19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (2085)

38. mál, vegagerð úr steinsteypu

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það hafa áður verið fluttar till. hér í hv. Alþingi um að gera vegi hér á landi úr steinsteypu eða varanlegu efni, eins og það hefur verið kallað. Fyrst man ég eftir því, að ég flutti till. fyrir 5–6 árum um þetta efni, í öðru lagi nokkrir sjálfstæðismenn fyrir tveimur eða þremur árum og e.t.v. eru það fleiri till., sem áður hafa verið fluttar um þetta efni. Það má því segja, að þetta mál sé ekki nýtt af nálinni, og sumum virðist e.t.v., að það sé ekki þörf á því að vekja það aftur á hv. Alþ. En síðan þær till. voru fluttar, sem ég áðan nefndi, hefur ýmislegt breytzt, sem gefur tilefni til þess að flytja þetta mál á ný hér. Má þar m.a. nefna, að sementsverksmiðja ríkisins hefur nú tekið til starfa og framleiðir meira sement en þörf er á til venjulegrar notkunar í landinu. Þá má einnig benda á það, að margs konar ný atriði eru komin til greina í sambandi við vegagerð úr steinsteypu, sem ekki höfðu verið reynd fyrir nokkrum árum. Fyrir nokkrum árum þótti ekki tiltækilegt að gera steinsteypta vegi nema hafa þétt riðið járnnet í plötunni eða slitlaginu, sem steypt var á veginum, og þegar sú aðferð var viðhöfð, voru notuð 5 kg af steypujárni í hvern fermetra af slitlagi eða 35 tonn í hvern km. Ef hvert kg kostar 5 kr., sem er lágt reiknað, verður þetta 175 þús. kr. bara í járni á hvern km og sennilega meira, þar sem járnið er nú í hærra verði, auk þess verður að flytja járnið inn, og til þess þarf erlendan gjaldeyri. Nú hefur verið tekin upp sú aðferð, sérstaklega í Bandaríkjunum, að steypa vegi án þess að járnbinda þá. Ekki er það vegna þess, að þeir hafi ekki járn í landinu, heldur af því, að það er talið fljótlegra og auðvitað ódýrara líka þar, þótt ekki þurfi þeir útlendan gjaldeyri til þess. Reynslan hefur sýnt, að steypa á þennan hátt er nægilega sterk, og þá virðist vera ástæðulaust undir flestum kringumstæðum að vera að eyða í það járni.

Bandaríkjamenn hafa gert tilraunir með að plægja upp sand- og malarvegi og blanda svo steinsteypu í veginn, valta þá síðan, og hafa þeir oft látið slíka vegi þannig vera, en á þann hátt hefur burðarþol og styrkleiki veganna aukizt til muna og sand- og malarburðar, sem áður varð að vera árlega, þarf ekki lengur með. En auk þess að gera þetta þannig, að láta vegina vera í því ástandi, sem þeir verða eftir þessa plægingu og sementsblöndu, þá hefur þessi sementsblöndun í vegina verið nauðsynleg sem undirlag undir slitlagið í þá vegi, sem eru steyptir án þess að hafa járn með.

En þegar unnt er að gera steinsteypta vegi á þennan hátt án þess að nota járn í steypuna, þá er svo komið, að við Íslendingar getum farið að hugsa okkur að steypa vegina hér án þess að nota til þess erlendan gjaldeyri, og það er vitanlega veigamikið atriði fyrir okkur. Sementsverksmiðja ríkisins framleiðir árlega, að ætlað er, 110 eða jafnvel 120 þús. tonn. Árleg notkun hjá okkur hefur verið frá 70 til 80 þús. tonn, og er jafnvel áætlað, að á þessu ári verði notkunin 85 þús. tonn. En jafnvel þótt framleiðslan verði ekki nema 110 þús. tonn, þá eru 25 þús. tonn afgangs. Það mætti ætla, að það væri hægt að koma þessari afgangsframleiðslu á erlendan markað og fá gjaldeyri fyrir þessa framleiðslu, en það mun verða miklum erfiðleikum bundið, vegna þess að nágrannalöndin framleiða sjálf sement, og að flytja sement til fjarlægari landa mun verða kostnaðarsamt, það mun verða svo kostnaðarsamt, að það þykir ekki æskileg verzlun. Mér er kunnugt um það, að ráðamenn sementsverksmiðju ríkisins hafa leitað fyrir sér um sölu á sementi til útlanda, og eina vonin, sem þeir virðast nú hafa, er sú, að það gæti verið, að Bandaríkjamenn keyptu eitthvað af sementi til flugvallagerðar eða til viðhalds flugvalla á Grænlandi. Þó hafa ekki tekizt samningar um þessa sölu enn og frekar daufar vonir um, að það muni takast.

