27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. (HV), sem talaði hér á föstudagskvöldið, hélt því fram, að sú skerðing á vísitölunni, sem um er að ræða skv. þessu frv., væri allt annars eðlis heldur en sú skerðing á kaupgreiðsluvísitölu, sem framkvæmd var með lögum þeim, sem sett voru um áramótin 1947–48 og haustið 1956, en báðar þær skerðingar hafði hv. þm. stutt, þar sem um þessar fyrri skerðingar hefði verið samkomulag við verkalýðshreyfinguna, en það væri ekki nú. Hvað snertir lögin frá áramótum 1947–48, þar sem lögboðin var niðurfærsla kaupgjaldsvísitölu um 28 stig eða 9–10% lækkun á heildarkaupi, þá mun það flestum hv. þm. kunnugt, að verkalýðshreyfingin, bæði Alþýðusambandsstjórnin og stjórnir flestra stærri verkalýðsfélaganna, var algerlega í andstöðu við þá löggjöf og þarf ekki annað en lesa Þjóðviljann frá þessum tíma til þess að sannfæra sig um það. Hvað snertir vísitöluniðurfærsluna frá 1956, tel ég, að þar hafi í rauninni ekki verið neinn eðlismunur á. Að vísu hefur það verið upplýst, að hóað hafi verið saman fundi nokkurra formanna í verkalýðsfélögunum og þeir samþykkt þetta, en auðvitað höfðu þeir ekkert umboð til þess að breyta kjarasamningum verkalýðsfélaga, þannig að ég tel, að hér sé ekki um neinn eðlismun að ræða.

Að öðru leyti hafði ég hugsað mér að víkja nokkuð að ræðum hv. 3. þm. Reykv. (EOl), bæði þeirri, er hann flutti áðan og sérstaklega þó þeirri er hann flutti hér á föstudagskvöldið. Ég mundi þó gjarnan, með tilliti til þess, að talað var þarna til mismunandi aðila, vilja skipta þessum ræðum eða sérstaklega fyrri ræðunni í það, sem ég mundi kalla verri hlutann og betri hlutann. Verri hlutinn er talaður til hinna óþroskaðri launþega og í honum felst tiltölulega lítið, sem fallið er til þess að upplýsa þessi mál, en þó get ég ekki stillt mig um það að víkja að því örfáum atriðum.

Hann talaði m. a. um hina sótsvörtu hagfræðinga, eins og hann orðaði það og líkti þeim við klerka miðaldanna, þannig að á sama hátt og klerkar miðaldanna prédikuðu nauðsyn bænagerðar til þess að öðlast sáluhjálp, þá prédikuðum við, hagfræðingar nútímans, fyrir fólkinu, að það þyrfti að taka á sig fórnir, til þess að ekki færi allt um koll í þjóðfélaginu. Ég er nú í rauninni sammála hv. þm. um það, að þetta tal um nauðsyn þess að færa fórnir sé nokkuð út í hött. Hér er um að ræða gamla plötu, sem hætt er við að fari inn um annað eyrað og út um hitt. Ég held, að það sé ekki nauðsynlegt að prédika fyrir fólkinu, að það þurfi að taka á sig fórnir. En það er annað, sem forustumönnum þjóðmálanna ber að skýra fyrir fólkinu hverju sinni og það eru þeir kostir, sem um er að velja.

