04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (2128)

79. mál, lán til byggingarsjós af greiðsluafgangi ríkissjóðs

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér skilst á því, sem fram hefur komið hjá hæstv. fjmrh., að það sé naumast enn þá tímabært að ræða um það, hvernig eigi að deila þessum reytum, sem gert er ráð fyrir að kunni að vera fyrir hendi í sambandi við greiðsluafgang á s.l. ári. Og þá er auðvitað eðlilegt að bíða frekari átekta og fá athugun þess máls lokið hér í þinginu, enda ætti það að vera auðvelt undir meðferð málsins, áður en það kemur til afgreiðslu í fjvn. eða síðari umr. hér í Sþ.

Á þessu stigi málsins vil ég aðeins segja það, og það eru nokkur atriði í framsöguræðu 1. flm. þessa máls, sem gefa tilefni til nokkurra hugleiðinga. Hann hóf mál sitt með því, hv. þm. Mýr. (HS), að hann ætlaði að rekja sögu byggingarmálanna 30 ár aftur í tímann, og gerði nokkra tilraun til þess. En því miður fannst mér nú við að hlýða á þetta í fyrsta sinn, að það væri ýmislegt, sem undan væri fellt, og margt væri vantalið og þessi saga, sem þarna var rakin, gæti sagzt með nokkuð öðrum hætti, og kann að gefast betra tóm til þess, áður en meðferð þessa máls er algerlega lokið hér í Sþ.

Hann vék aftur til ársins 1928, og ég held, að naumast hafi nokkuð verið tíundað í sambandi við byggingarmálin á þessum tíma, sem hafi ekki verið þannig fram sett af hv. þm. Mýr., að það hafi aðallega verið Framsfl. og hans flokksmenn, sem hafi haft þar forgöngu mála. Nú kann vel að vera, að þeir hafi lagt ýmsum þáttum byggingarmálanna lið. Hitt er jafnvís staðreynd, að enginn annar eins dragbítur og þessi flokkur, Framsfl., og hans þm. og fulltrúar á einu sviði eða öðru, hvort sem er á þingi, í bæjarstjórnum eða fjárfestingarráðum, — enginn annar eins dragbítur hefur verið á byggingarmálum í kaupstöðum landsins og alveg sérstaklega höfuðstað landsins, og er hægt að færa fyrir því mörg rök og verður auðvelt að tíunda, ef ástæða þykir til.

Þegar horfið er aftur til ársins 1928, þá er á það að minnast í sambandi við byggingarmálin, að Framsfl. tekur á þeim árum forustu í landsmálum og fer með hana um langt skeið, forustu í stjórnmálum, og þá er það einmitt, sem algerlega er látið niður drabbast, að eina almenna lánastofnunin í landinu, sem var fyrir hendi til byggingarlána, haldi áfram að rækja starfsemi sína, sem er veðdeild Landsbanka Íslands. Það hafði þá nýskeð, að Jón Þorláksson hafði útvegað veðdeildinni erlent lánsfé, sem varð veruleg lyftistöng í byggingarmálum kaupstaðanna og sérstaklega Reykjavíkur á þessum árum og varð til þess, að þessi mál lentu ekki í algeru óefni. Og sú erlenda lántaka, um leið og hún varð gagnleg þeim, sem hennar nutu hér til íbúðabygginga innanlands, þá hefur reynslan sýnt, að hún var á engan hátt neitt varhugaverð, og hefur alltaf í sambandi við hana verið staðið í skilum. Ég tel, að það sé einn mesti ljóður á ráði þeirra manna, sem höfðu einmitt forustu í landsmálum og þá byggingarmálum, að þessi starfsemi var látin fara út um þúfur, eins og raun ber vitni. Og þegar lokið var í raun og veru þessu erlenda láni á sínum tíma og úthlutun þess, voru ákaflega fátæklegar framkvæmdir eða lánveitingar þessarar helztu almennu lánastofnunar til íbúðabygginga. Og þegar kemur fram um og yfir og eftir stríðið, þá má segja, að hún sé algerlega orðin óvirk, þessi gamla almenna lánastofnun til íbúðabygginga, sem ég hygg að eigi rætur sínar að rekja, eitthvað frá því um aldamótin.

