03.12.1958
Sameinað þing: 13. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2096)

56. mál, steinsteyptur vegur frá Hafnarfirði til Snadgerðis

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 97 um steinsteyptan veg frá Hafnarfirði til Sandgerðis yfir Keflavík og Garð.

Efni till. er það, að fram fari fullnaðarrannsókn á, hvað slík vegagerð mundi kosta, og að í öðru lagi verði stefnt að því, að auðið verði að hefja framkvæmdir þegar í stað á næsta ári. Í þriðja lagi er svo kveðið á um það, að ef ekki verður talið fært að veita á fjárl. nægilegt fé til þess, að auðið verði að ljúka þessu verki á tiltölulega stuttu árabili, þá skuli ríkisstj. falið að afla sér lántökuheimildar í þessu skyni.

Grg. fyrir þessari till. er í sjálfu sér ekki löng, en segir þó í aðalatriðum það, sem ég á þessu stigi málsins hef um það að segja.

Ég skal aðeins árétta það, að slík hugmynd eins og þessi um að leggja vegi úr varanlegu efni hefur náttúrlega oft komið fram áður á Alþingi. Hún hefur fengið byr undir væng nú vegna till. hv. 1. þm. Rang., sem hann flutti framsöguræðu fyrir nýverið hér á Alþ., þar sem hann gerði grein fyrir því annars vegar, hver nauðsyn væri á að leggja inn á þá braut, að vegir yrðu á mest förnu leiðunum gerðir úr varanlegu efni, og hins vegar leiddi rök að því, að það væri sérstakt íhugunarefni, hvort ekki þætti rétt að hagnýta umframframleiðslu hinnar nýju sementsverksmiðju í þessu skyni.

Hann skýrði frá því, hv. 1. þm. Rang., að sementsverksmiðjan mundi framleiða árlega um 110 þús. smál. og árleg notkun væri varla yfir 80 þús. smál. og alla vega ekki yfir 85 þús. Hann færði að því eðlileg rök, sem ég hirði ekki að endurtaka, að það væri mjög miður farið, ef við þyrftum að stöðva rekstur verksmiðjunnar 2–3 mánuði á ári, en hann sæi ekki annað fram undan, en einmitt þá leið, nema því aðeins að lagt yrði inn á slíkar nýjar brautir sem hann lagði til í sinni till. Og hann leiddi einnig rök að því, að það væri fjárhagslega skynsamlegt fyrir Íslendinga að reikna þetta sement, sem þarna þyrfti til vegagerðarinnar, á miklu lægra verði, en annars væri á sementi til byggingarframkvæmda í landinu og miða verðlagið eingöngu við það, hvað kostnaðarverðið yrði á því, samanborið við það, að verksmiðjan væri athafnalaus þessa mánuði.

Ég skal játa, að þessi till., sem hér liggur fyrir, hefði verið flutt án hliðsjónar af því, að slíkar upplýsingar hefðu verið gefnar. Málið, sem hér um ræðir, hefur dregizt svo lengi og er í raun og veru svo mikið nauðsynjamál, að ég vil ekki segja, að það geti skorið úr um réttinn til að flytja slíka till., hvort sementið væri reiknað á hálfvirði eða á fullu verði, eins og hv. 1. þm. Rang. gerði grein fyrir í sinni framsöguræðu og raunar í grg. fyrir sinni till. Ég skal aðeins vekja athygli á því, sem hann þar sagði, að hann teldi ekki auðið að selja til útlanda umframframleiðsluna, og hann hafði þær upplýsingar sem margar aðrar í sinni ræðu frá framkvæmdastjóra sementsverksmiðjunnar, og ætti örugglega að mega byggja á þeim heimildum, sem hann í þeim efnum lagði fram.

Upplýsingarnar, sem fólust í ræðu hv. 1. þm. Rang., hnigu í þá átt, að ef sement yrði notað með þessu lægra verði, mundi kílómetrinn af steinsteyptum vegi, 7 m breiðum, ef ég man rétt, og ég held, að hann hafi sagt með 20 cm slitlagi, kosta frá 800–850 þús. kr. Og hann taldi einnig eftir fróðum mönnum, að nú væri ekki lengur þörf á járnbentri steinsteypu, eins og þó áður hefði verið talið nauðsynlegt, ef um varanlega vegi væri að ræða, en það væri mikill sparnaður, sem af því leiddi að losna við járnið, og einkum kæmi þessi þörf ekki til greina, þar sem væri um að ræða eldri vegi eða vegi yfir hraun, þar sem undirlagið væri sterkt.

Ég skal nú aðeins leyfa mér að segja, að ef menn á annað borð vilja leggja inn á þessa braut, og það er mín skoðun, að það sé ekki undankomu auðið að gera það, þá hef ég lengi talið, að fyrsta framkvæmdin, sem bæri að leggja í, væri steinsteyptur vegur frá Hafnarfirði til Sandgerðis, yfir Keflavík og Garðinn, eins og hér er lagt til. Þessi leið er um 52–53 km, hygg ég, og eftir kostnaðaráætlun hv. 1. þm. Rang, ætti þá kostnaður við þetta verk að verða 40–45 millj. kr.

