28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Forsrh. (Emil Jónason):

Herra forseti, hv. áheyrendur. Vegna hlustenda við þessa 3. umr. málsins verður ekki hjá því komizt að endurtaka nokkuð af því, sem sagt hefur verið við fyrri umr., og bið ég hæstv. forseta velvirðingar á því. En þetta er nauðsynlegt til þess að gefa þeim, sem á hlýða, heildarmynd af þeim aðstæðum, sem hafa valdið því, að nauðsynlegt var að flytja þetta frv.

Verðbólguþróunin á s. l. ári hefur orðið miklu örari, en nokkru sinni áður. Vísitala framfærslukostnaðar mundi hafa orðið 225 stig 1. jan. s. l., ef ekki hefði verið að gert, en hún var 191 stig 1. jan. 1958. Hækkun á árinu hefði því orðið 34 vísitölustig.

Augljóst var, að þessi hækkun mundi hafa haldið áfram með vaxandi hraða vegna hækkunar kaupgjaldsvísitölu í 202 stig 1. des. s. l. úr 185 stigum, sem hún hafði verið í áður.

Þessi heljarstökk verðlags og kaupgjalds og þær uggvænlegu afleiðingar, sem hækkuninni hljóta að fylgja, ollu mönnum miklum áhyggjum. M. a. af þessum orsökum lét fyrrv. hæstv. ríkisstj. sérfræðinga sína gefa sér umsögn um málið og till. um, hvaða leiðir væru helzt til úrbóta. Í þeirri álitsgerð var komizt að þeirri niðurstöðu, að vísitala framfærslukostnaðar mundi komast upp í 270 stig næsta haust og kauplagsvísitalan upp í 250 stig. Hún mundi síðan halda áfram að vaxa með hingað til óþekktum hraða, ef ekkert yrði að gert og valda algerum glundroða í efnahagslífi þjóðarinnar, sem að síðustu mundi leiða til atvinnuleysis og hruns.

Tvær leiðir var bent á til bjargar. Önnur var sú að leggja á nýja skatta til að mæta auknum útgjaldaþörfum ríkissjóðs og útflutningssjóðs og freista að stöðva vísitöluna, þar sem hún væri nú. Hin leiðin var að reyna að snúa verðbólguhjólinu svo mikið til baka, að takast mætti að komast af án verulegra nýrra skatta, en í staðinn gæfu launþegar og aðrir þegnar þjóðfélagsins eftir einhvern hluta þeirrar hækkunar, sem orðið hafði í krónutali á tekjum þeirra á árinu.

Um þetta náðist ekki samkomulag í fyrrv. ríkisstj. Baðst hún því lausnar 4. des. s. l. Alþfl. og Framsfl. vildu fara síðari leiðina, og studdist Alþfl. þar við samþykkt síðasta flokksþings síns, sem haldið var um þetta leyti. Á þetta vildu fulltrúar Alþb. í ríkisstj. ekki fallast þá, og varð því niðurstaðan sú, sem fyrr getur, að ríkisstj. sagði af sér.

Tilraunir til nýrrar myndunar meirihlutastjórnar báru ekki árangur og tók þá Alþfl. að sér að reyna að mynda þingræðisstjórn, er freistaði að leysa þetta mál á þeim grundvelli, sem þing Alþfl. hafði lagt og Framsfl og Sjálfstfl. í meginatriðum voru einnig fylgjandi samkvæmt þeim yfirlýsingum, sem flokkarnir höfðu um þetta gefið.

Framsfl. fékkst þó ekki til að standa að þessari stjórnarmyndunartilraun, þrátt fyrir það þó að yfirlýst væri, að í meginatriðum mundi verða reynt að fylgja þeim línum, sem vitað var að samkomulag væri um milli flokkanna, en Sjálfstfl. hét stjórninni stuðningi á þann hátt að firra hana vantrausti, á meðan tilraunin væri gerð.

Þess má þó einnig geta hér, að fulltrúar Alþb. létu í það skína í viðræðunum um stjórnarmyndunina, að þeir gætu líka hugsað sér að fara þessa leið. En allt var það svo loðið og óákveðið, að auðséð var, að samningar við þann flokk mundu taka lengri tíma en hugsanlegt var að nota til samninganna vegna aðkallandi vandamála og óvíst, hvernig fara mundi, svo að ekki var á það hætt.

Minnihlutastjórn Alþfl. tók því að sér að freista að leysa vandann með þeim stuðningi Sjálfstæðisflokksins, sem ég hef áður greint frá.

