11.02.1959
Sameinað þing: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (2132)

82. mál, hagnýting síldaraflans

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Till. þessi á þskj. 167 er um að fela ríkisstj. að láta athuga til hlítar, hvernig þjóðin geti gert sem verðmætastan síldarafla sinn,

Þótt till. sé raunar nægilega rökstudd með grg., sem er á þskj., vil ég fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum.

Síld er talin vera einn þeirra nytjafiska, sem gera megi fjölbreytilegastar vörutegundir úr til manneldis. Sérstaklega þykir hún öðru fiskmeti hæfari til niðurlagningar og niðursuðu. Síldin, sem veiðist á Íslandsmiðum, er álitin allra síldartegunda bezt til matgerðar. Sagt er, að hvarvetna erlendis þyki það mesta og bezta auglýsingin á síldarafurðum, ef hægt er að kenna þær við Íslandssíld. Hefur Íslandssíldin þannig álíka merkingu í auglýsingum erlendra matvöruverzlana og Hólsfjallahangikjöt, Vestfjarðariklingur og Skagahákarl hér hjá okkur.

En Íslandssíldin kemur ekki frá Íslandi sem útflutningsvara þannig til reidd sem hún er eftirsóttust og verðmest. Við Íslendingar flytjum hana aðallega út sem saltað hráefni í tunnum eða breytum henni í mjöl til skepnufóðurs og lýsi til iðnaðar. Það eru Norðmenn, Svíar og Danir, sem mest gera að því að breyta Íslandssíldinni í margvíslega dósavöru. Sjálfir veiða Norðmenn og Svíar Íslandssíld, en auk þess kaupa þeir hana héðan sem saltsíld og vinna úr henni lostæti í verksmiðjum sínum til þess að auka verðmæti hennar atvinnulífi sínu til ávinnings.

Það er sannarlega orðið tímabært, að við Íslendingar förum að athuga með meiri alvöru, en gert hefur verið til þessa, hvar við stöndum í þessum efnum, og gera gangskör að því að hagnýta síldaraflann á þann hátt, að hann geti orðið okkur sem allra verðmestur. Hvers vegna eigum við að láta aðrar þjóðir hafa atvinnu og gróða af því að vinna margbreytilegar og verðháar vörur úr síldinni, sem sjómenn okkar veiða? Hvers vegna vinnum við ekki þessar vörur úr henni sjálfir?

Undanfarin 14 ár hefur síldaraflinn verið miklu minni, en hann fyrrum var, sérstaklega þegar litið er á, hve veiðitæknin er orðin mikil, — miklu meiri, en hún var. Samt var síldaraflinn upp úr sjó 1956, miðað við þunga, 22.6% og 1957 26.9% af öllum fiskafla landsmanna, eins og hann er talinn á skýrslum þau árin. Hér um bil helmingur af síldaraflanum þessi tvö ár fór í bræðslu, nálægt 3/8 í salt og 1/8 til frystingar. Mestur hluti frystu síldarinnar var notaður innanlands, í beitu, og allmikið síldarmjöl var haft í fóður handa búpeningi. Útflutningsverðmæti síldar nam um 300 millj. kr. samtals bæði árin eftir skráðu gengi. En síldarvörur hagnýttar innanlands námu um 60–70 millj. kr. Hér er því þrátt fyrir aflatregðuna um mjög stórar fjárhæðir að ræða, og ef hægt væri að margfalda nokkurn hluta þeirra með betri hagnýtingu síldarinnar og vinnslu í verðmeiri vörur til útflutnings, þá skiptir það miklu máli fyrir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Síldin, sem söltuð er niður í tunnur á sumarveiðitímanum, þyrfti að vetrinum að vinnast, vera tekin upp, lögð í dósir, reykt, soðin niður eða þá tilreidd á annan hátt fyrir matborðin, eins og áðurnefndar þjóðir gera. Auka mætti með því útflutningsverðmætin og fjölbreytni síldarafurða til neyzlu innanlands, sem líka skiptir máli. Með því skapaðist vetrarvinna í síldarverstöðvunum, og mundi það koma sér mjög vel norðan- og austanlands t.d. Niðursuða á nýrrí síld er talin tímabundnari og krefst meiri véltækni og meiri hraðvirkni. Niðursuða væri því sennilega bezt sett hér við Faxaflóa, þó að hún geti vitanlega komið Iíka til greina annars staðar.

Nýlega var sagt frá því í dagblaði, að fiskiðjuver ríkisins hefur hafið niðursuðu síldarflaka. Hefur blaðið eftir forstjóra fiskiðjuversins, að um mikla sölu geti verið að ræða á þeirri vöru, ef framleiðandi kynni sér vel smekk neytenda á hverjum sölustað og vandi vöruna fullkomlega. Samkeppnin, segir hann, að sé mjög hörð. Þarna er minnzt á undirstöðuatriði, sem gæta þarf við þennan iðnað. Ef farið er rasandi ráði án þess að þekkja smekk væntanlegra kaupenda og án þess að hafa lært vel til verkanna, þá þýðir lítið að ætla að keppa með vörurnar, þó að hráefnið hafi verið gott.

