27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 196 skilað nál. um mína afstöðu í þessu máli og niðurstaðan í því nál. er, að ég legg til, að þetta frv. sé fellt. Ég skal nú gera nokkra grein fyrir, af hvaða ástæðum. Að vísu hafði ég rætt nokkuð um þetta frv. við 1. umr., en mun reyna að endurtaka sem minnst af því, en fara nánar út í hinar ýmsu greinar þessa máls.

Það er þá í fyrsta lagi, að í 1. gr. þessa frv. er fyrirskipað með lögum, hver vísitalan skuli vera. Ég efast um, að allir hv. þm. hafi gert sér ljóst, að hve miklu leyti er með þessum lögum farið að skipta sér af þeim frjálsu samningum, sem verkamenn og atvinnurekendur eða launþegar almennt hafa gert.

Í fyrsta lagi er þetta gert með því, að það eru numin burt 10 vísitölustig, m. ö. o.: það er fyrirskipað, að atvinnurekendur skuli sleppa við að greiða af kaupi hvers manns 10 vísitölustig, sem þeir áður höfðu með samningum skuldbundið sig til að gera og ég vil minna á, að þeir samningar eru að öllu leyti jafnréttháir og t. d. þau veð, sem gefin eru. Eignarréttur verkamannsins á sínu vinnuafli er jafnrétthár og eignarréttur eins manns á sínu húsi eða annað slíkt. Og þegar slíkir samningar hafa verið gerðir og eru rofnir frá hálfu löggjafans, þá er eðlllega verið að baka sér með því a. m. k. allmikla móralska ábyrgð og jafnvel meira.

En þetta með 10 vísitölustigin er nú svo ljóst, að um það þarf ekki að ræða. Það hefur sjálf hæstv. ríkisstj. lagt áherzlu á frá upphafi að væri aðalinnihald þessa frv., og á því byggist raunverulega allt, sem hún segist gera í þessu frv. til þess að stöðva verðbólguna, eins og hún kallar það.

En í öðru lagi er með þessu frv., ef að lögum verður, öllu grunnkaupi breytt, og þeir, sem kunnugir eru undirbúningi þessa máls, vita, að einmitt sérstaklega allir þeir forustumenn Alþfl., sem trúnaðarstöðu hafa í verkalýðssamtökunum, lögðu höfuðáherzlu á, að það mætti ekki snerta við grunnkaupi í sambandi við þetta frv. Það, sem gert er hins vegar með frv., fyrirmælum í 4. og 5. gr., er að gerbreyta öllu grunnkaupi í landinu, fyrst að lækka þá útborguðu vísitölu, sem verkamenn eiga að fá ofan á kaup sitt, síðan að taka þá lækkuðu vísitölu og leggja hana við grunnkaupið og síðan með lögum að ákveða, að þetta skuli vera grunnkaup framvegis, m. ö. o,: gerbylta öllum samningum, sem verkamenn og launþegar almennt hafa gert við sína atvinnurekendur, eftir að vera búnir að rýra þá áður um þessi 10 stig.

Í þriðja lagi er öllum þessum samningum að því leyti gerbylt, að það er lagt allt annað vísitölustig til grundvallar við hækkun og lækkun heldur en, áður var. Eins og samningarnir eru nú, þá skal kaup hækka á þeim fresti, sem er ákveðinn í samningunum, þegar vísitala hefur hækkað um 1 stig. Eftir þessu frv., sem hér liggur fyrir, ef að lögum verður, þá verður þar ákveðið, að kaup skuli breytast, svo framarlega sem vísitalan hefur hækkað um 1 stig samkvæmt nýrri vísitölu, sem lögð er á nýjan grundvöll. Það stig verður það gildara, en það fyrra, að það verður raunverulega sama sem 1.85, allt að því tvöfalt á við það gamla, þannig að nú þarf meira til þess, að kaupgjald hækki, heldur en áður þurfti.

Og í fjórða lagi er svo fyrirskipað með þessum lögum, að þeim vísitölugrundvelli, sem samið hefur verið um síðustu 20 árin á Íslandi með tiltölulega litlum breytingum, breytingum, sem gerðar voru 1950, sem sé sjálfum grundvelli vísitölunnar skuli breytt, öllum hennar útreikningi. Það er út af fyrir sig ekki máske stórkostlegt atriði. En það er þó atriði, sem ekki er nein heimild til þess að fara að breyta á þann hátt, sem hér er gert, vegna þess að það eru frjálsir samningar um þennan vísitölugrundvöll milli atvinnurekenda og verkamanna, og það, sem hefði átt að gerast, áður en þeim vísitölugrundvelli var breytt, var, að báðir aðilar hefðu komið sér saman um slíkt og það er nú kannske eitt af því fáa af því, sem hér er lagt til að breyta með þessu frv., sem líkindi væru til að atvinnurekendur og verkamenn hefðu komið sér saman um með frjálsum samningum að breyta, þannig að hin siðferðilega sök í því sambandi hjá frv. og þeim, sem það flytja og styðja, er ekki svo sérstaklega mikil, en aðferðir óviðkunnanlegar.

En allt þýðir þetta, 10 stigin, grunnkaupsbreytingin, breytingin á vísitölustigunum, allt þýðir þetta, að það eru rofnir allir þeir samningar, allir þeir frjálsu samningar, sem gerðir hafa verið, með lagaboði. Og eins og gefur að skilja, þá þýðir þetta, þegar löggjafinn grípur svona inn í á þennan hátt, að verkalýðsfélögin munu tvímælalaust skoða sig sem óbundin af því, hvenær þau vilja segja núverandi samningum upp og að þeirra gömlu uppsagnarákvæði séu sett úr gildi.

Þetta er nú í fyrsta lagi viðvíkjandi vísitölunni, að þarna er á þennan hatramma hátt traðkað á samningsrétti og réttindum, sem verkalýðsfélögin höfðu tryggt sér með frjálsum samningum og breytt af hálfu löggjafans, ef þetta verður að lögum.

En í öðru lagi er auðsjáanlega ekki látið við þetta sitja. Það er líka farið út í annað og það er að gera ákveðnar breytingar viðvíkjandi því, hvaða áhrif grunnkaupshækkanir skuli hafa framvegis. Það var sagt hér, held ég, af hæstv. forsrh., að samningsfrelsi verkamanna væri ekki afnumið og það er rétt. Það er aðeins brotið, samningsréttur skertur, samningarnir rofnir af hálfu löggjafans, en samningsfrelsið er ekki afnumið. Það er hægt að semja um grunnkaupsbreytingar. En hvað er gert? Það er auðsjáanlega verið að innleiða hér ákvæði um að gera allar slíkar grunnkaupsbreytingar sem allra erfiðastar. Í bréfi eða samningi sem hæstv. ríkisstj. hefur gert við framleiðendur á hraðfrystum fiski í landinu og raunar við fleiri aðila, er gert samkomulag um það, að breytist grunnkaup eða kaupgreiðsluvísitala frá því, sem þar er ákveðið, þá endurskoðist samkomulagið í samræmi við þær breytingar. Og það er alveg greinilegt, eftir því sem hér er nú rætt, að það á að taka upp þann hátt í fyrsta lagi að gera það að reglu, eins og ríkisstj. lýsir yfir í þessu bréfi, að það skuli endurskoða fiskverð í samræmi við breytingar, sem verða á grunnkaupi. Og í öðru lagi hefur framleiðsluráð landbúnaðarins strax fylgt í kjölfarið, gerir kröfur til hins sama og tveir meðnm. mínir úr fjhn., hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og formaður nefndarinnar, hv. þm. V-Húnv. (SkG), flytja báðir till. um að tryggja, að það skuli færa verð á landbúnaðarvörum til samræmis við þær hækkanir, sem kunni að verða í framtíðinni á grunnkaupi í almennri verkamannavinnu í Reykjavík. M. ö. o.: það er verið að reyna að hlaða ofan á grunnkaupið slíkum böggum, slíkum byrðum, að verkamenn fái helzt ekki risið undir því að breyta slíku grunnkaupi, vegna þess að þeir viti, að með því breytist allt landbúnaðarvöruverð og jafnvel allt fiskverð í landinu.

