07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (2102)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa verið fluttar hér á Alþ. till. um athugun og framkvæmdaáætlun í vegamálum þeirra byggða, sem enn eru ekki í akvegasambandi við aðalakvegakerfi landsins. Þær athuganir, sem þessar till. hafa stuðlað að, hafa leitt í ljós, að þær byggðir á Vestfjörðum norðan Arnarfjarðar, sem till. þessi fjallar um, eru eina landfasta þéttbýlið, sem ekki er enn komið í akvegasamband a.m.k. að sumarlagi við aðalakvegakerfi landsins. Á þessu svæði búa nú um 6.000 manns.

Svo kann að virðast sem við Vestfirðingar förum fram á nokkuð mikið samanborið við aðra, er við leggjum til að haga framkvæmdum eins og í till. okkar segir. Svo er þó alls ekki, ef betur er að gáð. Í fyrsta lagi er það svo, að svo skammt er síðan vegagerð hófst á Vestfjörðum að nokkru ráði, að við höfum orðið þar verulega út undan eða aftur úr öðrum landshlutum. Í öðru lagi er það, að ef við athugum, hvað mikið er ólagt af þjóðvegum, sem eru á vegalögum nú samtals á öllu landinu, og gerum ráð fyrir, að jafnmikið verði lagt árlega af nýjum þjóðvegum og gert hefur verið að meðaltali á ári undanfarin 30 ár, — það er alveg sama, hvort við tökum eitt ár fyrir sig eða hvort við tökum 3 tíu ára tímabil, það kemur hér um bil sama út, — þá yrði, ef lagt yrði álíka mikið og lagt hefur verið árlega jafnaðarlega undanfarin 30 ár, lokið við að leggja alla ólagða þjóðvegi, sem komnir eru á vegalög, á næstu fjórum árum. Fjórðungur þessara vega er á Vestfjörðum. Væri því ekki nema full sanngirni að gera ráð fyrir, að fjárveiting til vega á Vestfjörðum yrði miðuð við að ljúka þeim á næstu fjórum árum, þ.e. þeim vegum, sem þegar eru komnir á vegalög. Þessi till. er flutt m.a. til þess að vekja athygli á þessu.

En þyki ekki fært að verða við þeim óskum okkar að taka þetta mál í þeim áföngum, sem lagt er til í till. okkar, og veita á fjárl. í ár þá upphæð, sem nægir til þess, þá er okkur nauðsynlegt að fá leyfi til að leggja vegina sjálfir eða láta leggja þá án þess, að lagning þeirra þurfi að kosta ríkissjóð meira, en gert hefur verið ráð fyrir í áætlun vegamálastjórnarinnar. Að þessu lýtur síðari hluti till. okkar um ákvæðisvinnu og ábyrgðir ríkissjóðs á lánum, er tekin kynnu að verða til framkvæmdanna. Við erum ekki í nokkrum vafa um, að það er hægt að gera þetta svona, ef til þess fæst leyfi. Og við erum þess fullvissir, að það er hægt að gera þessa vegi, sem ólagðir eru þarna, eftir útmælingu og fyrirmælum vegagerðar ríkisins á tilsettum tíma, þó að fé fáist ekki með öðrum hætti en þessum, að ríkissjóður ábyrgist, að greiðslan komi að fullu á fjórum árum, þ.e. á fjárlögum næstu fjögurra ára. En lengur er ekki ástæða til eða nein sanngirni í að láta okkur bíða eftir fjárveitingu, eins og ég áðan sýndi fram á.

Eina fyrirgreiðslan, sem við förum fram á, fram yfir það, sem venjulegt er, er það, að ábyrgðir ríkissjóðs megi miðast við, að greiðslan kæmi á næstu fjórum árum, en það hefur ekki verið óalgengt um vegagerðir úti um landið, að heimiluð væri lántaka, til þess að hægt væri að taka tvo áfanga í einu og ljúka þannig nokkru meira á einu ári en gert hefur verið ráð fyrir með framlögum á fjárlögum.

