27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í það að deila við hv. síðasta ræðumann, hv. 6. landsk. þm. (GJóh), um efni þessa frv. Það hefur svo margt verið sagt, sem gersamlega hrekur hans umsögn um málið, sem hér kom fram, að ég hirði ekki um að endurtaka það.

Ég vil aðeins benda á, þar sem hann segir, að af verkalýðsfélögunum sé tekinn hinn helgasti réttur, þ. e. samningsrétturinn um þeirra kaup og kjör, með frv., þá er það alrangt, því að verkalýðsfélögin hafa þar fullan rétt til þess að gera sínar ráðstafanir, eftir því sem þeim kann að þóknast. Þetta er einungis tilraun, sem gerð er, til þess að vita um það, hvort þau geta hugsað sér að fara þessa leið, sem ég er sannfærður um að muni reynast þeim miklu léttbærari en nokkur önnur leið, sem til er, út úr þessum ógöngum.

Þetta vil ég láta nægja til að svara hv. þm. En mig langaði aðeins með örfáum orðum til að lýsa áliti mínu á þeim brtt., sem fram eru komnar, þó að ekki hafi verið mælt fyrir sumum þeirra.

Ég vil segja um brtt. á þskj. 195, sem er frá fjhn. allri og gengur út á það að taka upp atvinnuleysistryggingabætur í frv. sem undanþegnar þessari lækkun, að ríkisstj. getur á það fallizt.

Um brtt. á þskj. 194 vil ég segja það, að hún er tengd till. á þskj. 193 og á þskj. 189 frá öðrum minni hl. fjhn., hv. þm. V-Húnv., en allar þessar till, miða að því að breyta þeim ákvæðum, sem í frv. eru um það, sem gert er ráð fyrir að bændastéttin í landinu leggi fram til þessara aðgerða. Þegar framleiðsluráð landbúnaðarins eða a. m. k. nokkrir menn úr því komu til ríkisstj. til þess að ræða við hana um málið, þá skildist mér á þeim, að þeir hefðu þá kröfu að gera, að áður en til lækkunar kæmi á því kaupi bóndans og annarra starfsmanna hans, sem reiknað er inn í verðlagsgrundvöllinn, þá væri gerð breyting á honum til hækkunar samkv. þeirri hækkun, sem orðið hefði á kaupi Dagsbrúnar nú í haust, eftir að samið hafði verið um verðlagið í haust við landbúnaðinn. Í öðru lagi settu þeir það fram sem varakröfu, að verð á landbúnaðarvörum yrði „regúlerað“ á þriggja mánaða fresti eins og kaup verkamannsins, og skildist mér þá, að það gæti að einhverju leyti komið í staðinn fyrir þá hækkun, sem mundi leiða af því að leiðrétta samkv. Dagsbrúnarhækkuninni í haust fyrst. Þess vegna var tekin inn í frv., sem þá hafði verið samið, 8. gr., sem nú er og fjallar um það, að verðlag á landbúnaðarafurðum skuli breytast á þriggja mánaða fresti, í stað þess að því var áður breytt á 12 mánaða fresti. Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir, að þessi breyt. skuli þó ekki fara fram, nema 5 stiga vísitölubreyting hafi orðið.

Nú hefur verið bent á það, að þessi 4–5 stig, sem um var talað við fulltrúa landbúnaðarins á viðræðufundi við ríkisstj. snemma í þessum mánuði, hafi verið miðuð við vísitölu 185, en nú verði hún færð niður í 100 með þessu frv., og væri því eðlilegt, að þessi 5 stiga takmörkun, sem áður var hugsuð, lækkaði. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því, að það verði gert, þó að það kannske kunni að valda eitthvað örari breyt. en upphaflega var ætlað. En það verður að viðurkenna, að þessi 2 stiga viðmiðun nú, miðað við vísitölugrundvöll 100, svarar nánast til þess, að reiknað væri með 4–5 stigum, miðað við vísitölu 185, eins og áður hafði verið áætlað. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi ekki á móti því, að þessi 5 stiga viðmiðun áður verði lækkuð niður í 2 vísitölustig.

Sömuleiðis vildi ég segja, að brtt. á þskj. 194, þar sem gert er ráð fyrir því, að breyt. verði á afurðaverði landbúnaðarins, ef breyt. verður á grunnkaupi í almennri verkamannavinnu í Reykjavík, sé ekki óeðlileg, vegna þess að þá fylgist kaup bóndans með kaupi verkamannsins, eins og það er á hverjum tíma.

Hins vegar tel ég, að ef farið verður út í það að breyta fyrst verðlaginu í samræmi við þessi 3.3%, sem landbúnaðurinn telur að á skorti, að hann hafi í haust náð sömu hækkun og Dagsbrúnarmaðurinn, þá sé stefnt í hreina upplausn í þessu efni, því að þá breytist svo sá grundvöllur, sem reiknað hefur verið með, að ekki næst sá árangur, sem viðhlítandi getur talizt. Ég teldi það þess vegna mikla ógæfu, ef út í það yrði farið að breyta þessu, þar sem líka fjöldi manna er á samningum, sem ekki hafa fengið sömu hækkun á sín laun og Dagsbrúnarmenn fengu í haust. Það eru margir samningar í gildi milli launþega og atvinnurekenda, sem veita minni hækkun á grunnkaup, en þau rúm 9%, sem Dagsbrúnarmenn fengu í samningunum s. l. okt., og náttúrlega mundi þeim finnast sér óréttur ger, ef einn aðili, sem samið hefur til næsta hausts um sitt kaup, yrði skyndilega tekinn út úr þeim hóp og veitt þessi viðbót. — Ég vil aðeins taka þetta fram, til þess að það komi fram strax og liggi ljóst fyrir í umræðunum, að ég teldi það hið mesta tjón og mundi skapa erfiðleika í sambandi við endanlega afgreiðslu málsins og fjárútvegun til þess, ef þessi brtt. á þskj. 189 frá hv. þm. V-Húnv. yrði samþ.

Um brtt. á þskj. 200 frá hv. 6. landsk. þm., sem var hér að enda við að tala áðan, vil ég aðeins segja það, að það hefur verið gengið út frá því frá upphafi, að þessar byrðar, sem talið er að menn leggi á sig með frv., gengju jafnt yfir alla. Bátasjómenn hafa vissulega fengið með þeim samningum, sem þeir nú gerðu við útgerðarmenn, hlut sinn svo bættan, að þeim ætti að vera mögulegt að bera þessa skerðingu eins og aðrir. En þó að þetta sé kölluð skerðing og sé það vissulega í útborgaðri krónutölu, þá er ég sannfærður um það, eins og ég var áður og hef alltaf verið, að það er ekki mögulegt fyrir launþegana að komast hjá því, að kaupmáttur þeirra launa verði skertur, ef þessar aðgerðir verða ekki gerðar, þannig að það er ekki spurningin um það, hvort launþegar eigi að leggja þetta á sig eða sleppa ella, heldur er það spurningin um það, hvort menn eigi heldur að fara þessa leið eða aðra, sem gefur þeim sízt meira í aðra hönd, ef reiknað er með kaupmáttarbreytingu launanna og svo hinu, að verðbólgan samtímis aukist upp úr öllum skorðum til almenns skaða fyrir þjóðfélagið í heild.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, áður en umr. heldur áfram.