28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Atvinnuvegir Íslendinga eru þannig, að þjóðin þarf að eiga mikil viðskipti við aðrar þjóðir. Til þess að svo geti orðið, verður þjóðarbúið að framleiða mikið vörumagn til útflutnings, sem það fær greitt með erlendum gjaldeyri eða vörum. Það er því meginatriði í þjóðarbúskapnum, að framleiðslan sé stunduð af fullu kappi til lands og sjávar. Ef framleiðslan dregst saman og gjaldeyrisöflunin minnkar, rýrna að sama skapi lífskjör þjóðarinnar og framkvæmdir falla niður að meira eða minna leyti.

Með efnahagslöggjöfinni, sem sett var á síðasta þingi, var stefnt að því að stuðla að hallalausum rekstri útflutningsatvinnuveganna og ríkisbúskaparins, að jafna aðstöðu þeirra atvinnugreina, sem afla þjóðarbúinu gjaldeyris, frá því sem verið hafði og gera framkvæmd nauðsynlegs stuðnings við þær einfaldari og að draga úr því misræmi í verðlagi, sem skapazt hafði innanlands undanfarin ár, bæði milli erlendrar vöru og innlendrar og milli erlendra vörutegunda innbyrðis.

Í lögunum um útflutningssjóð var ákveðið, að grunnlaun skyldu hækka um 5%, en 9 vísitölustig, sem kæmu fram, eftir að lögin tækju gildi, skyldu ekki hafa áhrif á kaupgjaldið. Í grg., sem fylgdi frv. til l. um útflutningssjóð, var það skýrt tekið fram, að það var þá einróma álit fyrrverandi ríkisstj., að framleiðslan gæti ekki staðið undir meiri kauphækkun, en lögfest var. Í kjölfar frekari kauphækkana mundu sigla kröfur um nýja hækkun á útflutnings- og yfirfærslubótum, hækkun þeirra hefði í för með sér meiri hækkun á framfærsluvísitölunni og hún ylli svo á hinn bóginn nýrri hækkun á kaupgjaldi og afurðaverði og þannig koll af kolli. Enn fremur var tekið skýrt fram í grg. það álit fyrrv. ríkisstj., að í sambandi við lausn efnahagsmálanna væri nauðsynlegt að taka sjálft vísitölukerfið til athugunar, þ. e. þá skipan, að allt kaupgjald og afurðaverð breyttist sjálfkrafa með breytingu á framfærsluvísitölu. Fyrrv. ríkisstj. gerði sér ljóst, að slíkt mál yrði að leysa í nánu samstarfi við stéttasamtökin í landinu og hét því að beita sér fyrir samstarfi við stéttasamtökin um þetta efni.

Það, sem nú liggur fyrir í þessum málum, sannar, að þetta álit var rétt. Í grg, með frv. um breytingar á lögum um útflutningssjóð, sem hæstv. núverandi ríkisstj, flytur, er m. a. sagt, að fjárhagsafkoma útflutningssjóðs hafi reynzt tiltölulega góð á árinu 1958 og að líkur séu til þess, að sjóðurinn hefði getað orðið hallalaus á árinu 1959, ef engin ný hækkun bóta eða niðurgreiðslna hefði komið til og aðstæður hefðu orðið svipaðar og á síðasta ári.

Á árinu 1958 mun hafa orðið nokkur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði og er allmikið um það rætt. Þessar niðurstöður sýna, að með efnahagslöggjöfinni s. l. vor var stigið stórt skref og mikilvægt að því marki að koma á jafnvægi í efnahagsmálum, tryggja rekstur framleiðslunnar og efla þannig þjóðarhag.