Strax daginn eftir að stjórnin var mynduð, var skipuð nefnd til að gera samninga við bátaútvegsmenn, sjómenn og fiskvinnslustöðvar um rekstrargrundvöll sjávarútvegsins fyrir árið 1959. Þessum samningum við bátaútvegsmenn lauk um áramótin. Samningi milli sjómanna og útvegsmanna var lokið 3. jan., og gátu því róðrar hafizt á venjulegum tíma þess vegna. Samningum við fiskvinnslustöðvarnar og togarana var lokið um miðjan janúar og var þá hægt að gera sér grein fyrir, hvernig útkoman úr því dæmi yrði.

Þess má geta, að í öllum þessum samningagerðum var við það miðað, að lagður yrði til grundvallar samningurinn frá s. l. ári, en útgerðarmönnum og vinnslustöðvum bætt sú nettóhækkun kostnaðarliða, sem sannanlega hafði orðið á árinu. Sjómenn fengu þó í sinn hlut öllu meiri hækkun á skiptaverði fisksins, heldur en orðið hafði hjá verkamönnum í landinu, eða um 13% beina hækkun á fiskverðinu, og aðrar kjarabætur, sem taldar eru nema sem svarar 1% í viðbót, eða samtals 14%.

Þessir samningar þýddu það, að ef miðað var við vísitölu 185, námu bæturnar í heild til þessara aðila allra, að viðbættum tilsvarandi bótum á útfluttar landbúnaðarafurðir, 158.6 millj. kr. umfram það, sem var s. l. ár. En við samningagerðina kom líka í ljós, að ef miðað var við vísitölu 175 í stað 185, var hægt að lækka bæturnar til útvegsmanna og vinnslustöðvanna úr 158.6 millj. kr. niður í 77.7 millj. kr., eða um 80.9 millj. kr. Var því staðnæmzt við að athuga þann möguleika, hvort þetta mundi fært.

Eins og kunnugt er, ákvað ríkisstj. um s. l. áramót að greiða niður verðlag á nauðsynjavörum, aðallega landbúnaðarvörum, mjög verulega, eða sem svarar með 75 millj. kr. á ári. Við þetta lækkaði vísitalan um 13 stig og komst niður í 212 stig. Eftir var þá að brúa bilið niður í 192 stig, sem framfærsluvísitalan þurfti að komast, til þess að kaupgreiðsluvísitalan kæmist niður í 175.

Þessum 20 stigum er ógerlegt að ná með niðurgreiðslum einum saman, vegna þess að það mundi kosta ríkissjóð svo mikið fé, að ógerlegt væri að hugsa sér að komast hjá nýjum skattaálögum þess vegna.

Sérfræðingar ríkisstj. töldu á hinn bóginn, að ef launþegar gæfu eftir án bóta 10 vísitölustig, mundu hin 10 stigin, sem á vantaði, nást með lækkun á verðlagi sem afleiðing af þessari vísitölulækkun, ef bændur, verzlunarmenn og iðnrekendur gæfu einnig eftir að sínum hluta tilsvarandi. Og þessi leið hefur nú verið valin, og um hana fjallar það frv., sem hér liggur nú fyrir til 3. og síðustu umr. í þessari hv. deild.

Í frv. segir, að allar greiðslur, sem fylgja kauplagsvísitölu, skuli frá 1. febr. n. k. fylgja vísitölunni 175. Þó gildir þetta ekki nema til 1. marz, en á því tímabili, í febrúarmánuði, er gert ráð fyrir, að verðlagið lækki það mikið, að vísitalan komist með eðlilegum hætti niður í 18, og hefur ríkisstj. skuldbundið sig til að tryggja það með niðurgreiðslu á því, sem á kann að vanta þá, sem gert er ráð fyrir að gæti orðið 1–2, kannske 3 vísitölustig, vegna þess að það tekur alltaf nokkurn tíma, að kaupáhrifin verki á verðlagið, en þetta ætti ekki að standa nema í örstuttan tíma. Í öllu falli á það að vera tryggt, að frá 1. marz n. k. verði ekki af neinum gefið eftir meira en 10 stig.

Í frv. eru svo ákvæði um það, að þessi eftirgjöf nái einnig til bænda, sjómanna, verzlunarmanna, iðnaðarmanna og til gjalds fyrir hvers konar þjónustu, flutninga, ákvæðisvinnu o. s. frv., þannig að allir, sem með einhverju móti er hægt að ná til, beri sinn hluta.