Hv. þm. Mýr. vék að því, að fulltrúar sjálfstæðismanna í húsnæðismálastjórn hefðu á árinu 1956 lagt til, að tekin væru erlend lán til þess fyrst og fremst að veita til íbúðabygginga og ljúka þeim mörgu íbúðum, sem þá voru í smíðum. Ég held, að það hafi verið 1950, sem við sjálfstæðismenn fyrst fluttum hér á þingi frv. í sambandi við veðdeildina, sem í fólst einmitt heimild fyrir veðdeildina til þess að taka erlent lán, og höfum flutt það á mörgum þingum þar á eftir, án þess að það hafi fundið nokkurn hljómgrunn eða áheyrn hjá þm. Framsfl. hér eða flokksbræðrum þessa hv. þm. En höfuðröksemd okkar fyrir því þá og á árunum þar á eftir að taka erlend lán til þessara framkvæmda var það, að þegar kemur dálítið fram yfir 1950, þá eru þegar orðnar mjög miklar íbúðir í smíðum hér, og megintilgangurinn með slíkri erlendri lántöku hefði þá verið að ljúka þeim íbúðum. Og ég hef sýnt fram á það mörgum sinnum hér á þingi, að ef hefði á réttum tíma verið orðið við þessum óskum, þá var algerlega hægt að koma í veg fyrir allan húsnæðisskort, bæði í Reykjavík og öðrum kaupstöðum landsins og einnig annars staðar. Og sérstaklega liggja fyrir útreikningar um það, miðað við íbúðafjölgunina í Reykjavík á árunum 1953 og þar á eftir og miðað við þær íbúðir, sem þá voru í smíðum, að ef þeim hefði verið lokið þá með snöggu átaki, þó að ekki væri talið nema á 2 árum, þá væri ekki hér um neinn íbúðaskort að ræða, alls engan. Fyrir þessu liggja tölulegar sannanir og staðreyndir, og hefur margsinnis verið sýnt fram á það hér. En það var erfitt að þoka um í þessum málum, og það voru einmitt flokksbræður þm. Mýr., framsóknarmenn, sem alltaf stóðu gegn því, meðan fjárfestingarhömlurnar voru sem mestar, að fjárfestingarleyfi fengjust til þess að reisa íbúðabyggingar í Reykjavík. Og það var beinlínis talað um það af málgagni flokks þessa þm., Tímanum, að það væri stórhættulegt og þjóðfélagslega skaðleg ráðstöfun að byggja íbúðarhús í Reykjavík.

Síðan var það, að þegar sjálfstæðismenn höfðu forustu um stjórnarmyndun með Framsfl. 1953, þá beittu sjálfstæðismenn sér fyrir því, að fjárfestingarhömlunum var mjög mikið af létt einmitt í sambandi við íbúðabyggingar og alveg sér í lagi við smáíbúðabyggingar, sem menn byggðu til eigin afnota. Þetta hleypti af stað miklu átaki í þjóðfélaginu, þar sem einstaklingarnir bæði með frændaliði og stuðningi vina og vandamanna lögðu nótt við nýtan dag, eins og þm. vitnar nú til, að honum sé kunnugt um, til þess að koma upp eigin íbúðum. En hvað var það, sem meira var átalið einmitt við síðustu alþingiskosningar og í þeim átökum, sem þá voru á milli flokka, heldur en einmitt af Framsfl. það óráð, sem hefði hent Sjálfstfl. að létta á fjárfestingarhömlum til þess að gera einstaklingum kleift að byggja hæfilegar íbúðir yfir sjálfa sig og sitt fjölskyldulið? Ég hygg, að ég muni rétt, að það hafi verið talin ein höfuðmeinsemd óreiðunnar í efnahagslífinu þá. En nú kemur hv. þm. Mýr. og segir: Það á að taka 25 millj. kr. af tekjuafgangi ríkisins, og það skaðar ekkert, þó að fjárfestingin aukist í dag um þetta. — Það skyldi ekki vera, að það væri neitt í sambandi við það, að menn eru farnir að sjá, að það eru kosningar fram undan, þar sem þessi hv. þm. er ekki ábyrgur í stjórn nú? Það er betra að hafa svolítið samræmi í málflutningi sínum og afstöðu, a.m.k. þegar er verið að rekja sögu mála eins og byggingarmálanna og afstöðu flokka í þeim málum fyrr og síðar.

