14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (2109)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs til að ræða með nokkrum orðum um þessa till., þá var það nú aðallega þriðji liðurinn, sem mig langaði til að ræða um. Ég tel mig vita það með fullri vissu, að flm. þessarar till. meina ekkert með 1. og 2. liðnum, þeir vita ofur vel, að eftir hæstaréttardómi hafa þál. um fjárútlát eins og þessi ekkert að segja. Þess vegna er þessi 1. og 2. liður eingöngu fluttur til þess að sýnast, kannske í bezta lagi til þess að spara þeim bréf til fjvn. með ósk um að taka þessar fjárveitingar þar upp í fjárlög. Það er þægilegra að láta prenta það heldur, en skrifa það í bréfi til fjvn., því að það er ekkert annað, en fróm ósk til fjvn. í þessum tveimur tillögum. En þriðji liðurinn er allt annars eðlis. Hann fer fram á það, að ríkisstj. láti rannsaka að setja vegi í ákvæðisvinnu.

Ég vil mjög taka undir þetta. Þróunin hefur nú verið sú hér á landi, að þegar fyrst er farið að gera brýr, vegi, opinberar byggingar o.s.frv., hafnargerðir o.fl.,— þá er í raun og veru ekkert um verkfræðinga eða stofnanir, sem gátu veitt þessu forstöðu, þá komu vegamálastjóri og vitamálastjóri o.s.frv. til sögunnar og sáu um þessi verk. Nú hefur sú breyting orðið í landinu, að það eru komin mörg fyrirtæki, sem eru fullkomlega fær að gera áætlanir um og standa fyrir framkvæmdum, hverjar sem þær eru, hvort sem það eru hafnargerðir, brýr, byggingar eða vegir, og reynslan sýnir, að það er nú farið að láta í akkorð t.d. bæði hafnargerðir og byggingar til slíkra fyrirtækja og gefst ágætlega. Þess vegna held ég, að það eigi að hverfa miklu meira að því, en gert hefur verið að setja bæði brýr, hafnargerðir, vegi, byggingar á vegum þess opinbera o.s.frv. í akkorð, og ég vildi mega mælast til þess, því að þetta fer nú væntanlega til fjvn., því að þar á það heima, að hún taki hér upp í fjárlög ákveðnar upphæðir, nokkuð háar, til vegagerðar. Og ég skal ekkert segja um það, það sést, hvað hún treystir sér til, þegar þar að kemur, en ég vil mjög biðja fjvn. að athuga þennan þriðja lið, athuga það mjög gaumgæfilega, hvort ekki sé orðið tímabært að setja meginið af brúargerðum og hafnargerðum og opinberum byggingum og stærri vegaframkvæmdum í akkorð. Ég held það sé orðið það, og það var þessi líður till., sem ég vildi sérstaklega mæla með og biðja fjvn. að athuga og þó á miklu víðari grundvelli, en hann er í tillögunni, því að þarna er bara talað um vegagerð.

Annars vil ég segja það, þó að það komi nú ekki þessu beint við, að með því að taka inn nýja vegi, þó að stuttir séu, og það vegi heim á einstaka bæi, eins og annar flm. að þessari till. lagði til í frv. því í efri deild, er hann hefur lagt til, um breytingu á vegalögunum, þá greiðir það ekki fyrir því, að komið sé á vegasambandi á milli byggðarlaga, því að vitanlega kosta slíkir afleggjarar sitt, og verður því minna eftir til aðalveganna í landinu sem fleiri slíkar heimreiðir eru teknar í vegalög.

Það er sérstaklega 3. liðurinn, sem ég vildi mæla með og biðja fjvn. um að athuga hann og víkka út, taka fleira í akkorð, en vegina eina.