Þó að ýmis önnur merk atriði séu í frv., verða þau ekki rakin hér frekar. En á það vil ég þó benda, að frv. gerir ráð fyrir, að tekinn verði upp nýr vísitölugrundvöllur, sem kauplagsnefnd hefur verið að vinna að undanfarin ár og fer miklu nær núverandi neyzluháttum, en gamli grundvöllurinn, sem er orðinn nærri tuttugu ára gamall. En neyzluvenjur almennings og neyzluskipting hefur breytzt mjög á þessum árum, eins og kunnugt er og ætti því þessi grundvöllur að gefa raunhæfari mynd af þeirri breytingu á neyzluvörum manna heldur, en sá gefur, sem nú er í gildi.

Þessi breyting er tekin upp samkvæmt ósk minni hluta stjórnar Alþýðusambands Íslands og stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og annarra launþegasamtaka, sem um málið hafa fjallað.

Það má einnig geta þess, að inn í frv. hafa verið tekin ákvæði um að umreikna kaup bóndans í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara fjórum sinnum á ári eins og laun verkamanna og annarra launamanna, í stað þess að þetta er aðeins gert einu sinni á ári nú. Þetta ákvæði var tekið upp samkvæmt ósk Stéttarsambands bænda eða framleiðsluráðs þess. Fleira mætti nefna, en út í það skal ekki farið að þessu sinni.

Meginhugsunin, sem á bak við þessar ráðstafanir liggur, er sú, að verðlag verði greitt niður, eins og frekast er mögulegt, án nýrra skatta og síðan komi fram með eðlilegum hætti lækkun á verðlaginu vegna niðurfærslu kaupgjaldsins, en það, sem þá verður eftir, sem hér er reiknað með að verði 10 stig, eða 5.4%, verði gefið eftir.

Því ber ekki að neita, að hér er um að ræða nokkra fórn. En þar við er þó því að bæta, að ég tel mig mega fullyrða, að það er engin lausn til á þessu máli, sem ekki kemur á einhvern hátt við almenning. Það hefur t. d. komið fram í umr. um þetta frv. og er mjög athyglisvert, að ef ekki verður að gert og vísitalan heldur áfram að hækka með þeim hraða, sem ég lýsti í upphafi, samkvæmt áliti sérfræðinga, eða sem svarar ca. 5 stigum á mánuði, og launþegar fá ekki hækkunina uppborna nema á þriggja mánaða fresti, þá eru þeir 5 stigum á eftir fyrsta mánuðinn, 10 stigum á eftir annan mánuðinn og 15 stigum á eftir þriðja mánuðinn, eða að meðaltali 10 stigum á eftir, eða nákvæmlega jafnmikið og hér er gert ráð fyrir að gefa eftir. Auk þess koma svo þær nýju skattaálögur, sem óumflýjanlega verður að gera til þess að halda útveginum gangandi, stöðug rýrnun á sparifé og algert öngþveiti í efnahagsmálum öllum, sem leiðir af hinni ört vaxandi verðbólgu.

Það er því síður en svo, að menn komist hjá því að gefa eitthvað eftir, þó að þessi leið verði ekki farin. Ég vil þvert á móti segja, að þegar allt verði krufið til mergjar, þá muni þessi leið verða sú, sem almenningi muni reynast léttbærust og allt annað koma verr niður.

En hvernig tekst þá að ná endunum saman með þessum ráðstöfunum? Er hægt að gera þetta án nýrra skatta? Það er sá brennandi punktur, sem margir spyrja um, því að allir munu þegar hafa fengið nóg af þeim álögum, sem fyrri ráðstöfunum í þessum málum hafa fylgt. Þessu er því til að svara, að til þess að mæta hinum auknu bótum til sjávarútvegsins og landbúnaðar þarf 77.7 millj. kr., eins og ég hef áður sagt. Til þess að bera uppi niðurgreiðslurnar, sem gerðar voru 1. jan. s. l., þarf 75 millj. kr., og til þess að mæta útgjaldaaukningu ríkissjóðs vegna grunnkaups og vísitölubreytinga er talið að þurfi 22.2 millj. kr., eða samtals 174.9 millj. kr. Og þá er eðlilegt, að menn spyrji: Er hægt að ná þessari upphæð án nýrra skatta, og þá hvar og hvernig?