Í sambandi við þetta minntist hv. þm. á gengislækkunarlögin frá árinu 1950 og þátt minn og annarra hagfræðinga í þeirri löggjöf. Ég vil nú upplýsa það, að minn þáttur í þeirri löggjöf var aðeins sá, að ég var tæknilegur ráðunautur við samningu laganna, en ekki ráðinn sem prédikari. En ef ég hefði átt að gegna síðara hlutverkinu, þá hefði ég sagt: Hvort viljið þið heldur búa við það ástand, sem er, með svörtum markaði og algerri upplausn í vörudreifingunni, eða taka það á ykkur, að gengið verði lækkað, sem vitanlega kemur til að þýða verðhækkanir? Það verður hægt að hækka kaupið líka að vísu, en ekki eins mikið. En gera má sér þá vonir um að geta losnað við það vandræðaástand, sem nú er við að etja. En hvernig var ástandið í efnahagsmálum um áramót 1949–50? Það, sem setti þá sinn svip á allt viðskiptalíf, var vöruskorturinn, svarti markaðurinn, biðraðirnar o. s. frv. Ég þekkti þá eina embættismannafjölskyldu hér í bænum, sem sagði mér þá sögu, að þar á heimilinu hefði um langt skeið ekki verið til nema ein ljósapera, sem færa varð á milli herbergja, þar sem fjölskyldan vildi dveljast hverju sinni. Ég man líka eftir því haustið 1949, að þá skrifaði formaður Framsfl., hv. þm. Str. (HermJ), grein í blað sitt, þar sem hann sagði frá því, að hann hefði tekið sér morgungöngu um eitt af hverfum bæjarins og veitt því athygli, að það voru ekki færri en sex nýjar fornsöluverzlanir, sem þar voru risnar upp. Það var einn þáttur í svarta markaðinum, að varanlegar vörur, sem þá voru lítt fáanlegar, voru seldar sem notaðar, kannske á tvöföldu eða þreföldu verði á við það, sem löglegt var. Það var ekki verzlunarstéttin, sem mun almennt hafa tekið þátt í þessu, heldur hinir og þessir aukamilliliðir, sem þarna höfðu skotið sér inn, því að það var tiltölulega auðvelt, ef maður hafði aðstöðu til þess að fá ísskáp á löglegu verði, að fara með hann heim til sín og setja hann í samband og svo var ekkert við það að athuga, þó að hann væri seldur sem notaður á þreföldu verði, því að af tæknilegum ástæðum er ekki hægt að láta verðlagsákvæði ná til vara, sem notaðar eru. Ég man einu sinni eftir því, að ég var af tilviljun á gangi í janúarmánuði snemma morguns í hörðu frosti í Austurstræti. Þar var löng biðröð fyrir utan eina vefnaðarvörubúðina, en þegar ég kom inn á Austurvöll, þá sá ég tvo góðborgara skjótast þar út bakdyramegin með fangið fullt af pinklum. Þeir höfðu fengið sig afgreidda fyrir opnunartíma, en þetta voru þeir venjulegu viðskiptahættir á þessum tíma. Það var um þetta tvennt að velja, hvort bæta mætti úr þessu og þeim óþægindum, sem það olli fólkinu og vitað var að mundu fara vaxandi, eða sætta sig við þau óþægindi, sem vitanlega hlutu einnig að stafa af gengislækkuninni.

Vitanlega olli gengislækkunin verðhækkunum. Hún olli meira að segja meiri verðhækkunum, en við höfðum búizt við, sem undirbjuggum þá löggjöf, og olli þar mestu um, að Stalín heitinn hafði ekki tilkynnt okkur um það, að í ráði væri að hefja árásarstyrjöld í Kóreu vorið 1950. En afleiðingar þeirrar styrjaldar urðu á næstu mánuðum mjög verulegar verðhækkanir á erlendum vörum, þannig að af þeim ástæðum komu verðhækkanirnar á útlendu vörunni eðlilega til að vera allmiklu meiri, en gert hafði verið ráð fyrir í gengislækkunarlögunum. Á hinn bóginn var það líka efnt, sem kunnugt er, að það tókst á tiltölulega skömmum tíma að bæta út hinum tilfinnanlega vöruskorti.

Hv. þm. minntist einnig á olíugróðann, að þar mætti taka peninga til lausnar verðbólguvandamálunum. Ég er nú ekki viss um, að þeir hv. flokksbræður hans, hv. 2. þm. S-M. (LJós) og hv. 7. þm. Reykv. (HV), telji, að sér sé mikið traust sýnt með því að nefna þetta, því að þeir hafa, eins og kunnugt er, haft með höndum olíuverðlagningu að undanförnu. Fyrir hefur það nú að vísu komið, að þeim hefur orðið á að skammta ríflega í því efni. Þarf ég ekki að segja meira um það, allir hv. þdm. skilja, hvað ég er að fara.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. [Fundarhlé.]