Þessi fyrirmæli og þessi lög og þessar till. eru ósvífni. Þær eru ósvífni gagnvart verkamönnum og launþegum í landinu, að reyna að tengja þetta á þennan hátt, og þær eru þjóðfélagslega séð og þjóðhagslega séð heimska. Ég ræddi um það þó nokkuð hér við 1. umr. þessa máls, að svo framarlega sem framfarir eigi að verða með eðlilegum hætti í okkar atvinnu- og efnahagslífi, þá séu einmitt kaupgjaldsbreytingarnar, kauphækkanirnar aðalkrafturinn, sem knýr slíkar framfarir fram, vegna þess að slíkar kaupbreytingar, þegar verkamennirnir fá fram einhverja ofur litla hækkun á sínu kaupgjaldi, þýða það, að ef atvinnurekandinn fellst á slíka hækkun og semur um hana og getur ekki velt henni yfir á neina aðra, þá hugsar hann sig tvisvar sinnum um og áður en hann fellst á það, er hann áreiðanlega búinn að taka einhverja ákvörðun um, hvernig hann eigi að standa undir þessu, hvort hann ætli, ef hann hefur haft gróða af sínum atvinnurekstri, að gefa eitthvað eftir að honum, eða hvort hann sé búinn að finna út aðferðir til þess að hafa sinn atvinnurekstur þannig praktískari í framtíðinni, að hann geti staðið undir þessum kauphækkunum; annars fellst hann ekki á þær.

Það þarf því einmitt að skapa frá hálfu þjóðfélagsins það aðhald, að atvinnurekandinn sé ekki viss um, að hann megi bara skrifa út ávísun á þjóðarbúið fyrir öllum grunnkaupshækkunum, sem hann fellst á. Þvert á móti á hann að vera knúinn til að breyta í sífellu, bæta í sífellu, skapa í sífellu framfarir í sínum atvinnurekstri til þess að geta staðið undir betri lífskjörum þjóðarinnar. Og það, sem knýr hann til þess að verða við þessu og skapa þessar framfarir, er óskir og kröfur verkamanna og launþega um kauphækkanir, það er bókstaflega framfaraaflið í þjóðfélaginu. Að setja þessa ákvörðun til allra þeirra, sem stunda t. d. rekstur í hraðfrystihúsum núna og annarra slíkra, að það skuli um leið fara að endurskoða í samræmi við svona grunnkaupsbreytingar allt það verð, sem þeim er úthlutað, allt það samkomulag, sem við þá er gert, það nær bókstaflega ekki nokkurri átt. Sum hraðfrystihúsin á Íslandi eru bezt reknu og þau fyrirtæki, sem einna mestan gróðann gefa á Íslandi nú, fyrirtæki, sem eru rekin í stórum stíl, þar sem um mikinn rekstur er að ræða, allstöðugan yfir mikinn tíma ársins og hefur meira að segja safnazt á undanförnum árum bara þó nokkurt fjármagn hjá þessum stóru hraðfrystihúsum. Ef á að fara að gefa þessum fyrirtækjum vottorð um það, að hvenær sem þau hækka grunnkaup, þá skuli þau bara gera um leið kröfu á þjóðfélagið fyrir auknum uppbótum, eða m. ö. o. kröfur á Alþingi um aukna skatta og tolla, þá er það enginn máti að stjórna þjóðfélagi og þjóðarbúskap á. Þetta er rétt eins og ef einn prívatmaður tæki upp á því, ef hann ætti eitthvað inni í einhverjum sparisjóð eða banka, að afhenda ávísanabókina einhverjum og einhverjum öðrum og segja, að hann geti gefið út á hana eins og hann vilji.

Hins vegar er auðséð, hver afleiðingin kemur til með að verða af þessum tengslum, sem hér er verið að koma á milli grunnkaups og breytinga á því og hins vegar verðs á landbúnaðarvörum og fiski. Afleiðingarnar verða þær, eins og líka auðsjáanlega allar ráðstafanir eru gerðar til í þessu frv., að gera víxláhrifin miklu örari en áður.

Með þessu frv. er verið að ákveða, að landbúnaðarvöruverð skuli breytast fjórum sinnum á ári í staðinn fyrir áður einu sinni, m. ö. o. að gera víxláhrifin hraðari. Með þessu frv. er líka verið að ákveða, að fiskverðið skuli geta breytzt miklu oftar en áður. Og með þessu móti er bókstaflega verið að auka á verðbólguna, ef á annað borð er einhver hreyfing í þá átt í þjóðfélaginu, gera hana hraðari, gera víxláhrifin meiri og örari.

Það er svo sem alveg auðséð, hver afleiðingin af svona háttalagi verður. Það á að reyna að gera vísitölukerfið mjög óvinsælt og undirbúa afnám þess, enda kemur það greinilega fram og kom líka fram hjá okkur í umr. í n., að að því virðist stefnt, bókstaflega vitandi vits, af margra hálfu að afnema sjálft vísitölukerfið.

Vísitölukerfið hefur verið vörn fyrir launþegann í landinu gegn ráðstöfunum ríkisvaldsins eða gegn utanaðkomandi hagsveiflum. Það hefur verið staðfesting hans á því, að hann eigi að fá að halda því kaupi, sem hann hefur og það eigi ekki að rýra það með utanaðkomandi hagsveiflum eða ráðstöfunum þess opinbera, tollabyrðum og öðru slíku. Og t. d. Alþingi og hver ríkisstj., sem að völdum hefur setið, hefur haft það aðhald, að hún hefur vitað, að ef hún jók tollana, ekki sízt á þeim vörum, sem undir vísitöluna koma, þá mundi það þýða, að hún stæði fyrir vandræðum seinna meir, það yrði „búmerang“, sem hitti hana aftur. Það er þess vegna greinilegt, að það er með þessu frv. verið að undirbúa að reyna að afnema vísitölukerfið sem mælikvarða fyrir launþegana og tryggingu fyrir þá á því, að ekki sé hægt að leiða yfir þá bótalaust botnlausa dýrtíð. Og það, sem virðist bókstaflega vera verið að gera líka með þessu frv., það er að stefna að því að frysta allt grunnkaup í landinu með því að gera verkamönnum svo erfitt að hreyfa grunnkaupið, af því að þeir viti, að þá muni allt landbúnaðarvöruverð og allt fiskverð hreyfast einnig, að þeir helzt ekki leggi út í það. Er jafnillt að gera slíkt gagnvart verkamönnum og launþegum eins og það er óviturlegt fyrir þjóðfélagið að stjórna þannig.