Þessu er því til að svara, að um mörg undanfarin ár hefur sá háttur verið hafður á afgreiðslu fjárlaga, að tekjurnar hafa verið áætlaðar mjög varlega, ég vil segja óþarflega varlega, enda hefur komið í ljós, þegar uppgjör ársins hefur legið fyrir, að þær hafa oftast reynzt mjög miklu hærri, en áætlað var. Það er nú þegar vitað, að greiðsluafgangur s. l. árs muni verða mjög verulegur, þó að ekki sé nákvæmlega vitað, hve mikill hann muni verða. Hafa verið nefndar í því sambandi 50–60 millj. kr. Um töluna skal ég ekkert fullyrða enn sem komið er, en hún kemur til að liggja fyrir innan stutts tíma. Er enginn vafi talinn á, að þó að ekki sé nákvæmlega um töluna vitað nú, að þar muni hægt að fá til ráðstöfunar a. m. k. 20–30 millj. kr.

Við athugun tekjuhliðar fjárlagafrv. fyrir 1959 hefur einnig komið í ljós, að tekjurnar eru mjög varlega áætlaðar. Telja þeir, sem gerst mega til þekkja, að hækka megi áætlunina um 48 millj. kr. og hafa þó 35 millj, kr. upp á að hlaupa fyrir umframgreiðslum, eða að tekjurnar muni geta orðið um 83 millj. kr. hærri en áætlað er í frv., miðað við sömu innflutningsáætlun og s. l. ár.

Þá er og víst, að með góðum vilja má draga úr gjaldahlið fjárlagafrv., á þann hátt t. d. að fresta framkvæmdum eða draga úr þeim og tel ég alls ekki útilokað, að á þann hátt mætti lækka útgjöldin um 40–50 millj. kr. og væri þó ekki nema um 5% lækkun heildarupphæðar fjárlaga að ræða. Hvort þetta tekst eða ekki, er vitanlega undir hv. alþm. komið. Mér er ljóst, að hér á landi er margt ógert og nauðsynlegt, að það sé gert sem fyrst. En þegar um það er að ræða að forða þjóðinni frá botnlausri verðbólgu, þá tel ég langt frá útilokað að grípa til nokkurs niðurskurðar á gjaldahlið fjárlaganna. Þó að æskilegt væri að komast hjá þessum niðurskurði, þá er þó enn æskilegra að losna við þá verðbólguþróun, sem nú blasir beint við, ef ekki verður að gert. Á það má líka benda, að sú stefna hefur víða gefizt vel, að hið opinbera dragi sig frekar í hlé með sínar framkvæmdir, þegar hin almenna framleiðslustarfsemi er í blóma og frekar skortir innlenda menn til hennar heldur en hið gagnstæða, ríkissjóður komi heldur til með auknar framkvæmdir, þegar hallar undan fæti hjá einstaklingunum og bæti þá úr og fylli í skörðin. Ég tel það því síður en svo neina goðgá, þó að til þessa yrði gripið nú að einhverju leyti.

En þegar þessar tölur allar eru teknar saman, þá vantar ekki mikið á, að hægt sé að ná endum saman og engan veginn útilokað, að það sé hægt án nýrra skatta.

Það má að vísu segja, að hér sé teflt á tæpasta vað og það er vissulega rétt, en það sýnir aðeins, að farið hefur verið eins skammt í því að leggja byrðar á almenning og frekast má telja mögulegt.

Ef til vill má af þessu draga þá ályktun, að nauðsynlegt hefði verið að ganga lengra, en gert er í frv. En það er ekki gert, til þess að meiri líkur séu fyrir því, að vænta megi skilnings almennings á nauðsyn þess, sem gert er.

Það hafa í umr. komið fram aðfinnslur út af því, að ekki væri, um leið og þetta frv. væri afgreitt, gengið frá fjárlögunum, til þess að hægt væri að sjá í heild, hver afgreiðsla málsins yrði. Út af því er aðeins það að segja, að til þess hefur ekki verið nokkur tími. Samningunum við bátaútveginn varð að ganga frá sem næst áramótum og það tókst, svo að róðrar gátu hafizt á réttum tíma, en þó þannig, að greiða verður nú úr útflutningssjóði nærri 7 millj. kr. aukalega vegna hinnar háu vísitölu janúarmánaðar. Ef enn ætti að bíða með lausn þessa máls eftir því, að fjárlög væru afgreidd um leið, mundi það kosta enn hærri greiðslu fyrir febrúarmánuð og gera allt málið miklu torleystara vegna hinna auknu útgjalda, sem það mundi hafa í för með sér. Hefur því hiklaust verið horfið að því ráði að freista að leysa eitt atriðið í einu, og vænti ég, að hv. alþm. skilji það og geri sér grein fyrir, að annað er ekki hægt nema með stórlega auknum útgjöldum fyrir útflutningssjóð, sem þá yrði að afla sérstakra tekna til, þegar líka er tekið tillit til þess, að tímanum frá þingsetningu, 10. okt. s. l., og til jóla var eytt í svo að segja einskis nýtt þras um málið án þess að komast að nokkurri niðurstöðu.

