27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Frsm. 2. minni hl. ( Skúli Guðmundsson ):

Herra forseti. Eins og áður hefur verið skýrt frá, varð ekki samkomulag í fjhn. d. um afgreiðslu þessa máls og liggja fyrir 3 nefndarálit. Ég hef leyft mér að leggja hér fram nefndarálit um frv. á þskj. 197.

Það er aðalefni þessa frv. að færa niður laun og verðlag, sem svarar 10 vísitölustigum, og er þetta einn þáttur í þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur á prjónunum.

Um miðjan nóv. s. l., í tíð fyrrv. ríkisstj., lögðu framsóknarmenn í ríkisstj. fram þar tillögur sínar um efnahagsmálin. Till. þessar voru við það miðaðar fyrst og fremst, að haldið yrði uppi í landinu sem mestri framleiðslu og atvinnu og aðgerðir í efnahagsmálum yrðu við það miðaðar, að ríkisbúskapurinn yrði hallalaus. Þar var einnig lagt til, að leitað yrði samkomulags, eins og áður í tíð þeirrar stjórnar, við stéttasamtökin í landinu um efnahagsráðstafanirnar og þ. á m. ráðstafanir til að koma í veg fyrir vöxt dýrtíðarinnar. Einn þátturinn í þessum tillögum var það, að leitað yrði samkomulags við stéttasamtökin um eftirgjöf á vísitöluuppbót, sem samsvaraði nokkrum vísitölustigum, en þó skyldi þetta gerast þannig, að kaupmáttur tímakaups rýrnaði ekki frá því, sem hann var í okt. nú í haust, eða í febr. s. l., ef betur þætti henta til samkomulags að miða við það, sem þá var. Um þessar till. fékkst ekki samkomulag í ríkisstj., en efnahagsmálin voru m. a. til meðferðar á þingi Alþýðusambands Íslands, sem haldið var síðustu daga nóvembermánaðar. Farið var fram á það af hálfu forsrh. við Alþýðusambandsþingið, að það samþykkti fyrir sitt leyti, að sett yrðu lög um það að fresta greiðslu á hækkun vísitöluuppbótar, sem átti að ganga í gildi 1. des., um einn mánuð og sá tími yrði notaður til þess að ná samkomulagi um efnahagsmálin. Þessu var hafnað á þingi Alþýðusambandsins, eins og kunnugt er. Er þetta kunn saga, er gerðist í þessum málum um þær mundir og þarf ég ekki að rekja hana hér. En eins og þar kom fram í till. framsóknarmanna og ég hef vikið að, telja þeir, að með slíkri niðurfærslu á vísitöluuppbótum sé stefnt í rétta átt. Að vísu teljum við, að það sé aðeins eitt af þeim úrræðum, sem til greina komi og þurfi að beita í þessum efnum. Það eitt er vitanlega ekki nægjanlegt, en getur ásamt öðrum ráðstöfunum átt sinn þátt í því að koma þessum málum í betra horf. Hér er lagt til, að þessi leið verði farin og verði svo fyrir mælt með lögum. Og ég vil vekja athygli á því, að það er verulegur munur á því að færa niður á þennan hátt með samkomulagi við stéttasamtökin eða með löggjöf án samninga. Samkomulagsleiðin, ef unnt er að fara hana, er áreiðanlega miklu líklegri til góðs árangurs.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram af hæstv. ríkisstj., þeirri er nú situr, en eins og kunnugt er, nýtur hún stuðnings Alþfl. og Sjálfstfl. Á Alþýðusambandsþinginu í vetur voru margir fulltrúar, sem eru stuðningsmenn þessara flokka. Þeir beittu sér þó á móti því ásamt fleirum, að veittur yrði nokkur frestur til samkomulagstilrauna um efnahagsmálin við þáv. ríkisstj. Mér þykir mjög líklegt og reyndar má telja það víst, að ef þeir hefðu þá í þess stað beitt sér fyrir því, að teknir yrðu upp samningar við ríkisstj. um efnahagsmálin, þá hefðu þeir getað komið því fram á Alþýðusambandsþingi, að sú stefna hefði verið upp tekin. En því var ekki að heilsa, að þannig væri þar á málum haldið. En fáum vikum síðar gerðist það, að ýmsir þeirra manna, sem voru á þingi Alþýðusambandsins og áttu sinn þátt í þeirri afgreiðslu málanna, sem þar varð hvað þetta snertir, gerast stuðningsmenn að því frv., sem hér liggur fyrir, þar sem lagt er til, að lögfest verði þessi eftirgjöf á vísitöluuppbótum. Mér finnst þetta lítt skiljanlegt framferði hjá þessum mönnum og ég tel, að þetta hafi verið fremur ógiftusamleg vinnubrögð. Þess er óskandi vitanlega, að þetta komi ekki að sök, en ég tel, að það hefði verið miklu vænlegra til góðs árangurs, að reynt hefði verið að fara samkomulagsleiðina í málinu og ef það hefði tekizt, þá hefði það verið stórum betra en þessi leið, sem nú hefur verið valin.

