20.02.1959
Sameinað þing: 28. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (2138)

88. mál, uppsögn varnarsamningsins

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Fyrir 8–10 árum var því mjög haldið að okkur Íslendingum, að heimsstyrjöld gæti brotizt út þá og þegar. Tókst með þeim áróðri að ginna þessa fámennu og vopnlausu þjóð til þess að afsala sér hlutleysi sínu, ganga í hernaðarbandalag stórvelda og ljá land sitt undir herstöðvar. Þessu var öllu komið í kring á tiltölulega skömmum tíma, enda sjálfur heimsfriðurinn sagður í húfi.

Blekkingin, krydduð sætu og súru, blíðmælum og hótunum, hafði komið að fullum notum. Árið 1951 náðu Bandaríkjamenn langþráðu tangarhaldi sinu á íslenzku landssvæði, og jafnskjótt var sem hin bráða ófriðarhætta minnkaði. Áður lá þeim mikið á, en nú og næstu missirin fóru þeir sér að engu óðslega, og tóku þá ýmsir hrekklausir menn að efast um, að þörfin á herstöðvunum hefði nokkru sinni verið mjög brýn. En seint á árinu 1952 hófust Bandaríkjamenn handa hér á landi og höfðu á árabilinu 1953–56 allmikil umsvif. Á þessu tímabili voru herstöðvar reistar á Íslandi, og urðu Bandaríkin með þeim einu útvirkinu ríkari, en alls munu þau eiga um 150 slík utan landamæra sinna.

Hervirkjagerðin dró til sín mikið innlent vinnuafl og voru að staðaldri 2–3 þús. íslenzkir starfsmenn í þjónustu hersins á þessum árum. Flykktust vinnufærir menn til herstöðvanna hvaðanæva að af landinu, enda atvinna þá víða stopul vegna skeytingarleysis stjórnar valda um hag innlendra atvinnuvega. Er vert að minnast þess nú, að á árunum 1951 og 1952 var talsvert um atvinnuleysi hér á landi.

Í stöðvum hersins og umhverfis þær myndaðist fljótlega sérstakt og heldur óhugnanlegt andrúmsloft, sem einna helzt bar keim af gullæði fyrri tíma, eins og því er lýst í sögum. Tápmiklir verkamenn og iðnaðarmenn streymdu til stöðvanna í atvinnuleit, og þangað leitaði einnig fjöldi kvenna til starfa, en í kjölfarið sigldu alls konar kaupahéðnar og annar lausingjalýður. Varð þar mörgum hált á svellinu, og lítið mun sumum hafa orðið úr skjótfengnum gróða þar.

Herstöðvavinnan á árunum 1953–56 hafði skjót og víðtæk áhrif til ills á allt þjóðlíf okkar. Innlendir bjargræðisvegir voru vanræktir, verðbólgan óx, og fjárhagskerfi þjóðarinnar gekk úr skorðum. En verst var þó sú siðferðilega spilling, sem þetta íslenzk-bandaríska gullæði skapaði, kapphlaupið um gróðann, skriðdýrshátturinn og annað af því tagi. Skal sú raunasaga ekki gerð að umtalsefni nú, enda mun hún öllum hér í fersku minni.

Eins atriðis vil ég þó geta í sambandi við niðurlægingu þessara ára, því að það fannst mér alvarlegra, en flest annað. Eftir því sem lengur leið á þetta dollaratímabil, gætti þess meir, að íslenzkir menn voru að missa trúna á þjóðina og landið. Sú hætta var augljós, að þjóðin glataði smám saman sjálfstrausti sínu. Var engu líkara, en reynt væri með vilja að læða því inn í vitund þjóðarinnar, að hún væri ekki fær um að sjá sjálfri sér farborða. Tónninn var þessi: Það verður atvinnuleysi, ef herinn fer. Íslendingar geta ekki staðið á eigin fótum efnahagslega, og þeir geta ekki lifað menningarlífi á eigin framleiðslu: Það þarf stríð eða hersetu, til þess að þeim vegni vel.

Slíkra hjáróma radda gætti í vaxandi mæli á árunum 1953–56, og var ekki grunlaust um, að sá sónn væri frekar magnaður, en veiktur í vissum pólitískum herbúðum.

