28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, sem hér var nú að ljúka máli sínu, hefur, eins og alþjóð er kunnugt, fengið sérstök verðlaun fyrir það að skrifa skammir um andstæðinga sína í flokksblað sitt. Við úthlutun þeirra verðlauna hlýtur að hafa verið tekið tillit til þess, hve þm. virðist eiga létt með að halla réttu máli. Þessi eiginleiki hv. þm. kom einkar ljóslega fram nú í ræðu hans, svo mjög sem hann hallaði þar réttu máli í mörgum tilfellum og vitnaði beint í ummæli manna þvert gegn því, sem rétt var. Ég mun víkja nokkuð að sumum rangfærslum hans síðar í þessum umr., eftir því sem tími vinnst til.

Það má öllum vera ljóst, að deilur flokkanna um lausn efnahagsmálanna að þessu sinni hafa ekki snúizt um það, hvort stöðva skuli vöxt verðbólgunnar eða ekki. Deilurnar hafa staðið nú eins og jafnan áður um það, hvaða leiðir skuli farnar til stöðvunarinnar, hverjir raunverulega skuli borga kostnaðinn af stöðvunarráðstöfununum. Um þetta hefur verið deilt og um þetta er deilt.

Allir hafa flokkarnir lýst yfir þeim vilja sínum, að stöðvunin yrði miðuð við kaupgjaldsvísitöluna 185:

Framsfl. taldi, að þetta væri auðvelt með því, að launþegar gæfu eftir 15 vísitölustig eða 8% af kaupi. Bændur áttu engu að fórna, ríkissjóður gat ekkert sparað og engir aðrir en launþegar, gátu neitt lagt fram af kostnaðinum við stöðvunina að áliti framsóknarmanna.

Sjálfstfl. var með svipaðar till. Hann taldi hægt að leysa vandann með 6% kauplækkun launafólks og bænda. Aðrir gátu ekkert lagt fram að hans dómi. Kauplækkunartill. Framsóknar, 8%, mundi hafa þýtt um 90–100 millj. kr. í kauplækkun á ári fyrir alla meðlimi Alþýðusambands Íslands, um 30 þús. að tölu. Kauplækkunartill. íhaldsins mundi lækka kaup þessa sama fólks um 80 millj. á ári.

Stefna Alþfl. hefur verið nokkuð óljós eins og stundum áður. Hann hefur hrökklazt á milli flokka og ýmist lagt til þetta eða hitt. Á Alþýðusambandsþingi stóðu Alþýðuflokksmenn með Alþb.-mönnum um að móta þá stefnu, að stöðva bæri við kaupgjaldsvísitöluna 185, án þess að nokkur kauplækkun kæmi til greina. Litlu síðar voru Alþýðuflokksmenn komnir í fangið á íhaldinu og búnir að taka að sér að mynda gerviríkisstj. fyrir það. Þá lagði Alþfl. auðvitað fram kauplækkunartill. íhaldsins í frv.formi hér á Alþingi.

Alþb. hefur staðið með stefnu Alþýðusambandsþings og viljað verðlagsstöðvun miðað við kaupgjaldsvísitöluna 185 án kauplækkunar. Það hefur bent á, að í stað kauplækkunar, sem næmi 80–100 millj. fyrir alla meðlimi Alþýðusambands Íslands, mætti spara í útgjöldum ríkisins, mætti taka greiðsluafgang ríkissjóðs, auk þess sem margir aðrir aðilar í þjóðfélaginu stæðu nær því að láta nokkuð af sínum gróða til þess að stöðva verðbólguna en verkamenn, bændur og sjómenn. Alþb. hefur bent á, að bankar landsins græða tugi millj. á hverju ári, að olíufélögin hafa álitlegan gróða og að heildverzlunin í landinu græðir mikið.

Þessar hafa verið till. flokkanna í aðalatriðum. Um þessar leiðir hefur verið deilt, og ætti því öllum að vera fullljóst, um hvað raunverulega er barizt varðandi lausn efnahagsmálanna að þessu sinni.

