15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (2145)

88. mál, uppsögn varnarsamningsins

Jónas Árnason:

S.l. föstudag skýrði dagblaðið Tíminn frá því, að aðfaranótt laugardagsins hefði götulögreglan komið að húsi einu hér í bænum og krafizt inngöngu, þar sem hún taldi sig hafa vissu fyrir því, að hermenn á Keflavíkurflugvelli stunduðu saurlifnað með íslenzkum stúlkum í húsinu og hefðu fengið þar herbergi á leigu til frjálsra afnota. Þar eð lögreglumennirnir gátu ekkí sýnt skilríki, er heimiluðu þeim að fara inn í húsið til rannsóknar, neytti húsfreyjan heimilisréttar og meinaði þeim inngöngu. Lögreglumennirnir stöldruðu hins vegar við á gangstéttinni fyrir utan, og skömmu síðar komu nokkrir bandarískir hermenn út úr húsinu í fylgd með íslenzkum stúlkum. Blaðið skýrði frá því, að lögreglan hefði staðfest, að frásögn þessi af atburðinum væri sannleikanum samkvæm. Það hefur að vísu lengi verið altalað mál, að hermenn af Keflavíkurflugvelli dveldu hér í bænum heilu næturnar, ef þeim byði svo við að horfa. En þarna hefur það sem sé verið staðfest af sjálfri lögreglunni.

Fyrir nokkrum árum var mikið talað um reglur, sem þáv. utanrrh. hafði sett um ferðir hermanna til Reykjavíkur og dvalir þeirra hér í bænum. Að vísu fengust þær reglur aldrei birtar opinberlega, en eftir því sem næst varð komizt, voru þær á þá leið, að hermennirnir skyldu aðeins hafa leyfi til að fara til bæjarins tvisvar í mánuði og þá því aðeins, að þeir hefðu sótt um leyfi til þess sérstaklega. Enginn hermaður skyldi dveljast það lengi í bænum, að hann væri ekki aftur mættur á herstöðinni í síðasta lagi kl. 10 að kvöldi, nema á miðvikudögum, munu þeir hafa haft leyfi til að dveljast hér í bænum tveim klukkustundum lengur, eða þannig að þeir væru mættir á herstöðinni aftur kl. 12 á miðnætti í síðasta lagi. Enginn hermaður skyldi sem sagt nokkru sinni hafa leyfi til að dveljast næturlangt hér í Reykjavík.

Víst er um það, að eftir að þessar reglur voru settar, breyttist ástandið mjög til hins betra, hermenn sóttu miklu minna til bæjarins, og þar með dró úr þeirri spillingu, sem fylgdi heimsóknum þeirra hingað. En með nýjum ráðherrum koma nýir siðir, og nú er svo að sjá sem allar hömlur í þessum efnum séu úr sögunni. Eftir þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir, staðfestar af sjálfri lögreglunni, hljóta menn því að spyrja: Hefur núv. utanrrh, afnumið þær reglur um ferðir hermanna til Reykjavíkur og dvöl þeirra í bænum, sem settar voru fyrir nokkrum árum? Eða eru þær reglur enn í gildi og hermennirnir þar með staðnir að þeirri ósvífni að virða þær að vettugi ?

Er hæstv. utanrrh. ekki staddur í húsinu? Ég vildi mælast til þess, að hann yrði beðinn að mæta hér, ef nokkur tök eru á, vegna fyrirspurnar, sem ég vil leggja fyrir hann.

Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um þetta hjá þeim aðila, sem hlýtur að vera þaulkunnugur málinu, en það er svonefnd varnarmáladeild. En ég hef því miður ekki haft erindi sem erfiði. Ég hringdi í deild þessa í fyrradag og bað um að fá að tala við formann varnarmálanefndar, en stúlkan sagði mér, að hann væri á fundi suður á Keflavíkurflugvelli. Þá fékk ég samband við fulltrúa hans, en hann sagðist engar upplýsingar geta gefið mér að svo stöddu, enda væri hann á fundi. Ég hafði orð á því, að það gæti varla tekið mjög langan tíma að veita mér lauslegar upplýsingar um þær reglur, sem gilda um ferðir hermanna til Reykjavíkur, en maðurinn svaraði því þá til og spurði, hvort menn ættu ekki rétt á að fá fundarfrið, ég gæti reynt að hringja aftur um 5-leytið. Svo hringdi ég aftur um 5-leytið, og þá sagði stúlkan mér, að fulltrúinn væri farinn á annan fund í utanrrn. Í gær hringdi ég svo aftur og spurði nú enn um formann varnarmálanefndar, og stúlkan sagði mér, að hann væri aftur farinn á fund suður á Keflavikurflugvöll. Þá gafst ég upp við að eltast við þessa önnum köfnu fundarsetumenn og ákvað að snúa mér með eftirgrennslanir mínar beint til ríkisstj. hér á Alþingi. — Eru nokkrar upplýsingar komnar um utanrrh.? (Forseti: Það er verið að athuga, hvort hann getur komið.) Það er bezt, að ég bíði með þessa fyrirspurn þangað til. (Forseti: Það er nú staddur hér einn hæstv. ráðh., sem getur —) Ja, það er bezt, að maður taki þann kost, sem næstbestur er, að beina þessari fyrirspurn til þess hæstv. ráðherra, sem staddur er í salnum. Ég vil sem sé spyrja hæstv. ráðherra, hvort honum sé kunnugt um það, að hæstv. utanrrh. hafi afnumið þær reglur, sem giltu um ferðir hermanna til Reykjavikur og dvöl þeirra hér í bænum, eða hefur hann sett nýjar reglur og þá hverjar?

Það mætti tala langt mál um þá spillingarhættu, sem okkur Íslendingum stafar af hinum bandarísku herstöðvum, og enn lengra mál um þá lífshættu, sem okkur stafar af því. Ég mun þó ekki fara ýtarlega út í það atriði að þessu sinni. En ég vil leggja áherzlu á það, að eins og nú háttar um hernaðartæknina, getum við Íslendingar ekki verið öruggir um áframhaldandi þjóðartilveru okkar, um áframhaldandi líf okkar, nema friður haldist í heiminum. Afstaða okkar til herstöðva hlýtur þess vegna að mótast af því, hvort við teljum, að þær efli málstað friðarins eða veiki hann. Okkur ber því umfram allt að afla okkur þeirrar þekkingar, sem gerir okkur kleift að svara rétt þessari spurningu: Hvað horfir til friðar í heiminum?

Gera nú ekki allir Íslendingar sér sérstakt far um að finna hið rétta svar við þessari spurningu eða a.m.k. þeir, sem bera mesta ábyrgð, stjórnmálamennirnir? Nei, því miður er ekki svo að sjá. Furðumargir íslenzkir stjórnmálamenn hafa tekið upp þann háttinn að svara þessari spurningu með því að vitna í hina og aðra hershöfðingja úti um heim. Þeir láta sem sé stríðsmenn svara fyrir sig um frið. Maður er nefndur Lauris Norstad. Á undanförnum árum hafa myndir af þessum manni birzt svo oft í málgögnum þriggja íslenzkra stjórnmálaflokka, að vafamál er, hvort myndir af helztu flokksforingjum hafi birzt þar oftar, og áreiðanlega ekki myndir af forseta vorum né biskupi, enda er hér á ferðinni helzti heimildarmaður umræddra blaða um það, hvað til friðar horfl í heiminum. En hver er Lauris Norstad? Mér þætti gaman að vita t.d., hve mikið þingmenn þessara stjórnmálaflokka, sem gera sér svo títt um þennan mann, vita raunverulega um hann. Mig grunar sem sé, að sumir þeirra viti næsta fátt um hann. Eða hefur hann t.d. getið sér eitthvert sérstakt orð fyrir gáfur, þannig að menn geti skilyrðislaust treyst skoðunum hans varðandi það, sem sé mannkyninu fyrir beztu? Hætt er við, að spekingurinn Bernard Shaw hefði a.m.k. dregið það í efa, en hann hélt því fram sem kunnugt er, að hæfilegur gáfnaskortur væri frumskilyrði þess, að menn gætu orðið miklir hershöfðingjar.