Þrátt fyrir sterkan áróður, skjótfenginn gróða og sýndarvelmegun hernámsins tókst þjóðinni að halda vöku sinni og láta ekki glepjast til fulls. Að vísu blinduðust margir einstaklingar í þessu dollaraæði, en hinir voru fleiri, sem sáu í tíma, hvert stefndi, og vöruðu við hættunni. Reynsla þessara ára færði hugsandi og þjóðhollum mönnum heim sanninn um, að hersetan er skaðleg þjóðinni og að sjálfsögðu því hættulegri sem hún varir lengur og umsvif hersins eru meiri. Þessi reynsla veitti kröfunni um brottför hersins aukinn kraft, og varð nú ekki lengur fram hjá þeirri kröfu gengið.

Á öndverðu ári 1956, voru mótmælin gegn dvöl hersins í landinu orðin svo öflug og þungi almenningsálitsins í því efni svo mikill, að tveir þeirra þriggja stjórnmálaflokka, sem leyft höfðu hersetuna og varið hana, létu undan síga, enda voru þá alþingiskosningar í nánd. Þannig snerust Alþfl. og Framsfl. á sveif með þeim þjóðhollu öflum, sem barizt höfðu gegn hersetu á Íslandi. Á Alþingi birtist stefnubreyting þessara flokka í ályktunartill. um afstöðu Íslands í utanríkismálum og um endurskoðun varnarsamningsins. Fjallar síðari hluti þeirrar till. um hersetuna og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af breyttum viðhorfum, síðan varnarsamningurinn frá 1951 var gerður, og með tilliti til yfirlýsingarinnar um, að eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum, verði þegar hafin endurskoðun á þeirri skipan, sem þá var tekin upp, með það fyrir augum, að Íslendingar annist sjálfir gæzlu og viðhald varnarmannvirkja, þó ekki hernaðarstörf, og að herinn hverfi úr landi. Fáist ekki samkomulag um þessa breytingu, verði málum fylgt eftir með uppsögn samkv. 7. gr. samningsins.“

Þessi till. hlaut samþykki Alþingis 28. marz 1956, og greiddi henni atkvæði 31 þingmaður, en 18 voru á mói. Gerðist þetta réttum þrem mánuðum fyrir síðustu alþingiskosningar.

Enginn mótmælir því, að þrír þeirra stjórnmálaflokka, sem fulltrúa eiga á Alþingi nú, háðu kosningabaráttu sína 1956 undir kjörorðunum: Herinn burt. — Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hétu því hvert fyrir sig að styðja framgang þess máls á komandi kjörtímabili. Þegar þessir flokkar síðan mynduðu ríkisstj. að kosningum loknum, var það eitt atriða í málefnasamningi þeirrar stjórnar að framkvæma ályktun Alþingis frá 28. marz. Endurskoðun samningsins átti samkv. orðalagi ályktunarinnar að hefja þegar í stað. En nokkur dráttur varð samt á því. Var ákveðið, að viðræður um samninginn milli íslenzkra og bandarískra stjórnarvalda skyldu byrja um miðjan nóvember 1956. Þær hófust að vísu 20. nóv., en urðu heldur endasleppar, því að þeim var slitið fjórum dögum síðar. Urðu hér snögg og gagnger þáttaskil, því að nú var það tilkynnt sem boðskapur íslenzku ríkisstj., að viðræðurnar hefðu leitt til samkomulags um, að enn væri þörf varnarliðs á Íslandi um óákveðinn tíma.

Fyrr um haustið höfðu hörmulegir atburðir gerzt í heiminum. Bretar og Frakkar hófu stríð á hendur Egyptum með fólskulegum árásum, og í Ungverjalandi varð bylting, sem síðan var kæfð með blóðugri íhlutun Rússa. Þessir atburðir voru um hríð taldir ógna heimsfriði, enda ollu þeir miklum æsingum með þeirri afleiðingu, að stríðsóttinn lagðist eins og mara á þjóðirnar. Þannig var jarðvegurinn, þegar viðræðurnar um varnarsamninginn hófust í Reykjavík, sérlega hentugur þeim, sem aldrei höfðu í hjarta sínu óskað þess, að herinn færi. Þeir höfðu fengið góða átyllu.

Ófriðarblikan haustið 1956, varð fulltrúum Alþýðuflokks og Framsóknar í ríkisstj. afsökun, fyrir breyttri stefnu í hersetumálinu. Hve þung á metunum sú afsökun reyndist, skal ósagt látið, en staðreynd er það, að í nóvember 1956 brugðust þessir flokkar því heiti, sem þeir höfðu gefið þjóðinni hálfu ári áður. Ófriðarblikan, sönn eða ímynduð, var notuð sem átylla.

