14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (2089)

47. mál, bann gegn togveiðum í landhelgi

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. á þskj. 78, þar sem farið er fram á, að Alþingi skori á ríkisstj. að breyta reglugerð um fiskveiðilandhelgina frá 30. júní 1958 og 28. ágúst sama ár á þann veg, að bannaðar verði algerlega botnvörpu-, flotvörpu- og dragnótaveiðar innan núverandi fiskveiðilandhelgi Íslands.

Svo er mál með vexti, eins og allir hv. alþm. munu vita, að í reglugerðinni um fiskveiðilandhelgi Íslands, sem var gefin út 30. júní s.l., var ákveðið, að íslenzkum skipum, sem veiða með botnvörpu og flotvörpu eða í dragnót, skuli heimilt að veiða innan fiskveiðilandhelginnar, en þó utan þeirra fiskveiðitakmarka, sem ákveðin voru með reglugerðinni frá 1952, en jafnframt er sagt í þessari nefndri reglugerð frá 30. júní s.l., að seinna verði sett sérstök ákvæði um þessa heimild og þar verði nánara tilgreint bæði um veiðitíma og veiðisvæði. Ég læt það nú liggja á milli hluta, að mér finnst út af fyrir sig fremur óeðlilegt að gefa út reglugerð á þennan hátt og áður, en efni hennar í mjög veigamiklum atriðum er ákveðið. En þetta á sínar orsakir, sem ég tel ekki málinu til neinna bóta að fara að ræða að þessu sinni.

Þann 29. ágúst s.l. var svo gefin út ný reglugerð, og þar voru settar nánari reglur um réttindi íslenzkra veiðiskipa í nýju fiskveiðilandhelginni. Í þeirri reglugerð er svo fyrir mælt, að áfram gildi hið algera bann við botnvörpu-, flotvörpu- og dragnótaveiðum, sem ákveðið var í reglugerðinni um 4 mílna fiskveiðilandhelgina frá 1952, en á 8 mílna beltinu, sem við bætist, eru slíkar veiðar heimilaðar með tilgreindum takmörkunum. Fyrir Norður og Norðausturlandi eru botnvörpu-, flotvörpu og dragnótaveiðar leyfðar íslenzkum skipum innan yzta 4 mílna beltis fiskveiðilandhelginnar nýju. Fyrir Austurlandi eru slíkar veiðar leyfðar allt að 4 mílna fiskveiðitakmörkunum, en aðeins í fimm mánuði ársins, þ.e.a.s. frá 1. des. til 30. apríl. Fyrir Suðausturlandi eru þessar veiðar leyfðar innan nýju fiskveiðilandhelginnar á tímabilinu frá 15. maí til 31. des. Um fiskveiðilandhelgina undan Suðurlandi gilda mismunandi reglur. Þó eru togveiðar bannaðar á tímabilinu frá 1. jan. til 15. maí, en samt víðast aðeins á hluta hinnar nýju fiskveiðilandhelgi. Á svæðinu frá Reykjanesi að Bjargtöngum eru allar botnvörpu-, flotvörpu- og dragnótaveiðar bannaðar í fiskveiðilandhelginni frá 1. jan. til 15. maí og einnig á mestum hluta þessa svæðis frá 15. okt. til 31. des. Loks eru allar slíkar veiðar bannaðar fyrir Vestfjörðum í fiskveiðilandhelginni allt árið.

Eins og menn á þessu sjá, gilda um þetta margar og mismunandi reglur, og liggja til þess ýmsar orsakir og þá náttúrlega fyrst og fremst að reyna að vernda fiskimið bátanna og veita þeim sem mesta vernd, einmitt þegar þeirra þörf er brýnust, þ.e.a.s. á þeirra vertíð. Ég tel mig nú ekki dómbæran á að kveða á um, hvort þessi fyrirmæli, sem ég gat um, ná fullkomlega þeim tilgangi, en ég dreg hins vegar ekki í efa, að þetta var tilgangurinn, og ég dreg heldur ekki í efa að svo komnu máli, að í verulegustu efnum hafi þeim tilgangi verið náð.

Ég tek það fram í stuttri grg., sem fylgir þessari till., að tilgangur minn sé á enga lund sá að ráðast á þessa ákvörðun út frá þeim forsendum, sem fyrir lágu, þegar ákvörðunin var tekin. Ég viðurkenni fyllilega, að í þeim flokki, Sjálfstæðisflokknum, sem ég er í, voru nokkuð skiptar skoðanir um þetta. Sumir töldu, að það væri ekki nauðsynlegt að veita bátunum alla þá vernd, sem reglugerðin gerir, og töldu, að nauður ræki til að ganga sem minnst á réttindi botnvörpuskipa og dragnótanna. Um þetta voru skiptar skoðanir, og ég geri ráð fyrir, að svo hafi verið í öllum flokkum. Menn hafa miðað aðgerðir sínar og ákvarðanir ýmist við það, sem þeir töldu heildinni fyrir beztu, eða þá hitt, sem þeir töldu þeim sérstöku hagsmunum fyrir beztu, sem þeir voru umboðsmenn fyrir. Nú er það hins vegar staðreynd, að þessi ákvörðun um að gefa íslenzkum skipum sérréttindi í þessum efnum hefur verið notuð til þess að veikja málstað okkar út á við. Ég veit einnig, að innanlands eru þeir margir, sem óska eftir, að þessar veiðar með dragnót og botnvörpu séu bannaðar íslenzkum skipum. Ég flyt þessa till. hér þess vegna ekki sem ádeilu á þá ákvörðun, sem tekin var, alls ekki, — en flyt hana hins vegar til þess að verða við íslenzkum óskum, sem fram hafa komið í þessum efnum, en einkum — það undirstrika ég — til þess að sýna umheiminum, að Íslendingar eru reiðubúnir til þess að sínu leyti að færa fórnir til að vernda sín eigin fiskimið og telja í þeim efnum, að engin fórn sé of stór og slíkar fórnir sem hér um ræðir, þá heldur ekki.

Ég álít, að þó að þessi till. væri samþykkt, þurfi hún ekki að binda hendur okkar um aldur og ævi. Það er auðvitað íslenzkt sérmál, hvernig við hagnýtum þennan rétt, sem við eigum. Við þurfum ekki um aldur og eilífð að vera háðir neinum sjónarmiðum erlendra manna um, hvernig við hagnýtum okkar auðlindir, og auðvitað kann ég ótal rök eins og áreiðanlega allir hv. þm. fyrir því, að það er náttúrlega alls ekki sambærilegt, hvort fá íslenzk skip fá takmörkuð réttindi á takmörkuðum svæðum um takmarkaðan tíma ársins eða hins vegar, hvort öllu útheimsins stóði er beitt á okkar tún eða engi. Þetta er alveg ósambærilegt. Og ég er ekki með þessari minni till. að beygja mig undir það, að við eigum ekki neinn annan eða meiri rétt til að hagnýta þetta heldur, en erlend skip. Ég hygg bara, að það sé hyggilegt, eins og sakir standa, að fara að því ráði, sem till. leggur til, og er þó auðvitað reiðubúinn til þess að hlusta á og ræða önnur sjónarmið, sem fram kunna að koma í þeim efnum.

Ég álít, herra forseti, að það sé alveg ástæðulaust, þegar við erum að ræða þetta mál, að blanda öðrum sjónarmiðum eða hugsanlegum ágreiningi um landhelgismálið inn í þessar umræður. Það skaðar málið, en bætir það ekki. Ég læt þess vegna þessa stuttu framsögu nægja, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.