Ég verð að játa, að það má að sönnu deila um, hvort þessi leið, þessi vegur, þessi framkvæmd eigi skýlaust að ganga fyrir. Það má sjálfsagt um það deila. Þeir, sem kunnugir eru málinu og það miklu betur en ég, almennt talað, telja þó, að þetta sé fjölfarnasta leiðin og auk þess megi rökstyðja frá ýmsu öðru sjónarmiði kröfu þeirra, sem á Suðurnesjum búa, fyrir, að þessi framkvæmd gangi fyrir. Ég endurtek, að menn benda á, að hér sé um fjölfarnasta veginn að ræða. Í öðru lagi er það án efa, þessi vegur, sem er langverstur af þessum fjölförnu leiðum. Ég hef leyft mér að segja frá því í grg., sem oft hefur kveðið við í eyrum okkar, sem erum kosnir af kjósendum í þessu kjördæmi, að menn, sem komi frá útnesjum, nyrztu ströndum Íslands eða lengst að og hafi farið um breiðar byggðir, staðhæfi, að hvergi á allri leiðinni sé önnur eins vegleysa og þegar kemur suður fyrir Hafnarfjörð, ef maður er ekki svo heppinn að stýra beint í kjölfar vegheflanna. Og það hefur oft komið fyrir mig að fara að morgni suður í mitt kjördæmi og heim að kvöldi, og vegurinn hefur kannske verið sæmilegur að morgni, en nær ófær að kvöldi. Umferðin er þetta gífurleg og vegurinn í því ástandi, að það er ekki hægt — held ég — að una við hann, án þess að alger bylting sé gerð, það sé gersamlega lagt inn á nýjar brautir um þá vegagerð.

Ég get einnig bent á það, að ég hygg, að það sé rétt, að á undanförnum árum hafi ríkið tiltölulega lítið lagt þessu héraði, en héraðið ákaflega mikið ríkissjóði. Þetta er eitt mesta framleiðsluhérað landsins, og náttúrlega drýpur drjúgt frá því í ríkissjóðinn, þannig að vissar kröfur geta héraðsbúar byggt á þeirri staðreynd.

En loks vil ég geta þess, hvort sem menn vilja taka til þess nokkurt tillit eða ekki, að ríkisvaldið hefur í hlaðvarpanum hjá þessu fólki staðsett erlent varnarlið, án þess að þetta fólk hafi verið nokkuð um það spurt, en með þeim afleiðingum, að vegurinn, sem það þarf að nota til síns atvinnurekstrar og til umferðar í einu og öðru skyni, er miklu verri torfæra, en ella mundi verða. Ég hygg, að megi byggja kröfurétt á mörgu öðru en þessu, svo að ég tel ekki, að á þessu stigi málsins sé ástæða fyrir mig að halda neinar hrókaræður um þetta. Þið þekkið þetta flest sjálf að meira eða minna leyti, og kjarni málsins á þessu stigi er sá: Vilja menn annars vegar aðhyllast þessa hugmynd, að þrátt fyrir hinar mörgu kröfur ævinlega á hendur ríkissjóði og margar þeirra á rökum reistar, þá vilji menn þó axla þá byrði, sem af því leiðir að leggja inn á þessa braut? Og í öðru lagi, svari menn þeirri spurningu jákvætt, vilja þeir þá viðurkenna, að réttur þessa héraðs eigi að ganga fyrir öðrum? Þetta verða spurningarnar. Löng ræðuhöld af minni hendi um það hafa ekki neina úrslitaþýðingu, og ég læt þess vegna undir höfuð leggjast að tína fram það, sem ég kannske að öðru leyti kynni að geta upplýst um atriði þessa máls.

Mér þykir rétt aðeins að minna á, að fallist menn á þessa till., þá er það nú svo, að svo fjárfrek sem hún er, og sannarlega er hún fjárfrek, þá þyrfti hún þó ekki að kosta nema 1% af heildarútgjöldum ríkisins á ári, ef framkvæmdinni yrði dreift á fjögur ár, og náttúrlega minna árlega eftir því, sem henni er dreift á fleiri ár.

Ég hef leyft mér að stinga upp á í grg., að ef mönnum vex í augum þessi kostnaður, þá sé tekið til athugunar, hvort ekki sé rétt að leggja inn á nýjar brautir, þ.e.a.s. að leggja nýjan skatt á alla þá, sem um þennan veg fara. Ég er alveg sannfærður um, að fólkið í mínu kjördæmi mundi alls ekki kvarta, þótt það yrði að borga nokkrar krónur af hverjum bíl, sem um veginn fer. Ég er alveg sannfærður um það. Það er búið að þola svo marga raunina af vanlíðan og skapþunga við að verða að pyntast í þessu Ódáðahrauni, — það er búið að þola svo marga raunina, að það mundi ekki telja eftir sér, þótt það borgaði eins og hálft bíóbílæti eða minna, en það sem afgjald af bifreiðinni, um leið og hún færi suður eftir. Ég bara bendi á, að ef menn leggja út á þær leiðir, þá verða menn auðvitað að hafa sama úrræðið varðandi aðra steinsteypta vegi, sem lagðir eru. En mér finnst það fyllilega koma til athugunar. Ef það kæmi til athugunar, þá fyndist mér ekki ósanngjarnt, að menn legðu fyrst og fremst til grundvallar það sjónarmið, að þetta skattgjald yrði látið standa undir vöxtum af því láni, sem kynni að verða tekið til slíkra framkvæmda, en ríkissjóður sjálfur stæði undir afborgunum, vegna þess að vegaviðhaldið hlýtur í stórkostlega ríkum mæli að minnka, ef vegur verður byggður úr varanlegu efni.

Ég vil aðeins að lokum segja það, að ef óskað verður upplýsinga, þá skal ég útvega þær, bæði varðandi framleiðslu héraðsins, nánari skýrslu um umferð um veginn og allt annað, sem þeirri n., sem um málið fjallar, þykir á skorta. Að sjálfsögðu mun svo vegamálastjóri reiðubúinn til að gefa n. allar upplýsingar, sem undir hans verksvið heyra. — Ég hef svo gert ráð fyrir, hæstv. forseti, að þessari umr. yrði frestað og málinu vísað til hv. fjvn., þar sem ég tel það eiga heima.