28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þegar samstarf um fyrrv. stjórn slitnaði, stakk Framsfl. upp á því, að mynduð yrði þjóðstjórn um efnahagsmálin og landhelgismálið og sú stjórn gerði tilraunir til að ná samkomulagi um nýja kjördæmaskipun. Á þetta vildi núv. forsrh., sem þá hafði með höndum tilraunir til stjórnarmyndunar, alls ekki hlusta. Og ástæðan var sú, að þetta kom ekki heim við áætlanir Sjálfstfl., en Sjálfstfl. vildi ekki eiga þátt í nokkru starfi, nema tryggt væri, að kosningar færu fram strax í vor og kjördæmaskipuninni yrði breytt á þann hátt, sem flokkurinn vildi, þ. e. a. s. öll kjördæmi utan Reykjavíkur afnumin og sett upp örfá stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Þessi afstaða Sjálfstfl. hefur mótað meðferð málanna, síðan vinstri stjórninni var sundrað og á henni byggð sú furðulega stjórnarmyndun, sem nú hefur átt sér stað.

Þessi hernaðaráætlun Sjálfstfl. byggist alveg tvímælalaust fyrst og fremst á þrennu. Í fyrsta lagi telja þeir og það ekki að ástæðulausu, að eftir því sem kosningar dragist lengur, komi það skýrar í ljós, að þeir hafi ekki á boðstólum nein úrræði í efnahagsmálum, sem þoli nokkurn minnsta samanburð við lýðskrumsáróður þeirra í stjórnarandstöðunni. Þeim mun finnast, að tillaga sú um 6% almenna lækkun kaupgjalds og verðlags, sem þeir hafa neyðzt til að gera, sé alveg nægilegt jarðarmen að ganga undir fyrir kosningar, þótt eigi bætist fleiri slík við hvert af öðru, sem hlyti að verða, ef lengur drægist að halda kosningarnar og afstöðu þyrfti að taka til úrlausnar í fleiri þáttum þjóðarbúskaparins. Í öðru lagi: Sjálfstæðismenn hafa nú lýst því yfir, að þeir ætli að láta koma til framkvæmda þá áætlun um afnám kjördæmanna, sem þeir hafa lengi legið með og ætluðu að koma í framkvæmd 1931, en urðu þá að hætta við, þar sem nægilega mikill hluti þjóðarinnar reis í móti. Er þeim ljóst, að vonlaust mundi að koma slíku fram, ef menn fengju fullt ráðrúm til þess að átta sig, svo að missirum skipti. Í þriðja lagi hafa foringjaráð sjálfstæðismanna, hægri öfl Alþfl. og Þjóðviljamenn í Alþb. gengið með þær hugmyndir undanfarið um efnahagsmálin, að höfuðmeinsemdin væri of mikill fjáraustur í framkvæmdir víðs vegar um landið og að það væri óhugsandi að leysa þau öðruvísi, en á kostnað framkvæmdanna í landinu. Þessa hugmynd telja sjálfstæðismenn á hinn bóginn ekki framkvæmanlega, nema búið sé að minnka aðhaldið utan af landi með því að gerbreyta kjördæmaskipuninni og leysa þingmennina með því úr þeim nánu tengslum, sem þeir hafa nú við fólkið í þessum byggðarlögum og þar með undan því aðhaldi, sem þessi tengsl veita.

Þessum síðasta lið í áætluninni munu sjálfstæðismenn hafa áhuga fyrir að leyna fyrst um sinn og tala um hann með þokukenndum orðum, eins og t. d. að endurskoða stefnuna í fjárfestingarmálum og annað því líkt. En kommúnistar og hægra lið Alþfl. tala ekkert tæpitungumál um þessi efni og hafa undanfarið haft beinar till. uppi um að skera niður fjárframlög til framkvæmdanna. Sjálfstæðismenn munu á hinn bóginn væntanlega leika þennan leik þannig að samþykkja ekki niðurskurð fyrir kosningar. Er það í samræmi við þann lið áætlunarinnar, að slíkt sé ekki mögulegt að gera, fyrr en búið sé að breyta kjördæmunum.

Þessi áætlun um nýja stefnu í efnahagsmálunum, sem byggð sé á nýrri stjórnarskipun, þar sem höfuðatriðið er að breyta stefnunni í fjárfestingarmálunum til óhags fyrir landsbyggðina til sjávar og sveita, mun verða til hreins ófarnaðar fyrir þjóðina, ef hún nær fram að ganga, og það ekkert síður fyrir íbúa fjölmennustu byggðarlaganna, svo sem höfuðborgarinnar, en aðra landsmenn. Hin mikla velmegun í Reykjavík undanfarið hefur einmitt að mjög verulegu leyti byggzt á því, að með skynsamlegri fjárfestingarpólitík víðs vegar um land, sem hefur stóraukið framleiðslu og atvinnu hvarvetna við sjó og í sveit, hefur straumurinn til höfuðborgarinnar minnkað, framkvæmdamálefni hennar orðið viðráðanlegri á alla lund en áður var og atvinnuástandið verið betra en nokkru sinni fyrr.