Þess vegna eru þessar greinar í frv., sem snerta þannig vísitöluna og grunnkaupið, að mínu áliti ákaflega ranglátar og ákaflega óviturlegar.

Ýmsar af sérstökum greinum þessa frv. eru að vísu bara bein afleiðing og samræming út frá grundvallarhugsun frv., en sumar þeirra er samt rétt að tala nokkuð sérstaklega um.

Í 6. gr. er gengið út frá því að lengja þann tíma, sem sama vísitalan eigi að gilda. Hingað til hefur það verið í þrjá mánuði, sem vísitalan hefur gilt. Eftir þessari grein verður það í fjóra mánuði, og það verður þannig, að sú vísitala, sem verður raunverulega 1. marz, hún verður nokkurn veginn látin duga út ágúst. Það þýðir, að með þessu er raunverulega verið nokkurn veginn að frysta kaupið, að svo miklu leyti sem ekki yrði hægt að hreyfa grunnkaup á þessum tíma, fram til ágústloka. En í annarri efnismálsgr. í 6. gr. er líka gerð önnur ákvörðun. Það er sett aftur inn sú ákvörðun, sem tekin var út 1956, að breytt verð á landbúnaðarvörum vegna hækkunar eða lækkunar á launum bónda eða verkafólks skuli ekki hafa áhrif á vísitöluna seinna meir, þ. e. kauplagsvísitöluna. Þetta ákvæði var hér áður, en var tekið út 1956, einmitt til þess að draga úr því, að þessi hækkun yrði svo ör og að það yrði vaxandi munur á milli verðlagsins á landbúnaðarvörum og kauplagsvísitölunnar. Nú er meiningin að setja þetta inn aftur. Það mundi þýða að gera muninn á því kaupgjaldi, sem bóndinn fær og því kaupgjaldi, sem verkamaðurinn fær, smám saman meiri, skapa þarna mun á milli framfærsluvísitölunnar og þeirrar kauplagsvísitölu, sem reiknað er eftir og þessi 6. gr. ætti öll, hvernig sem annars færi, að falla burt, en alveg sérstaklega þó þessi 2. efnismálsl. í henni.

Þá er í sambandi við 9. gr. Þar eru þau fyrirmæli, sem lækka þetta kaup hjá sjómönnum líka. Um þau fyrirmæli hafa orðið nokkrar umræður hér. Ég vil fyrst segja það í sambandi við þessi mál: Það er óréttlátt að lækka kaupið hjá sjómönnunum. Í öllum þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið núna á undanförnum árum og á ýmsan hátt hafa snert kaupgjald beint eða óbeint og samið hefur verið um við verkalýðsfélögin, þá hefur verið reynt að sjá hins vegar um það, að kaup sjómanna færi stöðugt hækkandi, vegna þess að sannleikurinn er, að það var of lítill munur á kaupi sjómanna og annarra launþega. Það þurfti að auka kaup sjómanna og það verulega, einmitt til þess að þjóðfélagið fengi nægilega marga röska og duglega menn á sjóinn, af því að það er undirstaðan undir öllum launum allra annarra, sem í landi vinna, að þar fáist menn. Þess vegna er það í fyrsta lagi óréttlátt gagnvart sjómanninum og þeirri vinnu, sem hann innir af hendi, að lækka hjá honum kaup. Hann hefur verri aðstöðu, en nokkur annar maður til þess að nota sér sína frítíma. Allir aðrir þegnar í þjóðfélaginu hafa aðstöðu til þess að vinna, að vísu með því að leggja mikið á sig, svo og svo mikla aukavinnu, vinna að því kannske að byggja sér jafnvel íbúðarhús eða ýmislegt annað slíkt. Sjómaðurinn hefur ekki aðstöðu til neins af þessu og leggur samt á sig aðra eins gífurlega aukavinnu og hann gerir, svo að maður tali ekki um það annað, sem hann fer á mis við, það að hann geti verið heima hjá sínum fjölskyldum og annað slíkt á venjulegum tímum. Það er að öllu leyti réttmætt, jafnvel þótt verið væri að gera ráðstafanir, sem snertu aðra launþega, að sjómennirnir væru undanþegnir. Í öðru lagi er ópraktískt af þjóðfélaginu sem heild að gera þetta. Íslenzka þjóðfélagið þarf á því að halda, að við höldum mönnum á sjónum og fáum fleiri menn á sjó. Þess vegna eigum við að gera betur við þessa menn og ekki láta þá verða fyrir neinu hnjaski, jafnvel þegar aðrir verða fyrir hnjaski. Þess vegna er rangt að leggja þarna til að lækka eins við sjómennina og við aðra. Þegar samið var um þetta, samningurinn gerður á milli Landssambands ísl. útvegsmanna og sjómannasamtakanna, sem ríkisstj. hafði þátt í, þá var — og það er bezt, að ég minnist fyrst á 6. gr., sem hv. 10. landsk., frsm. meiri hl. fjhn., minntist hér á í sinni framsöguræðu, þá stóðu allir aðilar í samþykki við yfirlýsingu ríkisstj. um, að fiskverð skuli hækka og lækka, ef vísitalan breytist frá 185 stigum. Þegar stendur í einni grein, að vísitala breytist frá 185 stigum, þá skilur hver einasti maður það þannig, að sjálf vísitalan sé að breytast, að framfærsluvísitala eða kauplagsvísitala sé að breytast á eðlilegan hátt, að það, sem hún sé að mæla, vöruverðið og kaupgjald í samræmi við það, sé að breytast og þar með eigi þessi mælikvarði, sem þarna er lagður, að segja til um öðruvísi kaupgjald. Það er að vísu ómögulegt að skilja slíkt, að ríkisstjórn eða Alþingi skuli banna, að reiknað sé eftir ákveðnum mælikvarða þannig, það er algerlega óeðlilegt ástand. Það er alveg jafnt hægt að fyrirskipa, þegar 37 gráðu hiti er, að hann skuli vera reiknaður 35 eða að metrinn skuli vera 90 sm eða eitthvað annað slíkt, menn skuli bara sleppa þessum 10 stigum eða 10 sm eða hvað sem það nú væri. Það, sem tekur af öll tvímæli um þetta, er yfirlýsingin, sem stendur á eftir samningnum, sem undirskrifaður er af öllum aðilum, og ég, með leyfi hæstv. forseta, vil leyfa mér að lesa upp. Þar stendur:

„F. h. sjómannasamtaka innan A. S. Í. Að áskildu samþykki félagsfunda og að eftirfarandi yfirlýsing fáist frá ríkisstj. Íslands: Ef samningar takast á milli L. Í. Ú. og sjómannasamtakanna um fiskverð og kauptryggingu á þessu ári, þá er ríkisstj. því samþykk, að ef vísitalan breytist frá 185 stigum, skuli fiskverð hækka eða lækka í hlutfalli við breytingu þá. Enn fremur samþykki ríkisstj., að í fyrirhugaðri lagasetningu um efnahagsmálin muni hún leggja til, að kjör sjómanna samkvæmt samningi þessum skuli ekki skert.“

Það er náttúrlega alveg ótvírætt, hver meiningin er í þessu og getur enginn um það efazt, ef sú almenna vísitala mælir eitthvað annað, en 185 stig, þá skal það tekið til greina og svo er hins vegar ákveðið, að kjörin skuli ekki skert, jafnvel þótt kjör annarra verði skert, — kjör sjómanna samkvæmt þessum samningum skuli ekki skert. Það er undarlegt að vera með einhverjar öðruvísi túlkanir á þessum greinum, sem eru eins skýrar og þær eru. Frá hálfu sjómanna er þarna auðsjáanlega alveg skýrt og skorinort kveðið á um, að ekki skuli skerða þeirra kjör. Hvað sem sá meiri hl., sem e. t. v. mun vera til í þessari hv. d. fyrir þessu frv., kann að vilja gera í þessum málum, þá ætti hann að breyta þessari 9. gr., bæði frá sjónarmiði réttlætisins og frá sjónarmiði þess, sem praktískt er fyrir þjóðfélagið.