Mig grunar sem sé, að sumir hv. þm. þeirra stjórnmálaflokka, sem gera sér svo títt um þennan mann, viti bókstaflega ekkert um hann annað en það, að hann er yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins. En það er líklega alveg nóg. Af því að hann er yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, hlýtur hann að geta sagt okkur, hvað til friðar horfi í heiminum, hvað sé mannkyninu fyrir beztu. Og hvernig vill nú Lauris Norstad skipa málum í heiminum? Hann vill ekkert draga úr vígbúnaði. Hann vill ekki banna kjarnorkuvopn. Hlutleysi einstakra þjóða í átökum stórveldanna er eitur í hans beinum. Hann vill auka vígbúnað. Hann segist ekki munu hika við að láta kasta kjarnorkusprengjum á andstæðinga sína að fyrra bragði, ef í það færi. Hann opnar aldrei sínar einbeittu varir á opinberum vettvangi án þess að ala á úlfúð og hatri í heiminum. Hann hótar sem sé öllu illu í nafni friðarins. Þetta er sem sé sá maður, sem málgögn þriggja íslenzkra stjórnmálaflokka auglýsa að staðaldri sem óskeikulan páfa í ægilegustu vandamálum mannkynsins. En þessar skoðanir hershöfðingjans eru raunar í fullu samræmi við eðli málanna. Það er eðlilegt, að einbeittur hershöfðingi hneigist gegn afvopnun. Afvopnun er í augum hershöfðingja það sama og veiðarfæraskortur í augum útgerðarmanns. Ég er meira að segja sannfærður um það, að í augum margra hershöfðingja er friður það sama og misheppnuð vertíð í augum útgerðarmannsins. Fátt er því eins háskalegt og að treysta hershöfðingja skilyrðislaust fyrir tilveru sinni, og þess vegna finnst mér það vægast sagt voðalegt til að vita, hve mikil dýrð stendur um þennan Lauris Norstad í umræddum málgögnum íslenzkra stjórnmálaflokka. Og sérstaklega hefur mér fundizt átakanlegt, þegar Tíminn, sem telur sig vera málgagn íslenzkra bænda, túlkar skoðanir hans eins og einhverja æðri speki. Það er kannske af því, að ég á sérstaklega erfitt með að koma auga á það samband, sem gæti verið á milli hagsmuna þessa hershöfðingja og friðsamra íslenzkra bænda. Kannske stafar það líka af rómantísku viðhorfi til hinnar gömlu bændastéttar, sem löngum átti á að skipa glæsilegustu forsvarsmönnum heilbrigðrar skynsemi á Íslandi.

Þegar framsóknarmenn láta Lauris Norstad segja sér, hvað til friðar horfi í heiminum, þá finnst mér það álíka og þeir létu t.d. hv. þm. G-K. segja sér, hvernig efla beri samvinnuhreyfinguna á Íslandi. Þeir eru sem sé báðir fulltrúar hinnar skefjalausu frjálsu samkeppni, hvor á sínu sviði, Lauris Norstad og Ólafur Thors. Ég vil þó biðja þann síðarnefnda afsökunar á samlíkingunni, því að mér er kunnugt um af gamalli reynslu, að hann elur í brjósti ýmsar mjög hlýjar tilfinningar til mannfólksins yfirleitt, tilfinningar, sem ég er hins vegar hræddur um að næsta lítið fari fyrir í brjósti hins fyrrnefnda. En hvað um það. Við mundum aldrei spyrja hv. þm. G-K., hvernig efla bæri samvinnuhreyfinguna á Íslandi, og við eigum ekki heldur að spyrja Lauris Norstad að því, hvað horfi til friðar í heiminum. Spyrjum heldur hv. þm. G-K., hvað gera skuli til að koma af stað skefjalausri samkeppni í viðskiptalífi Íslands og ganga þar með af samvinnuhreyfingunni dauðri, og hann mundi kunna hið rétta svar. Spyrjum Lauris Norstad að því, hvernig efla beri stríð, en ekki frið, og hann mun einnig svara rétt. Í því efni gætum við sem sé örugglega treyst svörum beggja, einfaldlega vegna þess, að við værum að spyrja tvo fagmenn út úr þeirra eigin fagi. Alger sigur samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi mundi aftur á móti tákna valdaleysi fyrir hv. þm. G-K, og raunar líka að vissu leyti atvinnumissi, svo að ekki sé talað um persónulegan álitshnekki, og auðvitað mundi hann eiga mjög erfitt með að sætta sig við slíkt. Alger sigur friðarins í heiminum mundi hafa mjög svipaðar afleiðingar fyrir Lauris Norstad. Og samkvæmt þessu móta báðir afstöðu sína, hinn fyrrnefndi til samvinnuhreyfingarinnar og hinn síðarnefndi til friðarins. Þetta vildi ég sérstaklega vona að framsóknarmenn hugleiddu sérstaklega vel, áður en þeir taka aftur til að vitna í Lauris Norstad.

En það eru fleiri menn, en Lauris Norstad og aðrir hershöfðingjar, sem hafa orðið til þess að svara opinberlega spurningunni um það, hvað til friðar horfi í heiminum, og komizt að nokkurri annarri niðurstöðu, og vil ég nú nota síðari hluta þessarar ræðu minnar til þess að vekja athygli á nokkrum þeim staðreyndum, sem slíkir menn benda á.

