., ef að lögum verða. Hlutarsjómennirnir fá þar sinn skerf. Í frv. er gert ráð fyrir, að fiskverð hlutarsjómanna fylgi vísitölunni. Slíkt fyrirkomulag hefur ekki þekkzt áður, enda í alla staði óeðlilegt að mínum dómi.

Í samningum sjómannafélaganna og Alþýðusambandsins við útvegsmenn var samið um, að fiskverð skyldi hækka um 20 aura á kg. eða í kr. 1.75. Nú er gert ráð fyrir, að fiskverð fylgi vísitölunni samkv. frv., sem hér liggur fyrir. Fiskverð í jan. varð því kr. 1.91, en verður 1. febr., ef frv. verður samþykkt, kr. 1.66. Halda menn, að með svona ráðstöfunum gangi betur að fá menn á fiskiskipin? Halda þeir, að þetta sé leiðin til þess að hæna unga og hrausta menn að því að gerast þátttakendur í framleiðslu sjávarútvegsins? Nei, ég held ekki. Ég held, að það sé alveg þveröfugt. Og sama fyrirkomulagið skal gilda um fiskverð það, sem aflaverðlaun togarasjómanna miðast við. Fyrir stuttu — ég held, að það hafi verið í okt. eða í nóv. voru gerðir nýir samningar fyrir hönd togaraháseta. Þar fékkst í gegn allmikil hækkun á þeirra kjörum, en nú á bara með einföldum lögum að kippa töluverðu af þessu aftur til baka. Ég held, að það hafi sýnt sig undanfarið, að það hafi ekki gengið meira, en svo vel að fá nægilega marga menn til þess að stunda hina erfiðu togaravinnu og það kemur hér alveg sama fram og með bátasjómennina, þessi lagasetning verður ekki til þess að ýta undir menn til að fara á togarana, heldur alveg þveröfugt, enda virðast þessi mál vera þannig, að það sé eins og mönnum sé alveg fyrirmunað að skilja jafneinfalda hluti og það, að þegar farið er inn á þá braut að lækka svona hrapallega og svona mikið tekjumöguleika þessa fólks, þá hlýtur að stefna að því, að fólkið vill ekki vinna við þennan atvinnuveg. Þetta er staðreynd, sem rétt er að benda á, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Það er öllum ljóst, sem eitthvað hafa fylgzt með þessum málum, að bátasjómennirnir voru mjög andvígir þessu fyrirkomulagi og töldu, að ríkisstj. hefði gengið á gerða samninga, sem hún líka gerði. Það var samið um fast fiskverð kr. 1.75 pr. kg. Þá samninga bar hæstv. ríkisstj. að virða og halda. Í staðinn fyrir það er lagt til í frv. að lækka fiskverðið niður í kr. 1.65 frá 1. febr., eða um 9 aura og þessar ráðstafanir eru gerðar á sama tíma sem sjómenn vantar í tuga- og hundraðatali á fiskibátana. Það er sent sérstakt skip til Færeyja til þess að sækja þangað sjómenn. Það er talið, að það vanti 300–400 sjómenn hingað á fiskiflotann. Er það fyrir það, að það sé of vel búið að þessum mönnum, að ekki fást fleiri menn á fiskiskipin? Eða er það eitthvað annað? Ég held, að það sé fyrst og fremst fyrir það, að við höfum aldrei skilið til fullnustu, hvers virði sjómannastéttin er fyrir okkur. Við höfum aldrei goldið þeim þann hlut, sem okkur ber og aldrei gert nægilega vel við þá. En þetta er ekki leiðin til þess að manna skipin, heldur þveröfugt.