Herra forseti. Það voru að því leyti heppileg þáttaskil, að ég var einmitt kominn að því að ræða það, sem ég kallaði betri part ræðu hæstv. forseta d., hv. 3. þm. Reykv.Hv. þm. kvartaði um það, hversu mjög skorti upplýsingar um þjóðartekjurnar, ráðstöfun þeirra og skiptingu. Undir það get ég fyllilega tekið, En í leiðinni hjó ég eftir því, að hv. þm. lýsti eftir hinni margumtöluðu úttekt, sem lofað var fyrstu mánuðina eftir að fyrrv. ríkisstj. settist að völdum. Það vildi nú svo til, að ég varð til þess einmitt fyrir 2 árum að lýsa eftir þessari úttekt. Það virtist svo sem fsp. sú, sem ég þá gerði, færi mjög í taugarnar á þáverandi ríkisstj. og liði hennar. Fsp., þó að kurteislega væri fram borin, var í meginatriðum svarað með skætingi, en að öðru leyti var sagt, að þessi rannsókn væri í fullum gangi og úttektin mundi birtast, þó að síðar væri. Hitt mun fáa þm. hafa grunað, sem hlustuðu á þær umræður, að hv. 3. þm. Reykv., einn af forustumönnum eins þess flokks, sem stjórnina studdi, skyldi einmitt tveim árum síðar verða til þess að lýsa eftir þessari sömu úttekt.

Þá vék hv. þm. að fjárfestingarmálunum. Hann hefur í nál. sínu birt nokkrar upplýsingar úr skýrslu, sem lögð mun hafa verið fram á síðasta Alþýðusambandsþingi um þjóðartekjur Íslendinga árið 1957 og skiptingu þeirra, en þessar ráðstöfunartekjur voru 4.9 milljarðar kr.; þar af munu að vísu vera 200 millj., sem fengnar eru að láni erlendis frá, þannig að 4.7 milljarðar koma úr þjóðarframleiðslunni, en það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Samkv. skýrslunni var þessu skipt þannig, að 2.6 milljarðar eru til ráðstöfunar sem neyzla, 1.600 milljónir eru fjárfesting og 700 milljónir fara í opinberan rekstur. Svo spyr hv. þm. sem svo, með leyfi hæstv. forseta: Skyldi ekki mega spara 80-160 milljónir á fjárfestingunni, 5–10%, áður en farið væri að skera niður laun verkamanna og láglaunamannanna? Hér er að mínu áliti í rauninni vikið að mjög þýðingarmiklu atriði í sambandi við lausn efnahagsvandamálanna og ég vil segja það strax og dreg ekki á það neina dul, að ef hér væri um að ræða einhverjar aðrar ráðstafanir í efnahagsmálum, heldur en þær að gera skyndiráðstafanir til þess að forða bráðum voða, þá mundi ég segja, að á þessum grundvelli væri það, sem þetta mál ætti að leysa.

Ég hygg, að það gæti orðið til ofur lítils fróðleiks að birta nokkrar nánari tölur um þetta úr umræddri skýrslu, af því að ég tel, að með því sé varpað nokkru ljósi yfir þýðingu fjárfestingarmálanna fyrir efnahagsvandamálin og einnig varpi það ljósi yfir sambandið á milli fjárfestingarmálanna og kjaramálanna.

Samkv. þessu áttu þjóðartekjurnar að nema 29 þús. kr. á einstakling, eða um 145 þús. kr. á 5 manna fjölskyldu. Þess ber þó auðvitað að gæta í þessu sambandi, að hér er um að ræða þjóðartekjurnar á einstakling, þannig að gera má ráð fyrir því, að þegar um fjölskyldur er að ræða, þar sem aðeins einn vinnur í fjölskyldunni, verði tekjurnar náttúrlega miklu lægri en þessar 29 þús. kr. á einstakling, en vinnandi einhleypingar hafa eðlilega hærri tekjur.