Þá er viðvíkjandi 10. gr. Þar er verðlækkunin og ég hef tekið eftir því, að það hefur verið reynt að gera ákaflega mikið úr þessari verðlækkun, og það hafa verið vaktar vonir hjá mönnum um, að einhver verðlækkun muni verða í sambandi við þetta. Ég held satt að segja, að það séu tálvonir, sem bæði flm. og stuðningsmenn þessa frv. gera sér um verðlækkanirnar í sambandi við 10. gr. Þegar við spurðum hagstofustjóra um, hvaða verðlækkun hann héldi að mundi verða í sambandi við áhrif þessarar 10. gr. og hvað mikið mundi koma fram í vísitölunni af henni, þá sagði hann, að það mundi líklega verða 0.5 stig í vísitölu.

Maður hefur reynsluna af því áður, hvernig fer með svona hluti. Þetta lítur skikkanlega út á pappírnum fyrir þá, sem kunna ekki að lesa á milli línanna, en í reyndinni verður venjulega hverfandi lítið úr þessum hlutum — og af hverju? Af því að þeir aðilar, sem eiga mest innangengt hjá þeim valdhöfum, sem setja lög eins og þessi, ef að lögum verða, ota hver sínum tota og sjá um, að það verði ekkert úr þessum fórnum, sem eigi að bitna á þeim. Það var svo sem alveg gefið núna og er nú þegar komið fram og nú þegar er byrjað að láta undan því, hvernig fara skuli með landbúnaðarvörurnar í þessu sambandi og það eru nú þegar komnar fram óskirnar og kröfurnar og útreikningarnir frá hálfu ýmissa atvinnurekenda viðvíkjandi því, hvernig reikna verði nýja liði á þeirra tilkostnaði til þess að vega upp á móti því, sem þeir e. t. v. ættu að lækka út af því, sem hér er og ég er ákaflega hræddur um, að þeir mörgu aðilar, er koma til með að ota hver sínum tota í sambandi við 10. gr. og verðlækkanirnar, muni verða bænheyrðir meira, en útlit er fyrir að verkalýðssamtökin verði af þeim, sem ætla að knýja þessa löggjöf fram. Till., sem fram eru komnar, bæði á þskj. 194 og 189, benda bezt á það, hvers þar megi vænta.

Ég er hræddur um, að fyrir utan allt það óréttláta og óviturlega í þessu frv., öll þau samningsrof, sem í því felast, þá muni þetta frv. ekki verða til þess, sem hæstv. ríkisstj. leggur nú höfuðáherzlu á,og það er að stöðva verðbólguna eða draga úr hennar vexti.

Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) var að lýsa því hér áðan, hvernig hringekjan væri í sambandi við verðbólguna og mér sýnist, að það, sem verið sé að gera með þessu frv., sé að binda stærra hlass aftan í þessa hringekju en áður, þannig að það sé nú öruggt, að það snúist nú allt saman í senn og fljótt, hvenær sem farið væri af stað með grunnkaupshækkanir.

En um leið er vert að vekja athygli á því, að samtímis því sem talað er um, að þetta frv. eigi að vera ráðstöfun á móti verðbólgu, þá leggja þeir, sem auðsjáanlega ætla að koma þessu frv. í gegnum þingið með ríkisstj., þ. e. með Alþfl., Sjálfstfl., þá dregur hann enga dul á, að það eigi sem næsta skref á eftir þessu frv. og þetta frv. sé aðeins fyrsta skrefið, þá eigi að auka og margfalda verðbólguna á Íslandi með gengislækkun í haust. Við þekkjum þessar kröfur. Við erum núna í tvö ár búnir að hlusta á þessar kröfur og standa á móti þessum kröfum, kröfunum um gengislækkun. Þær hafa dunið yfir allan tímann, og við létum, eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, reikna það út, meðan við tókum þátt í vinstri ríkisstj., þá létum við reikna það út, Alþýðubandalagsmenn, hvað það mundi þýða að afnema styrkina og uppbæturnar og lækka gengið þannig út, þegar þau stæðu undir sér eins og þá var og það hefði þýtt hækkun á útlendu gengi um 114% þá. Það er hverjum manni ljóst, að gengislækkun á Íslandi margfaldar alla verðbólguna, sem hér er fyrir og það umtal, sem núna sífellt fer fram um gengislækkun, það ábyrgðarlausa umtal, sem kemur jafnvel frá þeim mönnum í embættisbákninu, eins og aðalbankastjóra seðlabankans, sem ættu þó að vera varfærnastir um svona mál, — það væri kannske frekar hægt að fyrirgefa stjórnmálamönnunum, þó að þeir væru stundum að tala um þetta, þetta umtal um gengislækkun ýtir undir alla verðbólgu, það ýtir undir allt brask, það fær hvern einasta mann til þess að hugsa: Nú, það verður hvort sem er lækkað gengið í haust og það er bezt fyrir mig að reyna að hlaupa með mitt sparifé og mína peninga í að kaupa eitthvað, sem heldur þó sínu gildi.

Þetta sífellda umtal um gengislækkun, kröfur um gengislækkun, yfirlýsingar um, að gengislækkun sé eina vitið, það er áskorun til alls almennings í landinu um að viðhalda verðbólgunni og auka hana. Þessi áróður er til þess að rífa grundvöllinn undan trausti á íslenzkum gjaldeyri og gengi íslenzkrar krónu og auðvitað trausti á sparifé. Og það sýnir bezt, hve mikið traust almennings raunverulega er á þessu, að það skuli nokkur eyrir vera eftir af sparifé í bönkum landsins eða sparisjóðum eftir allan þann áróður, sem á gengur um þetta og það ekki sízt frá hálfu þeirra manna, sem ættu þó fyrst og fremst að reyna að passa upp á spariféð.

Þetta frv. miðar þess vegna ekki að því að stöðva verðbólguna. Það miðar aðeins að einu, aðeins að því að skerða launakjör verkalýðsins og gera honum til næsta hausts erfiðara að vinna á móti þeirri skerðingu með því að binda svo og svo mikið af öllu verðlagi í landinu við hverja hreyfingu, sem hann kynni að gera í átt til hækkaðs grunnkaups.