Maður er nefndur Bertrand Russel. Hann hefur að vísu aldrei borið herklæði, enda aldrei notið neinnar sérstakrar virðingar hjá því fólki, sem metur menn eftir því, hve margar stjörnur þeir skarta með á öxlum sér. Hins vegar hefur hann hlotið Nóbelsverðlaun fyrir heimspekirit sín, svo að varla verður dregið í efa, að þetta sé sæmilega greindur maður. Það skal tekið fram til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, að Bertrand Russel er brezkur jarl, en ekki ótíndur kommúnisti. Russel hefur nýlega sent frá sér bók, sem hann nefnir „Common Sense and Nuclear Warfare“

Heilbrigð skynsemi og kjarnorkuhernaður. Hann víkur þar m.a. að afleiðingum þeirrar kjarnorkustyrjaldar, sem Lauris Norstad segist ekki mundu hika við að hefja, ef í það færi, og segir svo orðrétt:

„Sumir álíta, að helmingur af íbúum jarðarinnar mundi lifa hana af. Sumir álíta, að það yrði aðeins fjórðungurinn. Enn aðrir álíta, að hvert einasta mannsbarn á jörðinni mundi farast af völdum hennar. En það er ekkert höfuðatriði, þegar tekin er afstaða til málsins, að koma sér niður á, hver möguleikinn sé líklegastur, því að víst er, að heimurinn yrði að aflokinni kjarnorkustyrjöld ekki sá, sem ráðamenn mundu óska sér hann, hvorki í Moskva né Washington. Í bezta falli mundi byggja hann bjargarvana fólk, vitstola af hungri, undirlagt af drepsóttum, svipt öllum möguleikum til að nota sér þægindi vélaiðnaðar og samgöngutækja, ófært um að starfrækja nokkra menningarstofnun, fólk, sem mundi á skömmum tíma hrapa niður á stig þekkingarsnauðra villimanna.“

En er þá nokkur hætta á slíkri styrjöld? Já, segir Russel, hættan er ægileg. Og hún stafar af hinu vitfirringslega vígbúnaðarkapphlaupi. Báðir aðilar hafa byggt upp hernaðarkerfi sitt með það fyrir augum að geta tafarlaust svarað hugsanlegri skyndiárás óvinarins, og þessi vígbúnaður gæti valdið því, að fyrir einhverja slysni, sem skilin yrði sem árás, skylli á kjarnorkustyrjöld. — Hann segir orðrétt:

„Þar sem gert mun ráð fyrir, að stórveldi, sem legði út í kjarnorkustyrjöld, mundi byrja á því að eyðileggja stjórnarsetur óvinarins, leiðir af sjálfu sér, að ekki mun ætlazt til, að undirforingjar bíði skipana frá höfuðstöðvunum, heldur hefji án tafar gagnráðstafanir samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun. Kjarnorkustyrjöld kynni því að blossa upp þá og þegar, jafnvel þó að hvorugur aðilinn áformaði hana. Bilun í radarkerfi gæti t.d. orðið orsökin. Einhver háttsettur hershöfðingi, sem sturlaðist skyndilega af völdum taugaáfalls, gæti einnig hrundið af stað kjarnorkustyrjöld. Enn ein hættan og jafnvel sú alvarlegasta mun verða fyrir hendi, þegar mörg lönd hafa fengið vetnissprengju. Þá mundi verða mögulegt fyrir litla þjóð, þar sem að völdum sætu ábyrgðarlausir ofstækismenn, að gera kjarnorkuárás, sem skilin yrði sem árás á stórveldi og mundi þá hleypa af stað heimsstyrjöld, áður en hið sanna um upptökin yrði leitt í ljós.