Auk þess, sem ákveðið hefur verið í frv., að laun skuli lækkuð sem svarar 10 vísitölustigum, þá eru þar ákvæði um lækkun vöruverðs og ýmissa gjalda fyrir margs konar þjónustu. Vöruverðslækkunin á að ná til bæði þeirra vara, sem framleiddar eru innanlands og einnig á hún að koma fram á vörum, sem fluttar eru frá öðrum löndum. Ég tel, að þetta sé eðlilegt ákvæði í frv. til samræmis við niðurfærslu á kaupgjaldi. En hvernig tekst með framkvæmd á þessu ákvæði? Um það skal ég ekki fara með mikla spádóma, en trúað gæti ég því, að eftirlit með því, að þessu verði framfylgt, gæti reynzt nokkuð erfitt og að hætta sé á því, að ýmsir fái skotið sér undan því að fylgja fyrirmælum laganna í því efni. Þá má auk þess vekja athygli á því, að það kostar verulega fyrirhöfn og umstang að framkvæma þessi verðlækkunarákvæði.

Í 10. gr. frv., síðustu mgr., er t. d. svo fyrir mælt, að verðlagsyfirvöld skuli þegar eftir gildistöku laganna gera ráðstafanir til lækkunar á vöruverði í heildsölu og smásölu til samræmis við þá lækkun dreifingarkostnaðar, sem leiðir af ákvæðum laganna, svo og svarandi til þess, að hagnaður verzlana lækki í hlutfalli við niðurfærslu kaupgreiðsluvísitölunnar. Ég fæ ekki betur séð, en að allar verzlanir t. d., sem þessi ákvæði ná til, hljóti að þurfa að láta fara fram nýja vörutalningu, þegar þetta á að koma til framkvæmda. Það er ekki hægt að framkvæma þetta með öðru móti en hafa bókhald í fullkomnu lagi. Við þetta skarðast vitanlega töluvert sá hagnaður, sem fyrirtækin annars hafa af þeim fyrirskipuðu launalækkunum. Ég er ekki að minna á þetta eða benda á þetta vegna þess, að ég sé á móti þessu ákvæði eða telji það óeðlilegt, aðeins vil nefna það sem dæmi um það, að framkvæmdaörðugleikar ýmsir munu hér verða.

Eitt atriði vil ég nefna enn í sambandi við þessa allsherjar verðlækkun, sem á að verða: Það er kunnugt, að það eru dæmi til þess, að ýmis fyrirtæki hafa selt vörur, sem eru háðar verðlagsákvæðum, við lægra verði, en þau þurfa að gera, þ. e. a. s., það hefur ekki verið notuð að fullu álagningarheimild, sem er í reglum, sem um það gilda. Nú þætti mér fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvort fyrirtæki, þar sem svo stendur á, þurfa að lækka sitt vöruverð, jafnvel þó að þau hafi ekki áður notað álagningarheimildir að fullu. Frsm. meiri hl. nefndarinnar, hv. 10. landsk., mun vera einn af þeim mönnum, sem veita forstöðu innflutningsskrifstofunni, sem hefur með þessi mál að gera og geri ég því ráð fyrir, að hann geti sagt eitthvað um þetta og gefið upp, hvernig hann lítur á þetta mál. Það má segja kannske, að þetta skipti ekki miklu máli, því þó að skylt væri skv. þessum ákvæðum að færa niður verð á þeim vörum, þegar svona stendur á, þá er líklegt, að viðkomandi fyrirtæki hafi heimild til að hækka þær í verði aftur á móti sem niðurfærslunni svarar, ef álagningarheimildin hefði ekki áður verið notuð að fullu.