Því er haldið fram af andstæðingum frv., að með því sé freklega gengið á rétt verkalýðsins og launþeganna yfirleitt. Í fyrsta lagi er því haldið fram, að til þessara samtaka hafi ekki verið leitað og ekkert tillit til þeirra tekið við undirbúning málsins. Í öðru lagi er því haldið fram, að hér sé um óhóflega mikla og óþarfa kjaraskerðingu að ræða og í þriðja lagi er sagt, að með lagaboði á þennan hátt sé verið að taka samningsréttinn af launþegasamtökunum og færa hann yfir til Alþingis.

Mér þykir rétt að athuga þessi atriði lítillega. Um fyrsta atriðið er það að segja, að málið var borið undir bæði launþegasamtökin og Stéttarsamband bænda, áður en það var lagt fram og þessum aðilum sagt, að ef þeir hefðu athugasemdir að gera, mundi verða leitazt við að taka þær til greina, ef þær færu ekki í bága við meginstefnu frv. Athugasemdir komu frá Stéttarsambandi bænda, frá Alþýðusambandi Íslands, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og frá Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna og hafa nú lagfæringar og sumar allþýðingarmiklar verið teknar inn í frv. samkvæmt þessum óskum. Það er því fjarri því að vera rétt, að ekki hafi verið til þessara samtaka leitað, heldur þvert á móti.

Stéttarsamband bænda lýsti sig samþykkt þeirri stefnu, sem í frv. felst. Nálega helmingur af stjórn Alþýðusambands Íslands, fjórir af níu, taldi að þing Alþýðusambands Íslands, hið síðasta, hafi ekki tekið afstöðu gegn þeirri leið, sem felst í frv. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja telur fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstj. miða í rétta átt. Og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna telur niðurfærsluleiðina hafa ýmsa kosti fram yfir aðrar leiðir. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Samband íslenzkra bankamanna og Iðnnemasambandið voru einnig kvödd til, en hafa ekki gefið umsögn.

Ég get því ekki annað sagt en, að leitað hafi verið til allra hugsanlegra aðila um athugun á frv. og að undirtektir allra aðila, sem fram hafa komið, nema kommúnistanna og hv. 7. þm. Reykv., Hannibals Valdimarssonar, sem er með kommúnistum í stjórn Alþýðusambands Íslands, hafi verið jákvæðar. Og var þó sú tíðin, að hv. 7. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, var á þessari leið ekki alls fyrir löngu, að reynt yrði að fara þannig að, sem frv. gerir ráð fyrir. Í næstsíðasta tölublaði Vinnunnar, í nóvember s. l., sem Alþýðusamband Íslands gefur út og hann er ritstjóri að, segir hann, að framleiðslan eigi að taka á sig nokkurn hluta byrðanna, ríkissjóður eigi að sýna viðleitni til sparnaðar og auk þess geti hann staðið undir nokkurri niðurgreiðslu nauðsynjavara, álagning eigi að lækka, ríkið og sveitarfélög og einstaklingar eigi að draga nokkuð úr fjárfestingu, bændur eigi að lækka framleiðsluvörur sínar — og, segir hann síðan, „því eiga verkamenn að svara með því að falla frá nokkrum stigum af kaupi sínu“. „Nýja vísitölu á að taka upp,“ segir hann einnig, „í stað þeirrar gömlu.“ Þetta sagði hv., 7. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, í nóvember s. l., áður en hann fór úr ríkisstj. En hér er með orðum hans lýst nákvæmlega þeirri stefnu, sem í frv. felst. En af einhverjum annarlegum ástæðum virðist hann nú hafa skipt um skoðun, eftir að hann fór úr ríkisstj. Það er kannske mannlegt að gera það, en það er ekki stórmannlegt.