Frv. það, sem hér er til umr., er svo flutt til þess að lögbinda kauplækkunartill. íhalds og Alþfl. Höfundar frv. segja, að með því verði 10 vísitölustig felld niður bótalaust eða kaupgjald lækkað um 5.4%. Allar líkur benda þó til, að kauplækkun samkvæmt frv. verði allmiklu meiri, sennilega um 9%.

Samkv. verðlagi, eins og það er í dag, ætti kaupgjaldsvísitalan að vera l95 stig. Frv. gerir ráð fyrir að færa vísitöluna niður í 175 stig eða lækka hana um 20 stig. Helming lækkunarinnar, eða 10 stig, eiga launþegar og bændur að bera bótalaust, en hin 10 stigin eiga að hverfa með verðlækkunum, sem vonazt er til að leiði af frv., og með viðbótarniðurgreiðslum á vöruverði. Kauplækkunin er augljós og fastbundin, í allra minnsta lagi 5.4%, en verðlækkanirnar eru ekki eins fastbundnar. Í frv. eru engin ákvæði um tölulega lækkun á álagningu eða vöruverði. Þess í stað eru mjög loðin og óákveðin ákvæði um, að færa skuli niður verð á vörum og þjónustu, sem samsvarar launalækkuninni í launalið verðlagsins. Þessi lækkunarákvæði á almennu verðlagi er að finna í 10. gr. frv. Við athugun á málinu í þn. var hagstofustjóri um það spurður, hvað hann teldi að umrædd lækkun á almennu vöruverði og þjónustu mundi nema miklu til lækkunar á vísitölunni. Hagstofustjóri sagði, að ekki væri gott að segja til um það, en sér kæmi til hugar hálft vísitölustig. Já, um hálfu stigi gat það numið, það var allt og sumt. Enginn vafi er á því, að verðlækkun umfram það, sem stafar af beinni kauplækkun bóndans og þar með nokkurri lækkun landbúnaðarvara, verður harla lítil. Hitt mun sönnu nær, að samhliða kauplækkuninni muni verðlag í ýmsum greinum fara hækkandi. Hér skulu nefnd dæmi um það.

Iðnrekendur hafa þegar gert kröfu um að fá að hækka allar sínar vörur sem nemur 6% kauphækkun iðnaðarfólks, þar sem þeir hafa nú nýlega byrjað að greiða 6% á kaup starfsfólksins í lífeyrissjóð þess samkvæmt áður gerðum kjarasamningum. Telja má alveg víst, að þessi krafa iðnrekenda verði samþykkt.

Þá hafa sömu aðilar krafizt verðlagshækkunar, vegna þess að þeir greiddu 17 vísitölustigin á kaup í desember og janúar. Ríkisstj. hefur samið um það við útvegsmenn að bæta þeim upp sérstaklega kostnaðinn af þessum 17 stigum í janúar og má því einnig telja víst, að iðnrekendur fái þetta sama. Allt bendir því til, að innlendar iðnaðarvörur hækki á næstunni, en lækki ekki.

Í nýgerðum samningum við útgerðina er ákveðið, að fiskverð til báta og togara hækki um 70 kr. á tonn, og þó kemur þar til viðbótar nokkur hækkun á svonefndum sérbótum, sem áhrif hafa á fiskverð innanlands. Neyzlufiskverð hækkar því óhjákvæmilega á næstunni og þar með vísitalan af þeim ástæðum.

Verðlækkunarhlið frv. er blekking. Á hana getur enginn treyst. En eitt atriði frv. er þannig orðað, að það mun ekki missa marks, en það er kauplækkunarákvæðið.

Þegar mál þessi eru rædd, er ekki óeðlilegt, að um það sé spurt, hver sé ástæðan til þess, að sá vandi kom upp, sem nú er við að glíma í efnahagsmálunum.