Ef ekki er unnt að selja umframframleiðsluna úr landi, þá er ekki nema annað tveggja, sem hægt er að gera, annaðhvort að stöðva verksmiðjuna í 2–3 mánuði árlega eða nota umframframleiðsluna til þjóðnýtra framkvæmda, sem ekki hefur áður verið unnið að, m.a. vegna þess, að áður höfum við ekki haft sement í landinu til þeirra framkvæmda. Ef sementsverksmiðjan er stöðvuð í 2–3 mánuði á ári, sparast lítill kostnaður hjá verksmiðjunni nema hráefnið, sem í framleiðsluna fer. Það er ekki unnt að segja starfsfólki upp, þó að sementsverksmiðjan sé stöðvuð í 2–3 mánuði, vegna þess að það borgar sig ekki. Við framleiðslu sements þarf talsverða æfingu og þjálfun, og að segja fólki upp, sem er orðið vant störfum, og ráða svo óvant fólk aftur, það gerir ekki verksmiðjustjórnin. Fastur kostnaður hjá verksmiðjunni er sá sami, vaxtagreiðslur af lánum o.s.frv. Það er þess vegna augljóst, að umframframleiðsluna er hægt að framleiða með tiltölulega lágu verði.

Ég hef gert fsp. um það, hve mikinn erlendan gjaldeyri þurfi til þess að framleiða tonn af sementi, og hafði ég þá í huga umframframleiðsluna, og mér hefur verið svarað, að það verður ca. 60 kr. á tonn í olíu og nauðsynlegum varahlutum, sem þyrfti að endurnýja, — 60 kr. á tonn í erlendum gjaldeyri kostar að framleiða sementið, þegar um umframframleiðslu er að ræða, því að það þarf ekki þá að taka tillit til vaxtagreiðslna af erlendum lánum, sem verður vitanlega að greiða hvort sem er, hvort sem verksmiðjan gengur eða er stöðvuð. Ef sementsverksmiðjan framleiðir 80 þús. tonn og er stöðvuð, þegar komið er að því marki, þá er líka rétt að gera sér grein fyrir því, hvað kostar að framleiða 30 þús. tonnin, sem má ætla að verði umfram, eða 25 þús. tonn, og mér hefur verið svarað því, að það muni vera innan við helming þess verðs, sem sementið er selt á, eða innan við 300 kr. tonnið, þegar allt kemur til alls. Er þá hráefni reiknað og aðrir kostnaðarliðir, sem rétt þykir að taka tillit til, þegar um umframframleiðsluna er að ræða. M.ö.o.: ef horfið væri að því ráði að nota umframframleiðsluna til vegagerðar, þyrfti sementsverksmiðjan ekki að reikna það til verðs meira en 250–300 kr. tonnið, en verða þó skaðlaus, miðað við það, að hún starfaði ekki 2–3 mánuði eða framleiddi ekki meira en 80–85 þús. tonn, og þess vegna væri eðlilegt, þegar spurt er að því, hvað kostar að steypa vegi á Íslandi, að reikna sementið á 300 kr. tonnið eða jafnvel ekki nema 250 kr.

En hvað kostar að steypa vegi á Íslandi með því að reikna sementið fullu verði? Það er vitanlega rétt að gera sér grein fyrir því, og það þykir ekki koma til mála að hafa aðalvegina mjórri en 7 m. Elliðaárvegurinn er ekki nema 6 m. Það er of mjór vegur sem aðalvegur, og þegar vegurinn er ekki breiðari, en það, eru hjólförin alltaf á sama stað og vegurinn slitnar miklu verr, en ef hann er hafður breiðari. Það þarf þess vegna að gera ráð fyrir, að vegurinn verði 7 m á breidd, og einn km af slíkum vegi með 20 cm þykku slitlagi kostar ca. 1 millj. kr. með því að reikna sementið á fullu verði. Sé sementið hins vegar ekki reiknað á nema 250 eða við skulum segja 300 kr. tonnið, fer km niður í 800–850 þús. kr. Til þess að leggja eða steypa 20 km veg, 7 m breiðan, með 20 cm þykku slitlagi, þarf 10 þús. tonn. Það má þess vegna segja, að það sé mikil vegagerð og það kosti talsverða fjárhæð, ef við ætlum að nota alla umframframleiðslu sementsverksmiðjunnar næstu árin til vegagerðar, og ég býst varla við, að við getum gert það. En ég tel nokkuð komið í þessa átt, ef við gætum núna næstu 4–5 árin tekið 20 km á ári af aðalvegunum hér út frá Reykjavík. Þá tæki t.d. 21/2 ár að steypa veginn til Keflavíkur, svo að eitthvað sé nefnt. Það tæki 21/2 ár að steypa veginn austur í Ölfus. Það tæki ekki eitt ár að steypa veginn yfir Ölfusið, og það tæki ekki nema eitt ár að steypa Holtaveginn. Þannig mætti lengi telja. En til þess að geta steypt 20 km á ári, þurfum við 20 millj. kr. samkv. þessari áætlun, og það munu sumir segja: Þetta er mikið fé, og við höfum ekki efni á því og sízt á þeim tímum, þegar a.m.k. sumir innan stjórnarherbúðanna eru að tala um að hætta að hafa nokkurt fé á fjárlögum ríkisins til vegagerðar í landinu. — Sá hugsunarháttur úr stjórnarherbúðunum verður vitanlega að hverfa, áður en vonir eru til þess, að byrjað verði að steypa vegi á Íslandi.

