22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (2064)

16. mál, lífeyrissjóður fyrir bátasjómenn

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 29 höfum við nokkrir þm. úr Framsfl. leyft okkur að bera fram till. til þál. um skipun nefndar til athugunar á möguleika á stofnun lífeyrissjóðs fyrir sjómenn, bændur, verkamenn, útvegsmenn og aðra þá, sem ekki njóta nú lífeyristrygginga hjá sérstökum lífeyrissjóðum.

Lífeyrissjóðir eru einkennandi um góð lífskjör og menningu. Þeim er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að tryggja lífeyrissjóðsþega í ellinni með því að greiða þeim 60% af meðaltekjum þeirra síðustu starfsárin, auk þess sem eftirlifandi maka og börnum er tryggður lífeyrir, er sjóðfélagi fellur frá, hvort heldur er á starfsaldri eða síðar.

Annar tilgangur lífeyrissjóða er sá, að þar á sér stað fjármagnsmyndun. Fyrsti lífeyrissjóðurinn, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra, tók til starfa hér á landi 1921, og á sama ári mun lífeyrissjóður barnakennara einnig hafa tekið til starfa. Með lögum fyrir lífeyrissjóð embættismanna var ákveðið, að embættismenn einir væru sjóðfélagar, og áttu þeir að greiða 7% af árslaunum sínum sem iðgjöld. Aðrar voru tekjur sjóðsins ekki nema vaxtatekjur. Þessi lög voru í gildi til 1943, en með breyt., sem þá voru gerðar á l., ná þau til allra, sem laun taka samkvæmt almennum launalögum, og enn fremur til annarra starfsmanna ríkisins, sem ráðnir eru eigi skemur en eitt ár, eða með þriggja mánaða uppsagnarfresti. En með lögum frá 1955 er stjórn lífeyrissjóðs enn fremur heimilt að taka sem sjóðfélaga starfsmenn þeirra ríkisstofnana, sem hafa sérstakan fjárhag, svo og starfsmenn bæjar-, sveitar- og sýslufélaga og stofnana þeirra. Þá hefur sú breyting á orðið, að samkvæmt núgildandi lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins greiða sjóðfélagar 4% til hans, en ríkissjóður eða annar launagreiðandi 6% af launum starfsmanna.

Árið 1938 var stofnaður lífeyrissjóður ljósmæðra og 1943 lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna. Með alþýðutryggingalögunum frá 1936 var ákveðið, að stofnaður skyldi almennur elli- og örorkulífeyrissjóður, er nefndur var Lífeyrissjóður Íslands. Þessi sjóður var á hreinum lífeyrisgrundvelli, þar sem gert var ráð fyrir, að um iðgjaldagreiðslu og sjóðmyndun væri að ræða. Frá þessari stofnun var horfið með lögunum um almannatryggingar frá 1946, en þar er horfið frá sjóðmynduninni og iðgjöldin miðuð við þær bótagreiðslur, er til falla á hverju ári.

Hins vegar hefur á síðari árum, eða allt frá því að rýmkað var um lögin um lífeyrissjóð embættismanna 1943 og með vaxandi velmegun og þekkingu þjóðarinnar, færzt í aukana áhugi fyrir stofnun sérstakra lifeyrissjóða.

Hafa ýmis viðskiptafyrirtæki komið upp hjá sér lífeyrissjóðum með samningum milli sín og starfsfólks síns. Má þar nefna íslenzku bankana, verzlunarfélögin hér í Reykjavík og Samband ísl. samvinnufélaga. Starfsmenn kaupfélaganna hafa einnig rétt til þátttöku í lífeyrissjóði Sambandsins, ef kaupfélögin gerast þátttakendur. Nú munu 16 kaupfélög vera þátttakendur í lífeyrissjóði S.Í.S., og hefur áhugi fyrir því að vera þar félagsmenn farið mjög ört vaxandi. Með lögum frá síðasta Alþ. var stofnaður lífeyrissjóður fyrir togarasjómenn. Þá hefur og á þessu ári verið með samningum stofnað til lífeyrissjóða hjá iðnverkafólki í Reykjavík, og lífeyrissjóður farmanna mun taka til starfa nú um áramótin.

Fyrir þessu Alþ. liggur nú frv. til l. um lífeyrissjóð sjómanna. Eins og ég tók fram hér að framan, er það tvennt, sem er höfuðtilgangur lífeyrissjóða. Það er að vera trygging sjóðfélaga í ellinni og þeirra nánustu vandamanna, ef fyrirvinnan fellur frá. Á árinu 1957 var greiddur lífeyrir hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins 22.6 millj. kr. Árið 1956 nutu um 137 elli- og örorkulífeyris, 94 ekkjur og 38 framfærendur 52 barna nutu lífeyris frá þessum sjóði.

Í árslok 1957 var höfuðstóll lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins orðinn 131 millj. og hafði aukizt um 21 millj. á því ári. Lífeyrissjóður barnakennara var þá orðinn 25 millj. og hafði aukizt um 4 millj. á ári. Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna var orðinn 4,7 millj. og hafði aukizt um 700 þús. og ljósmæðra 370 þús. Lífeyrissjóður S.Í.S. var orðinn 12.2 millj. í árslok 1957 og hafði aukizt um 4 millj. á árinu.

Eins og kunnugt er, hefur það verið mikill þáttur í starfi lífeyrissjóðanna að lána sjóðfélögum lán til þess að koma upp eigin íbúðum. Í árslok 1956 hafði lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins lánað 791/2 millj. í þessu skyni, og á árinu 1956 hafði hann lánað tæpar 13 millj. Árið 1955 höfðu 157 sjóðfélagar notið lána frá sjóðnum.

