14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (2112)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki rétt til að halda hér ræðu, heldur aðeins gera aths., og mér virðist, að mér muni ekki veita af því að gera aths. til þess að bera af mér sakir, þar sem hv. þm. N-Ísf. hefur farið hér með hrein brigzlyrði í minn garð, sem mér koma algerlega á óvart frá honum og mér fannst ég ekki gefa nokkurt tilefni til með þeim fáu orðum, sem ég sagði um þetta mál, hér á dögunum. Ég kalla það brigzlyrði, þegar hann tvítekur það, bæði snemma í ræðunni og í lok hennar, að mér gangi til illvilji um það, sem ég hef sagt um þetta efni. Mig undrar, að hv. þm. skuli láta sér þessi orð um munn fara, og mig undrar annað meira. Mig undrar það, að þessi hv. þm., sem hefur verið einn af forsetum Alþingis í mörg ár, skuli ekki vita betri deili á stjórnskipun og þingsköpum, heldur en það, að það sé enginn munur á þál. og lögum, hvort eru fjárlög eða önnur lög. Hann fullyrðir það hér í sinni ræðu, að fé hafi oft verið veitt með þingsályktunum.

Ég skal segja honum það, að fé hefur aldrei verið veitt með þál., aldrei. Það, sem stundum hefur verið gert með þál., er það, að Alþingi hefur heimilað ríkisstj. að leggja í hinar og aðrar framkvæmdir, sem kosta peninga, heimilað henni að gera það. Með því lýsir Alþingi yfir því, að það muni ekki víta ríkisstj., fyrir að taka fé úr ríkissjóði til þeirra framkvæmda, sem það þannig heimilar að ríkisstj. noti, en að fé sé veitt með þál. er ekki til.

Hann fór í lok ræðu sinnar að vitna í þáltill., sem hér hefði komið fram í vetur um steinsteyptan veg til Keflavíkur. Með því að lesa upp lokaorðin í þeirri till. sannar hann þetta, sem ég er að segja. Þar er skorað á ríkisstj., ef ekki sé veitt nægilegt fé á fjárlögum, að afla sér heimildar til lántöku, m.ö.o.: ríkisstj. getur ekki einu sinni tekið lán í þessu skyni eftir áliti þess tillögumanns, nema hún afli sér sérstakrar heimildar til þeirrar lántöku.

Hv. þm. vitnar hér í lögin um Austurveg, og þar er lántökuheimild. Það er ákaflega algengt, að lántökuheimild er í lögum. En eru ekki lögin um Austurveg lög, er það þingsályktun?

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. V-Ísf. hafi meint það alveg einlæglega, að hann sé fylgjandi þessu máli, að það komi vegir til Vestfjarða og þar verði gott vegasamband. En hann vildi ekki vera flm. að þessum óskapnaði, sem hér liggur fyrir, það er ósköp eðlilegt, því að hann hefur séð, að þetta var ekki rétt fram borið, að gera þál. um að veita á þessu ári, sem nú á að setja fjárlög fyrir, sérstakt fé í veg. Það hefur aldrei komið fyrir, það ég veit til. Slíkt er algerlega fjárlagaákvæði. Jafnvel um annan liðinn, að vinna verk á þremur árum, þá hefur komið fyrir, að það er sett á fjárlög fyrsta greiðsla af þremur o.s.frv. Báðir þessir liðir till., sem lúta beinlínis að framkvæmdum, eru fjárlagaákvæði á fjárlagaþingi.

Ég vildi nú biðja hv. flm. þessarar þáltill. að athuga það, að ef við allir þm., sem hér erum fyrir einstök kjördæmi, flyttum svona þáltill. um eitt og annað, sem við vildum láta gera á þessu ári í okkar héruðum, ja, til hvers væru þá fjárlögin á eftir? Mætti þá ekki ríkisstj. eins fara að flytja þál. um þær almennu framkvæmdir ríkisins, sem þurfa að vera, og mætti ekki þá afnema fjárlögin með öllu? Hv. þm. N-Ísf, getur fyrir mér kallað afstöðu mína afturhald, þröngsýni og illvilja. Ég þykist ekki hafa sýnt þessu máli neinn illvilja, og það liggur ekkert fyrir um það enn, að ég verði meinsmaður þess, að veitt sé eins og fært þykir fé til vegalagninga á Vestfjörðum á fjárlögum, þó að ég bendi á, að þetta mál væri algerlega rangt upp tekið að tveim þriðju hlutum.

Ég gat um það í seinni ræðu minni á dögunum, að ég teldi þriðja liðinn um ákvæðisvinnuna mjög athyglisverðan, og ég hefði gjarnan viljað, að hv. nefnd yrði ekki til að fella þessa till. með öllu né heldur að liggja á henni, heldur breyta till. í áskorun um það að athuga möguleika á því að taka upp ákvæðisvinnu við ýmsar opinberar framkvæmdir.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en ég læt enn í ljós undrun yfir þessari ræðu hv. þm. N-Ísf. Ég bjóst hvorki við slíkum ræðuflutningi af honum sem manni og þaðan af síður sem fyrrv. forseta hér á Alþingi.