14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (2119)

78. mál, niðurgreiðsla á innfluttum áburði

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þegar lögin um útflutningssjóð frá s.l. ári, gengu í gildi, var búið að kaupa til landsins það magn af tilbúnum áburði, þ.e. fosfórsýru- og kalíáburð, sem áætlað var að bændur mundu þurfa að nota á því ári. Að svona heppilega vildi til, bjargaði bændum frá því, að rekstrarkostnaður þeirra vegna áburðarkaupa frá útlöndum stórhækkaði þá þegar. Nú verður þessi hækkun ekki lengur umflúin. Fosfórsýruáburður og kalíáburður, sem bændur nota á yfirstandandi ári, mun hækka um a.m.k. 40%, ef ekkert er að gert, miðað við söluverð þessara áburðartegunda s.l. ár. Enn fremur er það upplýst eða fullt útlit fyrir, að það verði að kaupa um 5.000 tonn af köfnunarefnisáburði frá útlöndum vegna þess, að áburðarverksmiðjan hefur ekki getað starfað með þeim krafti, sem til var ætlazt, vegna rafmagnsskorts, og hefur því ekki getað framleitt það magn, sem búizt er við að þurfi að nota hér á landi. Þetta veldur að sjálfsögðu mörgum bændum tilfinnanlegum erfiðleikum. Það getur vel farið svo, að hækkunin knýi bændur til að draga stórlega úr notkun þessara áburðartegunda, en það væri, síður en svo æskilegt. Áburðartilraunir, sem farið hafa fram víðs vegar um land, hafa leitt í ljós, að víða er skortur á þessum efnum, fosfórsýru og kalí, í jarðveginum, og margir bændur hafa ekki gætt þess sem skyldi að sjá jarðveginum fyrir þessum áburðarefnum. Þar sem mikil brögð eru að þessu, veldur þetta mun minni sprettu og lélegri uppskeru en ella mundi verða. Engu að síður er hætt við, að úrræði bænda, þeirra sem erfiðast eiga með greiðslur, verði það að draga úr þessum áburðarkaupum.

Þegar verð á innfluttum fóðurbæti var stórhækkað s.l. vor, var því haldið fram af talsmönnum þeirrar hækkunar, að hækkunin á fóðurbætisverðinu væri beinlínis ætluð til þess að koma því til leiðar, að bændur drægju stórlega úr fóðurbætiskaupum frá útlöndum. Í þess stað áttu bændur að afla meiri og betri heyja og spara sér þannig kjarnfóðurkaupin frá útlöndum.

En eins og þegar hafa verið færð nokkur rök að, eru horfur á, að sú hækkun á útlenda áburðinum, sem nú kemur til framkvæmda í vor, verki alveg í þveröfuga átt. En hér kemur enn fleira til greina. 40% hækkun á innfluttum áburði hækkar rekstrarútgjöld bænda og kemur til að verka með fullum þunga næsta haust, þegar verð á landbúnaðarvörum verður ákveðið.

Talið er, að þessi hækkun muni valda talsverðri vísitöluhækkun, en hvert vísitölustig er áætlað að kosti um 6 millj. kr. í auknum útgjöldum.

Við flm. leggjum því til, að verð á innfluttum áburði verði greitt niður, svo að það verði sem líkast því, er það var á s.l. ári. Með þeirri ráðstöfun vinnst þrennt. Það mundi létta bændum áburðarkaupin, stuðla að betri ræktun og minni kjarnfóðurkaupum frá útlöndum og loks koma í veg fyrir hækkun vísitölunnar með þeim afleiðingum, sem allir þekkja. Loks má benda á, að yfirfærslugjald af áburði, 55%, sem lagt var á s.l. vor, kom ekki til tekna á því ári. Þetta gjald, sem nú verður innheimt í fyrsta sinn af innfluttum áburði, mundi nægja til þeirrar niðurgreiðslu, sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Að vísu er svo, að þetta gjald á að ganga í hinn svonefnda útflutningssjóð. En þetta er í raun og veru allt saman sami sjóðurinn, ríkissjóður, útflutningssjóður, þó að peningunum sé af annarlegum ástæðum stungið í tvo vasa og deilt þannig út.

Ég óska svo eftir, að þessari þáltill. verði að lokinni umr. vísað til fjvn.