Þegar nú er talað um það, að sjóði þá, sem hér um ræðir, vanhagi mjög um fjármagn, og virðist ekki vera deilt um það, þá vil ég vekja athygli á tvennu. Áður en slík úthlutun ætti sér stað, ef fé væri fyrir hendi, verður að athuga fleiri hliðar á þessu máli, en fram koma í þessari þáltill., og ég á þar m.a. við, að þegar húsnæðismálalöggjöfin var sett 1955, þá var því slegið föstu sem grundvallarreglu að, að svo miklu leyti sem bæjar- og sveitarfélög legðu fram fé til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði í bæjunum, skyldi það vera meginregla, að ríkissjóður legði fram jafnmikið fé á móti. Í upphafi var þetta takmarkað fyrsta árið, 1955, og einskorðað þá við 3 millj. kr. En lögin komu ekki til framkvæmda fyrr, en síðari hluta þess árs 1955, og bæjar- og sveitarfélögin höfðu haft litla aðstöðu til að leggja fram fé til þessara framkvæmda, og var því ekki alveg að ófyrirsynju að áætla þessa takmörkun í upphafi. En meginreglan var sú, að að svo miklu leyti sem bæjar- og sveitarfélögin legðu fram fé til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, þá skyldi koma jafnt framlag frá ríkissjóði. Síðan hefur þessum takmörkunum verið haldið, þrátt fyrir það, þó að bæjar- og sveitarfélög, og þar á ég sérstaklega við höfuðstað landsins hafi, eftir að löggjöfin var komin í framkvæmd, lagt stórmikið fé af mörkum einmitt til þessa þáttar, sem var einn af þýðingarmestu þáttunum í sambandi við byggingarframkvæmdirnar í kaupstöðunum, hér í Reykjavík fyrst og fremst til þess að fjarlægja leifarnar frá stríðsárunum, útrýma braggaíbúðum og öðru heilsuspillandi húsnæði. Og við sjálfstæðismenn höfum hvað eftir annað á undanförnum þingum flutt till. um það, að takmörkunin á þessu, væri numin úr lögunum, eða þá, þegar það ekki náðist, að ríkissjóður legði fram á fjárl. hvers árs tiltekna upphæð til þess að mæta þessum þörfum bæjar- og sveitarfélaganna. Og þó að ég hafi ekki þær tölur við höndina hér nú, þá hygg ég, að Reykjavíkurbær sé, frá því er húsnæðismálalöggjöfin tók gildi, búinn að verja um 40–50 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, á sama tíma sem ég hygg að hann hafi fengið eða til Reykjavíkur hafi runnið um 10 millj. kr. í sama tilgangi, samkvæmt kafla húsnæðismálalöggjafarinnar um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Og menn sjá, hversu það er erfitt fyrir bæjar- og sveitarfélögin að standa í framkvæmdum eins og þessum, þegar algerlega bregzt þáttur ríkisvaldsins, sem þó er grundvallaður í löggjöfinni frá 1955 og virðist líka næsta eðlilegur, þar sem það vandamál, sem hér er við að etja, er ekki aðeins vandamál bæjar- og sveitarfélaganna, heldur þjóðfélagsvandamál í heild. Það hlýtur þess vegna að koma til athugunar, ef eitthvað nýtt fjármagn fæst nú til þessara hluta, að leggja áherzlu á það, að ríkið uppfylli skyldu sína til þess að veita til þeirra bæjar- og sveitarfélaga, eins og gert var ráð fyrir, jafnmikið fjármagn í þessu skyni og bæjar- og sveitarfélögin sjálf hafa lagt fram. Og það mun hallast á áreiðanlega um einar 30–40 millj. kr. bara í Reykjavík einni, eitthvað nálægt því, eins og ég sagði, ég hef ekki þessar tölur við höndina, en það mun ekki vera langt í frá, að þessum málum sé þannig varið.