Í septemberhefti Ægis fyrra ár skrifar Sigurður Pétursson gerlafræðingur hvatningargrein um þessi efni. Ég tel ástæðu til þess að lesa hér kafla úr þessari grein, með leyfi hæstv. forseta, Sigurður segir:

„Öll byrjun er erfið. Það var við marga byrjunarerfiðleika að stríða, þegar hafin var hér hraðfrysting á fiski, og fjársterka sjóði þurfti til þess að taka á sig tjón þau, er fyrstu tilraunirnar höfðu í för með sér. Nú er hraðfrysting á fiski orðin mesti stóriðnaður á Íslandi. Svipaða þróun á niðursuðuiðnaðurinn hér vafalaust í vændum. En þar sem aðalhráefni þessa iðnaðar hlýtur að vera síld, þá stöndum vér þar verr að vígi, en með þorskinn og ýsuna, því að síld kunnum vér ekki enn að matreiða. Hér sem annars staðar verður að byrja á upphafinu. Það er hrapallegur misskilningur, að hægt sé að reka stóra nýtízku niðursuðuverksmiðju þar, sem enginn kann til verkanna nema e.t.v. forstjórinn. Ef hafin er stórframleiðsla án kunnáttu og þjálfunar meiri hluta starfsfólksins, verður varan óseljanleg vegna alls konar ágalla, og fyrirtækið verður gjaldþrota. Hjá Íslendingum rekur maður sig oft á óheppilegt sambland af kunnáttuleysi og stórhug. Það er vel hægt að hugsa sér Íslending, sem fengið hefur gómsæta síld með snapsinum hjá einhverjum kunningja sínum erlendis og strengir þess heit með sama, að svona síld skuli hann fara að framleiða. Þegar hann kemur heim, fer hann beint upp í gjaldeyrisnefnd og biður um innflutningsleyfi fyrir vélum að upphæð 2 millj., síðan fer hann í bankann og biður um lán að upphæð 5 millj., hann kemur við í stjórnarráðinu og segist geta bjargað heilu sjávarþorpi frá atvinnuleysi og basli, ef hann byggi nógu stóra niðursuðuverksmiðju í þorpinu. Stjórnmálaflokkarnir keppast hver við annan um að styðja fyrirtækið í von um atkvæði þorpsbúa, verksmiðjan er sett upp, hráefnið keypt og byrjað að vinna. En þá kemur bara í ljós, að kunnátta til verkanna er engin fyrir hendi. Eitthvað er samt sett í dósirnar, og vörunni er gefið nýtt heiti, því að svona vara hefur ekki sézt fyrr. Þá er farið að leita að markaði, en hann er alls ekki til. Þar með er draumurinn búinn.“

Þetta er kafli úr grein Sigurðar Péturssonar í Ægi s.l. ár, eins og ég sagði áðan.

Við, sem flytjum þessa till., gerum það vegna þess, að við teljum tímabært og nauðsynlegt að hefja sterka sókn í því að breyta síldinni í svo verðmætar vörur sem frekast er kostur á og hætta sem mest að flytja hana óunna úr landi. En hins vegar er okkur vel ljóst, að stórhugur í þeim efnum verður að byggjast á þekkingu og kunnáttu. Frumhlaup geta valdið miklu tjóni og afturkippum. Við teljum, að heppilegast sé, að ríkisstjórnin hafi þar hönd í bagga og annist, að færustu menn skipuleggi framkvæmdir, láti rannsaka markaðina og gera tilraunir með framleiðslu og sölu. Vel mætti gera þetta á vegum síldarútvegsnefndar og fiskimálasjóðs, sem hefur m.a. það hlutverk að leggja fram fé til tilrauna með verkun og vinnslu sjávarafurða og til markaðsleitar fyrir sjávarafurðir. En þetta verður að gera með fullri gát og fyrirhyggju, það verður að afla til þess þekkingar og kunnáttu erlendis frá. En það má ekki draga meira, en orðið er, að leggja áherzlu á athafnir í þessum efnum. Ríkið verður að láta gera þetta og bera ábyrgð á tilraunum, sjá um, að engin hroðvirkni eða fljótfærni eigi sér stað við tilraunirnar, að aflað verði nægilegrar þekkingar til verkanna erlendis frá, því að svo mikið er í húfi, að vel sé af stað farið og ekki stofnað til tjóns fyrir kunnáttuleysi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allsherjarnefndar.