Í grg., sem frv. fylgir frá hæstv. ríkisstj., segir, að til úrbóta í þessum efnum sé um tvær meginleiðir að velja. Hin fyrri sé sú að hækka bætur til útflutningsframleiðslunnar sem því svaraði, er tilkostnaður hennar hefði aukizt, síðan slíkar bætur voru ákveðnar síðast og leggja ný gjöld á landsmenn til að afla tekna á móti. Hin leiðin sé sú að lækka tilkostnað útflutningsframleiðslunnar með almennri lækkun kaupgjalds og verðlags, þannig að ekki þurfi að hækka þær bætur, sem hún fær nú greiddar. Og síðan segir í grg., að ríkisstj. hafi ákveðið að leggja til við Alþingi, að síðari kosturinn sé valinn og þess vegna sé lagt til í frv., að tilkostnaður framleiðslunnar verði lækkaður, svo sem nauðsynlegt sé, til þess að bætur á gjaldeyrisverðmæti útflutningsins geti haldizt óbreyttar. Ég held, að þarna sé ekki alveg rétt frá skýrt. Mér virðist, að báðar þessar leiðir verði farnar, samkv. því, sem fyrir liggur um fyrirætlanir hæstv. stjórnar. Það er kunnugt, að ríkisstj. hefur þegar með samningum við útvegsmenn og fleiri vöruútflytjendur gengið inn á að hækka verulega bætur til þeirra í ýmsu formi, og nemur það samtals verulegum fjárhæðum, þannig að þær niðurfærslur, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., nægja ekki að dómi sjálfrar hæstv. ríkisstj. til að bæta útflutningsatvinnuvegunum þær hækkanir á rekstrarkostnaði, sem fram eru komnar.

Áður hefur verið frá því skýrt af hv. frsm. meiri hl., að fjhn. barst bréf frá framleiðsluráði landbúnaðarins ásamt till. um breyt. á frv. Bréf þetta er dags. 24. þ. m. Ég lít svo á, að framleiðsluráðið hafi þar borið fram sanngjarnar tillögur um breyt. á frv. En hv. meðnm. mínir í fjhn. vildu ekki fallast á að taka þær til flutnings. Einn af þeim, hv. 5. þm. Reykv., hefur þó síðar lagt fram till. frá sér, þar sem að nokkru leyti er gengið til móts við þessar óskir framleiðsluráðsins.

En þar sem ekki fékkst samkomulag um afgreiðslu á þessu máli í nefndinni, meðan hún var að störfum, þá tók ég þann kostinn að flytja sem 2. minni hl. fjhn. þær till., sem framleiðsluráðið hafði borið fram og eru tillögur frá mér um þetta á tveimur þingskjölum. Vil ég fyrst nefna till. mínar á þskj. 189. Þar er í fyrri brtt. lagt til, að gerð verði lagfæring á launum bænda í verðlagsgrundvellinum, sem nú gildir. Þegar sá grundvöllur var fundinn á næstliðnu sumri, var þar gert ráð fyrir grunnlaunahækkun til bænda 6%, og var það í samræmi við það, sem þá hafði orðið hjá ýmsum öðrum stéttum. Skömmu síðar gerðist það, að kaup verkamanna í Reykjavík, sem aðallega er við miðað, þegar laun bænda eru ákveðin í verðlagsgrundvellinum, hækkaði um 9.5% og er hér því um nokkurn mismun að ræða, sem bændur hafa enn ekki fengið.