Af öllu þessu sést, að núverandi ástand heimsmála og enn frekar ástand, sem skapast mun, þegar fjöldi ríkja hefur eignazt vetnissprengjur, eins og nú er allt útlít til að verða mun, felur í sér ægilega hættu, sem mundi minnka til stórra muna, ef samkomulag næðist um afvopnun.“

Þetta segir Bertrand gamli Russel. Hann vill sem sé efla friðinn með því að draga úr vígbúnaði og það jafnvel þó að sjálfur Lauris Norstad segi, að ekki sé vit í öðru, en auka vígbúnað. Hann vill láta banna kjarnorkuvopn, þó að Lauris Norstad segi það nauðsynlegt fyrir friðinn og Atlantshafsbandalagið, að hægt sé að veifa þeim. Og hann er líka fylgjandi hlutleysi einstakra þjóða í átökum stórveldanna, telur allt slíkt þýðingarmikið spor í rétta átt. Honum er það sérstakt kappsmál, að komið verði á því hlutleysisbelti í Evrópu, sem góðir menn víða um lönd vinna nú ötullega að. Endanlegt takmark hans er alger afvopnun undir eftirliti alþjóðastjórnar, sem síðan hefði það hlutverk að fyrirbyggja allt styrjaldarbrölt og tryggja varanlegan frið í heiminum. Og Russel er býsna bjartsýnn, þrátt fyrir allt, trúir ekki öðru, en takmarkinu verði náð, til þess hljóti að vera fyrir hendi nógu mikið af heilbrigðri skynsemi hjá báðum þeim aðilum, sem nú takast á um völdin í heiminum. Í því sambandi segir hann orðrétt:

„Hugsazt getur, að til séu þeir Bandaríkjamenn, sem helzt mundu óska þess, að í heiminum væru engir Rússar. Og það getur líka hugsazt, að til séu þeir Rússar, sem helzt mundu óska þess, að í heiminum væru engir Bandaríkjamenn. En hvorki Bandaríkjamenn né Rússar mundu geta óskað þess, að í heiminum væru hvorki Bandaríkjamenn né Rússar. Og þar sem gera má ráð fyrir, að í stríði milli Bandaríkjamanna og Rússa yrði báðum útrýmt, þá hlýtur það að vera sameiginlegt hagsmunamál þessara tveggja þjóða, að friður haldist.“ Russel gerir ýtarlega grein fyrir því, hvernig ná megi lokatakmarkinu með traustum og varanlegum heimsfriði, en hér verður ekki farið nánar út í það.

Ég vildi sem sagt aðeins vekja athygli á nokkrum sjónarmiðum eins þeirra mörgu ágætismanna, sem berjast fyrir friði í heiminum og eru á öndverðum meið við Lauris Norstad og önnur slík átrúnaðargoð íslenzkra stjórnmálamanna. Það er hægur vandi fyrir þessa hv. stjórnmálamenn að kynnast þessum sjónarmiðum nánar. Þessi bæklingur Russels, „Common Sense and Nuclear Warfare“, hefur t.d. fengizt í bókabúðum hér. En ef hann skyldi vera uppseldur eða á einhvern annan hátt óaðgengilegur fyrir alþingismenn, þá lýsi ég mig hér með reiðubúinn til að þýða hann eða a.m.k. helztu kaflana úr honum og láta fjölrita og fá þá siðan endurgjaldslaust í hendur þeim stjórnmálamönnum, sem kynnu að hafa áhuga á, gegn því skilyrði, að þeir tækju þá með sér í kosningaleiðangra sína í vor og vitnuðu þá a.m.k. ekki sjaldnar í heimspekinginn Russel, en hershöfðingjann Norstad, þegar þeir víkja ræðum sínum að því, hvað til friðar horfi og farsældar í heiminum. Að vísu talar Russel ekki sérstaklega um stöðu okkar Íslendinga í þessum járngráa heimi. En sá, sem les bækling hans, þarf ekki að vera í vafa um, hvað hann mundi segja, ef hann beindi máli sínu til okkar sérstaklega. Og hann mundi segja allt annað, en Lauris Norstad. Hann mundi ráðleggja okkur Íslendingum að losa okkur sem fyrst við hinn bandaríska her, eins og gert er ráð fyrir í tillögu þeirri, sem hér liggur fyrir. Og hann mundi jafnvel ráðleggja okkur að fara úr því stríðsfélagi, sem við erum nú aðilar að, og skipa okkur að nýju í sveit með hlutlausum þjóðum. Hann mundi sýna fram á, að þannig gæti íslenzka þjóðin látið mikið að sér kveða á alþjóðavettvangi sem mannasættir og friðflytjandi, í stað þess að vera það, sem hún er nú, viljalaust verkfæri þeirra afla, sem hyggjast leysa hvern vanda með nýjum og nýjum vetnissprengjum. Í stuttu máli: þessi aldni heimspekingur mundi segja okkur Íslendingum þann sannleik, að okkur ber siðferðileg skylda til að efla samvinnuhreyfingu friðarins í heiminum gegn hinni frjálsu samkeppni styrjaldarafla.