Ég hef gert lauslega athugun á því, hvað þjóðartekjurnar mundu vera miklar á framfæranda eða þá, sem þurfa að sjá fyrir sér sjálfir, þ. e. a. s. til þeirra teljast ekki börn á framfærslualdri og giftar konur. Ef við þetta er miðað, þá eru tekjurnar á framfæranda um 63 þús. kr. Við sjáum af þessum tölum, sem birtar eru í nál., að það er u. þ. b. helmingur af þjóðartekjunum, sem fer í fjárfestingu og til opinberra útgjalda. Í rauninni er hér um þyngri skatt að ræða á þjóðinni hvað þetta snertir, en tíðkast mun í nokkru okkar nágrannalanda og meira að segja í Ameríku hefur það verið þannig undanfarin ár, að það eru um 2/3 af þjóðartekjunum, sem fólkið hefur til ráðstöfunar til neyzlu þrátt fyrir þær þungu byrðar, sem á Ameríkumönnum hvíla vegna vígbúnaðar og landvarna og hjálpar til annarra þjóða. Í Noregi munu það vera u. þ. b. 2/3 af þjóðartekjunum, sem varið er til neyzlu, og hefur Noregur þó verið talinn meðal þeirra landa í Evrópu, sem mesta fjárfestingu hefðu. Hér er það u. þ. b. helmingur af þjóðartekjunum, sem er varið til fjárfestingar og opinberra útgjalda.

Nú er spurningin þessi: Hvernig er nú farið að ná þessu af fólkinu? Ef tekjurnar á framfæranda eru 63 þús. kr., þá er skatturinn til opinberra rekstrargjalda og fjárfestingar um 30 þús. kr. Hvernig er farið að því að fá fólkið til þess að afsala sér þessum 30 þús. kr.? Það er ekki hægt að gefa um þetta nákvæmar upplýsingar, en nokkuð má fara nærri um það. Um það bil einn milljarður af þjóðartekjunum mun vera tekinn í skatta til þess að standa straum af rekstrarútgjöldum hins opinbera og opinberri fjárfestingu. Skattarnir í heild eru nú að vísu hærri, ef tekið er tillit til skatta vegna útflutningsuppbótanna, en það er skoðað sem tekjuyfirfærsla í þjóðarhagsreikningunum og ekki látið snerta þetta dæmi.

En segjum nú, að af þessum 63 þús. kr. sé hverjum einstaklingi eða hverjum framfæranda gert að greiða 13 þús. kr. í skatt. Það, sem er þá til ráðstöfunar, eru 50 þús. kr. til jafnaðar á alla einhleypinga, fjölskyldumenn, gamalmenni o. s. frv. Af þessum 50 þús. kr. þarf að taka þriðjunginn eða um 17 þús. kr. Nú á sér vitanlega stað sparnaður í þjóðfélaginu af frjálsum vilja. Nokkurn hluta af tekjum sínum leggur fólk fyrir og sparar í einni eða annarri mynd, og tilfellið er, að sparnaðurinn hér á landi er þrátt fyrir allt furðulega mikill, og er það ein skýringin á því, að þessi gífurlega fjárfesting skuli ekki fyrir löngu hafa leitt til óðaverðbólgu. Hitt gefur auga leið, að það eru ekki nema tiltölulega fáir, sem spara þriðjung af þó ekki nema 50 þús. kr. tekjum. Það mundi þykja sparsamur einhleypingur, sem sparaði þriðjung af þessum tekjum og fyrir fjölskyldumenn er þetta auðvitað ekki hægt, þannig að með frjálsum sparnaði næst ekki í nema hluta af því, sem þarf.