Um kaupskerðinguna er það að segja, að það liggur ljóst fyrir, hver hún verður, eða 5.4%. Er þó teflt á tæpasta vað, eins og ég hef áður lýst og ég vil undirstrika, að allar aðrar aðferðir, sem til mála koma og athugaðar hafa verið, mundu hafa kostað almenning meira, beint og óbeint, þannig að segja má, að hér hafi ekki verið margra kosta völ. En hitt má fullyrða, að þetta sé skásti kosturinn, þegar á allt er litið. Það er líka rétt, að það komi hér fram, að með niðurfærslunni samkvæmt frv. verður kaupmáttur launa þó heldur meiri á eftir, en hann var í októbermánuði s. l.

Síðasta hálmstrá andstæðinga frv. er það, að útgerðarmenn hafi fengið of góða samninga og þess vegna séu greiðslurnar úr ríkissjóði og útflutningssjóði til þeirra of háar. Út af því vil ég aðeins segja, að í samninganefndinni við útvegsmenn voru menn úr öllum stjórnmálaflokkum, sem sæti eiga á Alþingi og það var samhljóða álit þeirra allra, að hagstæðari samning við útgerðarmenn hafi ekki verið unnt að ná, enda hafi þeir ekki fengið bætur sínar hækkaðar nema sem svaraði hækkun í tilkostnaði og að bátarnir mundu ekki hafa getað farið af stað, a. m. k. ekki á venjulegum tíma, ef þær hefðu verið ákveðnar nokkru sem næmi lægri.

Þá er síðasta athugasemdin og sú, sem lögð hefur verið hvað mest áherzla á, að með þessu frv. sé verið að taka samningsréttinn af verkalýðsfélögunum. Þetta er hin herfilegasta firra. Félögin halda sínum samningsrétti, þó að frv. verði samþykkt og gert að lögum og eru frjáls að því að gera hvað sem þau vilja í þessu efni á eftir. Samningsrétturinn er nákvæmlega hinn sami og áður. Hins er svo vænzt, að þau athugi vel sinn gang, áður en þau geri ráðstafanir til hækkunar á ný og rjúfi þannig þann varnarvegg, sem hér er verið að reyna að reisa gegn verðbólguflóðinu. Hér er um nákvæmlega sams konar aðgerðir að ræða og gerðar voru 1956 af fyrrv. ríkisstj. og þær, sem boðaðar voru af forseta Alþýðusambands Íslands í Vinnunni í nóvembermánuði s. l., áður en hann fór úr ríkisstj.

Sambandið við launastéttirnar í þessum málum getur verið með tvennu móti.

Í fyrsta lagi getur það verið þannig að reyna samkomulag fyrir fram við forustumenn samtakanna, sem þó hafa raunverulega ekkert umboð til samninga, því að það vald er hjá hinum ýmsu félögum sjálfum og ekki hjá neinum framámönnum þeirra. Þar getur eingöngu verið um persónulegt álit að ræða og ekkert annað.

Í öðru lagi getur þetta samband verið á þann hátt að gera ráðstafanir á þann hátt, að reynt sé að gæta fyllstu sanngirni, og láta svo félögin dæma sjálf á eftir.

Þetta síðara er það, sem nú er verið að gera og þá í samráði við heildarstjórnir þessara samtaka, eftir því sem fært hefur þótt og eins og ég hef lýst hér áður.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er tilraun til að leysa mikinn vanda, ekki eingöngu vanda almennings og launastéttanna, heldur þjóðarinnar allrar. Fyrrverandi ríkisstj. vék sér undan vandann, og það hefur komið í hlut Alþfl. að gera tilraunina. Stefna hans í þessu máli er ljós og flokkurinn stendur einhuga um hana. Sjálfstfl. hefur lýst sig fylgjandi henni, og vitað var, að Framsfl. hefur verið inni á sömu hugsun áður. Alþýðubandalagsmenn léðu máls á að fylgja þessari lausn líka, ef þeir yrðu í stjórn, en hafa nú snúizt öndverðir til harðrar andstöðu. Ef frv. nær samþykki á Alþ., sem raunar er ekki vitað enn, ríður mikið á, að þjóðin taki því með skilningi og raunsæi og láti ekki vélast af skrumkenndum og ábyrgðarlausum fullyrðingum andstæðinganna. Á afstöðu þjóðarinnar til þessara ráðstafana veltur að lokum allt. Hún hefur það í sinni hendi, hvort tilraunin tekst eða ekki. Hennar verður að taka lokaákvörðun í málinu. En tilraunin hefur þó verið gerð, tilraun, sem ég fyrir mitt leyti er sannfærður um að ber í sér þá hagstæðustu lausn, sem hægt er að ná nú, eins og komið er, fyrir íslenzka alþýðu og fyrir þjóðina alla.