07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (2106)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. talaði hér alveg út í hött, að svo miklu leyti sem hann var að svara þeim fáu orðum, sem ég sagði hér áðan. Hans svar til mín gekk út á það, að ég væri mótstöðumaður þess, að Vestfirðingar fengju vegasamband, og annað slíkt, sleggjudómar, sem ekki hafa við neitt að styðjast, og mín orð gáfu ekkert tilefni til að viðhafa slík ummæli. Það, sem ég sagði og var að benda á, var aðeins það, að ég taldi ekki þessa leið, sem er lögð til í þáltill., þá heppilegustu, hvorki fyrir framgang málsins raunar né heldur heppilegt fordæmi hér á Alþingi, og hefði hann í staðinn fyrir að gera mér upp illar hvatir í þessu efni átt að þakka mér fyrir að benda þeim flutningsmönnunum á, að það eru til aðrar leiðir í þessu máli, sem betur mega fara, en þessi þáltill.

Hvað snertir ræðu hv. þm. Ísaf., þá var hún öðruvísi að því leyti, að hann kom þó nálægt því, sem ég hafði sagt, og talaði efnislega um málið.

Það er að vísu rétt, sem hv. þm. N-Ísf. sagði, að mér munu hafa fallið þau orð í fyrra eða einhvern tíma áður, að það væru til byggðarlög hér á landi, sem betur hentuðu samgöngur á sjó, heldur en að komast í samband við vegakerfi landsins. Hér situr mjög nærri mér hv. þm. Vestm. Það hefur að vísu einu sinni verið stungið upp á því að byggja brú yfir Borgarfjörð, en ég hef ekki heyrt þá tillögu enn að byggja brú til Vestmannaeyja, og ég hygg, að við verðum allir dauðir, a.m.k. þeir eldri, þegar það verður gert eða um það talað í alvöru, svo að ég held, að þetta sýni enga sérstaka óvild til Vestfjarða, þó að ég hafi sagt það einhvern tíma, að sumum byggðarlögum á Íslandi henti betur samgöngur á sjó, en landi, og það er ekki svo fátt fólk í Vestmannaeyjum. Innan míns héraðs eru líka tvær eyjar, sem ég sé ekki að komist í beint vegasamband öðruvísi, en yfir sjó.

Ég skal þá aðeins víkja að liðum till. Fyrsti liðurinn er um það að ljúka Vestfjarðavegi frá Barðaströnd í Arnarfjörð á næsta ári, sem upplýst er að þýði: á þessu ári. Þetta er, eins og allir hljóta að sjá, alveg hreint fjárlagaákvæði. Hv. þm. eiga að beita sér fyrir því, ef þeir vilja koma þessu máli fram, að fá fjárveitingu til þess, að þetta megi verða. Það á alls ekki við að bera þetta fram í þáltill., þegar stendur til að fara að afgreiða fjárlög, ekki sízt þar sem hv. þm. Ísaf. upplýsir, að það sé til áætlun um, hvað þetta muni kosta. Þá er vandalítið að bera fram brtt., annaðhvort í gegnum fjvn. eða hér í þinginu, um það, að sú fjárveiting, sem talið er að þetta muni kosta, verði veitt á fjárl. þessa árs.

Annar liðurinn er um að ljúka vissri framkvæmd á þremur árum í vegamálum Vestfirðinga. Með þáltill. er ekki hægt að binda næstu þing og jafnvel ekki ríkisstj. Það mun vera hæstaréttardómur fyrir því, að þál. eru ekki bindandi. Það hefði vel getað komið til mála að leggja fram sérstakt lagafrv. um þetta, og þetta er hægt að ákveða með lögum, en tæplega með þál.

Þá er þriðji liðurinn, að láta rannsaka, hvort ekki sé hagkvæmt að vinna þessar framkvæmdir eða einstaka þætti þeirra í ákvæðisvinnu undir eftirliti vegagerðar ríkisins. Þetta er efni, sem lítt hefur verið rætt enn, en ég álit, að það sé mjög athyglisvert. En ef á að fara að taka upp ákvæðisvinnu í vegagerðum, þá sýnist mér, að það mundi verða almennt, það væri þá réttara að flytja sérstaka þáltill. um að skora á ríkisstj. að leggja fyrir vegamálastjórnina að taka þetta upp almennt, að vegalagningar yrðu framkvæmdar í ákvæðisvinnu: Það má vel vera, að þetta sé heppilegra. Það er enginn vafi á því, að menn vinna betur í ákvæðisvinnu, en í venjulegri daglaunavinnu eða þar sem þeir hafa tímakaup: Spurningin er aðeins sú: Vinna menn eins vel? En þetta er rannsóknarefni. Að því leyti er ég alveg með tillögunni hvað þennan lið snertir, að þetta sé athugað, ekki einasta fyrir Vestfirði, heldur í heild sinni, og ekki einasta um vegagerð, heldur um fleiri framkvæmdir, sem ríkið þarf að láta inna af hendi, Og svo er ábyrgðin. Það er ákvæði, sem þarf að koma í lögum í raun og veru. Hv. þm. N-Ísf, minntist á það, að í heimildagrein, 22. gr. fjárlaga, væru oft heimildir í svipaða átt og þessi till. er. En fjárlögin eru lög, og 22. gr. fjárlaga er lagagrein, og það er nokkur munur á lagagrein eða þál. Og svo er það algerður misskilningur, að ég væri neitt fyrir fram að tala á móti þessari till., þó að ég sé að benda á annmarka á henni og hún þurfi a.m.k. lagfæringar við. Mitt erindi hér í ræðustólinn var það eitt að skora á hv. fjvn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hafa fjárlögin í huga og afgreiða a.m.k. suma þætti þessarar till. í sambandi við fjárlögin.