En Sjálfstfl. sýndi glöggt, eftir að hann komst í stjórnarandstöðu 1956, hver hann er. Eftir að vinstri stjórnin var mynduð, stóðu sjálfstæðismenn að því verki að senda skeyti til erlendra fréttastofnana, þar sem málstaður Íslands var ranglega túlkaður. Jafnframt gerðist Sjálfstfl. kaupkröfuflokkur, tók að hvetja til kauphækkana og beita sínum áhrifum til þess, að kauphækkanir ættu sér stað í einstökum verkalýðsfélögum. Eftir að efnahagslöggjöfin var sett s. l. vor, virðast forustumenn Sjálfstfl. hafa hugsað á þessa leið: Hvað varðar okkur um þjóðarhag? Ef löggjöfin reyndist vel í framkvæmd og þær áætlanir, sem gerðar voru, þegar hún var sett, stæðust vel, mundi það að sönnu bæta þjóðarhag, eins og að var stefnt með löggjöfinni, en það gat styrkt vinstri stjórnina í sessi og torveldað Sjálfstfl. valdabaráttuna, enda jókst mjög á s. l. sumri áróður fyrir því, að verkalýðsfélög segðu upp samningum og krefðust kauphækkana. Til liðs við sjálfstæðismenn í þessu verki komu menn úr verkalýðsflokkunum, sem andstæðir voru efnahagslöggjöfinni.

Nú eru afleiðingarnar af þessum verkum komnar í ljós. Þeim afleiðingum lýsa núverandi stjórnarflokkar í grg. með frv. um breyt. á l. um útflutningssjóð, sem hæstv. ríkisstj. flytur, m. a. þannig orðrétt:

„Á vegum fyrrv. ríkisstj. var í októbermánuði s. l. gerð athugun á því, hver áhrif þær hækkanir grunnkaups og kaupgreiðslu skv. vísitölu, sem átt höfðu sér stað, síðan lögin um útflutningssjóð voru sett, hefðu haft á rekstrarkostnað útflutningsatvinnuveganna. Þessar hækkanir kaupgjalds voru, eins og kunnugt er, 10.7% umfram það, sem útflutningssjóðslögin höfðu gert ráð fyrir, að því er verkamenn snerti og 7.1% að því er flestar aðrar starfsgreinar snerti. Niðurstöður þessarar athugunar voru þær, að af völdum kauphækkananna væri rekstrarkostnaður útflutningsatvinnuveganna orðinn um 6% hærri, en sá kostnaður, sem bætur útflutningssjóðslaganna voru miðaðar við og til þess að jafna metin mundi þurfa nýja hækkun bóta að upphæð um 105 millj. kr. Þessar áætlanir voru miðaðar við kaupgreiðsluvísitölu 185 og byggðust enn fremur á þeirri forsendu, að skiptaverð á fiski til bátasjómanna hækkaði ekki meir, en kaupgjald verkamanna hafði hækkað, eftir að útflutningssjóðslögin höfðu verið sett.“

Hér við bætist, að samkv. niðurstöðum sérstakrar athugunar á einstökum greinum framleiðslunnar, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur haft til athugunar og samkv. samningum, sem ríkisstj. hefur gert við útvegsmenn og sjómenn, hækkar sú fjárhæð, sem óhjákvæmilegt er vegna kauphækkananna s. l. sumar að færa til atvinnuveganna, eins og skýrt er í grg, frv., úr 105 millj. kr. í 159 millj., miðað við kaupgreiðsluvísitölu 185 stig. Vegna hinna almennu launahækkana hafa til samræmis verið ákveðnar nokkrar uppbætur á laun opinberra starfsmanna og mun það hækka útgjöld ríkissjóðs á þessu ári um 30–40 millj. kr.

