29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (2061)

7. mál, innflutningur varahluta í vélar

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er um þetta atriði að segja, að eins og þingheimi er kunnugt, er hlutaðeigandi ráðh. ekki hér viðstaddur og ekki í bænum. Þess vegna liggur það í augum uppi, að málið verður ekki rætt til þrautar hér að honum fjarverandi. Ég efast ekkert um það, að hann mun svara fyrir sig, þegar hann fær tækifæri til að gera það. Og þó að eitthvað standi í blöðum um einhvern mann eða einhvern ráðherra, er vitað, að það er svo margt skrifað í blöð og ekki alltaf af betra taginu, að það mætti æra óstöðugan, áður en mál eru athuguð, að hlaupa til út af því, að eitthvað er skrifað í blöð.

Viðkomandi hinu atriðinu, um svar mitt um það, hvort hefði verið til staðar gjaldeyrir fyrir þessum 4.7 millj. eða ekki, þá situr við það. Ég hef ekki nákvæmar skýrslur um það, að hve miklu leyti stóð á gjaldeyri eða ekki, og hef ekki frekar að segja um það mál á þessu stigi. En nefndin, sem fer með þetta mál, getur að sjálfsögðu fengið þær tölur nákvæmlega, sem fyrir liggja í málinu.