En skyldi það nú vera það dýrasta, sem við gætum gert í vegamálum, að hugsa okkur það og ekki bara hugsa okkur það, heldur byrja á því að steypa vegina, gera vegina úr varanlegu efni og spara okkur á þann hátt viðhald og slit á öllum ökutækjum? Með því að hafa vegi úr varanlegu efni er margt sem vinnst. Benzín og olía sparast. Ending ökutækjanna verður miklu betri. Það þarf minni varahluti, og það sparast á þann hátt stórar fjárfúlgur árlega í erlendum gjaldeyri. Það er þetta, sem okkur hlýtur að vera ljóst, ef við förum að hugsa um þessi mál.

Það var sagt fyrir nokkrum árum, að við hefðum ekki efni á því að vera að byggja vönduð og það sem kallað var dýr hús, byggja úr varanlegu efni. En var það ekki dýrast fyrir okkur, sem gert hefur verið lengst af á Íslandi, að byggja úr því efni, sem ekkert þoldi og alltaf varð að vera að endurnýja, var það ekki það, sem hjálpaði hvað bezt til að halda fátæktinni við á Íslandi? Og eru ekki allir sammála um það nú, að það sé sjálfsagt að byggja vel og vandað, en ekki að hrófa upp húsum, sem ekki geta staðið nema stuttan tíma? Það er alveg eins með vegagerðina, og það má segja, að við Íslendingar erum svo fáir og landið okkar er það stórt, að við höfum ekki getað komið því í framkvæmd að gera vegina öðruvísi en gert hefur verið. En það er kominn tími til þess nú að byrja á nýjan hátt hvað þetta snertir.

Ég verð að segja það, að fyrir 15–20 árum varð bylting í vegagerðinni á Íslandi, þegar nýju tækin voru tekin í notkun, og það fannst mörgum, að hér væri mikil bót á ráðin frá því, sem áður var, þegar stóru ýturnar tóku til starfa, og vinnubrögðin voru vitanlega allt önnur þá, en áður var. Og það má segja fyrrv. vegamálastjóra til hróss, að hann tileinkaði sér þá tækni, sem fyrir hendi var, og ég ætla að segja það hér, að ég treysti núv. vegamálastjóra, sem er tiltölulega ungur maður og hlýtur að horfa til framtíðarinnar, — ég treysti honum til þess að tileinka sér þá tækni, sem fyrir hendi er í dag, kynna sér og tileinka sér þá reynslu, sem aðrar þjóðir nota sér í vegagerð, og flytja hingað heim það nýjasta og bezta í þessu tilliti. Ég treysti vegamálastjóra til þess að hafa forgöngu um þetta og vil vænta þess, að stjórnarvöldin skilji, hvað hér er um að ræða, skilji það, að á Íslandi verður ávallt að leggja talsvert fjármagn til vegagerðar og til vegaviðhalds. Vegaviðhaldið á Íslandi er eðlilega mjög dýrt, þar sem allir okkar vegir eru sand- og malarvegir, umferðin um vegina marga hverja er mjög mikil og ökutækin orðin stór og þung. Það er ekki nein fjarstæða að hugsa sér, að það sé árlega borið í aðalvegina 5–6 cm þykkt sand- eða malarlag, og þá er ekki nema fjögur ár verið að bera í vegina sama magn og fer í slitplötuna steyptu, ef hún er 20 cm á þykkt. Það er vitanlega vegna þess, hve við erum fámennir og höfum lítil fjárráð, að við í dag og næstu árin verðum að halda sandburðinum áfram. En við verðum að vinna að því, að þessi sand- og malarburður þurfi ekki að eiga sér stað um langa framtíð eða alla framtíð, ef ekki er hafizt handa og byrjað að gera það, sem gera á í þessum efnum.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fjölyrða að svo stöddu meira um þessa till. En ég vænti þess, að hún verði samþykkt og hún megi verða til þess að koma hreyfingu á þetta mál og það megi verða til þess, að það verði byrjað á næsta vori að steypa vegi hér á landi. — Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.