Fyrir ári voru einnig allmiklar umr. um efnahagsmálin. Alþb. hélt því þá fram, að farsælast væri að halda fast við verðstöðvunarstefnuna og byggja áfram upp aukinn útflutning og komast þannig út úr erfiðleikum efnahagsmálanna. Framsfl. og Alþfl. snerust hins vegar gegn stöðvunarstefnunni. Niðurstaðan varð síðan sú, sem kunnugt er, að stöðvunarstefnan var yfirgefin í bili, en farið inn á braut hækkunar og samræmingar.

Hækkanir á verðlagi urðu þó nær helmingi minni, en Framsókn og Alþfl. höfðu lagt til. Alþb. varaði sterklega við hækkunarstefnunni. Það benti á, að hækkandi verðlag leiddi alltaf til kauphækkana og að hætt væri við, að hækkanir yrðu meiri, en ráðgerðar væru í upphafi, ef farið væri inn á hækkunarbrautina á annað borð.

Það fór líka svo, verðhækkanir urðu miklar og allmiklu meiri ,en þörf var á. En afleiðingar hækkunarstefnunnar urðu svo þær, að vísitalan hækkaði um 17 stig 1. des. s. l. Þannig var vandinn til kominn. Viðbrögð Framsóknar, þegar svona var komið, voru svo þau að neita afleiðingunum af sinum eigin till. og leggja til, að vísitalan yrði tekin úr sambandi eða launþegar tækju á sig verðhækkanirnar bótalaust.

Reynslan hefur sýnt, að aðvaranir og tillögur okkar Alþb.-manna voru réttar. Álögurnar voru meiri en þörf var á, verðhækkanirnar urðu of miklar. Greiðsluafgangur ríkissjóðs mun verða um 60–70 millj. kr. á s. l. ári, og þó var síður en svo dregið úr nokkurri eyðslu. Auk þessa voru 63 millj. kr., sem meiri hl. ríkisstj. ráðstafaði, þ. e. ráðh.

Framsfl. og Alþfl., gegn atkv. okkar Alþb.ráðherranna daginn sem ríkisstj. lét af völdum, en fé þetta féll til með yfirfærslubótum þeim, sem ákveðnar voru með efnahagsmálalöggjöfinni s. l. vor.

Þannig hafa sannanlega verið teknar 120–130 millj. kr. með hækkuðum gjöldum á vörur umfram það, sem bein rekstrarútgjöld kröfðust. Afleiðingar þessarar ofinnheimtu munu nema um 15 vísitölustigum. Það er í beinu framhaldi af þessu, sem við Alþb.-menn höfum lagt það til, að ríkið skili aftur nokkru af því, sem oftekið hefur verið. Við höfum lagt til, að í stað kauplækkunarleiðar íhalds og Framsóknar komi sparnaður í rekstri ríkisins og að frestað sé um tíma þeim fjárfestingarframkvæmdum, sem minni þýðingu hafa í þjóðarbúskapnum. Við höfum lagt til, að nokkuð af greiðsluafgangi ríkisins verði notað til þess að bægja verðbólguhættunni frá. Slíkar till. sem þessar mega kauplækkunarflokkarnir ekki heyra. Að nefna sparnað hjá ríkinu, við því segir Framsókn þvert nei og íhaldið líka. Að nota greiðsluafgang ríkissjóðs gegn verðbólgunni kemur ekki til mála, segir Framsókn og svarar slíku með því að flytja till. á Alþingi um að ráðstafa 25 millj. af greiðsluafganginum til húsbygginga og auðvitað á meiri hlutinn að ganga til húsbygginga í Reykjavík. Ja, öðruvísi mér áður brá. Þá mátti Framsókn ekki heyra nefnda till. okkar Alþb.-manna um að taka nokkurt lán til byggingarsjóðs ríkisins. En nú eru líka kosningar fram undan, nú má verja því fé, sem innheimt hefur verið með almennri verðlagshækkun í landinu, til húsbygginga.