Hv. 2. þm. Reykv. hélt hér allýtarlega og hreinskilna ræðu áðan. Mér þykir leitt, að hann skuli ekki vera hérna, en ég veit, að hann var hálflasinn, þannig að það er ekki honum að kenna, þótt hann sé ekki hérna. En ég sagði honum frá því, að ég mundi svara einhverju af því, sem hann hefði sagt, enda voru þær hugleiðingar, sem hann var með, ekki aðeins hreinskilnar, heldur líka mjög raunsæ yfirlýsing frá hálfu þeirra manna, sem hafa hans skoðanir um, hvað gera beri í þessum málum.

Hann hélt því fram, að undirrótin að verðbólgunni á Íslandi væri, að kommúnistar, eins og hann orðaði það, hafa talið mönnum trú um, að hægt væri að hækka kaup án þess að velta því yfir á þjóðfélagið og þetta er hans trú og vafalaust fleiri manna, að sé einn aðalgrundvöllur verðbólgunnar. Og það er alveg rétt, að við gerum okkur það ljóst, hvort þetta sé satt eða satt ekki, því að raunverulega er farsendan, sem allt þetta frv. byggist á og allt þetta að vera að keðja grunnkaupið við allt landbúnaðarvöruverð og fiskverð í landinu, það hlýtur að byggjast á þeirri trú, að það sé ekki hægt að hækka grunnkaup á Íslandi öðruvísi, en að skrifa gengið og gjaldeyrinn niður um leið eða rýra verðgildi allra peninga í landinu og mín fullyrðing um, að það sé hægt að hækka grunnkaupið, án þess að þetta gerist, byggist á því, að ég lít svo á, að þetta sé mögulegt og ég skal færa rök að því.

1957 — ætla ég — að það hafi verið, að okkar framleiðslutekjur allar, þjóðarbúsins, séu áætlaðar 4 milljarðar og 900 milljónir, þ. e. 1957, — er það ekki rétt til getið hjá mér? Og skiptingin á þessu er eftirfarandi: Af þessum 4.900 millj. kr. fara 1.600 millj. kr. í fjárfestingu, 700 millj. kr. fara til rekstrar ríkis og bæjar- og sveitarfélaga, 2.600 millj. fara til neyzlu allra landsmanna. Spurningin, sem liggur fyrir manni, þegar maður segir: Það er hægt að bæta kjör launþega, byggist á því, að í fyrsta lagi sé hægt að skipta neyzlunni öðruvísi, þannig að það fari meira af þessum 2.600 millj. í hlut verkamanna, láglaunamanna skulum við segja og þá aftur minna í hlut þeirra, sem við oft köllum efnamenn eða yfirstétt.

En við skulum segja, að við gerðum ekki mest úr því, hvort hægt væri að taka — við skulum segja nokkra milljónatugi á þennan hátt. Við skulum taka fjárfestingaratriðið. 1.600 millj. kr. fara í fjárfestingu. Þegar einn verkamaður, sem lifir af 5 þús. kr. á mánuði, gerir kröfu til þess, að kaup sé hækkað, við skulum segja, að hann fari fram á 3% hækkun, þá hlýtur hann að velta þeirri spurningu fyrir sér: Er öllu þessu fé, sem fer í þessa fjárfestingu, svo vel varið, að því væri ekki betur varið sem neyzlu til mín? Og þegar hann horfir á fjárfestinguna, eins og hún er í þjóðfélaginu, þá sér hann, að það eru hundruð milljóna, hundruð og hundruð milljóna, sem er varið í meira eða minna algerlega „ópródúktíva“ fjárfestingu, þ. e. fjárfestingu, sem gefur ekki arð. Að vísu er margt af fjárfestingu, sem gefur ekki arð, bráðnauðsynlegt, skólarnir, sjúkrahúsin eða annað slíkt, en svo og svo mikið af þessari fjárfestingu er líka fjárfesting, sem mætti bíða, á meðan nóg er að gera við vinnuafl þjóðarinnar við hagnýta framleiðslu. Það hefur verið bent á, að ef dregið væri úr fjárfestingunni, þá mundi það þýða atvinnuleysi. Það er ekki rétt, það er hægt að draga úr fjárfestingu eins og til vega, brúa og ýmislegs annars slíks, án þess að það þýði nokkurt atvinnuleysi á Íslandi, heldur þvert á móti, að það þýði aukna framleiðslu þjóðarinnar. Í hverju einasta þjóðfélagi í öllum okkar nágrannalöndum, þar sem ríkið á annað borð skiptir sér eitthvað af sveiflunum í atvinnulífinu, þá er það föst regla og búin að vera þar meira eða minna í upp undir 25 ár, þ. e. síðan í kreppunni miklu, að á þeim tímum, þegar fullur og mikill gangur er í atvinnulífinu, framleiðslulífinu almennt, því atvinnulífi, sem einkaatvinnurekendurnir hafa og annað slíkt, þá er dregið úr opinberum framkvæmdum, þá sparar ríkið svo að segja sína peninga í öllu, sem það annars notar í hitt og þetta, sem við á atvinnuleysisárunum börðumst fyrir sem atvinnubótavinnu, eins og vegavinnunni og ýmsu öðru slíku. Ríkið gerir þetta í þjóðfélögum eins og í Svíþjóð og ótal öðrum slíkum þjóðfélögum, dregur úr sínum opinberu framkvæmdum, þegar fullur gangur er í því almenna atvinnulífi þjóðfélagsins, til þess aftur á þeim tímum, þegar ef til vill atvinnuleysishætta vofir yfir eða atvinnuleysi er byrjað, að geta aukið að sama skapi sínar opinberu framkvæmdir, til þess að þjóðfélagsþegnunum líði betur. En hér er haldið í þessa hluti í fjárlögunum út frá hreppapólitísku sjónarmiði, þegar þjóðfélaginu er ekki þörf á því og þessum peningum er veitt út í þjóðfélagið, án þess að það sé brýn þörf á þessu og jafnvel þannig, að það geri meiri eða minni skaða, tekur vinnuafl, sem hægt væri að nota við beina framleiðslu. Þetta er ópraktískt. Það er ekki að stjórna þjóðarbúi vel að stjórna svona. Það er álíka og fyrir einn bónda, þegar hann væri að heyja, að hann færi sjálfur og sendi endilega allt sitt fólk í brakandi þurrki í það að fara að búa til vegarspotta, sem kæmi honum þó ekki að neinu gagni, hvorki það sumar né næsta, en léti heyið eiga sig. Það er nákvæmlega sami búskaparhátturinn að taka mennina, sem þyrftu að vera að framleiða fiskinn og vinna að honum, og senda þá í vegagerð upp í sveit, einhvers staðar þar sem er verið að gera einhvern bút, vegna þess að einhver þm. vill gjarnan geta sagt við sína kjósendur í kjördæminu: Sjáið þið, hvað ég var duglegur að útvega þennan bút núna í sumar.

Ef á að stjórna þjóðfélagi af viti og þegar Alþingi er búið að taka það að sér, þá verður það að þora að hugsa nokkurn veginn rökrétt í þessum málum frá þjóðarbúinu í heild. Og þetta þyrfti ekki að þýða, að það væri unnið minna að vegum í sveit. Ég skal vera handviss um, að það má með marga vegina, sem þar er unnið að, vinna á fjórða hverju ári að því að fullgera veg á sama tíma, sem menn eru að dunda við í pörtum öll hin fjögur árin hvert um sig. Það að flytja þessar stóru vegavinnuvélar til, það fer stundum helmingurinn af allri vinnunni og kostnaðinum við að leggja einn vegarspotta í að flytja þær fram og aftur. Það er ekki nokkurt vinnulag á þessum hlutum, og það, sem þess vegna verkamaðurinn með 5 þús. kr. launin hlýtur að spyrja að, þegar hann horfir upp á, hvernig stjórnað er, það er: Á ég að borga þetta? Á ég að borga það, að fjárfestingin sé meira eða minna vitlaus, að það sé unnið meira eða minna vitlaust að henni? — Það er það, sem spurningin stendur um.