Vegna þeirrar þróunar í kaupgjaldsmálum, sem átti sér stað s. l. sumar, þarf nú að glíma við hækkun útgjalda hjá útflutningssjóði og ríkissjóði, sem nema mundi samtals eigi fjarri 300 millj. kr., miðað við kaupgreiðsluvísítölu 185 stig. Þetta vandamál lá fyrir þegar í haust. Fyrrv. ríkisstj. vildi hafa samráð við stéttasamtökin um lausn málsins. Niðurstaðan varð sú, að Alþýðusambandsþingið neitaði fyrir sitt leyti að fallast á niðurfærslu, þannig að launþegar og framleiðendur féllu frá verðlagsuppbót, sem samsvaraði nokkrum vísitölustigum, sem þá voru ekki farin að hafa áhrif á kaupgjald og verðlag. Var þá talað um, að fulltrúar á Alþýðusambandsþingi hefðu ekki umboð til slíkrar ráðstöfunar. Þetta gerði málið lítt viðráðanlegt, ef leysa átti það svo, að gagn yrði að til frambúðar, eins og marka má af þeim tölum, sem fyrir liggja, og leiddi til þess, að fyrrv. ríkisstj. sagði af sér.

Allan þann tíma, sem vinstri stjórnin sat að völdum, var framkoma Sjálfstfl. í efnahagsmálum lík því, sem vitur maður kvað um einn forustumann norrænan:

„Þjóðin það í hegðun Haralds finnur helzt, að krækja vill hann leynigötur.“ Sjálfstfl. var á móti löggjöfinni um framleiðslusjóð og síðar andvígur löggjöfinni um útflutningssjóð, bar þó ekki fram sjálfstæðar tillögur í efnahagsmálum, en af hálfu flokksins var opinberlega viðurkennt, að það hefði þurft að gera eitthvað svipað því, sem gert var. Sjálfstfl. hvatti í blöðum sínum og á annan hátt til kauphækkana, en hélt jafnframt uppi lýðskrumi og reyndi að telja þjóðinni trú um, að hann hefði næg úrræði og góð til að leysa vanda efnahagsmálanna, ef hann fengi aukin völd. Eftir að stjórn Hermanns Jónassonar fór frá völdum og forseti Íslands hafði falið Ólafi Thors að gera tilraun til stjórnarmyndunar, neyddist Sjálfstfl. til að hætta í bili að krækja leynigötur í sambandi við efnahagsmálin og koma um stund út á alfaraveg.

Hinn 19. des. s. l. birtust í Morgunblaðinu till. Sjálfstfl. í efnahagsmálum undir fyrirsögninni: „Sjálfstæðisflokkurinn markar viðreisnarstefnu.“ Þar er veigamesta atriðið og það, sem fyrst átti að koma til framkvæmda, þetta: „Launþegar afsali sér 6% af grunnkaupi sínu, og verð landbúnaðarvara breytist vegna hliðstæðrar lækkunar á kaupi bóndans og öðrum vinnutilkostnaði við landbúnaðarframleiðsluna. Þó verði grunnlaun engrar stéttar lægri, en þau voru, þegar efnahagsráðstafanir ríkisstj. tóku gildi á síðastliðnu sumri.“ Þannig er þá aðalatriðið í svokallaðri viðreisnarstefnu Sjálfstfl.

Það er eftirtektarvert í þessu sambandi, að kaupgjaldið má vera, að dómi Sjálfstfl., eins og það var ákveðið, þegar efnahagsráðstafanir fyrrv. ríkisstj. tóku gildi s. l. vor. En Sjálfstfl. krefst þess nú, að almenningur í landinu afsali sér hluta af kaupi sínu, og lætur nærri, að sá hluti samsvari þeirri kauphækkun, er sjálfstæðismenn og fleiri unnu að og hvöttu til að knúin yrði fram á s. l. sumri.