Hvernig er þá farið að ná því, sem á vantar, af fólkinu? Svarið við því er: Það er tekið með dýrtíðarmyndun. Að vísu eru skattstigarnir spenntir svo hátt, bæði skattar til ríkisins og útsvör, sem fært þykir, en það nægir þó ekki nema til þess að ná í þessar 13 þús. kr. Hitt er tekið með því, sem ég mundi vilja kalla dýrtíðarskatt, sem ef til vill mætti líka kalla laumuskatt. En hvernig er farið að því? Jú, það er gert á þann einfalda hátt, að opinberir aðilar og einkafyrirtæki, sem í fjárfestingu leggja, fá nýja peninga úr seðlabankanum. Með þeirri kaupgetu, sem þannig skapast, er svo keppt við fólkið um vöru og þjónustu á markaðinum, og á þennan hátt með aukningu dýrtíðarinnar er hægt að ná því fram, að fólkið verður að herða nægilega að sér ólina til þess, að það heldur ekki eftir nema u. þ. b. helmingi af þeim tekjum, sem til ráðstöfunar eru. Það er m. ö. o., að dýrtíðarskatturinn er notaður til þess að fullnægja því, sem þarf í fjárfestinguna fram yfir hina venjulegu skatta og fram yfir það, sem fer í frjálsan sparnað. Víst er, að launamenn gera sér það nú meira ljóst, en áður hefur verið, hvílíka byrði hér er um að ræða. Það hefur lengi verið þannig, að því hefur verið mjög haldið á lofti, að takmörkun fjárfestingar væri nokkuð, sem ekki kæmi til greina og sú grýla, sem þar var notuð, var sú, að slíkt mundi óhjákvæmilega hafa í för með sér meira eða minna atvinnuleysi. Hér er ekki nema um grýlu að ræða og að launþegar gera sér það nú í vaxandi mæli ljóst, má sjá af þeim samþykktum, sem á s. l. hausti voru bæði gerðar á Alþýðusambandsþingi og hv. 6. landsk. las hér upp og enn þá skýrar var þetta ef til vill tekið fram í ályktun um efnahagsmál, sem samþ. var á þingi opinberra starfsmanna, enda er vitanlegt, að auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu, að menn geti haft atvinnu við annað en fjárfestingu, annaðhvort neyzluvöruframleiðslu, útflutningsframleiðslu o. s. frv. og þó að auðvitað sé hugsanlegt að skera fjárfestinguna svo mikið niður, að atvinnuleysi verður, þá þarf enginn að hafa áhyggjur af því, þar eð hin stjórnmálalegu takmörk fyrir niðurskurði fjárfestingar nást ábyggilega miklu fyrr, en takmörkin fyrir því, að slíkt leiði til atvinnuleysis. En mér finnst þó fróðlegt í sambandi við fjárfestingarmálin og þýðingu þeirra fyrir efnahagsmálin almennt að gera örlitla grein fyrir því, hvernig þróun þessara mála var í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstj. Um þetta er birt yfirlitsskýrsla í umræddri skýrslu til Alþýðusambandsþingsins.

Á árunum frá 1954 til 1957 hefur neyzlan aukizt um u. þ. b. 20 millj. kr. Það er litlu meira, en nemur fólksfjölgun á þessum tíma, þannig að segja má, að neyzlan eða lífskjörin hafi staðið nokkurn veginn í stað. Fjárfestingin hefur hins vegar aukizt úr 1 milljarði og 67 millj. kr. árið 1954 upp í 1 milljarð og 616 millj. kr., eða um 50%. Hér er þó umreiknað eftir verðlagi 1957, þannig að verðlagsbreytingar eru ekki látnar hafa áhrif á það. Ef reiknað væri í krónum, þá mundi fjárfestingin sennilega hafa u. þ. b. tvöfaldazt á þessum tíma, eða á sama tíma og neyzlan stendur í stað vex fjárfestingin um 50%.