Þess vegna held ég, að við höfum haft á réttu að standa, sem höfum haldið því fram, að það væri hægt að hækka grunnkaup, vegna þess að það er svo margt í þjóðfélaginu, þess fjárfestingu og öllum þess rekstri, sem má laga, þannig að það sé praktískara, vinnuaflið betur hagnýtt, vélarnar betur hagnýttar og fjármagninu varið réttar. Ef búið væri að stjórna þannig á þessum sviðum öllum, að allir kraftar væru þarna sem bezt hagnýttir, og búið að skipuleggja þetta eins vel og frekast væri hægt og þjóðarbúið gæti svo ekki meira, þá skyldi ég vera fyrstur manna til að segja: Nú er ekki hægt að hækka kaupið meira. En meðan við sjáum óreiðuna, vitleysuna, skipulagsleysið, hugsanaleysið í þessu öllu saman, þá vitum við ósköp vel, að kraftur verkamannsins og verkalýðssamtakanna til að hækka grunnkaup er aðalaflið í þjóðfélaginu, sem getur knúið fram betri skipulagningu, skynsamlegri fjárfestingu, betri stjórn á þjóðarbúinu, svo fremi sem atvinnurekendurnir, Alþingi og allir aðilar láti ekki undan þeim þrýstingi, sem grunnkaupshækkunin skapar, með því einu að auka verðbólguna. Það er það, sem hefur verið gert og það, sem hv. 2. þm. Reykv., þegar hann ræddi þetta mál svona ýtarlega hérna áðan, sleppti alveg, var þetta: Atvinnurekendurnir velta af sér yfir á þjóðfélagið grunnkaupshækkunum eða vísitöluhækkunum og í því liggur, að þeir þurfa ekki einu sinni að endurskipuleggja sinn rekstur, gefa bara ávísun á þjóðarbúið. Hann hefði einmitt átt að athuga, sem sjálfur er atvinnurekandi, af hverju gengst hann ekki fyrir, að atvinnurekendurnir stöðvi hjá sér, en það er svo fjarri því, að slíkt sé gert og slíkt aðhald sé skapað, að þvert á móti er núna með þessu frv. verið að lögleiða það.

Hv. 2. þm. Reykv. kom í þessu sambandi inn á gjaldeyrisframleiðsluna, einmitt í sambandi við það, sem hann var að ræða um næstu skrefin í þessu. Hann talaði mikið um vandræðin, hvernig þetta væri allt saman keðjað hér saman hjá okkur og það er ekki nema eðlilegt, að maður íhugi, einmitt út frá hans röksemdum, viðhorfið, ef það ætti nú að fara eftir því, sem hann leggur til.

Þó mundi ég hafa viljað skjóta því að honum, ef hann væri hérna, þegar hann var að tala um verkalaunin, — ég mundi hafa viljað skjóta því að honum að athuga, þó að honum fyndust launin of há núna, hvort þá væri praktískt fyrir þjóðfélagið að lækka þau, væri ekki betra fyrir þjóðfélagið að athuga, hvernig það gæti skipulagt sinn eigin þjóðarbúskap betur og skynsamlegar, áður en það færi í það að lækka launin, því að það að lækka launin þýðir afturför fyrir þjóðfélagið sjálft. Það knýr ekki fram þær framfarir í atvinnurekstrinum, sem ella mundu verða knúðar fram með eðlilegum hætti af grunnkaupshækkunum.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði viðvíkjandi gjaldeyrisframleiðslunni, þá er eitt, sem menn verða að gera sér ljóst í því sambandi. Þegar íslenzka þjóðfélagið tók þá ákvörðun að taka allan gjaldeyri af útveginum og úthluta honum og það er búið að gera það meira eða minna nú í 25 ár, þegar það raunverulega, ef við notum slagorð um það, þjóðnýtti gjaldeyrinn, þjóðnýtti útveginn, þá tók íslenzkt þjóðfélag að sér eina skuldbindingu. Sú skuldbinding var, að þjóðfélagið sjálft hefði framtak til að sjá um alla aukningu sjávarútvegsins. Þegar gjaldeyririnn var tekinn af sjávarútvegsmönnunum og þjóðnýttur, þá var tekið af þeim það eðlilega framtak, sú eðlilega löngun þeirra og hvöt til þess að auka gjaldeyrisframleiðsluna í krafti síns gróða á sjávarútveginum. Um leið og gróðanum var kippt burt, gjaldeyririnn tekinn af þeim, þá varð það þjóðfélag, sem gerði þetta, sjálft að hafa ábyrgðartilfinningu fyrir því að hugsa um það sjálft, hafa þjóðarframtak sjálft um að auka sjávarútveginn og það er það, sem hefur skort. Það hefur skort þennan skilning, nema rétt öðru hverju í þjóðfélaginu hjá okkur á undanförnum 25 árum. Þjóðfélagið sem heild og þar með Alþingi hefur ekki staðið við þá ábyrgð, sem það tók á sig, þegar það þjóðnýtti gjaldeyrinn, þjóðnýtti framleiðslu sjávarútvegsins, að sjá um sjálft ekki bara að halda þessari framleiðslu gangandi, heldur að stórauka sjávarútveginn. Sjálft þjóðfélagið varð að koma í staðinn fyrir framtak einstaklingsins í þessum efnum.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur heldur aldrei skilið þá skuldbindingu, sem þjóðfélagið þannig tók að sér. Það hefur hins vegar ekki vantað kröfurnar, bæði frá honum og öðrum heildsölum í Reykjavík og öðrum, sem við verzlun fást, um að fá sem mestan gjaldeyri og sækja um hann, en það vantar skilninginn á, að þjóðfélagið þurfi sjálft að hafa framtak um að láta framleiða þennan gjaldeyri.

Þá talaði hv. 2. þm. Reykv. um af sinni venjulegu hreinskilni, að gengislækkun væri gagnslaus, ef kaup er hækkað að sama skapi. M. ö. o.: sú gengislækkun, sem fyrirhuguð er, ef hún á að standast, þá þarf kaupbinding að fylgja henni. Nú vildi hv. 2. þm. Reykv. ekki fara inn á leið kaupbindingar. Það þýddi, að hann vildi gefa þessa hluti algerlega frjálsa. Ég veit ekki, það er nú orðið svo langt síðan menn hafa þekkt frjáls viðskipti á Íslandi, að menn gera sér kannske ekki grein fyrir, hvernig þau eru, en ég mundi hafa spurt hann, ef hann hefði verið hérna, hvort hann þyrði nú virkilega að búast við því, að það væri hægt að koma á slíkum viðskiptum á Íslandi. Það að gera gengi íslenzkrar krónu frjálst, það þýðir sem sé að láta þann, sem aflar gjaldeyrisins, halda þeim gjaldeyri sjálfur og ráða sjálfur, hvað hann gerir við hann, sé ekki skyldugur til að skila honum einu sinni til íslenzka þjóðfélagsins. Þeir geta haft hann erlendis, ef þeir vilja, að svo miklu leyti sem þeir ekki þurfa endilega að selja hann hér aftur innanlands fyrir íslenzkar krónur til þess að nota hann.