Allt byggist þetta beinlínis á þeirri jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, sem framfylgt hefur verið.

Margir eru meira en lítið undrandi á því, að Alþfl. skuli hafa orðið til þess að mynda ríkisstj. til að koma þessari áætlun Sjálfstfl. í framkvæmd. Margir eiga erfitt með að skilja þetta. Augljóst er, að hægri öfl Alþfl. hafa alveg tekið stjórnina þar, þau öfl, sem raunverulega hafa alltaf staðið á móti efnahagsmálastefnu fyrrv. stjórnar, jafnvægisstefnu í fjárfestingarmálum. Með þessu hefur Alþfl. rofið umbótabandalagið. Voru þeir þó vægast sagt ekki kosnir á þing til þess að kljúfa það og mynda stjórnarsamstarf til þess að leggja niður þau kjördæmi, sem þeir voru kosnir fyrir. Alþfl. gat engu tapað í kjördæmamálinu, þótt það væri ekki afgreitt fyrr en, í lok kjörtímabilsins. Framsfl. var reiðubúinn að ganga inn á þá málamiðlun í kjördæmamálinu að fjölga kjördæmakosnum þm. í þeim héruðum, þar sem fólksfjölgun hefur orðið mest. Það rak því enginn nauður Alþfl. né aðra til þess að leggja út í þetta ævintýri, sem nú er fyrirhugað með Sjálfstfl.

Engar líkur eru til þess, að stjórnarflokkarnir ráði nokkurn skapaðan hlut við efnahagsmálin, enda munu þeir fullkomlega ætla sér að láta reka á reiðanum eins og með þarf, á meðan þeir koma öðrum áformum sínum í framkvæmd. Samkvæmt þeirra eigin útreikningum vantar 170–180 millj. kr. í útflutningssjóðinn, miðað við, að 10 stiga lækkunin verði samþykkt og eru þó ekki nærri öll kurl komin til grafar. Það er talað um að mæta þessu með hækkaðri tekjuáætlun og niðurskurði á fjárlögum og með því að éta upp nokkurn greiðsluafgang, sem hefur orðið á síðasta ári. Allar svífa þessar fyrirætlanir fullkomlega í lausu lofti og þykjast stjórnarflokkarnir ekki hafa haft tíma til þess að átta sig á því, hvort þetta muni einu sinni vera hægt og þykjast ekkert vita, hvaða skoðun þeir geti að lokum sameiginlega haft um afgreiðslu þessara mála.

Sjálfstfl., aðalstjórnarfl., er í þessu sambandi nú undanfarið stundum að tala um slæman viðskilnað fyrrv. stjórnar og vanskilavíxla og fleira í því sambandi. Síðan hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, fékk aðgang að stjórnarráðinu bakdyramegin, hefur hann verið að leita að þessum vanskilareikningum, en hann hefur bara enga slíka vanskilareikninga fundið. Þess í stað hefur hann fundið afgang hjá ríkissjóði og að því er manni skilst afgang hjá útflutningssjóði. Og nú síðast hefur stjórnarliðið farið í fiskhúsin og uppgötvað, að meira sé til af fiski en vant er, á því megi eitthvað lifa. Nú horfa þessi mál því þannig, að hallabandalagið hefur helzt uppi áætlanir um að lifa á því að éta upp þessa afganga, sem fyrrv. ríkisstj. skildi eftir í stað vanskilareikninganna, sem ekki hafa fundizt og svo fiskbirgðirnar, sem fyrir voru í landinu við stjórnarskiptin. Allt á að éta upp til þess að halda hallabandalaginu á floti í nokkra mánuði, en stefna þó í botnlaust skuldafen. Á eftir á svo að skera niður framkvæmdirnar og taka upp „nýja fjárfestingarstefnu“, eða „skipulag á þjóðarbúskapnum“, eins og það heitir á máli þeirra, sem í þessa átt stefna, allt eftir því, hvar þeir standa að öðru leyti. Margvíslegum málflutningi er haldið uppi til þess að undirbúa hina nýju fjárfestingarstefnu. Æðisgengnar árásir með dylgjum út af framlögum af lánsfé og með öðru móti til margvíslegra framkvæmda úti um land í gegnum ræktunarsjóð, fiskveiðasjóð, raforkuáætlunina og aðra slíka liði, sem þýðingarmestir hafa verið og mest lyftistöng þeirra framfara, sem orðið hafa. Dylgjur eru byrjaðar út af stuðningi við togaraútgerð úti um land af atvinnuaukningarfé o. s. frv., o. s. frv. Allt er þetta undirbúningur að því, sem koma skal, ef þessi öfl fá vilja sinn. En gamalt máltæki segir: Ekki er sopið kálið, þótt í ausuna sé komið.