Nú má að vísu að mínu áliti segja, að árið 1954 hefur fjárfesting sjálfsagt verið meiri, en góðu hófi gegnir. En hafi svo verið, hversu gífurlega aukningu fjárfestingarinnar er þá ekki um að ræða einmitt á þessu tímabili, enda er það þannig, að sé miðað við einstakling, þá hefur það verið þannig á fyrsta valdaári fyrrv. ríkisstj., að þá minnkar neyzlan blátt áfram úr 16.800 kr. í 15.600 kr., eða um 1.200 kr. á einstakling, á sama tíma sem fjárfestingin á einstakling vex um 600 kr. og neyzla stjórnarvalda, þ. e. rekstrarútgjöld hins opinbera, um 260 kr. á einstakling? Þessi hefur þróun fjárfestingarmálanna verið á valdatíma hæstv. fyrrv. ríkisstj.

Það hefur verið sagt, að hagfræðingar væru yfirleitt andstæðingar þess, að um mikla fjárfestingu væri að ræða. Ég hugsa, að skoðanir hagfræðinga á þessum efnum séu ekki neitt frábrugðnar því, sem almennt gerist. En það er eitt, sem hagfræðingarnir gera sér ljóst, og það er það, að fjárfestingin hlýtur alltaf að verða á kostnað neyzlunnar. Það leiðir af þeim einfalda sannleika, eins og það hefur verið orðað, að það er ekki bæði hægt að borða kökuna og eiga hana til góða. Ef bóndi t. d. leggur 10 eða 20 þús. kr. af tekjum sínum í ræktun á jörð sinni eða í það að byggja peningshús, þá er það gefið mál, að hann notar ekki sömu peningana til þess að kaupa fyrir heimilistæki eða fatnað á fjölskyldu sína eða annað slíkt. Það er staðreynd, að hann verður að herða að sér ólina, ef hann gerir þetta. Þar með er auðvitað ekki sagt, að slíkt sé heimskuleg ráðstöfun.

En þá spyrja menn ef til vill sem svo: Mundi það ekki þýða meiri eða minni stöðvun nytsamlegra framkvæmda og framfara í landinu, ef minnka ætti fjárfestinguna? — Nú er það annað, sem er dálítið athyglisvert í þessu sambandi og mun hafa vakið mikla furðu erlendra hagfræðinga, sem kynnt hafa sér efnahagsmál Íslands, að þrátt fyrir það að fjárfestingin hefur verið svo miklu meiri hér, en nokkurs staðar annars staðar mun þekkjast, miðað við þjóðartekjurnar, þá standa lífskjörin eða neyzlan nokkurn veginn í stað. Það er ekki um að ræða neinn verulegan árangur í bættum lífskjörum, sem maður skyldi þó ætla að væri raunin. Neyzlan hefur á því 10 ára tímabili, sem hér er um að ræða, verið nákvæmlega óbreytt frá því 1948. Þá er hún 16.600 kr. á einstakling. Síðan verða í henni nokkrar sveiflur frá ári til árs eftir árferði o. s. frv. Einna hæst kemst hún árið 1956, þá er hún um 16.800 kr., aðeins 200 kr. eða tæplega það meiri en 1948, og lækkar svo árið eftir niður í 15.600 kr.

Hver getur nú verið ráðningin á þessari gátu, að þrátt fyrir hina gífurlegu fjárfestingu kemur árangur hennar í bættum lífskjörum ekki fram að neinu verulegu leyti? Svarið við því er það, að mjög mikill hluti af þessari fjárfestingu hlýtur að vera algerlega óarðbær og á því er í rauninni eðlileg skýring. Talsvert af þessari fjárfestingu mun þess eðlis, að hana má kalla verðbólgufjárfestingu. Það er ekki um það að ræða, að fjárfestingin eigi sér stað vegna framkvæmda til að auka framleiðsluna, heldur blátt áfram af því, að menn óska eftir að koma eignum sínum í föst verðmæti. Það hefur fyrr í þessum umræðum verið minnzt á miklar verzlunarhúsabyggingar á vegum stórfyrirtækis hér, sem gera má ráð fyrir að hafi greiðan aðgang að bönkum landsins. Ég skal ekkert segja um það, hvað mikið er um þetta. Um það hefur ekki nein skýrsla verið birt, en það er ekki annað en skynsamleg eignaráðstöfun frá hagsmunasjónarmiði þeirra fyrirtækja, sem greiðan aðgang hafa að því að taka lán, að ráðast í sem mesta fjárfestingu, aðeins til þess að auka eignir sínar með því móti, af því að vitað er, að þeir, sem hafa aðgang að því að fá peninga að láni, þurfa ekki að skila aftur nema helmingi þess raunverulega verðmætis, sem þeir fá að láni, vegna verðbólgunnar, en fasteignir og annað slíkt hækkar í verði í hlutfalli við verðbólguna. Hjá einstaklingum kemur þetta sennilega fram í því, að lagt er í meiri kostnað við húsabyggingar, en ástæða er til, m. a. af því, að vegna verðbólgunnar telja menn sig hafa efni á að byggja miklu dýrara, en þeir ella mundu gera.