Ég held, að það muni vart vera sá stjórnmálamaður til hér á Alþingi, kannske þá að undanteknum hv. 2. þm. Reykv., ef hann er það, sem mundi þora að leggja til að koma á alfrjálsum peningaviðskiptum á Íslandi, með öllum þeim afleiðingum, sem af því hljótast. Þessi hv. þm, hafði sjálfur sem ráðh. einu sinni tækifæri til þess að vinna að þessu. Hann var ráðh. í stjórn Framsóknar og Sjálfstfl. 1950 — held ég — og árin þar á eftir, og þá var einmitt verið að gera gengisbreytingu á Ísland, og þá var einmitt stefnt að því að gera gengið algerlega frjálst og gjaldeyrinn og yfirlýsingar um þá stefnu og það var gefizt upp á þeirri stefnu þá og hann reyndi sjálfur ekki einu sinni að gera grein fyrir því í sinni ræðu hér, hvernig á því hefði staðið. Mér fannst það mjög eðlilegt, að það væri gefizt upp á því. Ég held, að það sé hrein „útopía“, hrein draumsjón fyrir þá, sem vilja nota svo fallegt orð um þá stefnu, að láta sér detta í hug að koma á slíkum frjálsum gjaldeyrisviðskiptum hér á Íslandi.

Að síðustu talaði svo hv. 2. þm. Reykv. um afnám styrkjanna og það er líka það, sem er í stefnuskrá Sjálfstfl, um þessa hluti. Það var greinilegt, að það, sem fyrir hv. 2. þm. Reykv. vakti, var m. ö. o. að koma aftur á prívatkapítalisma, óbundnum, ókontróleruðum prívatkapítalisma á Íslandi.

Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég held, að slíkur almennur, ókontróleraður prívatkapítalismi geti ekki þrifizt á Íslandi, ekki a. m. k. þannig, að Ísland þrifist nokkurn veginn um leið og ég skal segja af hverju: Þessi hugmynd um þann frjálsa prívatkapítalisma, raunverulegan nítjándu aldar kapítalisma, hún er orðin svo úrelt, að það er ekki við því að búast, að það sé hægt að framkvæma hana og hún hefur alltaf verið erfið í okkar þjóðfélagi. Hvernig var á meðan kapítalisminn hér á Íslandi var nokkurn veginn frjáls í þessum hlutum? Það er raunverulega aðeins á tímabilinu frá 1920-30. Undireins og hann verður fyrir sinni fyrstu kreppu, þá hrynur þetta allt saman. Og hverjir eru aðilarnir, sem raunverulega beita sér fyrir fyrstu ríkisíhlutuninni um það, sem er þó grundvöllurinn að öllum frjálsum viðskiptum á Íslandi, fiskútflutninginn? Það er Sjálfstfl. Það er sjálfur formaður Sjálfstfl., sem var ráðh. 1932, sem setur lög, sem gefa einum aðila, einum samtökum einkaleyfi frá hálfu ríkisins til útflutnings á saltfiski. M. ö. o.: íslenzka ríkisvaldið er notað til þess að afnema prívatkapítalismann á Íslandi og koma á meiri eða minni ríkiskapítalisma eða einokunarkapítalisma, sem fær vald frá hálfu ríkisins til þess að starfa í þess nafni og með þess vald á bak við sig. Og hvernig er þetta svo á eftir gert allan tímann? Meira eða minna í gegnum ríkisbankana eða í gegnum sjálft ríkisvaldið.

Nei, það er alveg vonlaust að ætla að skapa það skipulag aftur á Íslandi. Við erum á annarri öld núna, heldur en öld frjálsrar samkeppni og prívatkapítalisma. Við erum á öld einokunarkapítalismans, að svo miklu leyti sem við lifum í kapítalistísku þjóðfélagi. Og íslenzka þjóðfélagið er svo lítið, en svo háð umheiminum, svo háð heimsmarkaðnum, að það getur ekki staðið sig í þeirri samkeppni, sem það þarf að standa í, bæði hvað snertir sölu og innkaup, öðruvísi en með því að skipuleggja sig verulega vel, með því að koma fram sem eitt þjóðarbú, sem einn aðili að heita má, hvort heldur maður vill kalla, að það hafi þannig kosti eins sterks auðhrings eða að það hafi kosti sósíalistísks þjóðfélags. Ef íslenzka þjóðfélagið á að bjarga sér og geta útvegað sínum þegnum sæmileg lífskjör í þessari veröld tiltölulega harðrar lífsbaráttu, þá verðum við að beita öllum þeim krafti, sem býr í samtökum og það verða að vera eins konar þjóðarsamtök, sem koma fram út á við gagnvart öllum öðrum aðilum í heiminum, til þess að við getum verið eins sterkir og þetta þjóðfélag undir nokkrum kringumstæðum getur orðið. Og hvort við svo inn á við, innan þessa sameinaða þjóðarbús, höfum sumpart prívatkapítalistískan, sumpart hálfgerðan einokunar-, sumpart samvinnurekstur, sumpart ríkisrekstur, það hefur ekki eins mikið að segja. Það getum við haft eftir því, sem við innbyrðis komum okkur saman um að praktískt sé. En út á við, í okkar afstöðu gagnvart umheiminum, ef við ætlum að vera eins sterkir og okkur er nauðsyn á að vera, þá þurfum við að vera sem mest ein heild. Það er allt á atvinnu- og viðskiptasviðinu í veröldinni, sem stefnir að slíkum sterkum, stórum heildum, við lifum á öld þeirra voldugu organisasjóna, þeirra voldugu samtaka. Og hvort þau samtök heita auðhringir eða sósíalistísk þjóðfélög, í sjálfri baráttunni, efnahagslegu baráttunni í veröldinni, á heimsmörkuðunum, þá eru það þessi sterku samtök, sem eru þar afgerandi. Ef við leysum þetta þjóðfélag upp, þennan þjóðarbúskap upp í ótal smáprívatkapítalista eða smásamvinnusambönd eða annað slíkt, þá verðum við troðnir undir og við lifum það, sem við lifðum á árinu 1930 og þar á eftir, yrðum traðkaðir undir af kreppunni, af hagsveiflunum og öllu slíku. Nei, við verðum að hafa múr utan um þetta land, sem við byggjum sjálfir til þess að verja okkur móti hagsveiflum og móti kreppum. Við verðum að hafa eins konar þjóðarsamtök um, hvernig við komum fram sem efnahagsleg heild út á við, hvernig sem við kunnum svo að rífast um það og deila um það hér innanlands, hvernig við eigum að skipta þeirri köku, sem við mölum.

Það er bara því miður svo mikið um það, að menn geri sér alls konar mögulegar hugmyndir um, hvað sé hægt í þessum hlutum: heiminum og vilji fara að gera tilraunir hérna á Íslandi með að taka upp 19. aldar hugmyndir og gera okkar þjóðfélag að tilraunastöð fyrir þær. Við erum búnir að fá meira en nóg af slíku og búnir að tapa meira en nógu af því. Og hv. 2. þm. Reykv., sem sjálfur var ráðh. einmitt þegar verið var að gera allar þessar tilraunir og sá þær mistakast, hann ætti að vera búinn að læra eitthvað á því.