Það er á allra vitorði, að ráðherrar Alþb. áttu engan hlut að viðræðunum um varnarsamninginn og voru í öllum höfuðatriðum annarrar skoðunar, en samráðherrar þeirra. Lýstu þeir því yfir þegar í stað, að þeir ættu engan þátt í orðalagi eða framsetningu þeirra orðsendinga, sem milli ríkisstjórnanna fóru um frestun endurskoðunar samningsins, og að þeir væru andvígir forsendum þeirrar frestunar, eins og þær voru greindar. Hins vegar kváðust þeir geta fallizt á eftir atvikum, að endurskoðun yrði frestað um nokkra mánuði. Í þessari yfirlýsingu, sem ráðherrar Alþb. gáfu út í byrjun desember 1956, segir svo m.a.:

„Skipun fastanefndar þeirrar, sem um getur í orðsendingunum, erum við hins vegar andvígir og teljum hana þarflausa með öllu, þar sem hér er aðeins um bráðabirgðafrestun að ræða, enda teljum við, að ekki komi til mála, að frestur þessi verði notaður til nýrra hernaðarframkvæmda. Munum við samkv. þessu vinna að því, að fljótlega verði hafin endurskoðun varnarsamningsins samkv. ályktun Alþingis 28. marz 1956 með það fyrir augum, að herinn fari af landi burt.“

Í samræmi við þennan yfirlýsta vilja sinn störfuðu ráðherrar Alþb. innan ríkisstj. samfellt í tvö ár eða þar til stjórnin sagði af sér í des. s.l. Verður sennilega síðar gerð nánari grein fyrir þeim þætti þessa máls.

Um afstöðu Alþb. þarf enginn að efast. Hún hefur frá upphafi verið sú, að undanbragðalaust bæri að standa við gefin fyrirheit um brottför hersins. Samþykkt Alþingis frá 28. marz 1956 bar vinstri stjórninni að framkvæma og tíminn til þess var yfirstandandi kjörtímabil. Að þessu unnu ráðherrar Alþb. í ríkisstj., og að þessu vann þingflokkur þess meðal samstarfsflokkanna. En hér stóð Alþb. eitt gegn samstarfsflokkunum tveimur, og það gerði gæfumuninn. Síðan í nóvember 1956 hafa Alþfl. og Framsókn ekki mátt heyra það nefnt að efna hátíðlega gefin loforð sín um brottför hersins.

Þegar liðið var tæpt ár frá frestuninni og ekkert bólaði á hugarfarsbreytingu hjá ráðherrum Alþfl. og Framsóknar, sneri þingflokkur Alþb. sér bréflega til þingflokkanna hinna, sem aðild áttu að ríkisstj. Það bréf var dags. 1. nóv. 1957 og er prentað sem fskj. með till., sem hér er til umræðu. Leggur þingflokkurinn til, að ríkisstj. tilkynni Bandaríkjastjórn fyrir nóvemberlok, að endurskoðun samningsins frá 1951 sé hafin með brottför hersins úr landinu að takmarki. Svör bárust þá frá báðum aðilum og voru mjög á sama veg. Töldu þeir horfur í alþjóðamálum enn ekki nægilega góðar til þess að hefja viðræður á ný um brottför hersins.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum til viðbótar um aðgerðir Alþýðubandalagsmanna í hersetumálinu. Á þskj. 181 er birt bréf frá ráðherrum Alþb. til forsrh. Í bréfinu, sem dags. er 8. nóv. 1958, segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú förum við þess á leit, að málið verði tekið upp af ríkisstj., svo sem samningar standa til um. Teljum við, að úr því verði nú að fást skorið, hvort samstarfsflokkar okkar í ríkisstj. hugsa sér að standa við þetta atriði stjórnarsáttmálans eða ekki.“

