22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (2065)

16. mál, lífeyrissjóður fyrir bátasjómenn

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem hv. frsm. þessarar till. sagði í ræðu sinni hér áðan, að það væri mikil nauðsyn, að þjóðfélagið reyndi eftir föngum að stuðla að því, að fólk gæti búið við öryggi í ellinni eftir langan starfsdag. Um það verður vafalaust enginn ágreiningur, og einmitt hin æ meiri eftirsókn í það af ýmsum starfsstéttum þjóðfélagsins að koma upp svokölluðum lífeyrissjóðum byggist á þessu sjónarmiði, að menn vilja reyna að tryggja sig, eftir að starfsorku þeirra þrýtur, að þeir þurfi þá ekki að búa við naumt.

Og það má í rauninni segja, að það séu nokkrir gallar á okkar tryggingakerfi, að ekki skuli þar gert ráð fyrir hærri eftirlaunum, en nú er gert, og teldi ég, að ef ekkí er fé fyrir hendi til þess að sjá þar fyrir öllum þörfum, sem talið er í tryggingalöggjöfinni að þurfi að sinna, þá beri að láta þessar þarfir sitja fyrir öllum öðrum og fremur að draga þá úr ýmsum hlunnindum til þess fólks, sem yngra er að árum og á að hafa betri skilyrði til þess að bjarga sér heldur en þeir, sem starfsorkuna hafa misst.

Um efni málsins getur þess vegna ekki verið neinn ágreiningur. Þetta mál hefur verið smásótt, og sífellt fleiri stéttir bætast í hópinn, og það er auðvitað alveg rétt, að það er engin ástæða til þess, að þær stéttir, sem nefndar eru í þessari þáltill., séu þar settar hjá frekar en aðrir. En á stofnun lifeyrissjóðs fyrir sumar þessar stéttir munu vera allveruleg vandkvæði, ef þá sjóði á að byggja upp á svipaðan hátt og lífeyrissjóðir yfirleitt eru upp byggðir. Það breytir auðvitað ekki því, að á þessu verður að finna eitthvert form.

Það liggur svo auðvitað í augum uppi, að ef það er ætlunin að taka upp almennt lífeyrissjóðskerfi, þá hlýtur það að leiða til endurskoðunar á tryggingakerfinu í heild og þeim ákvæðum, sem þar eru sett um ellilaun og ellilífeyri, og kemur það þá væntanlega til athugunar, þegar þessi rannsókn fer fram.

Það var því ekki vegna þess, að um neinn ágreining væri að ræða um efni þessa máls, nema síður sé, sem ég kvaddi mér hér hljóðs, heldur þótti mér þessa till. í rauninni bera nokkuð einkennilega að. Eins og hv. frsm. gat um, var flutt hér og samþ. á Alþingi 1956 till., sem ekki er svipuð að efni og þessi till., eins og segir í grg. þessarar till., heldur efnislega nákvæmlega eins frá orði til orðs að öðru leyti en því, að hér er talað um, að nefnd skuli vinna verkið, en þar er ríkisstj. falið að vinna verkið. Mér skilst því, að þessi till. bendi ótvírætt í þá átt, að ríkisstj. hafi ekki unnið þetta verk og að flm. málsins telji nauðsyn bera til þess að taka það úr höndum stjórnarinnar, því að þar sé því ekki alls kostar vel borgið, og Alþingi taki málið í sínar eigin hendur.

Hv. frsm. sagði hér áðan, að það hefði alltaf verið ætlun þeirra, þegar þeir fluttu till., að það yrði skipuð nefnd í málið, en engin nefnd hefði verið skipuð. Og mér skilst, að það eina, sem hefur verið gert, sé það, að þáltill. hafi verið send ýmsum aðilum og svo ekki söguna meir.

Ég skal fyrir mitt leyti, og ég veit, að það stendur ekki á Sjálfstfl. að styðja að því, að þessu máli verði komið í betra horf og það tekið úr höndum ríkisstj., sem sýnilega hefur ekki haft neinn áhuga á að vinna að málinu, og Alþingi sjálft reyni þá að finna á því viðunandi lausn.

Ég tel þó, að úr því að stjórnin hefur ekki staðið betur í sínu starfi, en gera má ráð fyrir, eftir þessum röksemdum, þá sé gersamlega ástæðulaust að láta hana skipa einn mann í nefndina, heldur sé betra, að Alþingi kjósi hana alla sjálft, og skil eiginlega ekki þá hugsun, sem í því felst að ætlast til þess, að ríkisstj. skipi einn nefndarmanninn, nema það sé, ef til vill, það sama sjónarmið, sem þarna er á bak víð, eins og hefur dálítið gætt að undanförnu í stjórnarliðinu, að í fimm manna nefndum séu fjórir kjörnir af Alþingi og einn skipaður af ríkisstj., vegna þess að þá er hægt að tryggja, að stjórnarandstaðan fái ekki nema einn mann í nefndina, en mundi annars fá tvo.

Ég vil nú ekki ætla það samt, að þetta liggi á bak við hjá þessum ágætu mönnum, sem flytja þessa till., heldur muni þeim hafa þótt, að það væri kannske viðkunnanlegra, að stjórnin fengi þó einhverja aðild að eiga að þessu, þó að frammistaða hennar hefði ekki verið sérlega góð.

Ég vildi nú aðeins koma að þessum athugasemdum hér og lýsa því jafnframt yfir, að efnislega séð, eins og kom fram líka, þegar þessi till, var samþ. 1956, var víst enginn ágreiningur hér á Alþingi um, að sjálfsagt sé að reyna að vinna að framgangi þessa máls. Og ég hygg einnig, að óhætt sé að segja, að það muni enginn ágreiningur verða um það, eftir að ríkisstj. hefur brugðizt sinni skyldu í málinu, að Alþingi taki það þá í sínar hendur.