Þetta var annar þátturinn, um það, hvernig ætti að verja slíku fé, sem kynni að vera til þess að mæta þeim miklu þörfum, sem hér eru fyrir hendi. Hinn þátturinn er svo sá, að ég man ekki betur, en að hæstv. fyrrv. ríkisstj. og talsmenn hennar hafi haldið því mjög skelegglega fram, að það væri þegar búið að sjá öllum þessum þörfum fyrir fullnægjandi fé. Um það voru miklar umr. þegar í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., húsnæðismálalöggjöfinni var breytt, þá breiddu þessir menn sig mjög út yfir það, að þeir hefðu gert eitthvert reginátak í þessum málum, tekið við galtómum sjóðum og lömuðu veðiánakerfi frá þáverandi fyrrv. hæstv. ríkisstj., en nú væri öllu borgið, því að hin skelegga vinstri stjórn væri búin að sjá þessum málum borgið. Og hvað eru menn svo að tala um, að þessir sjóðir séu tómir, sem vinstri stjórnin var búin að sjá fyrir þeim tekjum, sem þeir þurftu að hafa? Nei, það skýtur áreiðanlega hérna nokkuð skökku við, og ég er hræddur um, að menn hafi tekið of mikið upp í sig áður fyrr. Og ég minnist alveg sérstaklega umr., sem hér fór fram um þessi mál á siðari hluta þingsins í fyrra, að þá voru gefnar út útvarpstilkynningar og auglýsingar í blöðum um það fyrir forgöngu fyrrv. hæstv. ríkisstj., hversu hún hefði verið skelegg að útvega byggingarsjóðunum mikið fé til útlána. Og hæstv. félmrh. talaði mjög skelegglega um það hér, — það mun hafa verið í marzmánuði síðast, ef ég man rétt, — að það hefði alveg brugðið við, hvað þessum sjóðum hefði verið séð fyrir miklu fé í tíð hæstv. stjórnar, brugðið við frá því, sem áður hefði verið, meðan sjálfstæðismenn höfðu stjórnarforustuna. Ég gagnrýndi þetta mjög þá og sýndi fram á, að það mundi hafa verið varið minna fé til íbúðabygginga í tíð vinstri stjórnarinnar, heldur en ríkisstjórnarinnar þar áður, meðan sjálfstæðismenn höfðu stjórnarforustuna, og m.a. vegna þess, að það fé, sem auglýst var að útvegað hefði verið í tíð vinstri stjórnarinnar, í upphafi ársins 1958, var tekið að láni hjá seðlabankanum og væntanlegar tekjur byggingarsjóðs á árinu 1958 veðsettar til endurgreiðslu á þessu láni. Það var þess vegna mikill bægslagangur og miklar úthlutanir á íbúðalánum í janúarmánuði s.l., — það var mánuðurinn, sem kosningar fóru fram í, bæjar og sveitarstjórnarkosningar, — en svo kom það fram, sem ég sýndi þá fram á, að úr þessu mundi að sjálfsögðu draga, því þegar tekjurnar féllu til á árinu 1958, þá þurfti að endurgreiða lánin, sem búið var að taka til þess að standa undir þessum úthlutunum þá. Ég hef séð tölur um það, sem staðfesta, að það er rétt, sem ég hef sagt, að því miður hefur dregið úr lánveitingum til íbúðabygginga eftir húsnæðismálalöggjöfinni á árunum 1957 og 1958, miðað við það, sem verið hafði á tilsvarandi tímabili í tíð stjórnarinnar þar á undan, frá því í nóvembermánuði, þegar lánveitingarnar hófust 1955, og a.m.k. fram að miðju ári 1956, þegar stjórnarskiptin urðu. Annars eru þetta svo veigamikil mál, sem hér er um að ræða, að ég tel mjög eðlilegt, að hv. þm. væri gefin skýrsla um þessi mál, sem nú hafa staðið nokkurn tíma, um lánveitingarnar og framkvæmd þessara mála. Og stundum eða oftar en einu sinni hefur verið rætt um og deilt um þessi mál á þingi, sem raunar þyrfti ekki að gera svo mikið, þar sem staðreyndirnar liggja fyrir og tölulegar upplýsingar eiga að vera fyrir hendi. Ég tel það mjög æskilegt, áður en lýkur meðferð þessa máls eða annarra slíkra á þessu þingi, að það lægju fyrir upplýsingar um það, hvernig þessum málum hefur verið varið. Það bæti náttúrlega ekki úr skák fyrir þeim, sem nú eru svo illa settir, eins og fram hefur komið hjá hæstv. fyrrv. fjmrh., 1. þm. S-M. (EystJ), að þeir séu að missa íbúðir sínar vegna lánsfjárskortsins. En það gefur nokkrar upplýsingar um, hvernig orð og efndir hafa verið í þessum málum og hvernig menn hafa staðið að þeim.

Það er enginn vafi á því, að lán til íbúðabygginga hefðu auðvitað verið miklu meiri á síðasta ári raunverulega, ef ekki hefði verið búið að taka fyrir sig fram lán, eins og ég sagði áðan, hjá seðlabankanum og veðsetja væntanlegar tekjur byggingarsjóðsins til þess.

Eitt af því, sem verulega dregur úr lánsfénu til íbúðabygginganna almennt, má segja að sé það, að um leið og sparifjármyndunin í landinu er ekki eins ör og hún var áður og þegar ofan á það bætist, að rekstrarlánaþörf atvinnuveganna er miklu meiri vegna breyttra aðstæðna í efnahagslífinu, þá hafa peningastofnanirnar, bankarnir a.m.k., ekki getað lagt eins mikið af mörkum og þeir gerðu áður.

Það er ekki fleira á þessu stigi málsins, sem ég vildi segja um þetta mál. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að það er margt í sögu málsins og gangi, sem þarf að ræða betur og athuga, áður en málsmeðferðinni er lokið. Það er einnig mjög til athugunar, að svo miklu leyti sem þetta þing í þessari mynd eða einhverri annarri treystir sér til þess að útvega aukið lánsfé til íbúðabygginga, að það sé þá verulega gaumgæfilega athugað, í hvaða staði það lánsfé á að koma. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að það sé að vísu rétt, að hér er mikil þörf þeirra sjóða, sem hér eru taldir. En það eru sannarlega aðrir aðilar, sem ekki hafa síður mikla þörf fyrir þetta lánsfé, og þar á ég sérstaklega við, að það er eitt af höfuðverkefnunum í sambandi við byggingarmálin, að útrýmt sé heilsuspillandi húsnæði bæði í kaupstöðum og kauptúnum og annars staðar, þar sem það kann að vera á landinu. Og það hefur virkilega verið vangert af hálfu ríkisvaldsins, sem þyrfti að bæta úr, ef þess yrði nokkur kostur.