Við þessu bréfi fékkst aldrei neitt svar, enda sagði ríkisstj. af sér tæpum mánuði síðar. Alþýðubandalagið hefur nú ekki lengur aðstöðu til að vinna að því innan ríkisstj. eða meðal samstarfsflokka, að ályktun Alþingis frá 28. marz 1956 verði framfylgt. Þess vegna er það ofur eðlilegt og í fullu samræmi við fyrri viðleitni, að við þm. Alþb. leggjum hér og nú fram tillögu um, að staðið verði við fyrirheit, sem þjóðinni var gefið í lok síðasta kjörtímabils. Felst sú krafa í till., að ríkisstj. skuli tilkynna stjórn Bandaríkjanna nú þegar, að sex mánaða frestur sá, sem um ræðir í 7. gr. varnarsamningsins, sé hafinn og að síðan skuli málinu fylgt eftir með brottför alls herafla úr landinu að takmarki, eins og ráð er fyrir gert í ályktun Alþingis frá 1956. Við Alþýðubandalagsmenn sökum fyrri samherja okkar um brigð í hersetumálinu. Þeir hafa ekki staðið við þau heit, sem þeir gáfu. Sú afsökun, sem þeir færðu fram, kann að nægja þeim sjálfum og öðrum þeim, sem aldrei vildu herinn burt. Í augum allra annarra er hún einskis virði. Ef umbrot og ýfingar einhvers staðar úti í heimi eiga að vera ákvarðandi um það, hvort hér skuli vera her eða ekki, þá jafngildir það því í reyndinni, að á Íslandi skuli vera her um aldur og ævi. Slík viðmiðun er óraunhæf og til einskis nýt annars, en að blekkja.

Sumir óvildarmenn Alþb. hafa ekki gert svo ýkjamikið úr þeirri kollsteypu, sem Alþýðuflokks- og framsóknarmenn tóku í þessu máli í nóvember 1956, en hafa hins vegar klifað á því, að Alþb. hafi brugðizt. Að sjálfsögðu er þetta áróður einn, sem á ekkert skylt við staðreyndir í málinu, og hefur þegar verið sýnt fram á það. Um hitt má kannske deila, hvort Alþb. hafi í öllu farið rétt að, og hefur því t.d. verið haldið fram, að ráðherrar þess hefðu átt að fara úr ríkisstj., þegar endurskoðun varnarsamningsins var hætt. Það gerðist þó ekki og var ástæðan sú, að málinu var ekki talið betur borgið með þeirri aðgerð, nema síður væri. Aðild að ríkisstj. gat aðeins bætt aðstöðuna til að þoka því áfram, sem Alþb. barðist fyrir. Auk þess voru önnur stórmál, sem þá biðu úrlausnar vinstri stjórnarinnar og Alþb. hafði áhrif á. Má þar til nefna stækkun fiskveiðilandhelginnar, sem ég er sannfærður um að enn í dag væri óframkvæmd, ef Alþb. hefði gengið úr ríkisstj. í desember 1956.

Herinn situr enn í landinu og engin ákvörðun tekin um brottvísun hans. Þetta er raunveruleg staðreynd og fyrrverandi ríkisstj. til mikillar vansæmdar.

En er þá ástandið hið sama og var fyrir 28. marz 1956? Nei, og fer því raunar fjarri. Ég gat þess lítillega í upphafi máls míns, hvernig umhorfs var hér á landi næstu árin, áður en vinstri stjórnin tók við völdum. Herstöðvarnar soguðu til sín vinnuaflið, og að sama skapi forsómuðust innlendir atvinnuvegir. Fólk streymdi til Suðurnesja í hamingjuleit, svo að víða lá við landauðn. Það var dansað í kringum gullkálfinn á Keflavíkurvelli, sukk og óreiða magnaðist, og hermangið komst á hátind, en að sama skapi þvarr sjálfstraustið, trúin á landið og gæði þess.

Á öllu þessu varð óneitanlega veruleg breyting árið 1956 og síðan. Þá dró snögglega úr framkvæmdum herstöðvanna. Íslenzku þjónustuliði, fækkaði þar um meira en helming á skömmum tíma. Innlendir atvinnuvegir tóku við þessu fólki, og til atvinnuleysis kom ekki, eins og verið hafði þó áður en herstöðvavinnan komst í algleyming. Hermangið varð svipur hjá sjón, og — það, sem ekki var minnst um vert — raddirnar um vanmátt Íslendinga til að standa á eigin fótum þögnuðu að mestu.

Hvað olli nú þessum breytingum? Vafalaust átti samþykkt Alþingis 28. marz 1956 sinn þátt í þeim, og hið sama má segja um það heit þriggja stjórnmálaflokka landsins að vísa hernum burt. En drýgstan hlut að þessu átti þó vinstri stjórnin. Hún stóð gegn því, að hafnar yrðu á ný stórframkvæmdir á vegum hersins, og hún einbeitti sér að því að koma framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar aftur á réttan kjöl. Í þessu efni tókst vinstri stjórninni á 21/2 árs valdatíma sínum að vinna mikið verk og þarft. Gjaldeyristekjur frá hernum fóru ört minnkandi og voru t.d. 66 millj. kr. lægri 1957 en 1956, og tók eðlilega nokkurn tíma að bæta upp það tap með auknum útflutningi. Sé tekið tillit til þess skamma tíma, sem vinstri stjórnin hafði til umráða, má segja, að henni hafi tekizt vel í þessu efni, eins og í pottinn var búið.