En fyrir utan þessa verðbólgufjárfestingu, þá má nefna það, sem kalla mætti pólitíska fjárfestingu, því að er nú hægt að neita því, þó að vissulega hafi verið gerðar ýmsar gagnlegar framkvæmdir, að um talsvert af þeim framleiðslutækjum, sem lagt hefur verið í, er það svo, að slíkt hefur ekki verið gert fyrst og fremst í því skyni að auka framleiðsluafköstin, heldur meira eða minna í áróðursskyni, þannig að meira eða minna af þessum framleiðslutækjum hefur aldrei farið í ganginn og kannske ekki einu sinni til þess ætlazt. Ef til vill hafa einhverjir hv. þm. lesið grein í Morgunblaðinu núna fyrir fáum dögum eftir Einar Sigurðsson útgerðarmann um verklegar framkvæmdir á Seyðisfirði. Menn vita, að Einar Sigurðsson er grandvar maður, sem ekki fer með fleipur, þannig að það er ekki ástæða til þess að rengja þetta. En ætli það séu ekki margar svipaðar sögur um það sama. Þetta er skýringin á því, að þrátt fyrir þessa geysilegu fjárfestingu, sem hér hefur átt sér stað, þá er ekki um að ræða neinar verulegar bætur á lífskjörum landsmanna, auk þess sem þessi mikla fjárfesting hefur auðvitað vegna þeirra óheilbrigðu áhrifa, sem hún hefur haft á hagkerfið, dregið mjög úr framleiðsluafköstunum. Það er sennilegt, að framfarir hér á landi mundu hafa verið til mikilla muna örari, jafnvel þó að fjárfestingin hefði verið minni, ef það hefðu fyrst og fremst verið efnahagsleg sjónarmið, sem legið hefðu þessari fjárfestingu að baki og athyglisvert er það, að hjá okkar nágrannaþjóðum, sem hafa þó haft miklu minni fjárfestingu, miðað við þjóðartekjur, hefur verið um jafnar og hægar framfarir að ræða.

Ég get því verið sammála hv. þm. um það, að hér er vissulega um að ræða möguleika til lausnar efnahagsvandamálunum, án þess að það þurfi verulega að skerða hag launþeganna. En þetta verður ekki undirbúið nema á lengri tíma og það, sem máli skiptir í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir er, að það vandamál, sem þarf fyrst og fremst að leysa, verður ekki leyst með þessum hætti. Það, sem nú ber nauðsyn til að gera, er að stöðva víxlhækkun kaupgjaldsins og verðlagsin, og um það hafa allir verið sammála. Það hefur glöggt komið fram í þeim tillögum, sem stjórnmálaflokkarnir hafa gert, að þetta verður ekki gert nema með tvennu móti: annaðhvort með eftirgjöf eða með því að borga vísitöluna niður. Aðrar leiðir koma ekki til greina, um það er ekki neinn ágreiningur. Það er hins vegar ágreiningur um það, hvernig eigi að skipta þarna á milli eftirgjafar og niðurgreiðslu.