Þegar starfsemi lífeyrissjóðs embættismanna og annarra lífeyrissjóða er athuguð, er ekki að undra, þótt vaxandi áhugi sé fyrir stofnun slíkra sjóða, þar sem sjóðirnir auk þess höfuðtilgangs að vera trygging fyrir sjóðfélaga í ellinni, aðstoða sjóðfélaga verulega við að koma þaki yfir höfuð sér, sem þeim hefði að öðrum kosti orðið lítt eða með öllu ómögulegt.

En í sambandi við þessa sjóði vil ég taka undir það, sem fram kom í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. í fyrradag, að nauðsyn ber til að verðtryggja fé lífeyrissjóðanna. Ef verðbólgan heldur áfram að þróast, svo sem orðið hefur nú hér á landi í nærri tvo áratugi, þá verða þessir sjóðir ekki sú trygging, sem þeim er ætlað að vera í ellinni, og þess vegna ber nauðsyn til, að verðgildi þeirra haldist, en það verður að gerast með verðtryggingu.

Á Alþingi 1956–57 flutti Ólafur Jóhannesson prófessor, er þá átti sæti hér um stundarsakir sem varaþm. Skagf., ásamt okkur flm. þessarar till., þáltill. um stofnun lífeyrissjóðs fyrir þá, er ekki njóta lífeyristrygginga samkvæmt sérstökum lífeyrissjóðum. Í grg. fyrir till. og framsögu, er 1. flm. flutti, var bent á þau hlunnindi og það öryggi, er lífeyrissjóðsfélagar njóta. Jafnframt var bent á, að þær fjölmennu starfsstéttir, svo sem bændur, sjómenn og verkamenn, væru jafngóðra launa verðar og hinir og því beri að athuga möguleika á því að koma upp almennum lífeyrissjóði.

Það, sem gerzt hefur í málinu síðan, er það, að fleiri starfshópar hafa bætzt í hóp þeirra, sem njóta lífeyrissjóða, og bændur landsins hafa óskað eftir því, að athugaðir væru möguleikar á að stofna lífeyrissjóð fyrir þá.

Þáltill. okkar frá 1957 var send til umsagnar heildarsamtaka stéttarfélaganna og Tryggingastofnunar ríkisins. Einhver svör munu hafa borizt, en mér er ekki kunnugt um þau, og þó ekki frá öllum aðilum. Eins og fram kom í framsöguræðu Ólafs Jóhannessonar, gerðum við tillögumenn þá ráð fyrir því, að nefnd yrði skipuð til að athuga þetta mál. Þetta mál er svo umfangsmikið, að því verða ekki gerð skil, svo sem nauðsyn ber til, nema einhverjum verði sérstaklega falið að vinna það verk. Og það er þjóðarnauðsyn, að það verði unnið. Þar sem nefndarskipun hefur ekki orðið, er till. þessi fram komin til þess að ýta málinu áfram.

Herra forseti. Í grg. þeirri, er fylgdi till. okkar 1957 og er endurprentuð nú á þskj. 29, og ýtarlegri framsöguræðu fyrsta flm. þá, er mál þetta það vel skýrt, að ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa ræðu öllu lengri.

Það kann vel að vera, að ýmsir vankantar finnist á þessu máli, svo að það tefjist um stund. En það mun þó síðar ná fram að ganga vegna þess réttlætis, sem það felur í sér.

Eftir að þessi till. var fullgerð, en hafði ekki verið lögð hér fram á Alþ., var lagt fram frv. um lífeyrissjóð sjómanna. Í sambandi við frásögn eins dagblaðsins í Reykjavík af því máli, er mynd af tveimur gömlum sjómönnum og einni stúlku. Blaðið telur ástæðu til að birta myndina af sjómönnunum í tilefni af fréttinni um frv. En það spyr: Hvað er með stúlkuna? Og það kemst að þeirri niðurstöðu, að stúlkan úr flökunarsalnum fái að vera með á myndinni af því, að hún er myndarleg og ekki ástæða til að þurrka hana út af fréttamynd.

En ég vil endurtaka þessa spurningu: Hvað er með stúlkuna? Er nokkur ástæða til, að stúlkan á myndinni, stúlkan, sem vinnur á flökunarstaðnum, eigi að búa við minni rétt og minna öryggi í ellinni heldur en sjómennirnir? Ég er ekki að gera lítið úr þeirra starfi. Það er hins vegar skoðun okkar flm., — og þess vegna hefur þessu máli verið hreyft hér á Alþ., var því hreyft árið 1957 og ýtt á það nú, — að stúlkan í flökunarsalnum, verkamaðurinn á eyrinni og bóndinn við framleiðslustörfin í sveitinni, allt þetta fólk vinnur þau þjóðþrifastörf og þau nytjastörf, að þjóðfélaginu ber að skapa því sama öryggi og sama rétt til þess að búa að sér í ellinni eins og þeim þegnum þjóðfélagsins, sem nú njóta lífeyrissjóða. Þess vegna vonast ég til, að þetta fólk geti átt samleið með þeim, sem nú njóta lífeyrissjóðanna, og litið rólegum augum til öryggis í ellinni, þegar það hefur lagt niður störf eftir langan starfsdag.

Svo legg ég til, herra forseti að, að þessari umr. lokinni verði till. vísað til síðari umr. og fjvn.