Nei, svona starfsaðferðir eru stórfurðulegar. — Ég vil nú samt sem áður leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort ekki sé nú hægt að ná samkomulagi um það, að fellt verði niður úr frv. ákvæði 9. gr. um skiptaverð á fiski til bátasjómanna og fiskverð það, sem aflaverðlaun togara miðast við. Ég tel, að með því væri komið til móts við óskir fiskimanna í þessu máli, en það tel ég vera mjög mikils virði. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 9. gr. frv., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, að 1. málsl. orðist svo: „Frá 1. febr. 1959 skal skiptaverð á fiski til bátasjómanna miðast við kaupgreiðsluvísitölu 185 stig.“

Ég held, að þrátt fyrir alla hina miklu galla frv., þá væri þó frv. stórum betra, ef þessi breyting fengist í gegn. Ég trúi því ekki, fyrr en ég sé það sjálfur, að hv. alþm. geti ekki greitt þessari brtt. atkv.

Eitt er það, sem vekur alveg sérstaka eftirtekt í þessu frv., og það er, að hvergi virðist eiga að hrófla við gróða bankanna eða annarra stórgróðafyrirtækja. Bankar og sparisjóðir eiga eftir sem áður að fá að halda sínum okurvöxtum. Við slíkum stofnunum má ekki hrófla, þær skulu fá að halda sínum 7–8% vöxtum, á sama tíma sem allur almenningur skal lækka laun sín um mörg þús. kr. á ári. Reyndar segir í frv., að kaupmáttur tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna 1. marz n. k. verði 1.6% meiri, en hann var í okt. og síðar segir: „Miðað við 1. okt. 1958 reyndist kaupmáttur tímakaups beggja þessara stétta einnig hafa aukizt 1. marz n. k. hjá verkamönnum“ — taki menn vel eftir, — „3.9% og hjá iðnaðarmönnum 0.6%.“

Ég verð að segja, að það þarf mikla kunnáttu í reikningslist til þess að geta fengið þessar tölur út. En það er kannske þannig, að flestir hagfræðingar eru nú einu sinni þannig, að þeir hugsa og reikna út hlutina á annan veg, en flestir aðrir. Það má segja um þetta eins og sagt var einu sinni, að það er hægt að segja sannleikann þannig, að hann sé verri en lygin.

Ég hef hér lýst þessu frv. að nokkru, þó ekki nema örfáum atriðum úr því, eins og það kemur mér fyrir sjónir. Ég tel, að það gangi mjög freklega á rétt launastéttanna, rýri laun þeirra stórkostlega, á sama tíma sem auðstéttin fær að halda öllu sínu og fær til viðbótar það, sem taka á af launastéttunum. Það er ekki gott að fullyrða neitt um það, hvað þetta gerir mikið í krónutali, en samkv. lauslegum útreikningi, sem gerður hefur verið á þessu, er líklegt, að þetta geti numið nokkrum hundruðum milljóna á allar launastéttir í landinu. Maður sér á þessu, að hér er ekki neitt smáræðismál á ferðinni. Það er ekki verið að taka nokkra tugi, heldur jafnvel svo að skiptir hundruðum milljóna af launastéttunum. Þetta er laglegur skildingur, sem þarna á að taka af launastéttunum og færa yfir til auðstéttarinnar.

Ég hef bent á, að með frv. þessu er ráðizt á samninga verkalýðshreyfingarinnar, og það vil ég undirstrika, að ég tel það hættulegast af öllu við frv.

Frv. var samið og sett fram án nokkurs samráðs við verkalýðssamtökin og þau hafa því algerlega óbundnar hendur í málinu. Ég tel allan undirbúning að þessu máli og frv. í heild með þvílíkum endemum, að undrum sætir.

Nú þegar hefur miðstjórn A. S. Í. og nokkur verkalýðsfélög sent frá sér mótmæli á móti frv., m. a. frá verkalýðsfélögunum í kjördæmi hæstv. forsrh. og fleiri munu á eftir koma. Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur oft áður sýnt það, að hún lætur ekki troða á rétti sínum og hún mun fyrr eða síðar krefjast leiðréttingar á því ranglæti, sem nú er verið að fremja gagnvart verkalýðshreyfingunni í heild og launastéttunum almennt.

Ég tel, að hér sé verið að ganga lengra, en þeir menn, sem að frv. standa, hafa gert sér grein fyrir og ég held, að það væri mjög hollt fyrir þá að taka frv. til endurskoðunar og reyna að draga úr a. m. k. allra verstu ágöllum þess.