Það mundi að vísu frá tæknilegu sjónarmiði vera hægt að fara niðurgreiðsluleiðina eingöngu. En að mínu áliti tel ég, að það mundi valda almenningi meiri óþægindum en sú leið, sem lögð er til, að hér verði farin. Það verður að hafa hugfast í þessu sambandi, að það eina, sem Alþ. ræður yfir í þessu efni, er hin opinbera fjárfesting. Það er ekki vafi á því, að það er nauðsynlegt, ef lækna á verðbólguþróunina, að skera niður fjárfestinguna í heild, en að láta allan þann niðurskurð bitna á fjárfestingu á vegum ríkisins væri að mínu áliti fráleitt. Það er nauðsynlegt að dreifa honum.

Ég vil svo aðeins að síðustu fara örfáum orðum um gengismálið. Að vísu eru gengismálin þýðingarmikil í þessu sambandi. En þau vandamál, sem þar er við að etja, eru þó ekki grundvöllur meinsins, heldur það, sem ég hef nú gert grein fyrir, fjárfestingin.

Í flokksráðssamþykkt sjálfstæðismanna frá 18. des. s. l. var talað um það, að æskilegt sé að koma á einu gengi, eins og það er orðað. Nú má í sambandi við þetta vekja athygli á því, að eitt gengi er ekki sama og jafnvægisgengi. Það væri hægt að koma á einu gengi án þess að þurfa að breyta nokkru verulegu frá því, sem nú er, og án þess að það þyrfti að hafa nein teljandi áhrif á verðlagið. Hitt væri vitanlega æskilegt, að þetta eina gengi gæti um leið orðið jafnvægisgengi.

Ég tel þó, að röðin á lausn vandamálanna eigi að vera sú, að fjárfestingarvandamálin beri að leysa fyrst. Þá fyrst kemur til athugunar, hvort möguleiki væri á því að lagfæra gengisskráninguna, sem vissulega er æskilegt, og ég tel það hugsanlegan möguleika, að ef fjárfestingarmálin væru tekin réttum tökum, þá mundi vera hægt að koma fram þeim verðlækkunum, að færa mætti gengið í rétt horf, án þess að til verulegra verðhækkana þyrfti að koma.

Tilfellið er það, að þetta rangskráða gengi og hið margfalda gengi, sem við höfum búið við, er í rauninni aðeins angi af niðurgreiðslufyrirkomulaginu. Það er þannig, að innflutningurinn er seldur á mjög mismunandi gengi. Nauðsynjavörur eða vörur, sem hafa gildi í vísitölunni, eru fluttar inn á hagstæðu gengi. Svo eru aftur vissar „lúxus“-vörur, sem fluttar eru inn jafnvel á miklu hærra gengi heldur en jafnvægisgengið mundi vera. Það gegnir sama máli með þetta eins og niðurfærslurnar almennt, að út af fyrir sig má segja, að það sé hinum fátækari í þjóðfélaginu að nokkru leyti í hag, að þetta fyrirkomulag er, þannig að ef það yrði afnumið skyndilega, án þess að nokkuð kæmi í staðinn, þá mundi það gera kjör hinna fátækustu lakari en ella. Á hinn bóginn má benda á það, að allar niðurgreiðslur, hvort sem þær eru í einu formi eða öðru, eru að því leyti ópraktískar, að það verður mjög dýr aðferð til þess að bæta hag þeirra, sem verst eru settir. Þegar mjólk er t. d. borguð niður, þá kemur það öllum jafnt til góða, hvort sem þeir þurfa slíks styrks eða ekki, þannig að peningarnir mundu nýtast miklu betur í þágu hinna lægst launuðu, ef það væri í einhverju öðru formi, t. d. fjölskyldubóta o. s. frv.

Ég tel, að það komi ekki til mála að afnema niðurgreiðslukerfið, þó að það sé að öðru leyti æskilegt, hvorki almennt né hvað þetta sérstaka atriði snertir, gengisskráninguna, nema þá um leið sé búið að tryggja aðrar ráðstafanir, eins og hækkun fjölskyldubóta og aðrar umbætur á félagsmálalöggjöfinni, þannig að hagur hinna lægst launuðu verði af þeim ástæðum ekki lakari, en áður var.