Það leynir sér ekki, að ein aðalástæðan til þess, að Framsókn og íhald geta ekki hugsað sér neinn sparnað hjá hinu opinbera, er einmitt sú, að kosningar eru fram undan. Þeir þurfa báðir á miklu fé að halda til þess að bjóða í hv. kjósendur. Íhaldið hefur þegar svarað kosningatillögu Framsóknar um íbúðalánin, og því flytja þm. íhaldsins till. um, að ríkið megi allra mildilegast greiða niður verð á áburði fyrir bændur og þannig verður haldið áfram, á sama tíma og til þess er ætlazt, að verkamenn og sjómenn eigi að fórna hluta af sínu kaupi.

Að hverju er stefnt með þeirri efnahagsmálalausn, sem Alþfl. og Sjálfstfl. nú standa að á Alþingi? Ríkisstj. segir, að nýir samningar, sem gerðir hafa verið við framleiðsluna, auki útgjöld útflutningssjóðs á þessu ári um 77.7 millj. kr. Þegar hafa verið ákveðnar auknar niðurgreiðslur, sem nema 75 millj. kr. og ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún muni auka þær nokkuð á næstunni. Þá er einnig vitað um nokkur önnur aukaútgjöld, sem til munu falla. Telja má því alveg vist, að aukin útgjöld útflutningssjóðs verði um 200 millj. kr. samkvæmt þessu. En engar till. um tekjuöflun eða sparnað hér á móti eru lagðar fram af stjórnarflokkunum og kemur þar að litlu gagni, þó að Alþfl. lýsi því yfir, að hann vilji gjarnan leggja fram till. í þessu efni, ef Sjálfstfl. vill ekki samþykkja þær.

Tekjuöflunin verður sýnilega látin biða fram yfir kosningar. Hér er á ný tekin upp gamla skuldahalastefna íhaldsins. Allt er við það miðað, að Sjálfstfl. þurfi sem minnst að sýna stefnu sína og raunverulegar fyrirætlanir fyrir kosningar. Af þeim ástæðum er sá grái leikur settur á svið, sem nú er leikinn. Íhaldið setti upp leppstjórn sína í þessum tilgangi. Það vissi, hvernig það átti að véla Alþfl. inn í þetta fyrirtæki sitt. Það vissi, að foringjar Alþfl. voru álíka veikir fyrir embættum og vegtyllum eins og ofdrykkjumaður fyrir brennivíni. Af því bauð íhaldið Alþfl. alla stjórnarstólana og slatta af öðrum embættum. Aumingja Alþfl. stóðst auðvitað ekki mátið og gein við agninu og þar með var dúkkustjórn íhaldsins sett á svið. Stefna íhaldsins miðast öll við að svindla sig í gegnum einar eða tvennar kosningar án þess að hafa tekið nokkra ábyrga afstöðu til sjálfra vandamálanna, sem liggja fyrir.

Svo tröllriðinn er vesalings Alþfl. af íhaldinu, að hann skilur ekki einu sinni sitt eigin ástand. Sjálfur forsrh., formaður Alþfl., lýsir því yfir og telur sér það til afsökunar á því, sem gert hefur verið, að hann hafi engan samning við íhaldið um nein málefni, aðeins það að íhaldið muni verja stjórnina fyrir vantrausti. Formaður Alþfl. sér ekki, að einmitt þessi yfirlýsing sannar bezt, að stjórnin er algerlega í höndum íhaldsins. Hefði stjórnin haft samning um framgang einhverra mála, sem einhvers virði voru, mátti kannske afsaka stjórnarmyndunina, en því er alls ekki að heilsa.

Það er því íhaldið, sem ábyrðina ber á því, sem nú er verið að gera. Það er það, sem knýr fram kauplækkunina. Það er það, sem stefnir út í stórfellda skuldasöfnun, en ætlar að fela það fyrir kjósendum fram yfir kosningar, hvernig á að taka þetta fé af landsmönnum.

Þennan feluleik íhaldsins munu allir sjá í gegnum. Með einbeittri afstöðu geta verkamenn og bændur hrundið um koll þessari fyrirætlun íhaldsins. Það er einmitt í kosningunum í sumar, sem alþýða landsins verður að svara kauplækkunarflokkunum á þann hátt, að þeir villist ekki um, hvað svarið þýðir.