Það er meginefni frv. þess um niðurfærslu verðlags og launa, sem hér er til umr. og flutt er af hæstv. ríkisstj., að frá 1. febr. n. k. skuli greiða verðlagsuppbót á laun og allar aðrar greiðslur, er fylgja kaupgreiðsluvísitölu, samkv. vísitölu 175 stig. Á bótaupphæðir skv. l. um almannatryggingar skal þó á sama tíma greiða verðlagsuppbót skv. vísitölu 185 stig. Hliðstæð lækkun á að verða skv. frv. á landbúnaðarafurðum, fiskverði og ýmiss konar þjónustu. Ákvæðið um kaupgjaldsvísitölu 175 er við það miðað, að launþegar, bændur og aðrir afsali sér af tekjum sínum sem svarar til 10 vísitölustiga, en talið er, að það jafngildi 5.4% af núgildandi kaupi eða tekjum. Með þessu, ef lögfest verður, hyggst hæstv. ríkisstj. að koma fram lækkun á nauðsynlegum bótum til atvinnuveganna, sem framleiða til útflutnings, er nemur rúmum 80 millj. kr., frá því, sem ella mundi.

Margur mun spyrja: Hvernig er því varið með þá stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sem í nóv. s. l. sögðu, að þá vantaði umboð til að mæla með því, að launþegar gæfu eftir af verðlagsuppbót sem samsvaraði nokkrum vísitölustigum? Hver hefur síðan þá veitt þeim mönnum umboð til að styðja lagasetningu um þetta efni? — Nú liggur það ljóst fyrir, að meiri hluti stjórnar Alþýðusambands Íslands er andvígur hæstv. ríkisstj. í þessu máli.

En þó að menn spyrji um þennan þátt málsins, liggja ýmsir aðrir þættir þess ljóst fyrir. Þetta frv. sýnir, að forsendur fyrir efnahagsráðstöfunum fyrrv. ríkisstj. voru réttar og að þeir, sem á síðasta þingi samþykktu lögin um útflutningssjóð, sögðu þjóðinni satt. Með þessu frv. segja sjálfstæðismenn og aðrir, sem beittu sér fyrir kauphækkunum í sumar, en styðja nú þetta mál, raunverulega um sjálfa sig: Ef þjóðin hefði ekki tekið mark á okkur í sumar, væri nú engra sérstakra ráðstafana þörf í efnahagsmálum. — Þetta frv. er raunverulega reikningur til þjóðarinnar, þar sem þess er krafizt, að kauphækkununum frá síðasta ári sé skilað aftur.

Í þessu frv. er ákvæði um það, að 1. marz 1959 skuli taka gildi nýr grundvöllur vísitölu framfærslukostnaðar í Reykjavík skv. niðurstöðum neyzlurannsóknar þeirrar, er kauplagsnefnd hefur framkvæmt í samráði við hagstofuna. Skal útgjaldaupphæð hins nýja vísitölugrundvallar 1. marz 1959 vera sú grunnupphæð, er síðari breytingar á vísitölu miðast við og jafngildi því grunntölu 100.

Það mundu flestum þykja sjálfsagðar leikreglur, að keppinautar standi jafnt að vígi, þegar keppni er hafin. Það virðist jafnsjálfsagt mál og réttmætt í sambandi við hagsmunabaráttu stéttanna, að hlutur þeirra stétta, sem eiga að búa við sambærileg kjör, sé gerður sem jafnastur, um leið og lagður er grundvöllur að nýrri vísitölu. Þessa er ekki að öllu leyti gætt í þessu frv. Hækka þarf laun bónda og verkafólks hans í verðlagsgrundvellinum um 3.3%, svo að vinnuliður hans sé í samræmi við hækkun þá, er varð á tímakaupi í almennri verkamannavinnu í Reykjavík frá 1. sept. 1957 til 23. sept. 1959. Samkv. frv. skal frá 1. maí 1959 skiptaverð á fiski til bátasjómanna og fiskverð það, sem aflaverðlaun togarasjómanna miðast við, hækka í samræmi við þá verðlagsuppbót, sem kann að verða greidd á laun á hverjum tíma. En skv. frv. eiga bændur því aðeins að fá hliðstæða hækkun, að kaupgreiðsluvísitala sú, sem gildir frá byrjun þess tímabils, sem miðað er við, sé minnst 5 stigum hærri en sú vísitala, sem afurðaverð var síðast ákveðið eftir. Í frv. var ekki gert ráð fyrir, að framleiðsluráði landbúnaðarins yrði heimilt að hækka afurðaverð til framleiðenda sem svaraði til þess, að laun bónda og verkafólks hans í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara yrðu færð til samræmis við þá hækkun, sem kynni að hafa orðið á grunnkaupi í almennri verkamannavinnu í Reykjavík á undangengnu 3 mánaða tímabili. Þetta hefur nú verið leiðrétt og ákvæðið um, að vísitala þurfi að hækka um 5 stig, til þess að það valdi breytingum á afurðaverði, hefur verið lagfært að nokkru leyti. Framsóknarfl. mun beita sér fyrir því, að ósamræmið verði að fullu leiðrétt við meðferð málsins.