Ég held svo, að ég láti útrætt um ræðu hv. 2. þm. Reykv. Ég held, að við verðum hér á Íslandi að taka tillit til þess, að ef við ekki ætlum að koma hér á kreppum, ef við ekki ætlum að innleiða hér atvinnuleysi, ef við ætlum að reyna að viðhalda þjóðfélagi, þar sem allir geta unnið, þá verðum við að viðhalda þjóðfélagi með þessum styrkja- og uppbótabúskap. Þá eigum við ekki að láta okkur dreyma um að skrá okkar gengi endilega í samræmi við það, sem það mundi, ef til vill seljast á frjálsum markaði, ef frjáls markaður væri á því. Hvað gerir það, ef við erum alltaf að tala um þetta, að við eigum að breyta genginu? Þetta umtal eitt skipuleggur verðbólguna í landinu. Svo framarlega sem við höldum þó nokkurn veginn okkar gengisskráningu hér innanlands, eins og hún er, hvað miklar uppbætur og styrki sem við annars þurfum að láta vera, þá eru vissir þættir í þjóðfélaginu, sem haldast tiltölulega fastir, tiltölulega stabilir og við gætum haldið enn þá stabilari, t. d. húsaverðinu og öðru slíku. Og við sjáum þjóðfélög hér nærri okkur, eins og danska þjóðfélagið, sem halda enn þá sínum ákveðnu reglum um, hvernig virða skuli hús til húsaleigu, eftir því t. d., hvort þau eru byggð fyrir 1914, hvort þau eru byggð eftir fyrra stríðið á vissum tíma og annað slíkt. Það er hægt, ef aðeins næst samkomulag um það á milli þeirra, sem þjóðfélaginu stjórna, að skapa mjög mikla festu í okkar þjóðfélagi, þó að við förum ekki inn á þá braut að fara að skrá gengið eftir hagsveiflum þess stóra heims.

Viðvíkjandi svo að síðustu því, sem er viðhorfið fyrir verkalýðinn í þessu sambandi, er óréttlátt að fara inn á þá leið, sem hér er farin. Ég sýndi fram á það í minni fyrstu ræðu, í minni ræðu við 1. umr., að verkalýður Íslands býr núna við lægri kaupmátt á tímakaupi en hann gerði fyrir 15 árum, — lægri kaupmátt. Og með þessu frv. á að lækka hann enn. Það er greinilegt, að það er ekki það, að verkalýðurinn hafi tekið of mikið til sín af þjóðfélagsauðæfunum, þjóðfélagstekjunum, sem veldur allri þeirri verðbólgu, sem orðið hefur. Hins vegar, meðan fjárfestingin, auðskiptingin, tekjuskiptingin í þjóðfélaginu er eins og hún er, þá er alveg greinilegt, að það, sem fellur í hlut ekki hvað sízt þeirra verkamanna, sem framleiðslustörfin vinna, er miklu minna, en meðalfjölskyldan í landinu hefur í sinn hlut af þjóðartekjunum, eins og ég sýndi þá fram á, ef fjölskyldan hefur frá 125 þús. kr. og þar upp eftir og meðaltekjur verkamannafjölskyldu eru þetta 50 til 60 þús. kr. Þess vegna er þetta óréttlátt gagnvart verkalýðnum og rof á hans samningum og óviturlegt fyrir þjóðfélagið, brottnemur eða reynir að lama þann kraft, sem knýr framfarirnar fram, baráttu verkalýðsins fyrir hækkuðu grunnkaupi.

Ég hafði minnzt á það við 1. umr. þessa máls, að þar að auki mundi það ekki koma að haldi að fara inn á svona leiðir. Lífsbjargarviðleitnin, framfaraþráin hjá alþýðunni er það sterk, að hún grípur ætíð til annarra ráða, ef einni leið er lokað, til þess að reyna að knýja fram betri lífskjör. Það voru ekki frá minni hálfu neinar hótanir til Alþingis, það voru aðeins viðvaranir út frá reynslu, sérstaklega síðustu 17 árin. Þegar farið hefur verið inn á þá braut að svipta verkamenn þeim hlunnindum og kjörum, sem þeir hafa tryggt sér með frjálsum samningum, þá hefur alltaf eitthvað illt hlotizt af, byrjaði með gerðardómslögunum 1942 og hefur haldið áfram síðan. Og af hverju hefur illt hlotizt af þessu? Nú viðurkennum við allir, að Alþingi er æðsta valdið í okkar landi. Og hvernig stendur á því, að það skuli geta hlotizt illt af gerðum slíks æðsta valds? Það er vegna þess, að þegar Alþingi gerir slíka hluti, eins og þegar gerðardómslögin voru sett eða önnur slík kaupkúgunarlög, þá er Alþingi að brjóta í bága við þá hugsjón, sem þeir beztu menn, sem á því hafa starfað að fornu og nýju, hafa fyrst og fremst helgað, þá hugsjón að reyna að bæta lífskjör þessarar þjóðar og sérstaklega vera þeim smáu, smælingjunum í lífsbaráttunni, skjól og skjöldur. Hvenær sem Alþingi víkur út af þessu og beitir því mikla valdi, sem okkar þjóð gefur því, til þess að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur, þá víkur það frá slíkri hugsjón og niðurlægir sjálft sig. Við vitum, hvað okkar Alþingi hefur orðið að reyna á sínum þúsund árum og hvers konar ægileg niðurlæging hefur orðið þess hlutskipti oft og þegar við endurreistum okkar lýðveldi, þá vonuðumst við einmitt til þess, að Alþingi mundi í ríkara mæli en nokkru sinni áður verða skjól og skjöldur vinnandi stéttanna í landinu, vinna að því að efla og bæta þeirra lífskjör og skapa þeim öryggi, afkomuöryggi, atvinnuöryggi í þessu þjóðfélagi. Þegar Alþingi brýtur út af þessu og fer þessa leið, sem svo mörgum hv. alþm. finnst vera svo auðveld, að skera niður við fjöldann, skera niður við launþegana, gert með lögum, frekar en reyna að stjórna þjóðarbúinu betur, þá hlýzt ógæfa af, af því að Alþingi er að víkja þarna út af réttri braut.

Ég vildi mega vona, að þessi hv. d. bæri gæfu til þess að afstýra því, að fyrsta sporið inn á leið gengislækkunar, margfaldaðrar verðbólgu og atvinnuleysis verði stigið með því að samþykkja þetta frv. Þetta frv. er fyrsta skrefið, eins og hér hefur verið margtekið fram, inn á slíka leið.

Ég vil vona, að Alþingi gangi ekki inn á þessa leið, — felli þetta frv. og knýi þar með flokka þingsins og stéttir þjóðfélagsins til þess að ráða sameiginlega fram úr þessum málum eða mynda það sterkan meiri hluta um lausn á efnahagsmálunum, að hann geti tryggt að framfylgja þeim niðurstöðum, sem þá yrði komizt að, þannig að okkar þjóðfélags- og þjóðlíf beri ekki ógæfu af.

Þess vegna er það mín till., að þetta frv. sé fellt.