Í athugasemdum, sem fylgja frv. ríkisstj. um breyt. á l. um útflutningssjóð og eru á þskj. 187, er nokkuð greint frá þeim samningum, sem ríkisstj. hefur gert við útvegsmenn. Segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samningum þeim, sem gerðir voru milli bátasjómanna og útvegsmanna, er ráð fyrir því gert, að skiptaverð hækki og lækki með breytingum á kaupgreiðsluvísitölu. Í framhaldi af þessu var í samningi ríkisstj. við útvegsmenn gert ráð fyrir því, að þeir gætu fengið bætta þá hækkun rekstrarkostnaðar, er af slíkum kaupbreytingum og breytingum á grunnkaupi leiddi. Óhjákvæmilegt var og að vinnslustöðvar gætu fengið samkomulagsgrundvöllinn endurskoðaðan vegna slíkra hækkana á kaupi.“

Til samræmis við þetta legg ég til, að bændur fái nú þá leiðréttingu, sem þeir eiga eftir að fá vegna grunnkaupshækkana, sem orðið hafa hjá öðrum og einnig að þeir fái framvegis grunnkaupshækkanir í samræmi við það, sem aðrir kunna að fá, oftar á ári, en áður hefur verið.

Hvað viðvíkur þessum halla, sem þarna er um að ræða frá því á s. l. hausti, má segja það, að bændur hafa ekki nú lagalegan rétt til að fá þetta fyrr, en á næsta sumri, þegar nýr verðlagsgrundvöllur verður ákveðinn. En þar sem nú hefur verið ákveðið af hæstv. ríkisstj. að taka upp þann hátt að hækka bætur til útvegsmanna, ef hækkanir á grunnkaupi eiga sér stað, þá sýnist mér það fullkomlega réttmætt, að þessi skekkja frá í haust verði leiðrétt nú í sambandi við þær ráðstafanir, sem á að gera samkv. þessu frv. Ég vil benda á það, að bændur eru nú þegar búnir að búa við lægra verðið í rúma 4 mánuði og til þess er ætlazt í þeim till., sem ég ber fram, að leiðréttingin komi til framkvæmda frá 1. febr. n. k. Þessi brtt. er, eins og ég þegar hef sagt, einmitt borin fram í sambandi við fyrirheitið, sem ríkisstj. hefur gefið útvegsmönnum um hækkaðar bætur, ef grunnkaup breytist og þetta er nýmæli í samningum við þá. Enn má benda á það, að samkvæmt 4. gr. þessa frv. á nú hinn 1. marz n. k. að leggja saman grunnlaunaupphæðir og vísitöluuppbætur og telja það eftirleiðis samanlagt grunnkaup hjá launamönnum og reikna í framtíðinni vísitöluuppbætur á það. En þegar þessi breyting er gerð og um leið og hún er gerð, þá sýnist fyllilega réttmætt að leiðrétta þennan halla, sem ég hef hér getið um.

Hæstv. forsrh. hefur þegar gert þessa till. mína að umtalsefni og mér virtist hann leggjast gegn því, að hún yrði samþykkt. En engin rök heyrði ég hann færa fram til stuðnings því, að það væri réttmætt, að bændur byggju þarna við minni rétt, en aðrar stéttir.

Í grg. með frv. er nokkuð rætt um ákvæði þess um greiðslu vísitöluuppbótar til útvegsmanna og sjómanna. Þar segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í nýgerðum samningum milli útvegsmanna og sjómanna er nú í fyrsta skipti gert ráð fyrir því, að skiptaverð á fiski til sjómanna skuli breytast með breytingum á kaupgreiðsluvísitölu. Í samræmi við þessi samningsákvæði er í frv. gert ráð fyrir slíkum breytingum á skiptaverði til bátasjómanna og því fiskverði, sem aflaverðlaun togarasjómanna eru miðuð við. Í framhaldi af því hefur einnig þótt eðlilegt, að breytingar verði á afurðaverði til bænda samkvæmt kaupgreiðsluvísitölu jafnoft og samtímis og breytingar verða á kaupi launþega vegna breytinga á vísitölu.“

Ákvæði um vísitöluuppbótina til framleiðenda landbúnaðarvara hafa svo verið sett í 8. gr. frv. En þar er það einkennilega ákvæði, að hækkun til bænda skuli því aðeins heimil, að kaupgreiðsluvísitala sú, sem gildir frá byrjun viðkomandi tímabils, sé minnst 5 stigum hærri ,en sú vísitala, sem afurðaverð var síðast ákveðið eftir.