Þrátt fyrir þá lækkun á bótum til útflutningsatvinnuveganna, sem leiða mun af samþykkt þessa frv., frá því sem ella mundi, mun vanta mikið fé í útflutningssjóð. Það er langt frá því, að vandinn sé leystur með þessu frv. Hæstv. ríkisstj. áætlar sjálf, að útflutningssjóð muni skorta um 150 millj. kr., til þess að afkoma hans á þessu ári sé sæmilega trygg. Í þessari áætlun munu þó ekki öll kurl vera komin til grafar. Eftir því sem ráða má af umræðum, mun helzt vera fyrirhugað af núv. stjórnarflokkum að mæta þessum halla þannig, að láta greiðsluafgang ríkissjóðs frá síðasta ári renna í verðbólguhítina, en verja því fé ekki til stuðnings framkvæmdum, að lækka útgjöld fjárlaga frá því, sem lagt er til í fjárlagafrv., um nokkra milljónatugi, — ef það verður samþykkt, mun af því leiða samdrátt verklegra framkvæmda útí um land, — að hækka stórkostlega tekjuáætlun fjárlagafrv., þó að það geti þýtt raunverulegan tekjuhalla á fjárlögum fyrir þetta ár. Allt er þetta beinlínis miðað við, að núv. stjórnarfl. geti tekizt að fleyta efnahagsmálum þjóðarinnar nokkra mánuði, meðan barizt verður í tvennum kosningum. Til þess á að lækka framlög til verklegra framkvæmda, en eyða því fé, sem fáanlegt er, í verðbólguhítina.

Öll þessi málsmeðferð er liður í miklu stærri áætlun. Það er yfirlýst stefna ríkisstj. og þeirra flokka, sem hana styðja, að koma á gerbreytingum á kjördæmaskipun landsins, þannig að leggja niður öll núverandi kjördæmi nema eitt. Það á að gera með snöggu átaki á næsta sumri. Núv. kjördæmaskipun er í meginatriðum af fornum rótum runnin. Þegar Alþ. var endurreist, var þeirri meginstefnu fylgt, að sýslurnar mynduðu kjördæmi. Héruðin hvert um sig eiga sögulegan rétt, alveg eins og íslenzka þjóðfélagið í heild. En hinn sögulegi réttur hefur jafnan dugað íslenzku þjóðinni bezt í frelsisbaráttu hennar. Þeir flokkar, sem styðja núv. ríkisstj., telja það helzt að í hinu íslenzka þjóðfélagi, að sjálfstæði héraðanna sé of mikið og íbúar úti um landsbyggðina hafi of mikinn rétt, enda er kjördæmabreytingin aðaláhugamál þeirra. Um þessar fyrirætlanir stjórnarflokkanna gagnvart fólkinu úti um land eiga við orð húsfreyjunnar á Bergþórshvoli, er hún mælti til sona sinna: „Gjafir eru yður gefnar og verðið þér litlir drengir, ef þér launið engu.“ Kjósendur munu fá tækifæri til þess á næsta vori að sýna, hvernig þeir taka á móti gjöfum núv. stjórnarflokka.