Hér er hreyft að nokkru leyti nýrri hugmynd, að láta gera vegina eða a.m.k. hluta þeirra í ákvæðisvinnu. Þetta hefur ekki verið gert hér, svo að ég viti til, að neinu ráði á vegum vegagerðar ríkisins, en erlendís, t.d. á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum, mun þetta vera algengasta leiðin við meiri háttar vegaframkvæmdir og varla annað talið koma til mála þar.

Það vill líka þannig til, að þetta hefur verið aðeins borið við hér. Rafmagnsveitur ríkisins munu hafa þurft að láta gera þó nokkuð af vegum fyrir sig og hafa farið að einhverju leyti inn á þessa leið með góðum árangri, bæði að því er tekur til rafveitnanna, þær hafa fengið vegina gerða þarna á skömmum tíma, eins og þeim oftast hefur legið á að fá gert, og án þess að þeir kostuðu meira en vegagerð ríkisins hefur áætlað að vegirnir kostuðu.

Sömuleiðis hefur flugmálastjórn farið nokkuð inn á þessa leið, að láta vinna framkvæmdir, sem í eðli sínu eru mjög svipaðar vegaframkvæmdum og sumpart vegaframkvæmdir, í ákvæðisvinnu. Það er t.d. nú í haust unnið nokkuð að flugvallargerð á Ísafirði, og hefur það verið gert í ákvæðisvinnu. Þar hefur verið unnið samkv. áætlun, sem er ekki alveg ný og þess vegna var miðuð við annað verðlag og lægra en nú gildir, en samt kom í ljós, þegar verkið var boðið út, að það fæst unnið fyrir áætlunarupphæð og þannig, að ætla má fyrir nokkru lægri upphæð en t.d. Vegagerð ríkisins mundi telja líklegt að verkið kostaði nú.

Það, að tekizt hefur að fá þarna unnið við flugvallargerðina á Ísafirði verk fyrir minna, en ætla mætti að það kostaði núna, byggist að nokkru leyti á því, að það eru sams konar tæki og raunar sömu tækin, sem notuð eru við þá framkvæmd eins og notuð eru við vegagerð og hafa verið notuð við vegagerð á Vestfjörðum einmitt í sumar, en þeir, sem eiga þessi tæki, telja sér hag að því að taka að sér verk, sem þeir geta unnið, eftir að venjulegum vegagerðartíma er lokið, og nýtt þannig þessi dýru tæki, sem þeir hafa notað við vegagerðina, betur en ella mundi. Þeir telja sér þess vegna unnt að lækka verð vinnunnar nokkuð, og vitanlega er það hagur fyrir ríkissjóð, sem á að borga þessar framkvæmdir, að fá þær unnar fyrir lægra verð, en þær að öðrum kosti væru fáanlegar fyrir.

Þá er ég einnig sannfærður um það, að hægt er að gera vegina ódýrari, ef unnið er og tekið fyrir nógu mikið samfellt verkefni. Það er ábyggilega hægt að lengja vinnutímann árlega nokkuð með því og nota tækin betur, en ella mundi. Það er satt bezt að segja, að það hefur óeðlilega mikið farið í þann kostnað, sem er við að flytja dýr tæki fram og aftur haust og vor, og stundum hefur ekki miðað elns mikið áfram vegagerðum, þegar lagðir hafa verið smákaflar í einu, vegna skorts á hentugum tækjum. Það hefur ekki þótt taka að fara með dýr tæki til þess, þó að þeirra væri full þörf á vegagerðarstaðnum, þegar komið hefur verið að því kannske, að búið væri að nota það fé, sem til ráðstöfunar hefur verið á hverjum tíma.

Ég er viss um, að þessi leið, að leggja vegina að meira eða minna leyti í ákvæðisvinnu, er heppileg vinnubrögð og sérstaklega það að taka fyrir heila áfanga í einu. Það yrði vafalaust til þess, að engum dytti framar í hug að taka smáspottaaðferðina upp á ný. Það yrði lagt þarna inn á nýja braut, og hygg ég, að það gæti orðið til þess að flýta fyrir og gera vegagerð ódýrari í landinu framvegis, ef þetta gefst vel.