05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (2189)

130. mál, nauðungarvinna

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál. á þskj. 330 um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um afnám nauðungarvinnu er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að veita ríkisstj. heimild til þess fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 105, um afnám nauðungarvinnu, sem gerð var á 40. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 25. júní 1957, eins og hún liggur fyrir á fylgiskjali, sem prentað er með ályktun þessari.“

Aðalefni þessarar alþjóðasamþykktar er:

1) Bann við nauðungarvinnu, sem beitt er með pólitískri þvingun eða sem refsingu gegn mönnum fyrir að hafa eða láta í ljós stjórnmálaskoðanir eða skoðanir hugsjónalega gagnstæðar ríkjandi stjórnmálalegu, félagslegu eða efnahagslegu skipulagi.

2) Bann gegn nauðungarvinnu, er beitt sé til þess að breyta efnahagskerfinu á tiltekinn hátt.

3) Til þess að aga verkalýðinn, eins og það er orðað.

4) Til refsingar fyrir þátttöku í verkföllum.

5) Vegna mismununar eða ofsóknar á hendur einstaklingum sökum uppruna þeirra, félagslegrar aðstöðu, þjóðernis eða trúarbragða.

Nauðungarvinna, eins og um er rætt í þessari samþykkt, þekkist vitanlega ekki hér á landi og er algerlega andstæð hugsunarhætti og réttlætiskennd íslenzku þjóðarinnar. Eðlilegt þykir þó, að Ísland sýni afstöðu sína gagnvart þessu máli á alþjóðavettvangi með því að fullgilda samþykktina. Hin Norðurlöndin, a.m.k. þrjú þeirra, Noregur, Svíþjóð og Danmörk, hafa þegar fullgilt þessa samþykkt.

Ég legg til, herra forseti, að umr. um mál þetta verði frestað og því vísað til hv. allshn.