Ég hef ekki heyrt færð fram nein rök fyrir því, að það sé eðlilegt að takmarka þannig verðlagsuppbót til bænda einna. Öðru máli gegndi, ef þetta hefði verið algild regla. Ef þetta væri látið gilda um alla, þá var vitanlega ekkert við því að segja, þó að það næði til bænda. Ég hef því lagt fram till. um breyt. á þessu og er hún á þskj. 193. Till. mín þar er um það að afnema þessa takmörkun á vísitöluuppbót til bænda.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) hefur lagt fram brtt. um þetta atriði, en hún gengur of skammt til leiðréttingar á því. Hann leggur til, að í stað 5 stiga takmörkunar verði sett takmörkun við 2 stig. Ég sé enga ástæðu til þess að koma þessu þannig fyrir, því að eins og ég hef sagt, tel ég alveg sjálfsagt, að bændur njóti hér sömu kjara og aðrar stéttir.

Hv. 5. þm. Reykv. segir, að framleiðsluráð muni í viðtali við ríkisstj. hafa fallizt á þessa 5 stiga takmörkun. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur, því að ég er viss um það, að framleiðsluráðið hefði ekki sent fjhn. till. um breyt. á þessu, ef það hefði áður verið búið að gera einhvern samning við ríkisstj. um, að þessi takmörkun skyldi vera. Að vísu er það svo í bréfi og till. framleiðsluráðsins, að þar kemur fram, að ef þessi regla yrði látin gilda yfirleitt, að kaupgjald og afurðaverð breyttist ekki vegna vísitölubreytinga, nema vísitalan hækkaði eða lækkaði um ákveðin stig, ákveðinn stigafjölda, þá gæti framleiðsluráð fallizt á það fyrir sitt leyti. En verði þessi regla ekki tekin upp almennt, þá fer það vitanlega fram á, að engar slíkar takmarkanir séu settar á breytingar afurðaverðs, og þetta þykir mér eðlilegt. Og ég læt mér ekki til hugar koma, að framleiðsluráð hefði farið fram á þessa breytingu, ef það hefði verið búið að ganga inn á eitthvað annað eða gera eitthvert samkomulag við hæstv. ríkisstj. um annað fyrirkomulag.

Ég vil nú fastlega vænta þess, að við athugun á þessum till, komist hv. þdm. að þeirri niðurstöðu, að það sé sanngjarnt að samþykkja þær. Hér er ekki farið fram á nein forréttindi fyrir bændur, heldur aðeins það, að sömu reglur gildi fyrir þá og aðra, og ég fæ ekki séð, hvernig menn geta beitt sér gegn slíku.

Eins og ég gat um áður, þá er þetta frv., sem hér liggur fyrir, aðeins einn þáttur í efnahagsráðstöfunum, og gildi þess, ef samþykkt verður, hlýtur að fara mjög eftir því, hvað gert verður að öðru leyti í þeim málum. Ef vanrækt verður að afla tekna á móti gjöldum, sem þegar er búið að ákveða, þá er það að mínu áliti mjög háskalegt. En það liggur þegar fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur aukið niðurgreiðslur á vöruverði, sem munu kosta marga milljónatugi og það liggur einnig fyrir, að vegna þeirra nýju samninga, sem ríkisstj. hefur gert við bátaútvegsmenn og aðra þá, sem fást við sjávarútveg, verða mikil útgjöld til viðbótar úr útflutningssjóði. Það nemur stórum upphæðum. Hins vegar er enn allt í óvissu um það, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að sjá fyrir tekjum á móti þessum gjöldum. Það er allt þoku hulið og fari það svo, að hæstv. ríkisstj. skjóti sér undan þeirri skyldu að sjá fyrir nægum tekjum í útflutningssjóð á móti þeim gjöldum, sem hann þarf að bera, eða afgreiði fjárlög með halla, þá stefnir það vitanlega að enn aukinni verðbólgu. Og fari svo, þá geta þær ráðstafanir, sem þetta frv. fjallar um, orðið næsta þýðingarlitlar.

Ég sé ekki ástæðu að svo stöddu til að hafa um þetta fleiri orð, en leyfi mér að vísa til nál., sem ég hef lagt fram á þskj. 197.