En þótt skaðleg áhrif hersetunnar hafi að vísu farið þverrandi á síðustu árum, þá væri það hættulegur misskilningur að telja þau úr sögunni. Hersetan skerðir enn fullveldi Íslands. Erlent stórveldi nýtur hér landsréttinda, sem óviðurkvæmilegt er að það hafi. Frá bækistöðvum hersins síast jafnt og þétt óholl áhrif inn í íslenzkt þjóðlíf og sýkja það. Enn er meinið þar, sem það var, veldur hægfara tjóni og getur hvenær sem er blossað upp á ný. Ef afturhaldið í landinu nær fullum yfirráðum; kann það að sjá sér hag í samningum um nýjar stórfelldar hernaðarframkvæmdir. Hættan er því engan veginn liðin hjá. Það er hún þá fyrst, þegar herinn er allur á burt.

Fjöldi Íslendinga trúði því lengi vel, að erlendur her gegndi því hlutverki hér að vernda og verja þjóðina, sem byggir landið. Var ekki óeðlilegt, að margir tryðu þessu, enda fullyrtu það málpípur hersins æ ofan í æ. Herinn var nefndur varnarlið og hlutverk hans það eitt að verja landið árásum. Einhvern veginn fór þeim samt smáfækkandi, sem þessu trúðu, þrátt fyrir óþreytandi áróður. En þessi trú dó ekki út að fullu fyrr en á s.l. hausti, þegar ráðizt var með vopnavaldi á Íslendinga. Þá opnuðust augu þeirra, sem lengst höfðu haldið í þessa skoðun. Vina- og bandalagsþjóðin Bretar hóf stríð á hendur okkur og sendi hingað sinn fræga flota. Í nærri hálft ár hefur vopnlaus smáþjóð reynt að verja landhelgi sína ágangi erlendra veiðiþjófa, sem njóta fulltingis herskipa af fullkomnustu gerð. Hvar eru nú hinir göfugu verndarar okkar, bandaríski herinn á Íslandi? spurðu mennirnir, sem í lengstu lög trúðu því, að herinn væri hér Íslendingum til verndar. Ekkert svar barst annað en það, sem lá í þögninni. Bandaríski herinn hreyfði hvorki legg né lið og hefur ekki gert til þessa dags. Nú dylst það ekki lengur neinum, sem vill sjá, að her er ekki hafður á Íslandi til að verja Íslendinga árásum, heldur bandarísku þjóðina. Ísland er ekki annað en útvirki Bandaríkjanna, eitt af 150 sömu tegundar utan landamæra þeirra, og ætlað því stórveldi einu til sóknar og varnar í næstu stórstyrjöld. Í ófriði, segir bandarískur herfræðingur, verka slík útvirki sem segulstál, er dregur að sér árás óvinarins og dreifir henni. Mönnum í Bandaríkjunum getur reynzt nokkur vernd í herstöð á Íslandi, en þjóðinni, sem hér býr, boðar hún í ófriði tortímingu og dauða.

Yfirlýsingin um, að eigi skuli vera her á Íslandi á friðartímum, verður að öðlast gildi. Það er þjóðinni nauðsyn, eigi hún ekki smám saman að glata sjálfri sér. Þetta getur engum dulizt, sem það hugleiðir. Hik og hálfvelgja, fyrirsláttur og hártogun eiga ekki við í þessu máli. Menn geta verið meðmæltir hersetu hér á landi og látið þá skeika að sköpuðu um framtíðarheill þjóðarinnar, en þeir geta ekki í senn varið hersetu og gætt þjóðarsóma.

Ég hygg, að nú sé hentugur tími til endurskoðunar og uppsagnar varnarsamningsins. Nú er næg vinna handa öllum við innlend störf og góður markaður fyrir útflutningsvörur okkar. Við erum óháðari fjármagni hersins, en við vorum fyrir þrem árum, og sjálfstraust þjóðarinnar hefur vaxið. Ófriðarblikur eru nú naumast svo stórar, að hægt sé að skýla sér á bak við þær. Herverndin brást okkur sannarlega það eina sinn, er á hefur þurft að halda. Allt á þetta að geta auðveldað mönnum að stíga það spor, sem nú er mikilsverðast í ævarandi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, það spor að láta herinn fara burt úr landinu.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til, að umr. þessari verði frestað og málinu vísað til hv. utanrmn.